Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2018 Urðunarsvæði á Bakkafirði

Árið 2018, þriðjudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2018 um að veita starfsleyfi fyrir urðunarsvæði við Bakkafjörð.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Halldór fiskvinnsla ehf., Hafnargötu 8, B, Kötlunesvegi 1, og A, Vík, Bakkafirði, Langanesbyggð, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2018 að veita starfsleyfi til reksturs urðunarsvæðis við Bakkafjörð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 7. maí 2018.

Málsatvik og rök:
Hinn 21. mars 2018 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til Langanesbyggðar fyrir urðun úrgangs á urðunarstað í Slökkum, norðaustan við Bakkafjörð, Langanesbyggð. Með leyfinu er heimilað að taka á móti og urða allt að 200 tonn af úrgangi á ári. Drög að starfsleyfinu voru auglýst á tímabilinu 7. nóvember til 7. desember 2017 og bárust þrjár athugasemdir við tillöguna á auglýsingartíma. Var útgefið starfsleyfi birt á vefsvæði Umhverfisstofnunar 28. mars 2018, í samræmi við ákvæði 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærendur vísa um stöðvunarkröfu sína til 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út fyrir starfseminni í samræmi við ákvæði 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að öðru leyti sé málsmeðferð að baki útgáfu hins kærða starfsleyfis háð ágöllum og ekki hafi verið efnisleg skilyrði til útgáfu þess. Starfsleyfið hafi jafnframt verið í ósamræmi við réttarheimildir og ákvarðanir sem Umhverfisstofnun hafi verið bundin af við ákvörðun sína.

Umhverfisstofnun kveðst leggjast gegn frestun réttaráhrifa á ákvörðun um veitingu starfsleyfis, sem stofnunin telji að gefið hafi verið út með réttum hætti. Verði að líta til þess, við mat á því hvort aðstæður mæli með frestun réttaráhrifa, að sýnt hafi verið fram á að án frestunar myndi gæta röskunar sem væri óafturkræf eða hefði með öðrum hætti þungbærar afleiðingar. Það liggi ekki fyrir í þessu máli. Um sé að ræða eldri urðunarstað sem hafi áður verið í notkun og ákvæði starfsleyfisins taki á þeim kröfum sem gera verði til rekstursins, m.a. vegna hugsanlegs foks og lyktaráhrifa á umhverfi.

Leyfishafa var gefinn kostur á að gera athugasemdir en kaus að nýta ekki þann rétt sinn.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en jafnframt er kærendum þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda komi fram krafa um það af hálfu kærenda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. Er greint heimildarákvæði undantekning og ber að skýra þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Eins og fram hefur komið virðast kærendur helst byggja kröfu sína um frestun réttaráhrifa á því að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út. Það leyfi er einnig kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar og geta kærendur eftir atvikum komið að kröfu um stöðvun framkvæmda í slíku kærumáli. Starfsleyfi veitir hins vegar ekki heimild til framkvæmda heldur til atvinnurekstrar sem sjálfhætt er verði viðkomandi leyfi fellt úr gildi. Um gamalt urðunarsvæði er að ræða sem hefur verið í notkun í a.m.k. tuttugu ár. Verður ekki séð að áframhaldandi rekstur sé líklegur til að hafa í för með sér þau óafturkræfu áhrif á umhverfið, á meðan á meðferð kærumáls þessa stendur, að forsendur séu til að beita undantekningarheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og fresta réttaráhrifum hins kærða starfsleyfis. Er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2018 um að veita starfsleyfi fyrir urðunarsvæði við Bakkafjörð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Ásgeir Magnússon