Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2014 Reynifellskrókur

Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2014, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 um að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2014, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir K, eigandi lóðar nr. 6 við Reynifellskrók í landi Reynifells, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra frá 13. maí 2013 að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. júní 2015, gerir sami aðili þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 26. ágúst 2015. 

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi ytra 14. júlí 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 2013 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings ytra umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu frístundahúss á lóð nr. 2b í landi Reynifells. Var byggingarleyfið gefið út 21. s.m. Um var að ræða 23,2 m2 hús úr timbri með einhalla þaki með 3,65 m hámarkshæð. Gert var ráð fyrir að ytra byrði frístundahússins yrði klætt bárujárni. Hinn 12. janúar 2014 hafði kærandi samband við skipulags- og byggingarfulltrúa í því skyni að fá frekari upplýsingar um hið umrædda hús og hvort það samrýmdist byggingarskilmálum svæðisins. Fór kærandi þess á leit að aðstæður yrðu kannaðar og var hann í samskiptum við embættið vegna málsins allt til 18. júní 2014. Var hið umdeilda byggingarleyfi kært til úrskurðarnefndarinnar 4. júlí 2014.

Kærandi skírskotar til þess að húsið samræmist ekki byggingarskilmálum svæðisins. Húsið sé of lítið, og hvorki húslag né klæðning í samræmi við önnur hús á svæðinu. Hið umrædda hús stingi mjög í stúf við landslagið og raski útliti svæðisins. Sjónmengun sé mikil vegna hússins alls staðar að á svæðinu. Auk þess geti hin kærða ákvörðun gefið fordæmi fyrir því að fleiri hús af þessu tagi rísi á svæðinu.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa tiltekna stærð á sumarhúsinu þrátt fyrir ákvæði um lágmarksstærð í byggingarskilmálum svæðisins. Skilmálarnir séu frá árinu 1999 og byggðir á samkomulagi eigenda við  landskipti á árinu 1983. Skipulag svæðisins hafi verið til umræðu hjá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa og viðraðar hugmyndir um breytingu á því við landeigendur. Á síðustu árum hafi ekki verið sett ákvæði um  lágmarksstærðir mannvirkja á frístundasvæðum, heldur um hámarksstærðir. Sé það merki um nauðsynlegar endurbætur á núgildandi skilmálum. Að auki sé það eðlilegt að leyfa byggjendum að byrja smátt með möguleika á stækkun eða viðbyggingu síðar. Með byggingu svalaskýlis við umrætt frístundahús sé komið til móts við ríkjandi byggingarlag á svæðinu. Í byggingarskilmálunum sé tekið fram að hús skulu vera sömu gerðar og yfirvöld mæli með sem sumarhús. Sé hiklaust mælt með þeim byggingarstíl sem hér um ræði og falli hann vel að því sem fyrir sé á svæðinu. Í byggingarskilmálum segir að hús skuli byggð úr timbri. Umrætt hús sé alfarið úr timbri en veðurkápa sé þó úr stáli. Nokkuð sé um að sumarhús á svæðinu hafi ómálað stál á þökum og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umrætt efni á útvegg þar sem auðvelt sé að mála það í þeim lit sem hæfi. Hafi verið rétt staðið að veitingu umrædds byggingarleyfis samkvæmt lögum og reglum og almennum hefðum í landinu.

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna kæru máls þessa, en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 23. júní 2016.

Niðurstaða: Kærandi í máli þessu byggir málatilbúnað sinn á því að með hinu kærða byggingarleyfi sé vikið frá byggingarskilmálum gildandi deiliskipulags og heimilað hús falli ekki að yfirbragði byggðar eða landslagi og útliti umrædds svæðis. Umrætt frístundasvæði er fremur flatlent og að mestu leyti þakið lággróðri. Stendur hin umdeilda bygging í a.m.k. 250 m fjarlægð frá frístundahúsi kæranda en milli húsanna eru tvær óbyggðar frístundahúsalóðir.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er skilyrði kæruaðildar í málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda viðkomandi ákvörðun nema að lög mæli sérstaklega á annan veg. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Framangreindar málsástæður kæranda lúta að atriðum er tengjast skipulagslegum hagsmunum er teljast til almannahagsmuna sem sveitarstjórnir fara með og ber að gæta innan marka síns sveitarfélags í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki séð að umdeild bygging raski lögvörðum grenndarhagsmunum kæranda, en útlit byggingarinnar eitt og sér getur ekki varðað einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni hans. 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærandi eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gert er að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
  Ómar Stefánsson                                                  Þorsteinn Þorsteinsson