Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2012 Dvergahraun

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 57/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2012 um að hafna sameiningu frístundalóðanna nr. 26 og 28 við Dvergahraun í landi Miðengis. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júní 2012, er barst nefndinni 6. s.m., kærir G, Lækjarási 5, Garðabæ, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2012 að hafna sameiningu frístundalóða nr. 26 og 28 við Dvergahraun.  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Grímsnes- og Grafningshreppi 5. júlí 2012 og viðbótargögn hinn 12. september 2012 s.á. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 22. mars 2012 var tekin fyrir beiðni kæranda um sameiningu lóðanna nr. 26 og 28 við Dvergahraun í landi Miðengis.  Samkvæmt Fasteignaskrá er lóð nr. 26 skráð 6.500 m² og lóð nr. 28 skráð 7.500 m².  Erindinu var hafnað og var sú afgreiðsla  staðfest í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. apríl 2012.  Kæranda var tilkynnt um niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar í bréfi, dags. 27. mars s.á. 

Málsrök kæranda:  Kærandi, sem er rétthafi samliggjandi frístundalóða við Dvergahraun 26 og 28 í Grímsnes- og Grafningshreppi, vísar til þess að hann hafi keypt lóðirnar í því skyni að sameina þær fyrir hús sem standi á lóðinni nr. 28, en ekki hafi verið reist hús á lóðinni nr. 26.  Erindinu hafi verið synjað á þeirri forsendu m.a. að við það myndi falla niður félagsgjald fyrir eina lóð á svæðinu við sameininguna.  Aðrar lóðir á svæðinu hafi fengið samþykki fyrir samskonar sameiningu og kæranda hafi verið synjað um og ekki verði séð hvað réttlæti þessa mismunun sem felist í afgreiðslu samskonar mála. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að við afgreiðslu á erindi kæranda hafi verið tekin fyrir tvö önnur sambærileg mál sem einnig hafi verið hafnað.  Í gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps sé ákvæði sem kveði á um að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum.  Ekki sé tekið sérstaklega á því hvort heimilt sé að sameina sumarhúsalóðir, en undanfarin ár hafi verið nokkuð um að óskað hafi verið eftir sameiningu sumarhúsalóða.  Í sumum tilvikum hafi það verið heimilað en í öðrum ekki og hafi þær ákvarðanir verið byggðar á mismunandi ástæðum og stundum á niðurstöðu grenndarkynningar.  Það sem af sé árinu 2012 hafi beiðnum um sameiningu lóða fjölgað nokkuð og hafi í kjölfar þess verið skoðað hvort æskilegt væri að heimila sameiningu lóða í sumarhúsahverfum.  Niðurstaðan hafi orðið sú að svo væri ekki þar sem það breytti forsendum uppbyggingar á svæðinu m.t.t. vegagerðar, lagningu veitna o.s.frv.  Þá sé nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki ríki í skipulagsmálum og að ekki sé ráðist í breytingar nema að veigamikil rök mæli með breytingum á samþykktu deiliskipulagi.  Í flestum sumarhúsahverfum miðist byggingarmagn við ákveðið nýtingarhlutfall og myndi sameining lóða gera það að verkum að heimilt yrði að byggja mun stærra hús á sameinaðri lóð en ella.  Varðandi fordæmi fyrir sambærilegri afgreiðslu máls og hér um ræði, megi benda á úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málinu nr. 15/2010. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var tekin í skipulags- og byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps hinn 22. mars 2012 og var kæranda tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 27. s.m.  Þar kom fram sá fyrirvari að ákvörðunin væri háð staðfestingu sveitarstjórnar á næsta fundi hennar.  Í tilkynningunni er ekki að finna leiðbeiningar til kæranda um kæruheimild og kærufrest vegna ákvörðunarinnar.  Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps staðfesti ákvörðunina hinn 4. apríl 2012 en kæranda mun ekki hafa verið tilkynnt sérstaklega um þá afgreiðslu. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 6. júní 2012, eða rúmum tveimur mánuðum frá því að kæranda var tilkynnt um niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar og frá staðfestingu sveitarstjórnar á afgreiðslu nefndarinnar.  Með hliðsjón af því verður að líta svo á að kæran hafi borist meira en mánuði frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og kærufrestur því liðinn.  Hinsvegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins svo sem bar að gera skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir Farborgir í landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi frá árinu 2005 og því yrði ákvörðun samkvæmt fyrrgreindri 48. gr. gerð með deiliskipulagsbreytingu. 

Með deiliskipulagi eru fest í sessi skipulagsmarkmið viðkomandi svæðis, m.a. með afmörkun lóða og byggingarreita og eiga fasteignaeigendur að geta treyst því að ekki verði ráðist í skipulagsbreytingar sem geti raskað forsendum og réttarstöðu þeirra sem fasteignareigenda nema að ríkar málefnalegar ástæður búi þar að baki. 

Með breytingu þeirri sem um var sótt er raskað samræmi í stærð lóða og skiptingu sameiginlegs kostnaðar sumarhúsaeigenda á svæðinu.  Verður ekki annað séð en að umdeild ákvörðun sveitarstjórnar, sem fer með skipulagsvald í sveitarfélaginu, hafi verið lögmæt og til þess fallin að fylgja skipulagsmarkmiðum gildandi deiliskipulags umrædds svæðis.  Ekki þykir það eiga að ráða úrslitum í máli þessu þótt dæmi séu um að sameining lóða hafi verið heimiluð á svæðinu.  Virðist þar vera um undantekningu að ræða sem verður ekki talin hafa skapað fordæmi sem víki til hliðar markmiðum gildandi deiliskipulags. 

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. apríl 2012 um að synja sameiningu frístundalóðanna nr. 26 og 28 við Dvergahraun í landi Miðengis. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                   Þorsteinn Þorsteinsson