Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

60/2009 Traðarland

Árið 2012, þriðjudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2009, kæra á samþykktum borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2009 um deiliskipulag Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga og um breytingu á  deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir D, Traðarlandi 2, Reykjavík, samþykktir borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2009 um deiliskipulag Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga og um breytingu á deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings.  Auglýsing um gildistöku skipulagsákvarðananna birtist í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.  Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Forsaga málins er sú að hinn 22. febrúar 2007 var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur breyting á deiliskipulagi vegna íþróttasvæðis Víkings að Traðarlandi 1, sem fól m.a. í sér að malarvelli er fyrir var á svæðinu yrði breytt í grasæfingarsvæði.  Þá yrði gert ráð fyrir 85 nýjum álagsbílastæðum á opnu svæði, norðaustan við íþróttahús sem þar var fyrir.  Breytingin var kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði sínum uppkveðnum 21. maí 2008 vísaði kærunni frá þar sem kæra barst að liðnum kærufresti. 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúans í Reykjavík hinn 23. janúar 2009 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Fossvogsdals, sem sýnir legu göngu- og hjólreiðastíga er tengja saman Öskjuhlíð og Elliðaárdal.  Í skilmálum tillögunnar segir m.a. að í Traðarlandi og hluta af Stjörnugróf verði hjólreiðastígurinn í götustæði.  Jafnframt var á sama fundi lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings.  Tillögurnar gerðu ráð fyrir að 85 álagsbílastæðum norðaustan við íþróttahús yrði fækkað í 61 og að þau yrðu felld út af deiliskipulagi Traðarlands 1 en féllu þess í stað undir hið nýja deiliskipulag Fossvogsdals fyrir göngu- og hjólastíga.  Að öðru leyti yrðu eldri skilmálar Traðarlands 1 í gildi.  Tillögunum var vísað til skipulagsráðs þar sem þær voru til umfjöllunar 28. janúar og 4. mars 2009 en þá var lagt til við borgarráð að auglýsa þær til kynningar.  Þá var einnig lögð fram bókun skipulagsnefndar Kópavogs, dags. 17. febrúar 2009, þar sem ekki var gerð athugasemd við erindin.  Hinn 12. mars 2009 samþykkti borgarráð að auglýsa tillögurnar til kynningar og bárust athugasemdir við þær, m.a. frá kæranda. 

Skipulagstillögurnar voru til umfjöllunar á nokkrum fundum skipulagsyfirvalda á tímabilinu 25. mars til 29. maí 2009 og þann dag var athugasemdum kæranda svarað með bréfi skipulags- og byggingarsviðs.  Í bréfinu sagði m.a. að sú prentvilla hefði slæðst í auglýsta tillögu að bílastæðum fækkaði niður í 61 en hið rétta væri að álagsbílastæðum yrði fækkað um 5 stæði eða úr 85 í 80.  Á fundi 10. júní 2009 samþykkti skipulagsráð tillögurnar og hið sama gerði borgarráð hinn 18. s.m.  Með bréfum, dags. 9. og 23. júlí 2009, tilkynnti Skipulagsstofnun að ekki væru gerðar athugsemdir við birtingu auglýsinga um gildistöku tillagnanna í B-deild Stjórnartíðinda.  Benti stofnunin þó á varðandi deiliskipulag Fossvogsdals að áður þyrfti að lagfæra skipulagsgögn þannig að gerðir yrðu breytingauppdrættir í samræmi við gr. 5.5 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings, hafi verið breytt árið 2007, þrátt fyrir mótmæli íbúa handan við götuna.  Þá hafi tæplega 400 bílastæði verið aflögð þegar malarvelli, sem nýttur hafi verið undir álagsbílastæði, hafi verið breytt í æfingasvæði með grasi.  Í staðinn hafi íþróttasvæði Víkings verið stækkað í austur og 85 nýjum bílastæðum komið fyrir austan við Stjörnugrófina.  Með þeirri breytingu sem nú sé gerð fækki bílastæðum enn frekar og ekki séu tilgreind bílastæði til samnýtingar, svo sem gert sé ráð fyrir á öðrum íþróttasvæðum. 

Þá virðist borgin ekki hafa tekið afstöðu til erindis lögreglunnar frá 2007 vegna bílastæðavandamála á Víkingssvæðinu.  Ekki hafi verið gert faglegt áhættumat vegna umferðar miðað við nýtt deiliskipulag eins og íbúar hafi krafist.  Í svari borgarinnar sé aðeins fjallað um fortíðina en það teljist varla áhættumat fyrir framtíðina í breyttu skipulagi.  Þegar 2.500 áhorfendur séu á kappleik megi reikna með ríflega 400 bílum við íþróttasvæðið.  Skipulögð stæði séu aðeins 138 samkvæmt svari borgarinnar.  Önnur samnýtanleg stæði gætu verið á milli 20 til 50.  Þá vanti bílastæði fyrir rúmlega 200 bíla og verði þeim þá lagt víða um íbúðarhverfið.  Fyrir utan óþægindi fyrir íbúana af þeirra völdum verði ómögulegt fyrir sjúkrabíla eða slökkvilið að komast leiðar sinnar, en samkvæmt vafasamri aðferðafræði skipulagsyfirvalda megi ætla að þar sem ekki hafi komið upp veikindi eða eldur í hverfinu á heimaleikjum Víkings hingað til muni það ekki gerast hér eftir. 

