Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2017 Brekkuhvarf

Árið 2017, föstudaginn 21. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. maí 2017, er barst 26. s.m., kæra M og Þ, Brekkuhvarfi 22, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi sem fól í sér að lóðinni Brekkuhvarfi 20 var skipt upp í tvær lóðir.

Með bréfi, dags. 11. júní 2017, kæra fyrrgreindir aðilar þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 62/2017, sameinað þessu máli þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og kærendur þeir sömu í báðum málunum.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 20. júní 2017.

Málavextir: Hinn 23. febrúar 2016 samþykki bæjarstjórn Kópavogsbæjar breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20 og hinn 26. júlí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Með úrskurði, uppkveðnum 24. nóvember 2016 í máli nr. 34/2016 felldi úrskurðarnefndin úr gildi framangreindar ákvarðanir.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 5. desember 2016 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20, en gildandi deiliskipulag svæðisins er frá árinu 1992. Í breytingunni fólst að lóðinni yrði skipt í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og Brekkuhvarf 20a, og að á lóðinni nr. 20a yrði heimiluð bygging einbýlishúss á einni hæð. Hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,3 og heildarbyggingarmagn 220 m2. Samþykkti nefndin að kynna tillöguna í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísaði henni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 13. desember 2016 var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju hinn 20. mars 2017. Athugasemdir höfðu borist m.a. frá kærendum og var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir, dags. 17. mars 2017. Tillagan var samþykkt með vísan til umsagnar skipulags- og byggingardeildar og henni vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 28. mars s.á. var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist svo gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2017.

Hinn 1. júní 2017 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggingarleyfi fyrir 190,2 m2 einbýlishúsi ásamt bílskúr á einni hæð að Brekkuhvarfi 20a með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að Kópavogsbær hafi kosið að hafa að engu niðurstöður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 24. nóvember 2016. Enn á ný sé samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi er fól í sér lóðarskiptingu og heimild til að reisa allt að tveggja hæða íbúðarhús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a, þrátt fyrir ítrekuð mótmæli frá íbúum aðliggjandi lóða. Því hljóti að vera takmörk sett hvað hægt sé að kalla deiliskipulag. Hér sé greinilega búið að teikna hús á nýrri lóð, Brekkuhvarfi 20a. Verið sé að þrengja húsinu inn á lóðina og teikningin af húsinu kölluð deiliskipulag. Einnig sé látið óátalið að íbúum séu kynntir mismunandi skipulagsuppdrættir með mismunandi byggingarreitum við grenndarkynningu, en með sömu dagsetningu, þ.e. 29. október 2015.

Sú faglega regla, að í öllu skipulagi skuli fyrst og fremst hugsað um almenna hagsmuni og að skipulagsvinna skuli ætíð aðskilin hönnunarvinnu á viðkomandi lóð, virðist hér þverbrotin á íbúum aðliggjandi lóða sem hafi harðlega mótmælt þessum gerningi. Þaðan af síður sé sýnt fram á hvaða almannahagsmunir kalli á þessa breytingu. Með tilvísun til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé heldur ekki hægt að fallast á að hér sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða þar sem margir aðilar eigi hér hlut að máli.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé lóð nr. 20 við Brekkuhvarf skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 20 og 20a, og sé á hinni nýju lóð gert ráð fyrir byggingarreit fyrir einbýlishús á einni hæð. Heildarbyggingarmagn sé 220 m2 og hámarksvegghæð og þakhæð 5 m. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 24. nóvember 2016, hafi samhljóða skipulagsbreyting verið felld úr gildi þar sem talið var að breytingin gæti ekki talist óveruleg og því ekki heimilt að grenndarkynna tillöguna. Í niðurstöðu úrskurðarins hafi hins vegar verið tekið undir þau sjónarmið að hin ógilda deiliskipulagsbreyting hafi verið í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins, nýtingarhlutfall lóðanna eftir breytingu sambærilegt við aðrar lóðar og að fordæmi hafi verið fyrir því að stærri lóðum hafi verið skipt upp í tvær eða fleiri á skipulagssvæðinu. Fyrri skipulagsbreyting hafi því fallið á ágalla við málsmeðferð en ekki vegna efnis hennar. Með þeirri skipulagsbreytingu sem nú sé kærð sé verið að bæta úr þeim ágalla sem hafi verið á fyrri málsmeðferð. Hafi því ekki verið farið með skipulagsbreytinguna sem óverulega, líkt og kærandi haldi fram, heldur hafi málsmeðferð verið í fullu samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bent sé á að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga, og hafi heimild til að gera breytingar á deiliskipulagi ef að hún telji þörf á, sbr. 43. gr. sömu laga. Taldi Kópavogsbær að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að kynna sama uppdrátt enda um samhljóða breytingu að ræða en málsmeðferð tillögunnar sé ekki sú sama. Þá sé skýrt tekið fram í skilmálum þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem nú sé kærð að gert sé ráð fyrir byggingarreit fyrir einbýlishús á einni hæð en ekki á tveimur eins og kærendur haldi fram. Þá sé því mótmælt að annar byggingarreitur hafi verið kynntur, byggður á sama uppdrætti. Sá byggingarreitur sem verið sé að bæta við í skipulag sé sá hinn sami og hafi verið grenndarkynntur í fyrri breytingartillögu.

Fyrirhugað einbýlishús verði með öllu innan hins nýja byggingarreits og verði ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart kærendum. Líkt og að framan greini, sé fyrirhuguð bygging í fullu samræmi við gildandi skipulagsskilmála, t.a.m. hvað varði lágmarksfjarlægðir og nýtingarhlutfall, og þá sé að finna fordæmi fyrir álíka skipulagsbreytingum á svæðinu. Jafnframt sé bent á að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir hærra húsi og meira byggingarmagni á umræddri lóð. Hins vegar hafi verið gerðar breytingar á upphaflegri tillögu til að koma til móts við athugasemdir kærenda, þ.á m hafi verið dregið úr byggingarmagni, húsið lækkað og jafnframt hafi verið gert ráð fyrir breytingum á innra skipulagi.

Hin kærðu byggingaráform hafi verið samþykkt með stoð í umræddri deiliskipulagsbreytingu. Séu þau því í fullu samræmi við gildandi skipulag og áskilnaður um innbyrðis samræmi uppfyllt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi bendir á að lóðin Brekkuhvarf 20 hafi verið 2.344 m2 og hafi verið skipt í tvær lóðir. Ný lóð að Brekkuhvarfi 20a sé 937,7 m2 og rúmi hún vel fallegt u.þ.b. 180 m2 einbýlishús á einni hæð. Sé það í samræmi við heildaryfirbragð hverfisins sem hafi tekið breytingum frá því að það hafi verið deiliskipulagt árið 1992 í þá veru að stórum lóðum hafi verið skipt upp, ný hús risið og íbúum fjölgað á svæðinu. Þá muni nýbyggingin rúmast að öllu leyti innan upphaflegs byggingarreits Brekkuhvarfs 20. Verulega hafi verið komið til móts við athugasemdir frá lóðarhöfum Brekkuhvarfs 22 með því að breyta og draga verulega úr stærð byggingarreits og hæð húss.

Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í henni felst að lóð Brekkuhvarfs 20 er skipt í tvær lóðir, nr. 20 og 20a, og á lóð 20a má reisa allt að 220 m2 einbýlishús á einni hæð ásamt bílskúr. Þó svo að í fundargerðum sveitarfélagsins komi fram að um sé að ræða einbýlishús á einni til tveimur hæðum, kemur skýrt fram í hinum breyttu skilmálum skipulagsins á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti að húsið verði á einni hæð.

Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir hina kærðu breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Þá er fyrirhugað einbýlishús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a einnig í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins sem samþykktir voru árið 1992. Heimilað hús á lóðinni er jafnframt staðsett innan þess byggingarreits sem fyrir var áður en ráðist var í umrædda deiliskipulagsbreytingu. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting, að því er varðar umfang byggingar, ekki í sér frávik frá gildandi deiliskipulagi svæðisins.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og að ekki liggja fyrir þeir ágallar á málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar sem raskað geta gildi hennar, verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, svo sem því var breytt með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvörðun, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Brekkuhvarfs 20.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 1. júní 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir Brekkuhvarf 20a.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson