Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2009 Grundarstígur

Ár 2010, mánudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 58/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 um að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 í Reykjavík og breyta notkun þess. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. ágúst 2009, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra H, Hl og Ha, eigendur fasteignarinnar að Grundarstíg 9 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða starfsemi í stað íbúðar.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði 6. ágúst 2009.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verði frestað þar til deiliskipulag fyrir húsið og næsta umhverfi þess liggi fyrir.  Til þrautavara er þess krafist að skipulagsstjóra verði gert að skilyrða rekstrarleyfi til starfseminnar.  Með bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 1. desember s.á., gerðu kærendur einnig kröfu um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú vera tækt til efnisúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs 25. febrúar 2009 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort byggja mætti sal við kjallara hússins á lóð nr. 10 við Grundarstíg og breyta nýtingu þessa fyrrum íbúðarhúss Hannesar Hafstein í blandaða atvinnustarfsemi.  Einnig var lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. febrúar 2009.  Ráðið gerði ekki athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og bókaði að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt þegar hún bærist.  Í tilvitnaðri umsögn skipulagsstjóra kom m.a. fram að ekki væri ástæða til að leggjast gegn því að menningartengd starfsemi yrði rekin í húsinu þar sem ætlun eigenda væri að láta hverfið njóta góðs af starfseminni.  Einnig kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við viðbyggingu í garði, m.a. með vísan til umsagna borgarminjavarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins.  Einnig var tekið fram að fyrirhuguð hækkun mænisáss væri það óveruleg að húsið myndi ekki skera sig úr umhverfinu og ekki líklegt að hækkunin hefði áhrif á skuggamyndun á næstu lóðum. 

Hinn 31. mars 2009 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi vegna hússins.  Sótt var um leyfi til að byggja sal við kjallara með steyptri loftplötu og torfi á þaki, lækka gólf í núverandi kjallara, miðjusetja glugga á vesturgafli, hækka þak um 70 cm, byggja svalir á rishæð, steypa vegg á lóðarmörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta nýtingu hússins í blandaða atvinnustarfsemi.  Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Erindinu var einnig vísað til umsagnar skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu og jafnframt var óskað umsagnar um bílastæðakröfu.  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra 3. apríl 2009 var samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum.  Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 10. júní 2009, ásamt fylgigögnum og tölvubréfi eins kærenda, dags. 11. maí 2009, þar sem óskað var eftir framlengingu á athugasemdafresti.  Grenndarkynning stóð frá 14. apríl til 14. maí og var framlengd til og með 22. maí 2009.  Bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum.  Á fundinum hinn 10. júní 2009 bókaði skipulagsráð að ekki væru gerðar athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi þegar teikningar hefðu verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði, með þeim breytingum sem fram kæmu í umsögn skipulagsstjóra.  Í umsögninni kom m.a. fram að við útgáfu byggingarleyfis skyldi setja það skilyrði að mannfagnaðir í nýbyggingunni stæðu ekki lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, alla daga vikunnar, og að yfirlýsingu þessa efnis skyldi þinglýst á lóðina fyrir samþykkt byggingarleyfis.  Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 21. júlí 2009 var eftirfarandi samþykkt:  „Sótt er um leyfi til að byggja við kjallara sal úr steinsteypu með steyptri loftplötu og torfi á þaki, lækka gólf í núverandi kjallara, miðjusetja glugga á vesturgafli, hækka þak um 70 cm, byggja svalir á rishæð, steypa vegg á lóðamörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta nýtingu þessa fyrrum einbýlishúss Hannesar Hafstein í blandaða atvinnustarfsemi á lóð nr. 10 við Grundarstíg.  Kynning stóð frá 14. apríl til 14. maí, framlengt til og með 22. maí 2009.  Athugasemdir bárust. …  Niðurrif: Bílskúr 19,5 ferm., 42,9 rúmm.  Stækkun: Kjallari 110,5 ferm., 3. hæð 16,6 ferm.  Samtals stækkun: 127,1 ferm., 455,9 rúmm.  Gjald kr. 7.700 + 7.700 + 35.104.  Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Var framangreint staðfest á fundi borgarráðs hinn 6. ágúst 2009. 

Skutu kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að hið kærða leyfi heimili að húsinu að Grundarstíg 10 verði breytt úr íbúð í aðstöðu til skemmtanahalds með tónleikasal, veitingasal og fundaraðstöðu.  Húsið standi inni í miðju íbúðarhverfi.  Leyfið stangist á við ákvæði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem segi að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Hið kærða leyfi gangi gegn framangreindu í þremur atriðum.  Í fyrsta lagi sé ólíklegt að fyrirhuguð starfsemi í húsinu muni nýtast sem þjónusta við íbúa hverfisins nema að mjög litlu leyti.  Ekki sé hægt að skilgreina fyrirhugað margmiðlunarsafn sem þjónustu við íbúana og það að gera ýmsum menningarverðmætum úr nánasta umhverfi hússins skil geti varla talist til þjónustu.  Fundaraðstaða fyrir íbúana sé góðra gjalda verð, en slíka þjónustu megi sækja víða í nágrenninu og því ekki knýjandi þörf íbúanna fyrir slíkt inni í miðju hverfinu.  Starfsemin sé ætluð fyrir aðra en þá sem í hverfinu búi.  Í öðru lagi muni hin fyrirhugaða notkun augljóslega valda hávaða.  Tónleikum fylgi alltaf einhver hljóð, annars væri ekki um tónleika að ræða.  Það sé álit kærenda að starfsemi, sem m.a. sé beinlínis ætlað að framleiða hljóð, valdi ónæði vegna hávaða með þeim hætti að það stangist á við ofangreint ákvæði í skipulagsreglugerð.  Þá sé ótalinn hávaði sem ávallt myndist við það að fólk safnist saman utandyra til að reykja og vegna umferðar í kring um húsið, m.a. þegar leigubílar bíði eftir fólki o.þ.h.  Í þriðja lagi snúist hin fyrirhugaða starfsemi um að draga að sér umferð.  Ef enginn mæti á fundi eða tónleika og ef kaffigestir verði sjaldséðir sé engin starfsemi.  Umferð sé beinlínis tilgangur starfseminnar.  Tónleikasalurinn muni taka um 70 manns í sæti og fundarsalir í húsinu taki líklega nokkra tugi að auki.  Starfsemin hljóti því að draga að sér umferð.  Hugmyndir byggingarleyfishafa um að auðvelt verði að fá landsmenn til að leggja bílum sínum í 200-300 metra fjarlægð frá staðnum, þegar þeir sæki fundi, tónleika, kaffihús, veislur, sýningar eða aðrar uppákomur í húsinu, séu léttvægar.  Gestir Grundarstígs 10 muni leggja bílum sínum í öll stæðin á Grundarstíg og nálægum götum og upp á gangstéttir.  Ábyrgðarlaust sé að halda öðru fram.  Íbúar í kringum Grundarstíg 10 búi á svæði þar sem talsverður bílastæðaskortur sé nú þegar.  Þeir muni sjá fram á aukinn bílastæðaskort, einkum á kvöldin. 

Þá sé á því byggt að hið kærða leyfi stangist á við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2025 en í kafla 3.1.2 þess segi að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu.  Þá segi þar ennfremur:  „Við mat á umsókn um tiltekna starfsemi, t.d. verslun innan íbúðarsvæða, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, er lagt til grundvallar úttekt á framboði á nærþjónustu í viðkomandi hverfi og áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni og áhrif byggingar á yfirbragð hverfis.  Gott aðgengi íbúa hverfisins að þjónustunni skal enn fremur lagt til grundvallar við mat á umsókninni.“  Fyrirhuguð starfsemi á Grundarstíg 10 hafi í för með sér mikla umferð um svæðið, valdi auknum hávaða og sé fyrst og fremst ætluð öðrum en íbúunum sjálfum, þó í undantekningartilfellum megi hugsa sér að íbúarnir hafi einhver not af starfseminni.  Að auki sé rétt að benda á að hvorki hafi farið fram úttekt á framboði á þeirri nærþjónustu sem byggingarleyfishafi ætli að veita í hverfinu né heldur áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni.  Samkvæmt aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir því að ný þjónusta á íbúðarsvæði sé aðallega fyrir íbúa svæðisins. 

Þá vísi kærendur til þess að skilyrði sem byggingarleyfishafa hafi verið sett séu ótrygg, sbr. það að mannfagnaðir í nýbyggingunni skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin.  Vandséð sé hvers vegna tímatakmarkanir á mannfagnaði séu eingöngu lagðar á nýbygginguna en ekki húsið allt.  Mannfagnaðir inni í gamla húsinu geti valdið jafnmikilli truflun og í nýbyggingunni og ættu því að lúta sömu reglum.  Þá sé núverandi lagaumhverfi hvað varði grenndarrétt og nábýli óljóst og skilyrði af þessu tagi því haldlítil. 

Bent sé á að í umsókn um byggingarleyfið hafi sú skoðun verið sett fram að húsið að Grundarstíg 10 sé í jaðri miðborgarinnar og beri að taka tillit til þess við útreikninga á bílastæðisgjöldum.  Hugtakið „jaðar miðborgarinnar“ sé óskilgreint en engu að síður  notað, m.a. í viðleitni borgaryfirvalda til að færa miðbæjarstarfsemina inn í nærliggjandi íbúðarhverfi.  Þannig sé t.d. „jaðar miðborgarinnar“ notað á bls. 2-3 í þróunaráætlun miðborgar.  Hér séu yfirvöld að gera mörkin milli íbúðarbyggðar og miðbæjar óskýr, en þau mörk hafi til þessa verið nokkuð skýr. 

Að lokum sé vísað til þess að vinnubrögð skipulagsstjóra séu að sumu leyti óvönduð.  Þau gefi tilefni til að ætla að ákveðin mismunun hafi átt sér stað.  Slík vinnubrögð séu líkleg til að leiða til ranglátrar eða a.m.k. óheppilegrar niðurstöðu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Varakröfur kærenda séu ekki tækar, enda sé það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að fresta og/eða skilyrða ákvarðanatöku sveitarstjórnarinnar.  Einnig sé á það bent að skipulagsstjóri sé ekki útgefandi rekstrarleyfis og geti þ.a.l. ekki skilyrt útgáfu slíks leyfis. 

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að fyrirhuguð starfsemi í húsinu að Grundarstíg 10 sé ekki í samræmi við gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð um íbúðarsvæði.  Hvað þetta varði þá hafi m.a. komið fram hjá byggingarleyfishafa að ætlunin sé að reka í húsinu sal sem unnt sé að nota til tónleikahalds, sýninga, fyrirlestra og fundarhalda.  Um sé að ræða starfsemi sem falli í flokk I samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en það séu veitingastaðir án áfengisveitinga.  Reykjavíkurborg hafi litið svo á að umrædd starfsemi falli beint undir skilgreiningu á þjónustustarfsemi sem skilgreind sé í skipulagsreglugerð, enda hafi ítrekað komið fram í erindum byggingarleyfishafa að starfsemin sé að miklu leyti miðuð að íbúum hverfisins.  Jafnframt hafi það verið álit Reykjavíkurborgar að starfsemin væri alls ekki til þess fallin að valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar eða að hún dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Bent sé á að fyrirætlanir byggingarleyfishafa séu í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem liggi fyrir bæði í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og í fyrirliggjandi vinnu að nýju aðalskipulagi um þjónustu í íbúðarhverfum og um sjálfbær hverfi, en sérstök stefnumörkun þess efnis muni fylgja nýju aðalskipulagi. 

Þar að auki sé bent á að Reykjavíkurborg hafi, í góðu samstarfi við byggingarleyfishafa, sett skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis í því skyni að tryggja að reksturinn í húsinu verði innan þeirra marka sem sett séu, m.a. í skipulagsreglugerð.  Í gögnum málsins liggi fyrir greinargerðir byggingarleyfishafa um fyrirætlanir og þær leiðir sem verði farnar til að draga úr grenndaráhrifum vegna breytinganna.  Hafi það verið einróma mat skipulagsráðs og skipulagsstjóra að þær aðgerðir séu sannfærandi og að ástæðulaust sé að gera ráð fyrir óásættanlegum ágangi í grenndinni vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Tekið sé fram að væntanlega hafi það ekki verið ætlun höfunda skipulags- og byggingarlaga eða skipulagsreglugerðar að banna íbúum annarra hverfa að nýta sér einstakar þjónustueiningar sem séu staðsettar innan íbúðahverfa, enda myndi slík túlkun hafa í för með sér óeðlilega niðurstöðu.  Myndi hún m.a. leiða það af sér að íbúum í Hlíðunum væri óheimilt að versla í Melabúðinni og að íbúum í Vesturbænum væri meinað að fara í klippingu á hárgreiðslustofunni að Bergstaðastræti 10, því þótt rekstur beggja þjónustueininga sé innan íbúðahverfis og aðallega ætlaður íbúum hverfisins sé óumdeilt að fleiri íbúar Reykjavíkur nýti sér hann og myndi það teljast bæði óeðlilegt og ómálefnalegt að gera skipulagslegar athugasemdir við það. 

Í kærunni séu raktar áhyggjur kærenda af hávaða vegna fyrirhugaðrar starfsemi, sérstaklega vegna tónleikahalds, reykingafólks og umferðar.  Reykjavíkurborg vísi til þeirra skilyrða sem sett hafi verið við útgáfu byggingarleyfisins þess efnis að mannfagnaðir skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, alla daga vikunnar.  Telja verði að skipulagsstjóri, í samstarfi við byggingarleyfishafa, hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að lágmarka áhrif vegna hávaða frá umferð og vegna reykingafólks með því að útbúa reykingaaðstöðu innan lóðar.  Í rekstrarleyfi verði skilyrði um að hávaði verði innan eðlilegra marka og muni brot á slíkum skilyrðum varða sviptingu leyfisins.  Í umsögn skipulagsstjóra um athugasemdir er borist hafi á kynningartíma hafi m.a. verið fallist á að hin samþykkta breyting gæti valdið auknu umferðarálagi í næsta nágrenni.  Í bréfi byggingarleyfishafa sé tekið fram að umtalsverðan fjölda almennra bílastæða sé að finna í um 200-300 m fjarlægð (2-4 mínútna gangur) frá Grundarstíg 10.  Auk þess sé tekið fram að unnið verði gagngert að því að viðskiptavinir hússins nýti sér umrædd bílastæði.  Einn aðaltilgangur borgaryfirvalda með uppbyggingu bílastæðahúsa sé að gera almenningi kleift að sækja sér þjónustu án þess að skylda alla þjónustuaðila til að leggja stóran hluta af lóð sinni undir bílastæði.  Þyki það vera óeðlileg krafa í nálægð við miðborg auk þess sem það stuðli hvorki að hagkvæmri nýtingu lands né dragi úr því að verðmætt land á miðborgarsvæði fari undir samgöngumannvirki og bílastæði.  Athugun skipulagsstjóra hafi því leitt í ljós að ekki væri ástæða til þess að fara fram á að lóðarhafar gerðu ráð fyrir auknum fjölda bílastæða innan lóðar, þar sem næg almenn bílastæði á borgarlandi væru í næsta nágrenni.  Hins vegar muni byggingarleyfishafi að sjálfsögðu greiða sig frá bílastæðakröfu vegna nýbyggingar. 

Ekki sé fallist á að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Bent sé á að við meðferð byggingarleyfisumsóknarinnar og þeirrar fyrirspurnar sem hafi verið undanfari hennar, hafi skipulagsstjóri með meðferð sinni lagt mat á efni erindisins, m.a. með því að kanna þjónustuframboð í nágrenninu og leggja heildstætt skipulagslegt mat á umsóknina.  Ekki sé því hægt að halda því fram að skipulags- og byggingarsvið hafi ekki sinnt hlutverki sínu við meðferð málsins þótt niðurstaða skipulagsstjóra, skipulagsráðs og byggingarfulltrúa sé ekki í samræmi við skoðanir kærenda á umfjöllunarefninu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að í fjölmörgum bréfum og greinagerðum hafi verið settar fram skýrar áætlanir um eðli og umfang þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð sé í húsinu að Grundarstíg 10.  Þannig hafi íbúum hverfisins, íbúasamtökum miðborgarinnar og skipulagsyfirvöldum verið gefinn kostur á að kynna sér áformin til hlítar.  Bent sé á að áformaðar breytingar á fasteigninni og fyrirhuguð starfsemi þar falli innan ramma skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar eins og atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð sé skilgreind í gr. 4.2.1 reglugerðarinnar.  Fyrirhuguð starfsemi bjóði upp á aðstöðu til samveru íbúa, m.a. með heimsókn á kaffihús stofnunarinnar.  Íbúar geti fengið aðstöðu í húsinu fyrir skilgreinda viðburði samkvæmt samkomulagi.  Menningarsögu og byggingarlist hverfisins verði haldið til haga í margmiðlunarsýningu.  Þjónustan verði valkvæð eins og önnur þjónusta í hverfinu en sé viðbót við fræðslu- og afþreyingarmöguleika íbúa. 

Fyrirhuguð starfsemi sé afar ólík þeirri mynd sem dregin sé upp í kærunni og sé vísað til skipulagsskrár stofnunarinnar þar að lútandi.  Nýbyggingin verði hljóðeinangruð eins og best verði á kosið.  Þá hafi verið þinglýst kvöð þess efnis að ekkert samkomuhald verði í nýbyggingunni eftir kl. 23:00.  Í anda markmiða stofnunarinnar verði gestir hússins hvattir til að nota vistvænan ferðamáta, s.s. almenningsvagna, reiðhjól og að koma fótgangandi.  Akandi umferð verði beint í nálæg bílastæðahús og almenningsbílastæði sem þáttur í þeirri viðleitni að framfylgja manngildisstefnumiðum stofnunarinnar.  Starfsemi stofnunarinnar, sem og starfsemi annarra fyrirtækja í hverfinu, dreifist yfir daginn.  Þessi víxlverkun í starfsemi leiði því til heppilegrar nýtingar bílastæða. 

Fullyrðingar um hávaða og umferðaþunga í kæru eigi ekki við rök að styðjast. Salurinn taki að hámarki 70 manns og þrjú fundarherbergi í húsinu taki á bilinu 4-14 manns.  Húsið standi í þegar byggðu hverfi þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir.  Starfsemi hússins sé sannarlega breytt en breytingar á landnotkun á reitnum verði að teljast minni háttar.  Sé litið til götureitsins sem markist af Grundarstíg, Skálholtsstíg, Þingholtsstræti og Spítalastíg sé ljóst að þar sé og hafi verið íbúðarbyggð en jafnframt atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðarbyggð.  Að Þingholtsstræti 27, sem liggi að lóðarmörkum Grundarstígs 10, hafi lengi verið prentsmiðja og einnig lessalur Borgarbókasafns Reykjavíkur.  Í því húsi séu nú auk íbúða m.a. arkitektastofur og hugbúnaðarfyrirtæki.  Að Þingholtsstræti 25 hafi áður verið spítali en nú sé þar gistiskýli.  Að Grundarstíg 2a hafi myndlistar- og handíðaskóli verið til húsa um árabil og þar hafi einnig verið starfrækt matvöruverslun.  Breyting á starfsemi Grundarstígs 10 verði í þessu samhengi að teljast minni háttar breyting á landnotkun götureitsins en jafnframt ný og aðgengileg þjónusta við íbúa hverfisins alls.  Byggingarleyfishafi sé sannfærður um að starfsemi Hannesarholts, þ.e. sjálfseignarstofnunin sem rekin verði í húsinu, verði farsæl viðbót við það fjölbreytta mannlíf og blönduðu byggð sem þrifist hafi í hverfinu í áraraðir eins og önnur starfsemi beri vott um. 

Hvað varði starfsemina sem rekin verði í húsinu þá sé um að ræða lítið kaffihús sem verði opið á dagtíma, aðstöðu til fundahalda og sal í viðbyggingu sem notaður verði fyrir minni háttar listviðburði, fyrirlestra og annað sambærilegt.  Margmiðlunarsýning og/eða -safn verði starfrækt en aðgangur að því verði að mestu leyti í gegnum vefsíðu Hannesarholts.  Fyrirhugað sé að leigja aðstöðuna í húsinu í takmörkuðum mæli til einkaafnota en um slík not gildi að sjálfsögðu þinglýstar reglur um opnunartíma hússins. 

Mikilvægt sé að hafa í huga að Hannesarholt sé hugsjónastofnun þar sem kjarninn í starfseminni sé rekstur menningartengdrar starfsemi.  Slíkri stofnun sé og verði mjög annt um að virða í hvívetna rétt nágranna til friðhelgi og óþægindalítils umhverfis.  Hannesarholt muni því, óháð lögum og reglugerðum, leggja áherslu á mannvænt líf í húsinu og nágrenni þess.  Til að undirstrika þennan einlæga vilja forsvarsmanna Hannesarholts hafi íbúasamtökum miðborgarinnar verið boðið sæti í fimm manna stjórn stofnunarinnar.  Slíkt boð sé líklega einsdæmi í miðborginni. 

Ítrekað sé að í hverfinu hafi alla tíð verið blönduð byggð, lifandi og fjölbreytt mannlíf.  Starfsemi hafi komið og farið og eðlilegt að framhald verði á því.  Það sé engin tilviljun að eigendur hússins hafi horft til hverfisins varðandi fyrirhugaða starfsemi Hannesarholts enda sé þetta merkilega hús Hannesar Hafstein staðsett við Grundarstíg og verði tæplega flutt.  Þá eigi mörg önnur hús í hverfinu sér langa og merkilega sögu sem mikilvægt sé að halda á lofti.  Sem dæmi um hina blönduðu byggð hverfisins í gegnum árin sé skemmst að minnast Borgarbókasafns Reykjavíkur sem starfrækt hafi verið að Þingholtsstræti 29a (Esjubergi), en það hús ásamt Grundarstíg 10 sé eitt af elstu steinsteypuhúsum í Reykjavík, reist um 1916.  Önnur stofnun hafi einnig verið starfrækt örskammt frá Grundarstíg 10 til margra ára, Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar í Hellusundi 7, frá árunum 1971-1996.  Þegar skólinn hafi um síðir flust úr Hellusundinu hafi nemendur verið um 650 og kennarar um 66 talsins.  Í dag sé Bónusvídeó á næsta götuhorni við Grundarstíg 10, þ.e. að Grundarstíg 12.  Safnaðarheimili Fríkirkjunnar sé skammt frá eða að Laufásvegi 13, Hótel Holt sé á næstu grösum, Volcano Show að Hellusundi 6, Kvennaskólinn og Bónus í seilingarfjarlægð.  Á Grundarstígnum megi að auki finna leikskóla, heildverslun, ERGO Engineering Geology ehf. og Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna.  Í Þingholtsstræti, næstu götu fyrir neðan Grundarstíg, megi nefna að í húsi nr. 23 sé fyrirtæki er framleiði kvikmyndir og tannlækningastofa.  Í húsi nr. 27 sé arkitekta- og verkfræðistofa, fyrirtæki á sviði upplýsingatækni og Amnesty International.  Þá sé Stofnun Sigurðar Nordals í húsi nr. 29.  Af framangreindu megi glögglega sjá að byggð í hverfinu sé og hafi lengi verið afar blönduð þótt hverfið sé skilgreint íbúðarhverfi.  Starfsemi Hannesarholts yrði því áhugaverð viðbót við þá fjölbreyttu flóru mannlífs sem þar þrífist fyrir. 

Smekklegar og löngu tímabærar lagfæringar á húsinu ásamt menningarlegri starfsemi innandyra geti orðið verulegur vegsauki fyrir hverfið og umhverfi þess.  Sú staðreynd að ætlunin sé að halda til haga menningarsögu hverfisins og byggingarlist í væntanlegri margmiðlunarsýningu hljóti einnig að vera dýrmætt fyrir það fólk sem kosið hafi að búa sér heimili í hverfinu.  Byggingarleyfishafar telji hafið yfir allan vafa að fyrirhuguð starfsemi flokkist undir „þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis“ og viti það fyrir víst út frá samtölum við nágrannana að fjölmargir íbúar muni nota einn eða fleiri þátt þessarar starfsemi.  Að öðru leyti sé starfsemi Hannesarholts einnig ætluð öllum almenningi rétt eins og starfsemi Borgarbókasafnsins í Þingholtsstræti forðum. 

Hvað varði fullyrðingar kærenda um hávaða sé bent á að áformað sé að halda tónleika í fyrirhugaðri viðbyggingu í bakgarði hússins að Grundarstíg 10.  Veggurinn á Þingholtsstræti 27, sem liggi að viðbyggingunni að lóðarmörkum, sé brunagafl.  Í viðbyggingunni (salnum) verði gluggar með tvöföldu, þykku verksmiðjugleri að garðinum og þakgluggar að gamla húsinu verði með samlímdu öryggisgleri.  Bæði gamla húsið og viðbyggingin séu steinsteypt hús, þar sem efnisþyngdin ein sé besta hljóðeinangrunin.  Veggir verði slitnir frá steinveggjum Þingholtsstrætis 27 með steinullarmottum.  Á þaki viðbyggingarinnar verði gras sem sannarlega sé hljóðeinangrandi.  Salurinn verði að auki með sérstakri loftræstingu svo ekki þurfi að opna glugga.  Veggir og gluggar verði sérstaklega útbúnir þannig að ekkert heyrist af utanhússhljóðum inn.  Þetta virki að sjálfsögðu í báðar áttir, þ.e. ekkert heyrist út.  Þannig eigi að vera hægt að flytja þar klassíska tónlist án truflana.  Fyrir utan viðbygginguna/salinn sé gróður og síðan garðveggurinn 2,5 m hár.  Einnig sé minnt á ákvæði þess efnis að samkomuhald í nýbyggingunni sé aðeins heimilað til kl. 23:00. 

Ástæða sé til að ítreka að markmiðið með starfseminni sé allt annað en að reka skemmtistað.  Því sé hvorki ástæða til að óttast umtalsverða umferð leigubíla né annarra bíla.  Miðað við að fyrirhugaður fyrirlestra/tónleikasalur taki á bilinu 50-70 manns í sæti og oftast mæti tveir saman, þar af sumir gangandi/hjólandi eins og Hannesarholt muni leggja mikla áherslu á, megi ljóst vera að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þungri umferð. 

Tilgangur fyrirhugaðrar starfsemi lúti að fólki, ekki umferð.  Fundarherbergin í húsinu sjálfu, auk fyrirlestrasalar í viðbyggingu, verði þrjú talsins.  Tvö þeirra rúmi 4-8 manns og hið þriðja 12-14 manns samkvæmt teikningum.  Það sé því alrangt að fundarsalir í húsinu sjálfu taki nokkra tugi.  Áætlað sé að salur í viðbyggingu verði aðallega notaður á kvöldin og um helgar, en minna á daginn þegar kaffihúsið verði opið.  Þannig sé líklegt að fjöldi gesta dreifist allvel á dag-, kvöld- og helgaropnunartíma, sem muni leiða til hagstæðrar nýtingar á opinberum bílastæðum.  Líklegt sé að sú starfsemi sem dragi að sér flest fólk og þar með einhverja umferð verði að kvöldi þegar fjölmörg opinber bílastæði, sem annars séu upptekin á dagtíma, losni. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi 25. janúar 2010. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 um að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða atvinnustarfsemi í stað íbúðar.  Þá felur hið kærða leyfi og í sér heimild til niðurrifs bílskúrs á lóðinni.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag en samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 stendur húsið á íbúðarsvæði, nánar tiltekið á miðborgarsvæði, þar sem byggð er þétt, nýtingarhlutfall lóða hátt og götur þröngar. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, gildir sú meginregla að byggingarleyfi verði að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri reglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna þar sem segir að sveitarstjórn geti veitt leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Ákváðu borgaryfirvöld að neyta þessarar undanþáguheimildar í máli því sem hér er til meðferðar og grenndarkynntu því framkomna byggingarleyfisumsókn.  Er það meðal úrlausnarefna málsins að skera úr um hvort skilyrði hafi verið til að beita umræddri undanþáguheimild í málinu.

Við afmörkun undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingin sé óveruleg.

Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulega breytingu verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.  Sé um breytta notkun að ræða, eins og í hinu kærða tilviki, verður og að líta til þeirra áhrifa sem fyrirhuguð starfsemi kann að hafa á umferð, bílastæðaþörf og aðrar breytingar sem starfseminni kunni að fylgja.

Eins og að framan hefur verið rakið heimilar hið kærða byggingarleyfi bæði umtalsverða stækkun hússins að Grundarstíg 10 og að notkun þess verði breytt úr íbúð í blandaða atvinnustarfsemi þar sem heimilt sé að halda mannfagnaði til kl. 23:00 öll kvöld vikunnar.  Má ætla að þessari starfsemi fylgi aukin umferð og umgangur, hávaði og aukið álag á bílastæði fram eftir kvöldum.  Telur úrskurðarnefndin að um svo verulega breytingu sé að tefla að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997. 

Úrskurðarnefndin telur jafnframt að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir því hvernig fullnægja eigi ákvæðum 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um bílastæði.  Í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum er að vísu gerð grein fyrir bílastæðaþörf en hvorki er þar gerð grein fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða né útskýrt hvers vegna ekki þurfi að líta til sætafjölda í húsinu við ákvörðun um fjölda bílastæða.  Þá er ekki heldur vikið að því í hinni kærðu ákvörðun hvort mæta eigi bílastæðakröfu með greiðslu bílastæðagjalds skv. 28. gr. byggingarreglugerðar eða með öðrum hætti.

Loks er engin grein gerð fyrir því hvernig hið umdeilda byggingarleyfi samræmist stefnumarkandi ákvörðunum þróunaráætlunar miðborgar um íbúðarsvæði, samþykktum í borgarráði 10. október 2000, þar sem fram kemur að á íbúðarsvæðum miðborgarsvæðis sé meginmarkmið borgaryfirvalda að vernda og bæta íbúðarbyggð og umhverfi hennar.  Þar skuli og stefnt að því að halda núverandi íbúðarhúsnæði og íbúðarlóðum sem slíkum nema í þeim tilvikum þar sem aðstæður mæli sérstaklega gegn því og að notkun húsnæðis til léttiðnaðar, undir skrifstofur eða ámóta verði ekki heimiluð ef hætta sé á að hún valdi íbúum stöðugu ónæði eða auki umferð verulega. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með málið eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997, auk þess sem hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi fyrir henni hafi verið áfátt.  Verður ákvörðunin því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009, sem staðfest var í borgarráði 6. ágúst 2009, um að veita leyfi til að byggja við og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 í Reykjavík og breyta notkun þess. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson