Ár 2011, miðvikudaginn 19. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 64/2011, kæra á ákvörðun um afmörkun lóðar og útreikning hlutdeildar eigenda fasteigna í lóðarleiguréttindum við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli sem tilkynnt var í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 12. janúar 2010.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. ágúst 2011, er barst nefndinni 26. s.m., kærir Jón Magnússon hrl., f.h. Byggá-BIRK, hagsmunasamtaka eigenda einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, Fluggörðum 21, Reykjavík, ákvörðun um afmörkun lóðar og útreikning hlutdeildar eigenda fasteigna í lóðarleiguréttindum við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli sem tilkynnt var í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 12. janúar 2010.
Gerir kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt og að hverju húsi á heildarlóðinni verði afmarkaður sérstakur lóðarreitur.
Málsatvik og rök: Hinn 12. janúar 2010 sendi byggingarfulltrúinn í Reykjavík fulltrúa kæranda bréf vegna lóðar Fluggarða við Njarðargötu með landnr. 106745. Í bréfinu var frá því greint að komið hefði í ljós að nefnd lóð Fluggarða, sem væri 45.370 m², væri án fasteignamats og því hefðu ekki verið greidd tilskilin gjöld fyrir afnot af lóðinni í borgarsjóð. Var og tilkynnt að embættið hefði reiknað út hlutdeild hvers af 59 fasteignareigendum í lóðarafnotum með tilteknum hætti og að sá útreikningur hefði verið sendur Fasteignaskrá Íslands. Í kjölfarið var ákvarðað fasteignamat fyrir umræddar eignir á grundvelli útreikningsins.
Kærandi mótmælti útreikningi fasteignamatsins og bar málið undir Fasteignamat ríkisins með bréfi, dags. 23. júlí 2010. Þjóðskrá Íslands, sem tekið hafði við hlutverki fyrrgreindrar stofnunar, svaraði erindinu með bréfi, dags. 31. desember 2010. Þar kom m.a. fram að stofnunin teldi sig ekki hafa forsendur til að leggja mat á málsmeðferð Reykjavíkurborgar og ákvörðun um stærðarútreikning umræddra lóðarhluta. Var kæranda bent á að bera það álitaefni undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Þjóðskrá endurmat hins vegar lóðarmat fasteignanna til lækkunar með hliðsjón af takmörkunum á notkun lóðanna samkvæmt gildandi skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar.
Til stuðnings kröfum sínum bendir kærandi á að enginn lóðarleigusamningur sé fyrir hendi um svæði það sem einkaflugskýli félagsmanna kæranda standi á. Svæðið sé að stórum hluta notað undir almenna starfsemi flugvallarins en afnot fasteignareigenda séu mjög takmörkuð. Þeir hafi því í raun aðeins sérafnot af grunnfleti mannvirkja sinna. Verði samkvæmt þessu að telja umdeildan útreikning og álagningu fasteignagjalda ranga. Það fari í bága við 27. og 28. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna að draga línu utan um heildarlóð og deila í með fermetrafjölda húsnæðis án tillits til notkunar eða verðmætis þess. Leggja verði sérstakt mat á hverja fasteign á svæðinu með hliðsjón af nýtingarrétti hennar af lóð.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um útreikninga á hlutdeild hvers fasteignareiganda í lóðarréttindum við Fluggarða með bréfi, dags. 12. janúar 2010. Kæra útreikningsins sé móttekin af úrskurðarnefndinni 26. ágúst 2011, eða rúmlega einu og hálfu ári eftir tilkynningu hinnar kærðu afgreiðslu. Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi. Frestur til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. Þá skuli í öllu falli bera fram stjórnsýslukæru innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. sömu laga sé svo allur vafi tekinn af um að vísa beri kæru þessari frá, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.
Auk þess liggi ekki fyrir í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun skv. 6. mgr. 52. gr. skipulagslaga, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu hafi einungis verið tilkynnt um útreikning á hlutdeild í lóð, eins og skylt sé samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Þá segi í 3. mgr. ákvæðisins að byggingarfulltrúar, eða aðrir sem sveitarstjórn hafi falið upplýsingagjöf, séu ábyrgir fyrir að upplýsingarnar séu efnislega réttar. Við niðurdeilingu fermetra heildarlóðarinnar við Fluggarða á hverja fasteign hafi byggingarfulltrúi verið að fullnægja þessari lagaskyldu. Hér sé því hvorki um skipulagsmál að ræða né byggingarmál sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
Hinn kærði útreikningur byggingarfulltrúans í Reykjavík á lóðarhlutdeild fasteigna við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli, sem lagður var til grundvallar við ákvörðun fasteignamats umræddra eigna, var tilkynntur eigendum með bréfi embættisins, dags. 12. janúar 2010. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 26. ágúst 2011 eða um einu og hálfu ári eftir dagsetningu tilkynningarinnar og var kærufrestur samkvæmt framangreindum lagaákvæðum þá löngu liðinn. Verður kærumáli þessu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson