Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2001 Stigahlíð

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2001, kæra tveggja íbúa við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 um að veita byggingarleyfi er fól m.a. í sér heimild til að reka atvinnustarfsemi í  einbýlishúsinu að Stigahlíð 93.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f. h. G Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Stigahlíð 93, að því er varðar heimild fyrir atvinnustarfsemi í húsinu.  Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 15. nóvember 2001.  Kærendur gera þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi að því er varðar heimild fyrir breyttri notkun hússins.

Málavextir:  Fasteignin að Stigahlíð 93 í Reykjavík er einbýlishús sem stendur við botngötu þar sem eingöngu eru fyrir einbýlishúsabyggð.  Í gildi er deiliskipulagsuppdráttur fyrir svæðið frá árinu 1961 er ber yfirskriftina „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi.“  Uppdrátturinn sýnir legu gatna á skipulagsreitnum, lóðir og byggingarreiti, en honum fylgir ekki greinargerð.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2001, tilkynnti byggingarleyfishafi nágrönnum sínum um framkvæmdir við fasteignina að Stigahlíð 93 og upplýsti m.a. um fyrirhugaða breytingu á notkun hússins.  Var það upplýst að fyrirhugað væri að reka þar teiknistofu auk þess sem fasteignin yrði nýtt til íbúðar.

Hinn 12. júlí 2001 barst embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík símbréf frá lögmanni kærenda þar sem m.a. var farið fram á stöðvun framkvæmda við breytingar á húsinu nr. 93 við Stigahlíð.  Voru gerðar athugasemdir við breytingar á lóð hússins er fólust í gerð bílastæða og fyrirhugaða nýtingu þess til atvinnustarfsemi.  Byggingarfulltrúi tilkynnti ákvörðun sína um stöðvun framkvæmda við fasteignina með bréfi, dags. 17. júlí 2001, og var sú ákvörðun byggð á 1. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, þar sem ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni hinn 19. júlí 2001 er fólu í sér lítils háttar stækkun og útlitsbreytingar á húsi og framkvæmdum á lóð ásamt fjölgun bílastæða í þrjú.  Var umsóknin tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. júlí s.á. en afgreiðslu frestað og erindinu vísað til umsagnar Borgarskipulags vegna fyrirhugaðrar atvinnustarfsemi.  Í umsögn lögfræðings Borgarskipulags um málið, dags. 30. ágúst 2001, komu fram efasemdir um að umsótt breyting á notkun hússins að Stigahlíð 93 væri í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar og aðalskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum.  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 var tekið undir skoðun þá er fram kom í greindri umsögn.

Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. október 2001 og var svofelld bókun gerð af hálfu meirihluta nefndarinnar:

„Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu sem samræmast skipulagsskilmálum. Óheimilt er að gera fleiri en tvö bílastæði á lóðinni. Húseigandi skal, áður en byggingarleyfi verður veitt skila inn uppdráttum þar sem hann afmarkar lóðina við götu með svipuðum hætti og gert hefur verið annars staðar í hverfinu.

Hvað varðar atvinnustarfsemi í húsinu er vitnað til bls. 27 í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur en þar stendur: „Á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði*. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi, enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar. Þjónustulóðir og opin svæði sem eru 1500m² eða minni fá ljósgráan lit íbúðasvæða.“

„*Einbýlishús, fjölbýlishús, stakar íbúðir, íbúðir aldraðra, dvalarheimili fyrir aldraða, íbúðir stúdenta, sambýli fatlaðra, heimili fyrir börn og unglinga og annað útirými.“

Skipulags- og byggingarnefnd telur að umrædda auglýsingastofu beri að skilgreina sem vinnustofu sem kalli ekki til sín óeðlilega mikla umferð og samþykkir starfsemi hennar í húsinu.

Nefndin gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og tillögu Reykjavíkurlista.

Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“

Minnihluti nefndarinnar bókaði eftirfarandi um afstöðu sína til málsins:
        
„Með samþykkt sinni er meirihluti skipulags- og byggingarnefndar að heimila rekstur fyrirtækis/fyrirtækja í íbúðarhúsi sem stendur við þrönga húsagötu. Gert er ráð fyrir að 5 manns starfi þar og starfsemin mun því augljóslega valda töluverðri viðbótarumferð. Bílastæðamál eru óleyst. Afar hæpið verður að telja að umrædd starfsemi samrýmist þeim skipulagsskilmálum, sem um hverfið gilda. Við greiðum því atkvæði gegn þessari tillögu.“

Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu meirihluta skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum hinn 18. október 2001.  Byggingarleyfisumsóknin, þar sem gert var ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð í stað þriggja í fyrri umsókn, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. nóvember 2001.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. nóvember s.á. og staðfest í borgarstjórn hinn 15. nóvember 2001.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og  að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja ógildingarkröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á því að koma að athugasemdum sínum áður en byggingaryfirvöld hafi tekið hina umdeildu ákvörðun.  Umsögn Borgarskipulags í málinu hafi ekki verið kynnt kærendum og hafi þeim ekki verið um hana kunnugt fyrr en þeim hafi verið tilkynnt um afgreiðslu byggingarleyfisins með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. nóvember 2001.  Í ljósi þess, að kærendur hefðu kært umdeildar framkvæmdir að Stigahlíð 93 til byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2001, verði að telja þessa málsmeðferð fela í sér brot á andmælarétti kærenda sem þeim sé tryggður í stjórnsýslulögum.

Í bréfi eigenda fasteignarinnar að Stigahlíð 93 til nágranna frá 11. júlí 2001 komi fram að fyrirhugað sé að nýta húsið til íbúðar auk atvinnurekstrar.  Hálfu ári eftir að byggingarleyfishafi hafi keypt umrædda fasteign, hafi enginn búið í húsinu eða verið skráður þar til heimilis, en húsið eingöngu nýtt undir atvinnustarfsemi og rekstraraðilinn einn skráður eigandi þess.  Ekki verði séð að byggingaryfirvöld hafi gengið úr skugga um hverjar væru raunverulegar fyrirætlanir um nýtingu hússins og megi ætla að afstaða byggingaryfirvalda til umræddrar byggingarleyfisumsóknar hefði orðið önnur ef fyrir hefði legið að húsið yrði eingöngu nýtt undir atvinnurekstur svo sem af öllum málsatvikum megi ráða.

Þá telja kærendur hina kærðu ákvörðun efnislega ranga og andstæða aðalskipulagi og skipulagsreglugerð.  Fram komi í fyrirliggjandi umsögn lögfræðings Borgarskipulags að í aðalskipulagi sé fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðarsvæðum.  Þar megi þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi sem valdi ekki nágrönnum ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Grein 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 geri sömu kröfur til atvinnu- og þjónustustarfsemi í íbúðarbyggð sem einkum sé ætluð til að sinna þörfum íbúa hverfisins.  Þá segi í grein 4.2.2 að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð skuli valinn staður þannig að hvorki valdi hættu né óþægindum vegna umferðar eða annars ónæðis.

Bent sé á að húsið að Stigahlíð 93 standi innarlega í mjórri húsagötu efst við Stigahlíðina þar sem engin bílastæði séu við götu heldur aðeins inni á lóðum húsa og í götunni búi fjölskyldur með börn.  Umferð um götuna hafi hingað til einungis stafað frá íbúum hennar og gestkomandi.  Fyrir liggi að við umdeildan rekstur auglýsingastofu í húsinu að Stigahlíð 93 muni starfa a.m.k. fimm starfsmenn og sé sú starfsemi ekki þess eðlis að hún einskorðist við íbúa hverfisins.  Umferð um hverfið muni aukast vegna starfseminnar og verða meiri en ef húsnæðið væri notað til íbúðar og sé sú þegar raunin.  Starfsmenn aki daglega í og úr vinnu og auk þess megi búast við að þeir þurfi að aka til og frá vinnustað til að sinna erindum utan vinnustaðar.  Þá fylgi umferð þeim aðilum sem sæki þangað þjónustu.  Kærendur taki því undir umsögn Borgarskipulags frá 30. ágúst 2001 þar sem fram komi að umdeild starfsemi geti valdið nokkurri aukningu á umferð og skapað bílastæðavandamál á svæðinu.  Þar komi og fram að vegna aðstæðna á svæðinu, m.a. þar sem um hreina íbúðarbyggð sé að ræða í botngötu með engum almenningsbílastæðum, geti umdeild starfsemi orðið nokkuð íþyngjandi gagnvart nágrönnum.  Sé því varla heimilt með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar, landnotkunar aðalskipulags og gildandi deiliskipulags að samþykkja umsótta starfsemi í húsinu.  Geri kærendur þessi ályktunarorð lögfræðings Borgarskipulags að sínum.

Telja kærendur að form og efnisannmarkar þeir sem raktir hafi verið eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er varði heimild til atvinnustarfsemi í húsinu að Stigahlíð 93.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.

Vísað er til þess að á svæðinu sé í gildi deiliskipulag „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði Reykjavíkur hinn 28. nóvember 1961.  Mat skipulags- og byggingaryfirvalda hafi því einungis lotið að því hvort umrædd umsókn væri í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins og hafi lyktir orðið þær að umdeild umsókn fæli ekki í sér frávik frá deiliskipulaginu og því engar forsendur til þess að grenndarkynna umsóknina skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Við meðferð umsóknarinnar hafi engu að síður legið fyrir  ítarleg greinargerð frá lögmanni kærenda með sjónarmiðum þeirra og hafi byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir á lóðinni að Stigahlíð 93 að kröfu lögmanns þeirra.  Við meðferð málsins hafi framkomin sjónarmið nágranna verið höfð til hliðsjónar eins og sjá megi af fundargerð afgreiðslufundar skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 og bókunum meiri- og minnihluta  skipulags- og byggingarnefndar frá 3. október s.á.  Verði því ekki fallist á, eins og málsatvikum sé háttað, að andmælaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn.

Í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og ódagsettum skilmálum frá Borgarverkfræðingnum í Reykjavík, fyrir úthlutun einbýlishúsalóða við Stigahlíð sé ekki kveðið nánar á um landnotkun eða starfsemi á svæðinu.  Um landnotkun fari því eftir ákvæðum Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016. Í því skipulagi sé svæðið tilgreint sem íbúðasvæði sem skilgreint sé á eftirfarandi hátt:

„… á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.“

Framangreinda skilgreiningu aðalskipulags beri að skilja á þann hátt að meginreglan sé sú að á íbúðasvæðum skuli fyrst og fremst vera íbúðarhúsnæði.  Líta verði þó svo á að skipulagsyfirvöldum sé heimilt, innan ákveðinna marka, að leyfa tiltekna atvinnustarfsemi sem valdi nágrönnum ekki ónæði umfram það sem almennt megi búast við á tilteknu svæði.  Takmörkunin geti því aðeins verið grenndarréttarlegs eðlis og háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni.  Þar af leiðandi verði að meta hvert tilvik fyrir sig, meðal annars að teknu tilliti til skipulags hverfisins, fyrirkomulags húsa, væntanlegrar umferðar, fjölda starfsmanna, tegundar starfsemi auk margra annarra þátta.  Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.2.1, sé íbúðasvæði skilgreint á sambærilegan hátt og í aðalskipulagi.

Byggingarleyfishafi hafi lýst því yfir að búið verði í húsinu og sé það í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti að húsinu, en samkvæmt þeim sé gert ráð fyrir teiknistofu auk íbúðar.  Byggingarleyfishafi og kona hans starfi bæði sem grafískir hönnuðir og reki teiknistofu sína í fasteigninni að Stigahlíð 93.  Auk þeirra starfi á teiknistofunni þrír starfsmenn.  Það geti ekki verið á valdsviði skipulags- og byggingaryfirvalda að fullvissa sig um að einstaklingar hafi búsetu á einhverjum ákveðnum stöðum né kanna það sérstaklega hvar þeir hafi lögheimili.  Byggingarleyfi taki einungis afstöðu til þess til hverra nota húsnæði sé ætlað og hafi verið samþykkt að í húsinu yrði íbúð auk vinnustofu.

Telja verði að óveruleg umferð fylgi umdeildri starfsemi og eigi hún ekki að valda öðrum íbúum óþægindum umfram það sem við megi búast með tilliti til stærðar hússins sem sé tæplega 400 fermetrar og gæti auðveldlega hýst töluvert stærri fjölskyldu en sem nemur þeim þremur starfsmönnum sem starfi á umræddri teiknistofu auk eigenda.  Benda megi á að fyrri eigandi hússins hafi verið með skrifstofu í húsinu til langs tíma.  Ekki sé óeðlilegt að rekin sé umfangslítil starfsemi samhliða búsetu í stærri húsum innan íbúðarhverfa svo sem skrif- og vinnustofur hönnuða, verkfræðinga og endurskoðenda.  Litið hafi verið svo á að slík starfsemi sé heimil í íbúðarhverfum valdi hún ekki óeðlilegu ónæði fyrir nágranna.

Með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar og landnotkunar aðalskipulags verði að telja að borgaryfirvöld hafi óskoraða heimild til að meta það hvort umrædd starfsemi í húsinu sé þess eðlis að hún hafi íþyngjandi áhrif gagnvart íbúum götunnar.

Í ljósi framangreinds, þar sem fyrir liggur mat meirihluta skipulags- og byggingarnefndar að umþrætt byggingarleyfi hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði gildandi skipulags og skipulagsreglugerðar um atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum sé ekki efni til að raska hinni kærðu ákvörðun.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á því að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en greinargerð um það efni hefur ekki borist nefndinni.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér heimild til ýmis konar breytinga á húsi og lóð fasteignarinnar að Stigahlíð 93 í Reykjavík auk heimildar til breyttrar notkunar hússins, en í máli þessu er einungis deilt um það hvort heimild til nýtingar hluta hússins til atvinnustarfsemi hafi verið lögmæt.

Bæjarráð Reykjavíkur staðfesti hinn 28. nóvember 1961 skipulagsuppdrátt fyrir umræddan reit með yfirskriftinni „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“.  Deiliskipulag þetta er í gildi skv. 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þótt skipulagið sé ófullkomið að því leyti, að  greinargerð skortir um nánari útfærslu uppdráttarins, ber nafngift hans og fyrirkomulag lóða, byggingarreita og bílastæða á uppdrættinum það með sér að gert hafi verið ráð fyrir hreinni einbýlishúsabyggð á skipulagssvæðinu svo sem raunin hefur orðið við uppbyggingu þess.

Byggingarleyfi, m.a. fyrir breyttri notkun húss, skal vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag skv. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Komi fram umsókn er víkur frá gildandi deiliskipulagi verður byggingarleyfi ekki veitt í samræmi við umsókn nema að lokinni deiliskipulagsbreytingu samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða eftir atvikum skv. 2. mgr. ákvæðisins ef um óverulega breytingu frá deiliskipulagi er að ræða. 

Vafi um ákvæði deiliskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum eða skortur á ákvörðun í því efni veitir sveitarstjórnum ekki, án breytingar á deiliskipulagi, heimild til að veita byggingarleyfi á grundvelli áætlaðrar landnotkunar aðalskipulags og skilgreiningar landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Samkvæmt 2. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð skal í aðalskipulagi gera grein fyrir stærð og staðsetningu íbúðarsvæða en í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis kemur fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir notkun einstakra bygginga og byggingarhluta á íbúðarsvæðum sem ekki eru ætlaðir til íbúðar.  Verða reglugerðarákvæði þessi ekki skýrð á annan veg en þann að heimild til nýtingar húsnæðis á skipulögðum íbúðarsvæðum til annars en íbúðar verði að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi.  Sú túlkun er jafnframt í samræmi við þá meginreglu skipulags- og byggingarlaga, að  byggingarleyfi skuli vera í samræmi við deiliskipulagsáætlanir, en einungis er heimilt að veita byggingarleyfi á grundvelli aðalskipulags á þeim svæðum sem þegar eru byggð en hafa ekki verið deiliskipulögð, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna.

Hin umdeilda ákvörðun, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð, á ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þykir því verða að fella hina kærða ákvörðun um breytta notkun umrædds húss úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sú, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð í Reykjavík, er fólst í byggingarleyfi sem samþykkt var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 6. nóvember 2001, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
       Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir