Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2006 Jöklasel

Ár 2007, þriðjudaginn 18. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 32/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2006, er barst nefndinni sama dag, kæra G og Í, Fjarðarseli 31, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 16. apríl 2006. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir, sem hafnar voru samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, yrðu stöðvaðar.  Með úrskurði uppkveðnum hinn 18. maí 2006 var kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Málsatvik:  Ráðið verður af málsgögnum að snemma árs 2004 hafi komið fram ósk frá eigendum íbúða að Jöklaseli 21-23 um að fá að byggja fjóra bílskúra á landspildu í eigu Reykjavíkurborgar norðaustan við lóð umræddra húsa.  Var erindið tekið til athugunar hjá embætti skipulagsfulltrúa og hlaut jákvæðar undirtektir.  Var því beint til umsækjenda að láta vinna tillögu að breyttu skipulagi svæðisins þar sem gert væri ráð fyrir byggingu umræddra skúra.  Létu umsækjendur vinna tillögu að breyttu skipulagi og var samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 8. júní 2005 að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Jöklaseli 1-19 (oddatölur). 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju í skipulagsráði og tillagan samþykkt á fundi ráðsins hinn 20. júlí 2005, með vísan til 12. gr. samþykkta fyrir skipulagsráð, en engar athugasemdir höfðu borist við tillöguna.  Var tillagan send Skipulagsstofnun til afgreiðslu með bréfi, dags. 22. júlí 2005.  Með bréfi, dags. 28. júlí 2005, lýsti Skipulagsstofnun þeirri afstöðu sinni að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og var sú auglýsing birt hinn 17. ágúst 2005. 

Hinn 16. ágúst 2005 sóttu húsfélögin að Jöklaseli 21 og 23 um byggingarleyfi fyrir fjórum bílskúrum í samræmi við hið breytta skipulag.  Endanlegir uppdrættir, dags. 3. febrúar 2006, voru samþykktir af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 14. febrúar s.á. og var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarráðs hinn 16. sama mánaðar. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að bygging bílskúra suðaustan við eign þeirra að Fjarðarseli 31 muni skerða útsýni frá eigninni og skyggja verulega á sól í garði.  Þarna hafi áður verði grænt svæði samkvæmt deiliskipulagi sem í gildi hafi verið allt frá árinu 1978.  Engin grenndarkynning hafi farið fram gagnvart hagsmunaaðilum við Fjarðarsel og hafi því ekki verið farið að lögum við undirbúning málsins.  Þá sé stærð og hæð fyrirhugaðra bílskúra meiri en eðlilegt geti talist og bent sé á að byggingarfulltrúi hafi gert athugasemd vegna þessa.  Verulega hafi skort á að rök byggingarleyfishafa, sem færð hafi verið fram vegna framkominna athugasemda byggingarfulltrúa, hafi verið fullnægjandi og ekki hafi verið tekið tillit til næsta umhverfis.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld hafa lagt fram gögn í máli þessu og vísa til þeirra máli sínu til stuðnings en ekki hefur verið lögð fram sérstök greinagerð af þeirra hálfu í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var gerð breyting á deiliskipulagi umrædds svæðis haustið 2005 þar sem gert var ráð fyrir byggingu bílskúra þeirra sem um er deilt í málinu.  Var auglýsing um skipulagsbreytinguna birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. ágúst 2005 og verður að líta svo á að hún teljist almenningi kunn frá þeim tíma.  Skipulagsákvörðun þessi var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar og hefur henni ekki verið hnekkt.  Er hún því bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag.  Verða íbúar skipulagssvæðis að sætta sig við framkvæmdir sem stoð eiga í gildandi skipulagi, en geta eftir atvikum átt bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi gildistaka skipulagsins valdið þeim tjóni. 

Með vísan til þess sem að ofan greinir er ekki fallist á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja steinsteypta bílskúra fyrir fjóra bíla norðaustanvert við lóð nr. 21-23 við Jöklasel í Reykjavík verði felld úr gildi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
   Þorsteinn Þorsteinsson                                       Aðalheiður Jóhannsdóttir