Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:
Mál nr. 52/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Hrísateigs 15 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir einn eigenda Hrísateigs 15, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn hans um samþykkt byggingaráforma að Hrísateig 15. Er þess krafist að afgreiðslu umsóknarinnar verði lokið.
Málsatvik og rök: Hinn 20. september 2021 sóttu eigendur Hrísateigs 15 um leyfi til breytinga á húsinu sem fólust í áformum um að stækka stofur allra íbúða til suðurs, lengja svalir á 1. og 2. hæð, einangra húsið að utan og klæða það með bárujárni. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 28. september og 12. október s.á. þar sem henni var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa Umsóknin var enn á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 15. desember s.á. þar sem afgreiðslu hennar var frestað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 10. desember 2021. Í umsögninni kom m.a. fram að um væri að ræða mikla breytingu þar sem hutföll og ásýnd hússins breytist mikið og að umsókn kæranda væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Byggingarleyfisumsókninni var síðan synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. júní 2022 með vísan til greindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.
Kærandi bendir á að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis sé á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010.
Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr álitaefninu.
Niðurstaða: Í máli þessu hefur kærandi krafist þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík ljúki afgreiðslu umsóknar hans um byggingarleyfi „án frekari frestunar og tafa.“ Fyrir liggur að umsókninni var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. júní 2022.
Í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimild til að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er kæruheimild þessi undantekning frá almennu ákvæði 2. mgr. 26. gr. laganna um að einungis þær ákvarðanir sem binda endi á mál verði bornar undir kærustjórnvald. Verður að telja að tilgangur kæruheimildarinnar sé að gera málsaðila kleift að knýja fram málalyktir í máli sínu, sem er til meðferðar hjá stjórnvaldi, dragist afgreiðsla þess óhæfilega. Þar sem fyrir liggur að kröfu kæranda um að afgreiðslu umsóknar hans verði lokið hefur verið fullnægt á hann ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að knýja fram afgreiðslu málsins og fá úr því skorið hvort dráttur sá sem varð á afgreiðslu málsins hafi verið óhæfilegur eða hvort málefnalegar ástæður hafi búið að baki þeim drætti. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Rétt þykir að benda á að framangreind ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá málsmeðferð erindis kæranda í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.