Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2005 Ytri-Hólmur

Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 54/2005, kæra á synjun hreppsnefndar Innri- Akraneshrepps frá 9. júní 2005 um að taka fyrir að nýju ósk um að setja inn í aðalskipulagstillögu fyrirhugaða 18 húsa byggð í landi Ytra-Hólms I, Innri-Akraneshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júlí 2005, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir K, Ytra-Hólmi I, Hvalfjarðarsveit, áður Innri-Akraneshreppi, synjun hreppsnefndar Innri- Akraneshrepps frá 9. júní 2005 um að taka fyrir að nýju ósk um að setja inn í aðalskipulagstillögu fyrirhugaða 18 húsa byggð í landi Ytra-Hólms I, Innri-Akraneshreppi. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 27. apríl 2003, sendu eigendur jarðarinnar Ytra-Hólms I hreppsnefnd Innri-Akraneshrepps erindi þar sem m.a. var óskað eftir áliti sveitarstjórnar á skipulagningu fjögurra hektara svæðis í landi nefndrar jarðar undir 18 húsa íbúðarbyggð.  Var erindið útlistað nánar í bréfi til hreppsnefndar, dags. 11. maí sama ár.  Hreppsnefndin tilkynnti með bréfi, dags. 20. maí 2003, að samþykkt hefði verið að taka erindið til skoðunar við gerð aðalskipulagstillögu fyrir hreppinn sem þá var hafin vinna við.  Landeigendum Ytra-Hólms I var hins vegar tilkynnt í bréfi, dags. 24. september 2003, að fyrirhuguð 18 húsa íbúðarbyggð félli ekki að hugmyndum hreppsnefndar um þróun íbúðarbyggðar í hreppnum og því ekki fallist á að auglýsa tillögu að aðalskipulagi þar sem gert væri ráð fyrir umsóttri byggð.  Eigendur jarðarinnar lýstu vonbrigðum sínum með afstöðu hreppsnefndar til málsins og gerðu ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum og athugasemdum í bréfi til hennar, dags. 21. október 2003.  Þar var farið fram á að sveitarstjórn endurskoðaði afstöðu sína og tæki upp í aðalskipulagstillögu hugmyndir um íbúðarsvæði austast í landi Ytra-Hólms I.  Með bréfi til hreppsnefndar Innri-Akraneshrepps, dags. 24. maí 2005, fór kærandi máls þessa síðan fram á með skírskotun til erindisins frá 27. apríl 2003 að hugmyndir um fyrrgreinda íbúðarbyggð yrðu teknar fyrir að nýju og settar á aðalskipulagstillögu.  Erindið var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar hinn 9. júní 2005 þar sem fyrri afstaða hennar var áréttuð og vísað til þess að engar forsendur hafi breyst frá því að fyrri ákvörðun hafi verið tekin.

Kærandi vísar til þess að með hinni kærðu afgreiðslu sé atvinnufrelsi hennar og réttur til frjálsrar nýtingar á eign hennar skert.  Ákvörðunin sé ekki í samræmi við stjórnsýslulög og gangi gegn markmiðum skipulags- og byggingarlaga.  Hún styðjist ekki við almannahagsmuni og sé í raun órökstudd.  Farið sé fram á að hreppsnefnd breyti svæðisskipulagi eða felli inn á aðalskipulagstillögu greinda íbúðarbyggð í landi Ytra-Hólms I og auglýsi deiliskipulag fyrir þá byggð.

Hreppsnefnd bendir á að umbeðin íbúðabyggð hafi verið í andstöðu við þágildandi svæðisskipulag og hafi hreppsnefnd, sem handhafi skipulagsvalds, ekki talið rétt að taka umrædda spildu úr landbúnaðarnotum.  Engin fullmótuð deiliskipulagstillaga hafi verið lögð fram  til kynningar vegna umdeildra hugmynda að íbúðarbyggð.  Kröfugerð kæranda sé misvísandi og ekki verði talið að úrskurðarnefndin geti tekið afstöðu til krafna um að hreppsnefnd samþykki deiliskipulag fyrir umrædda byggð, sem yrði í andstöðu við svæðisskipulag og aðalskipulagstillögu hreppsins.  Jafnframt  verði að telja að báðir eigendur umræddrar jarðar, þyrftu að standa að kærumáli því sem hér sé til meðferðar.

Kærandi og hreppsnefnd Innri-Akraneshrepps hafa fært fram frekari rök og gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Innri-Akraneshreppur hefur sameinast þremur öðrum sveitarfélögum og tók sameiningin gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga árið 2006.  Hið sameinaða sveitarfélag nefndist Hvalfjarðarsveit.  Svæðisskipulag sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar féll úr gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 939/2005 en gildistökuauglýsing vegna Aðalskipulags Innri-Akraneshrepps 2002-2014 birtist hinn 2. júní 2006 í sama riti.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var hafnað beiðni um endurupptöku á erindi kæranda og eiginmanns hennar frá árinu 2003 um að tekin yrði upp í aðalskipulagstillögu Innri-Akraneshrepps ráðagerð um 18 lóðir undir íbúðarhús á svæði í landi jarðarinnar Ytri-Hólms I. 

Samkvæmt 13. og 19. gr. laga nr. 73/1997 staðfestir ráðherra svæðis- og aðalskipulag, eða breytingar á því og taka slíkar skipulagsákvarðanir gildi þegar staðfestingin hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka afstöðu til lögmætis svæðis- og aðalskipulags eða breytinga á þeim áætlunum. 

Umræddar ákvarðanir ráðherra eru lokaákvarðanir æðra stjórnvalds og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum talið að hana bresti vald að stjórnsýslurétti til þess að endurskoða þær.  Hefur þessi túlkun nú fengið stoð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005.

Verður kærumáli þessu af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

                                                   __________________
                                                        Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Þorsteinn Þorsteinsson                                           Aðalheiður Jóhannsdóttir