Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2013 Laugarnesvegur

Árið 2014, fimmtudaginn 14. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 51/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2013, sem móttekið var á skrifstofu nefndarinnar 27. s.m., kæra S og I, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta áður samþykktum teikningum vegna hússins á lóð nr. 47 við Laugarnesveg, Reykjavík. 

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Reykjavíkurborg 20. ágúst 2013 og 11. ágúst 2014.

Málsatvik og rök: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 47 og lögðu þau hinn 26. febrúar 2013 fram umsókn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Með umsókninni var óskað eftir að breyta áður samþykktum teikningum fyrir nefnda fasteign en greindar teikningar voru samþykktar af byggingarfulltrúa 23. október 2012. Hinar umsóttu breytingar fólu í sér að stækka húsið með því að bæta við kaldri geymslu undir anddyri, innrétta gufubað og sturtu í hluta bílageymslu, breyta glugga og hurð, setja vængjahurð á bílageymslu og breyta stiga í húsinu úr steyptum í timburstiga. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilaði neikvæðri umsögn 2. apríl 2013 þar sem breytingarnar samrýmdust ekki deiliskipulagi. Vísað var til þess að nýtingarhlutfall yrði meira en deiliskipulag gerði ráð fyrir og þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag að breyta hluta bílskúrs í gufubað. Var umsókn kærenda tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. s.m. og synjað með vísan til greindrar umsagnar. Tilkynning um synjun umsóknarinnar var send kærendum með bréfi, dags. 11. apríl 2013.

Kærendur vísa til þess að búið sé að gefa leyfi til þess að bæta einni hæð ofan á húsið og að með þeirri stækkun fari nýtingarhlutfall úr 0,43 í 0,64. Stækkun húss með kaldri geymslu undir útitröppum og anddyri myndi auka heildarnýtingu í 0,67. Umþrætt geymsla stækki ekki grunnflöt hússins á lóðinni heldur sé aðeins verið að fylla upp í rými. Breytingarnar séu óverulegar.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í skilmálum deiliskipulagsins, fyrir það svæði sem umrædd fasteign er staðsett á, sé heimilt að byggja eina hæð ofan á einnar hæðar hús. Einnig komi fram í deiliskipulaginu að viðmiðunarnýtingarhlutfall á einbýlishúsum í hverfinu sé 0,2-0,4. Þó sé heimilt að víkja frá viðmiðunarnýtingar-hlutfalli vegna bílskúra, hækkana húsa, þakhækkana, kvista og viðbygginga sem auki brúttóflatarmál fasteignar. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsókn um hækkun hússins við Laugarnesveg 47 um eina hæð hinn 23. október 2012 enda hafi slíkt verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Við það hafi nýtingarhlutfall aukist úr 0,43 í 0,64 og sé heildarnýtingarhlutfall því komið vel yfir það hlutfall sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi. Ekki sé fallist á þau rök kærenda að verið sé að fylla upp í rými. Umrædd stækkun myndi auka brúttóflatarmál byggingarinnar en hins vegar sé ljóst að engin aukning myndi verða á nýtanlegu brúttóflatarmáli fasteignarinnar ef fyllt yrði upp í rýmið. Sé því litið svo á að lóðin sé nú þegar fullnýtt og að teknu tilliti til þróunar á svæðinu séu ekki forsendur fyrir því að leyfa hærra nýtingarhlutfall.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Umsókn kæranda var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 9. apríl 2013 og tilkynnt kærendum með bréfi dags. 11. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 27. maí s.á. eða rúmum einum og hálfum mánuði eftir að tilkynnt var um ákvörðun byggingarfulltrúa. Kæran er því of seint fram komin og verður henni vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir