Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2011 Þverholt

Ár 2011, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2011, beiðni um úrskurð um leyfisskyldu framkvæmda við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2011, er barst nefndinni 29. s.m., fer S, íbúi að Urðarholti 7 í Mosfellsbæ, fram á að úrskurðað verði um að framkvæmdir við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ séu leyfisskyldar.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar en þar sem þær voru að mestu afstaðnar þegar erindi málshefjanda barst var ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu. 

Mál þetta sætir meðferð samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Málsatvik og rök:  Í lok aprílmánaðar 2011 munu framkvæmdir hafa byrjað við stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6, en þar er rekin bílasala.  Liggur fasteign málshefjanda að nefndri lóð.  Í kjölfarið spurðist hann fyrir um framkvæmdirnar hjá byggingaryfirvöldum bæjarins, m.a. í bréfi, dags. 23. maí 2011, og mótmælti þeim.  Svar barst frá byggingarfulltrúa bæjarins í bréfi, dags. 3. júní s.á., þar sem sú afstaða kom fram að greindar framkvæmdir væru hvorki leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum né mannvirkjalögum og kölluðu ekki á breytingar á skipulagi.  Málshefjandi, sem er eigandi íbúðar á jarðhæð fjölbýlishússins að Urðarholti 7, kærði framkvæmdirnar til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 6. júlí 2011 með þeim rökum að ekki lægi fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu.  Í kjölfar þess barst úrskurðarnefndinni erindi málshefjanda svo sem að framan greinir.

Málshefjandi vísar til þess að umdeildar breytingar á lóðinni að Þverholti 6 raski grenndarhagsmunum hans en með þeim séu sett bílastæði að lóðarmörkum Þverholts 6 er snúi að fasteign hans.  Breytingar þessar muni hafa í för með sér útsýnisskerðingu, aukið ónæði og muni auk þess takmarka afnot málshefjanda af fasteign hans, svo sem við að koma sólpalli fyrir í því horni lóðar sem snúi að fyrirhuguðu bílastæði.  Þá valdi breytingarnar því að fasteign hans verði ekki jafn söluvæn og áður.  Með framkvæmdunum sé því farið gegn reglum eignar- og grenndarréttar.

Umdeildar framkvæmdir hljóti að teljast byggingarleyfisskyldar, sbr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gerð bílastæða sé háð samþykki byggingarnefndar, sbr. grein 64.11 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Ekki verði séð að þargreindar undantekningar eigi við í máli þessu.  Vísað sé sérstaklega í c-lið greinar 2.3.5 í drögum að nýrri byggingarreglugerð þar sem komi skýrt fram að breyting á hæð lóðar, sem valdi skaða eða skerði hagsmuni nágranna, sé óheimil án samþykkis útgefanda byggingarleyfis og lóðarhafa viðkomandi nágrannalóðar.  Það ákvæði eigi hér við þar sem hæð jarðvegs á lóðamörkum Þverholts 6 og fasteignar málshefjanda hafi verið gjörbreytt málshefjanda til tjóns.  Hér megi vísa í úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 61/2009 en þar hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að uppsetning á hliði og grindverki á lóðarmörkum væri byggingarleyfisskyld, m.a. í ljósi ákvæða byggingarreglugerðar og vegna þess hve mikil áhrif grindverkið hafi haft á umferð og aðkomu að lóð.  Það sé mat málshefjanda að umræddar framkvæmdir við Þverholt 6 hafi jafn mikil, ef ekki meiri, áhrif á gæði eignar hans en framkvæmdir þær sem um sé fjallað í nefndum úrskurði.  Þá séu áhöld um hvort breytingarnar samræmist skipulagi en engin grenndarkynning hafi farið fram vegna þeirra.  Breytingar á lóð Þverholts 6 fari því einnig í bága við skipulagslög nr. 123/2010.

Af hálfu byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar hefur verið áréttuð sú skoðun, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 3. júní 2011, að greindar framkvæmdir séu ekki þess eðlis að þær kalli á nýtt skipulag eða séu háðar formlegum leyfum samkvæmt skipulagslögum eða mannvirkjalögum.  Verið sé að ganga betur frá norðurhluta lóðarinnar með því að slétta hana og sá og planta gróðri.  Ekki sé fyrirhugað að auka umsvif eða aðstöðu þess atvinnurekstrar sem þar sé fyrir.  Malbikað svæði á norðvesturhluta lóðarinnar verði stækkað og með því skapaður möguleiki fyrir stöðu lítilla bíla en sú stækkun nái ekki að mörkum lóðar málshefjanda.

Lóðarhafi Þverholts 6 bendir á að um sé að ræða sjálfsagða framkvæmd vegna eðlilegrar hagnýtingar á umræddri lóð.  Almennt hafi lóðarhafi fulla heimild til framkvæmda innan lóðarmarka án þess að nágrannar eigi íhlutunarrétt í því efni.  Alltaf fylgi visst óhagræði og ónæði því að búa og starfa í þéttbýli og fólk verði að sætta sig við eðlilega hagnýtingu og starfsemi á nágrannalóðum.  Sú framkvæmd sem hér um ræði sé innan allra marka og með leyfi byggingaryfirvalda og eigi kærandi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna umdeildra breytinga á lóðinni að Þverholti 6.

Vettvangsskoðun.  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. september 2011.

Niðurstaða:  Breytingar þær á lóðinni að Þverholti 6 sem hér eru til umfjöllunar fela í sér að fyllt er upp í hluta fláa á henni norðvestanverðri er snýr að lóð málshefjanda og liggur nálægt mörkum lóðanna.  Um er að ræða tiltölulega mjóa ræmu sem jöfnuð er að hæð malbikaðs plans á lóðinni og fyrirhugað er að malbika og nota undir bílastæði.  Að öðru leyti er hæð lóðarinnar ekki breytt en hún stendur nokkru hærra en lóð málshefjanda og er fyrrgreindur flái til þess ætlaður að jafna hæðarmun lóðanna.  Um þrír til fjórir metrar eru frá brún fyllingarinnar undir fyrirhuguð bílastæði að lóðamörkum fyrrgreindra fasteigna.

Hinn 11. desember 2008 var samþykkt byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Þverholti 6 og er þar tilgreindur fjöldi bílastæða á lóð og staðsetning þeirra sýnd á samþykktri afstöðumynd.  Hinn 18. janúar 2011 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Mosfellsbæjar sem tekur til lóðarinnar að Þverholti 6.  Þar er gert ráð fyrir að núverandi hús víki en í þess stað rísi fjölbýlishús með bílakjallara.  Á deiliskipulagsuppdrætti eru ekki sýnd bílastæði á lóð.  

Staðsetning bílastæða á lóð getur haft áhrif á grenndarhagsmuni lóðarhafa aðlægra lóða.  Með umdeildri breytingu er verið að skapa rými fyrir bílastæði andspænis lóð málshefjanda, en slík stæði hafa ekki verið þar áður.  Er með því vikið frá staðsetningu bílastæða samkvæmt fyrrgreindu byggingarleyfi frá árinu 2008.

Samkvæmt gr. 18.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem enn er í gildi, er afstöðumynd mannvirkis hluti aðaluppdrátta og samkvæmt gr. 19.4 eru lóðauppdrættir meðal séruppdrátta er leggja skal fram áður en byggingarleyfi er gefið út.  Samkvæmt gr. 18.14 nefndrar reglugerðar skal á afstöðumynd m.a. sýna bílastæði á lóð.  Skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er að aðal- og séruppdrættir hafi verið yfirfarnir og leyfisveitandi áritað þá til staðfestingar.  Af þessum ákvæðum verður leidd sú niðurstaða að samþykkja þurfi breytingu á gildandi byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem víkja frá staðfestum aðaluppdráttum.  

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeild breyting á tilhögun bílastæða á lóðinni að Þverholti 6 sé háð byggingarleyfi samkvæmt mannvirkjalögum.

Úrskurðarorð: 

Umdeild breyting á tilhögun bílastæða á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ er  byggingarleyfisskyld.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson