Fyrir var tekið mál nr. 6/2017, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2017, er barst nefndinni 7. s.m., kærir NASF, verndarsjóður villtra laxastofna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Æðarræktarfélag Íslands og Fuglavernd, ásamt nánar tilgreindum aðilum er telja sig eiga hagsmuna að gæta vegna umhverfisverndarsjónarmiða og veiðiréttinda, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að gefa út starfsleyfi fyrir Háafell ehf. til sjókvíaeldis. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. febrúar og 17. mars 2017.
Málavextir: Með umsókn til Umhverfisstofnunar, er barst stofnuninni 25. maí 2015, sótti Háafell ehf. um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 27. desember 2013, hafði farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og var matsskýrsla lögð fram í febrúar 2015. Álit Skipulagsstofnunar þar um er frá 1. apríl 2015.
Umhverfisstofnun auglýsti drög að starfsleyfi fyrir Háafell ehf. á tímabilinu 8. apríl til 3. júní 2016. Starfsleyfi fyrir fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf. til reksturs sjókvíaeldis í innanverðu Ísafjarðardjúpi var gefið út af Umhverfisstofnun 25. október 2016. Með leyfisveitingunni var heimiluð 6.800 tonna ársframleiðsla af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðsla af þorski. Leyfið var birt á heimasíðu stofnunarinnar 23. nóvember s.á. ásamt ódagsettri greinargerð. Útgáfa starfsleyfisins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 7. desember 2016.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að útgáfa Umhverfisstofnunar á starfsleyfi til leyfishafa brjóti gegn því markmiði fiskeldislaga nr. 71/2008 að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Jafnframt að ákvörðun og málsmeðferð séu ekki í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og gangi þvert á vísindalegt mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis í svo stórum stíl sem um sé að ræða. Fugla- og fiskistofnar, náttúruminjar, samfélag og sérstætt náttúrufar muni bíða varanlegan skaða af ef af starfseminni verði. Þá stangist leyfi fyrir slíkri starfsemi á við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hafi undirgengist, um náttúruvernd og rétt almennra borgara til að verjast ásókn stórfyrirtækja sem ógni náttúrunni og hagsmunum almennings.
Við leyfisveitinguna hafi Umhverfisstofnun borið að gæta að skilyrðum 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, um að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
Áður en hægt sé að leyfa að framandi verur séu settar í nýtt umhverfi hér á landi, eða heimild sé veitt til að stækka og auka við áður útgefin leyfi, þurfi að fara fram ítarleg matsgreining, m.a. hjá sérfræðinganefnd um framandi lífverur, sem starfi samkvæmt 63. gr. náttúruverndarlaga.
Bent sé á að skilyrði 2. mgr. 8. gr. fiskeldislaga, um að fylgja skuli skilríki um heimild til afnota af landi, vatni og sjó, séu fortakslaus og því sé það ekki á færi Umhverfisstofnunar að veita starfsleyfi án þeirra og samkvæmt 2. mgr. 40. gr. stjórnarskrár Íslands geti íslenska ríkið ekki afhent eignar- eða afnotarétt af hafsvæði við landið, utan netlaga en innan landhelgi, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Því sé hvorki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins né heimild í lögum til handa stjórnsýsluhöfum til að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna af hafsvæðum umhverfis landið. Tilvist slíkra skilríkja sé forsenda fyrir veitingu starfsleyfa.
Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að til að reka fiskeldi þurfi bæði að hafa til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun. Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi vegna eldis sjávar- og ferskvatnslífvera á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það sé nánar útfært í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Þá sé fjallað um aðkomu stofnunarinnar við útgáfu starfsleyfa í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, en stjórnsýsla samkvæmt þeim lögum fjalli um rekstrarleyfi og falli undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Matvælastofnun. Í lögum um fiskeldi segi að gæta skuli samræmis við framkvæmd laga um lax- og silungsveiði, sem heyri undir það sama ráðuneyti.
Viðfangsefni starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi sé einkum að fjalla um mögulega mengun frá atvinnurekstri, setja losunarmörk vegna mengunar og verklagsreglur í samræmi við viðkomandi lög og reglugerðir og draga með því úr áhrifum þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega verði vegna mengandi atvinnustarfsemi, með það að markmiði að tryggja mengunarvarnir með sjálfbærni að leiðarljósi. Starfsleyfin séu því almennt gefin út til að koma í veg fyrir mengun af völdum atvinnurekstrar og setja rekstraraðilanum skilyrði og kröfur sem þeir eigi að viðhafa í sínum rekstri.
Leyfishafi hafi frá árinu 2012 verið með eldi á regnbogasilungi og séu fjölmörg starfsleyfi hér á landi í gildi þar sem heimild sé til að vinna með regnbogasilung. Einnig megi geta þess að seiðaeldi regnbogasilungs sé starfrækt hér á landi og sé því ekki um innflutning að ræða.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi kveðst telja að áhrif eldisáforma á veiðiréttindi jarða í Ísafjarðardjúpi geti verið jákvæð vegna aukinnar veiði en einnig hugsanlega neikvæð, þar sem ár séu markaðssettar sem sjálfbærar.
Bent sé á að kvíaþyrping þeki lítinn hluta af því svæði sem gönguseiði eða laxar geti gengið um á leið sinni úr veiðivatni eða upp í veiðivatn. Hér sé því ekki um að ræða hindrun, eins og t.d. í tilfelli virkjana eða annarra mannvirkja í veiðivötnum.
Í 63. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 komi fram að óheimilt sé að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Regnbogasilungur hafi fyrst verið fluttur inn til landsins fyrir meira en hálfri öld síðan. Frá þeim tíma hafi hann verið í eldi í landeldisstöðvum og sjókvíaeldisstöðvum og einnig hafi honum verið sleppt í fjölmörg vötn með stangveiði í huga. Athyglisvert sé að allt í einu nú þurfi að fela sérfræðinganefnd um framandi lífverur að fjalla um málið.
Þegar umsókn um starfsleyfi hafi verið send inn til Umhverfisstofnunar hafi skilríkja vegna afnota af sjó ekki verið aflað, þar sem fyrirséð hafi verið að fulltrúi eigandans væri leyfisveitandi.
Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um að veita starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski á ári í innanverðu Ísafjarðardjúpi. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli nr. 5/2017, þar sem greind ákvörðun var felld úr gildi. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum er ljóst að kærendur hafa ekki hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Ásgeir Magnússon