Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2011 Sóltún

Ár 2011, mánudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. júlí 2011, er barst nefndinni 14. s.m., kæra Á og B, f.h. stjórna húsfélaga að Sóltúni 5, 7, 8-12, 11-13, 14-18, og 28, Mánatúni 2, 4 og 6, og Borgartúni 30 A og B, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011 að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var sett fram krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. júní 2011 var tekin fyrir umsókn framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar þar sem sótt var um leyfi til að koma fyrir færanlegum kennslustofum að Sóltúni 6 í Reykjavík, sem stóðu áður að Hraunbergi 12, og á lóðum Sæmundarskóla, Borgaskóla og Rimaskóla.  Var umsóknin samþykkt með áskilnaði um lokaúttekt og samþykki heilbrigðiseftirlits.  Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 30. júní 2011.  Byggingarleyfi var síðan gefið út hinn 6. júlí s.á. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við gildandi skipulag umrædds svæðis.  Gildandi deiliskipulag kveði á um að á lóðinni Sóltúni 6 megi byggja tveggja hæða fræðslustofnun en hið kærða byggingarleyfi heimili flutning færanlegra kennslustofa á lóðina og ekki verði séð að um bráðabirgðaleyfi sé að ræða.  Engin grenndarkynning hafi farið fram vegna þessara breyttu framkvæmda, svo sem kveðið sé á um í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Íbúar hafi um árabil verið í viðræðum við borgaryfirvöld um að lóðin yrði nýtt undir útivistarsvæði sem ekki sé þar vanþörf á, en ekkert knýi á um að setja þar skóla í ljósi þess að íbúar hverfisins séu að stærstum hluta eldri borgarar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að kröfu kærenda um ógildingu samþykktar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað.  Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Ármannsreits sem taki m.a. til greindrar lóðar við Sóltún.  Með breytingu á því deiliskipulagi sem samþykkt var í borgarráði 3. febrúar 2005 og tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á., hafi verið heimilað að byggja fræðslustofnun á tveimur hæðum, allt að 3.320 m², á lóðinni nr. 6 við Sóltún.  Umræddar kennslustofur séu samtals um 527 m² og því vel innan ramma gildandi deiliskipulags.  Séu því ekki rök til að verða við ógildingarkröfu kærenda. 

Niðurstaða:  Með breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits frá árinu 2005 var heimiluð bygging 3.320 m² fræðslustofnunar á allt að tveimur hæðum að Sóltúni 6.  Að minnsta kosti helmingur bílastæða skyldi vera neðanjarðar en reikna skyldi með einu bílastæði fyrir hverja 50 m² húsnæðis, 33 stæði neðanjarðar og 33 stæði ofanjarðar.  Deiliskipulagi þessu hefur ekki verið hnekkt og verður það lagt til grundvallar í máli þessu. 

Umdeilt byggingarleyfi heimilar að settar verði einnar hæðar færanlegar kennslustofur úr timbri fyrir leik- og grunnskóla á nefnda lóð, samtals 527,4 m² að stærð.  Á samþykktum aðaluppdrætti kemur fram að á lóðinni verði 18 bílastæði. 

Notkun heimilaðra bygginga er í samræmi við gildandi deiliskipulag og flatarmál þeirra og stærð rúmast innan skipulagsskilmála.  Þá liggur ekki annað fyrir en að byggingarnar séu innan marka byggingarreits lóðarinnar og fjöldi bílastæða uppfylli kröfur skipulagsins.  Ekki skiptir hér máli þótt um sé að ræða byggingar sem fluttar séu á umrædda lóð, enda hefur í framkvæmd ekki verið gerð krafa um sérstakar heimildir í skipulagi fyrir slík hús að því tilskyldu að byggingarnar falli að skilmálum gildandi skipulags.  Í byggingarleyfum sem heimila flutning húsa eru gerðar kröfur um fullnægjandi frágang og umbúnað eins og um hús sem reist eru á lóð.  Var því ekki þörf á breytingu skipulagsins með almennri auglýsingu eða grenndarkynningu skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en hið kærða byggingarleyfi var veitt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hins kærða leyfis, verður kröfu um ógildingu þess hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011, sem borgarráð staðfesti hinn 30. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________                   ________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson