Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2023 Sigtún

Árið 2023, föstudaginn 23. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fyrir:

Mál nr. 64/2023 kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar á tillögu um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. maí 2023, kærir eigandi, Sigtúni 2, Selfossi, afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á breytingu deiliskipulags miðbæjar Selfoss. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar skilmála skipulagsins um að reist verði þrjú hús og sorpgámar sunnan við lóð kæranda og að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað sem og fyrirhugaðri íbúðarkosningu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. og 23. júní 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar 18. janúar 2023 var samþykkt að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss frá árinu 2021. Fram kom í fundargerð að skipulagsreiturinn afmarkaðist af Eyravegi og Austurvegi til norðurs og aðliggjandi íbúðarlóðum við Tryggvagötu til austurs, Sunnuvegi til suðurs og Kirkjuvegi til vesturs. Meginbreytingin fælist í því að syðst á svæðinu væri bætt við niðurgrafinni göngugötu, Garðatröð, sem tengdist við Kirkjuveg að vestan og austurstíg Sigtúnsgarðs að austan. Sunnan við Garðatröð og austan við austurstíginn á móts við lóðina Sigtún 2 væri bætt við byggingarreitum fyrir lágreist hús að hámarki tvær hæðir og ris. Lóðamörkum lóða sunnan Miðstrætis væri breytt og nýjar lóðir afmarkaðar. Jafnframt var samþykkt að íbúum yrði gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um tillöguna í ráðgefandi könnun á vefnum Betri Árborg.

Tillagan var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 17. maí 2023 þar sem tekið var undir framkomnar athugasemdir um að tveggja hæða hús svo nærri Sigtúni 2 teldist helst til of há. Lagt var til að umfang bygginga yrði minnkað með lækkun í einnar hæðar hús með risi í samræmi við framlögð skuggavarpsgögn og tillagan samþykkt með fyrirvara um lagfærð gögn. Á fundi bæjarstjórnar 21. júní 2023 var tillagan tekin fyrir og samþykkt.

Af hálfu kæranda er bent á að deiliskipulagsuppdráttur gefi ekki rétta mynd af staðsetningu umræddra húsa. Fyrirhugaðar byggingar muni hafa mikil grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda en einnig auka á eldhættu vegna nálægðar við hús hans. Um stórvægilegar breytingar sé að ræða. Sé kæra þessi borin fram þar sem sveitarfélagið hafi ekki svarað erindi kæranda og greinilegt sé að ekkert samráð eigi að vera við íbúa.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Enn sé verið að fjalla um hugsanlega breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ráðgefandi könnun á afstöðu íbúa til breytinga á deiliskipulaginu hafi farið fram á tímabilinu 18.-25. maí 2023 og hafi 89% þeirra sem greiddu atkvæði verið hlynntir breytingartilllögu. Þá séu engar framkvæmdir hafnar á grundvelli fyrirliggjandi tillögu en framkvæmdir sem nú standi yfir byggi á núverandi deiliskipulagi.

Niðurstaða: Er úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu var tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss til meðferðar hjá sveitarfélaginu líkt og að framan er rakið. Á fundi bæjarstjórnar 21. júní 2023 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss samþykkt og verður að líta svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hefur sveitarfélagið hins vegar upplýst úrskurðarnefndina um að þar sem láðst hafi að taka sérstaklega fyrir framkomnar athugasemdir við meðferð málsins verði það tekið aftur fyrir á næsta bæjarráðsfundi.

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsbreyting hefur hvorki hlotið lögmætisathugun Skipulagsstofnunar né verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.