Loks orki tvímælis hvort heimilt sé að lögum að skipta hverfinu í mörg aðskilin deiliskipulagssvæði.  Gatan Traðarland hafi tilheyrt Fossvogshverfi, svæði 4.  Nú sé gatan hins vegar í öðru skipulagssvæði með göngustíg sem nái yfir langt útivistarsvæði, án þess að auglýst hafi verið breyting á svæði 4 samhliða. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfum kæranda verði hafnað. 

Þegar lagt hafi verið mat á bílastæðaþörf svæðisins hafi m.a. verið tekið mið af öðrum sambærilegum íþróttasvæðum, s.s. KR-svæðinu, sem sé með um 130 stæði á lóð og Fram-svæðinu með um 102 stæði á lóð.  Í öllum tilvikum sé gert ráð fyrir ákveðinni samnýtingu stæða, t.d. við opinberar stofnanir, og samnýtingu almennra götustæða sem séu mismörg.  Í deiliskipulagi fyrir Traðarland 1, íþróttasvæði Víkings, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 22. febrúar 2007, hafi verið gert ráð fyrir samtals 143 bílastæðum við íþróttasvæðið, 58 stæðum innan lóðar Víkings og 85 álagsbílastæðum sunnan við Lækjarás.  Fækkun álagsbílastæða samkvæmt hinu samþykkta skipulagi séu fimm stæði.  Heildarfjöldi stæða sé því 138, sem sé sambærilegt við önnur íþróttasvæði í borginni.  Umrædd álagsbílastæði nýtist fyrst og fremst til að koma til móts við álagstoppa á leikdögum.  Einnig sé stefnt að því að koma fyrir fleiri álagsbílastæðum við Bústaðaveg, á móts við veitingastaðinn Sprengisand, þegar útfærsla á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar liggi fyrir. 

Bent sé á að hinni samþykktu tillögu um álagsbílastæði sunnan Lækjaráss og tillögu til skoðunar um álagsbílastæði sunnan Bústaðavegar og Sprengisands hafi verið ætlað að létta á og koma til móts við þann bílastæðavanda sem skapist í tengslum við kappleiki Víkings.  Umferð vegna kappleikja hafi ekki haft í för með sér fjölgun umferðaróhappa og aðkoma sjúkra- og slökkvibíla á svæðinu verði skoðuð í samvinnu við þá aðila sem málið varði. 

Að lokum skuli á það bent að skipulagsvaldið sé samkvæmt lögum hjá sveitarfélögunum.  Ekkert hafi komið fram sem valdi því að ekki hafi verið heimilt að skipuleggja svæðið með þeim hætti sem gert hafi verið.  Ljóst sé að umrædd skipulagsbreyting, sem feli í sér fækkun bílastæða um fimm, sé algerlega minni háttar og vandséð hvaða hagsmuni sé verið að skerða með henni. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu breytingu á deilskipulagi fyrir Traðarland 1, íþróttasvæði Víkings í Fossvogi, var gerð breyting á mörkum skipulagssvæðisins til norðausturs og svæðið látið enda við Stjörnugróf.  Með breytingunni voru 85 svokölluð álagsstæði og 20 götubílastæði austan við Stjörnugróf skilin frá umræddu skipulagssvæði, en þess í stað sýnd 80 álagsstæði innan marka nýs deiliskipulags fyrir stígakerfi í Fossvogsdal, sem einnig er kært í málinu.  Umrædd 20 götubílastæði falla eftir breytinguna utan beggja skipulagssvæðanna, án þess að nokkur grein sé gerð fyrir þeirri tilhögun.

Í 7. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulagi á grundvelli stefnu aðalskipulags.  Eru í ákvæðinu settar fram kröfur um lágmarksfjölda bílastæða miðað við stærð og notkun mannvirkja, en unnt er að víkja frá þessum kröfum um bílastæði í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt að uppfylla hana með öðrum hætti. 

Fyrir liggur að ekki er fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar um fjölda bílastæða í deiliskipulagi fyrir umrætt íþróttasvæði Víkings.  Skorti því skilyrði til að fækka svonefndum álagsstæðum um fimm stæði, svo sem gert var með hinni kærðu ákvörðun um breytt mörk skipulagssvæðisins.  Þá skorti á að gerð væri grein fyrir því hvað yrði um 20 bílastæði við Stjörnugróf, en eftir hina umdeildu breytingu virðast þau falla utan deilskipulagðra svæða.  Verður hin kærða ákvörðun um breytingu á  deiliskipulagi Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings, því felld úr gildi.

Í málinu er einnig krafist ógildingar á deiliskipulagi Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga.  Er með því skipulagi lítillega hróflað við mörkum eldri skipulagssvæða og má fallast á að nokkuð hafi skort á að gerð væri grein fyrir þeim breytingum á skilmerkilegan hátt.  Við yfirferð skipulagsins benti Skipulagsstofnun á að lagfæra þyrfti skipulagsgögn þannig að gerðir yrðu uppdrættir að breytingum í samræmi við gr. 5.5 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Má fallast á að með því að sinna þeirri ábendingu hafi borgaryfirvöld bætt úr þeim ágöllum sem á skipulagstillögunni voru og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar.   Þó leiðir af ógildingu ákvörðunar um breytingu á deiliskipulagi fyrir Traðarland 1, íþróttasvæði Víkings, að mörk skipulagssvæðis vegna göngu- og hjólastíga í Fossvogsdal, austan við Stjörnugróf, breytast til samræmis við þá niðurstöðu.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hin kærða samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júní 2009, um breytt deiliskipulag Traðarlands 1, íþróttasvæðis Víkings, er felld úr gildi.  Hafnað er kröfu um ógildingu deiliskipulags Fossvogsdals vegna göngu- og hjólastíga.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson