Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2010 Bjargartangi

Árið 2012, miðvikudaginn 4. apríl kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 8. júní 2005 um að heimila breytingar og breytta notkun rýmis á neðri hæð undir bílskúr á lóðinni nr. 10 við Bjargartanga, Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júlí 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Katrín Theodórsdóttir hdl., f.h. B og L, eigenda efri hæðar Bjargartanga 10, Mosfellsbæ, þá samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 8. júní 2005 að heimila breytingar og breytta notkun rýmis á neðri hæð undir bílskúr á lóðinni nr. 10 við Bjargartanga.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að hún taki aðeins til þess sem þegar hafi verið framkvæmt samkvæmt úttekt, dags. 31. maí 2007, og að samþykkja þurfi nýtt byggingarleyfi vegna frekari framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 27. maí 2005 var samþykkt umsókn þáverandi eigenda neðri hæðar hússins að Bjargartanga 10 um leyfi til að „…fá að setja bílskúrshurð á norðurhlið bílskúrs, Álfatangamegin, setja upp burðarbita inni í rými, fjarlægja súlu og klappir og gera fullgildan bílskúr úr því rými sem nú er skráð sem geymsla“.  Veittu kærendur samþykki sitt fyrir framkvæmdinni með bréfi, dags. 18. apríl 2005.  Staðfesti bæjarstjórn téða afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 8. júní s.á. 

Með bréfi, dags. 6. júlí 2005, fólu kærendur Húseigendafélaginu að rita leyfishöfum bréf vegna samþykktra teikninga sem þeir töldu ólögmætar.  Munu þær teikningar m.a. hafa sýnt frágang á bílskúr og nýtt fyrirkomulag á nýtingu lóðarinnar að Bjargartanga 10.  Var þess m.a. krafist í bréfinu að ákvæði um sérafnotarétt innan lóðar yrði afmáð af teikningum og nýjar teikningar yrðu lagðar fyrir byggingarfulltrúa.  Var nýjum og breyttum teikningum, sem sátt var um með íbúum hússins,  skilað inn og bókað um málið á fundi byggingarfulltrúa hinn 12. september 2005. 

Úttektir á framkvæmdum fóru fram 14. nóvember 2006 og 31. maí 2007 og sagði  m.a. í athugasemdum við síðari úttektina: „Stöðuúttekt á bílskúr, súla í miðju rými brotin niður. Stálbiti undir miðri plötu milli veggja. Stálbiti í lofti á (götu)vegg.“  Á árinu 2009 munu kærendur hafi óskað eftir að fá upplýsingar „um þau hönnunargögn sem lágu til grundvallar útgáfu byggingarleyfis“ og voru þeim af því tilefni afhentar járnbitateikningar.  Í kjölfar þessa fór þáverandi lögmaður kærenda fram á það með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 6. febrúar 2009, að kærendur fengju m.a. afrit þeirra hönnunargagna sem lágu fyrir þegar umrætt byggingarleyfi var veitt“, afrit  byggingarlýsingar sem fylgdi umsókn um byggingarleyfi og yfirlit yfir úttektir byggingarfulltrúa.  Jafnframt var þess óskað að sérstaklega yrði upplýst hvort búið væri að taka út frágang á styrkingu gólfplötu í bílskúr kærenda og hvort hún væri í samræmi við nýjustu samþykktar teikningar.  Einnig var þess farið á leit að upplýst yrði hvers vegna umrætt byggingarleyfi hefði verið veitt ef fullnægjandi gögn hefðu ekki legið fyrir.  Var enn fremur tilgreint að kærendur teldu sig hafa réttmæta ástæðu til að óttast að umrædd framkvæmd gæti verið ótraust og ekki grundvölluð á fullnægjandi hönnunargögnum.  Væru forsendur fyrir samþykki þeirra brostnar og það hefði í raun aldrei verið gilt ef í ljós kæmi að lögum hefði ekki verið fylgt við veitingu „framkvæmdaleyfis“.  Þá var bent á að nú væru senn liðin fjögur ár frá útgáfu byggingarleyfisins og framkvæmdin væri enn skammt á veg komin. 

Í svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 17. febrúar 2009, kom m.a. fram að í september 2005 hefði verið samþykkt byggingarleyfi fyrir breytingum á neðri hæð umrædds bílskúrs.  Einnig kom fram að í nóvember 2006 hefði farið fram úttekt á styrkingu loftplötunnar í samræmi við samþykkta uppdrætti, en að engir uppdrættir, hönnunargögn né beiðnir um úttekt á öðrum verkþáttum hefðu borist embætti byggingarfulltrúa.  Með bréfi þáverandi lögmanns kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 20. apríl 2009, voru gerðar ýmsar athugasemdir við fyrrnefnt svarbréf.  Kom þar jafnframt fram sú afstaða kærenda að þar sem aðeins lægju fyrir hönnunargögn er lytu að því að fjarlægja súlu í bílskúr og saga op á vegg yrði að telja að byggingarleyfið heimilaði aðeins þá framkvæmd.  Var farið fram á að byggingarfulltrúi staðfesti þennan skilning kærenda.  Þá var áréttað að fjögur ár væru liðin frá því að leyfið hefði verið veitt og að framkvæmdir hefðu nú stöðvast um lengri tíma og að í ljósi þess léki vafi á að veiting byggingarleyfis hefði verið lögmæt í upphafi.  Var þess krafist að byggingarfulltrúi tæki afstöðu til þess hvort rétt væri að fella byggingarleyfið úr gildi, og eftir atvikum að leggja það til við sveitarstjórn, ella staðfesta að nýtt leyfi þyrfti til frekari framkvæmda og nýtt samþykki sameigenda. 

Með bréfi Húseigendafélagsins, f.h. kærenda, til núverandi eigenda neðri hæðar hússins að Bjargartanga 10, dags. 26. maí 2010, var ferill málsins rakinn.  Einnig kom m.a. fram að kærendur teldu nauðsyn á að gerð yrði áætlun um hvernig hagnýtingu rýmisins skyldi háttað svo öruggt væri og að útbúin yrðu vönduð hönnunargögn og verklýsing.  Ekkert svar mun hafa borist við bréfi þessu.  Með bréfi, dags. 22. júní 2010, svaraði byggingarfulltrúi fyrrgreindu bréfi lögmanns kærenda frá 20. apríl 2009.  Kom þar fram að hvorki væri fallist á að „veitt hafi verið ólögmætt byggingar- og framkvæmdaleyfi né heldur að byggingarleyfið verði fellt úr gildi“.  Þá sagði þar jafnframt að áframhaldandi framkvæmdir við verkið væru háðar því að nánari hönnunargögn yrðu lögð fram og að iðnmeistarar staðfestu ábyrgð sína á verkinu. 

Kærendur halda því fram að með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. júní 2010, hafi þeim fyrst orðið kunnugt um atriði þau sem þeir telji að leiði til ógildingar á byggingarleyfinu.  Þar hafi jafnframt birst sú afstaða bæjaryfirvalda að hvorki væri litið svo á að leyfið hafi verið ógilt frá upphafi né að fyrir hendi væru þær ástæður sem leiða ættu til ógildingar þess.  Sé á því byggt að hin kærða ákvörðun hafi verið haldin form- og efnisannmörkum.  Ennfremur sé bent á að skilja megi bréf byggingarfulltrúa frá 22. júní 2010 svo að einungis hafi verið gefið leyfi fyrir takmörkuðum verkþáttum. 

Af hálfu Mosfellsbæjar er krafist frávísunar málsins þar sem kæra sé of seint fram komin samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfu er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað og áskilnaður gerður um frekari reifun málsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er hér eiga við, er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Fram kemur í gögnum málsins að kærendur gerðu athugasemd við samþykktar teikningar á árinu 2005 og í bréfi  þáverandi lögmanns kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 6. febrúar 2009, er komið á framfæri athugasemdum vegna byggingarleyfis sem staðfest hafi verið í júní 2005.  Verður því lagt til grundvallar að kærendum hafi verið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um efni hinnar kærðu ákvörðunar þegar á árinu 2005 og að þeir hafi frá þeim tíma getað metað lögmæti hennar, eða í allra síðasta lagi í febrúar 2009, hvað sem leið svörum byggingaryfirvalda til þeirra. 

Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 22. júlí 2010 og var kærufrestur þá liðinn. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Samkvæmt 2. mgr. tilvitnaðrar 28. gr. skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila.  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var meira en ár liðið frá því að kærendum mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun og verður það lagt að jöfnu við það að meira en ár hafi verið liðið frá því ákvörðun hafi verið kynnt aðila.  Ber því, með hliðsjón af 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Þeir liðir í málatilbúnaði kærenda, er lúta að því að framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við útgefið byggingarleyfi og að skort hafi á lögboðið eftirlit með framkvæmd verks, koma ekki til álita í málinu, enda liggja ekki fyrir neinar kæranlegar ákvarðanir er þá liði varða.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                ________________________
  Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson