Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2016 Flatahraun

Árið 2016, miðvikudaginn 24. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 48/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. maí 2016, er framsent var af innanríkisráðuneytinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með bréfi, dags. 9. s.m., kærir G, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að leggja á gjöld vegna stöðuleyfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 6. júlí og 23. ágúst 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 6. apríl 2016, tilkynnti Hafnarfjarðarbær hlutaðeigandi þá ákvörðun bæjarstjórnar frá 20. janúar s.á. að tekið yrði upp gjald fyrir stöðuleyfi vegna gáma, skv. 2.6.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað nr. 1244/2015 er birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt bréfinu skyldi ársgjald vegna stöðuleyfis fyrir 20 feta gám eða minna vera kr. 31.780 og fyrir 40 feta gám eða minna kr. 63.559.

Kærandi kveður gjald það sem Hafnarfjarðarbær hafi ákveðið að innheimta vegna stöðuleyfa vera skatt þar sem engin þjónusta komi fyrir. Þar af leiðandi sé um ólögmæta skattheimtu að ræða. Hann sé með 20 feta gám sem sé 15 m² smáhýsi staðsett á lóð en um sé að ræða hjóla- og verkfærageymslu sem undanþegin sé byggingarleyfi.

Hafnarfjarðarbær kveður heimild til töku gjalds fyrir stöðuleyfi vera í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé óheimilt að láta hjólhýsi, gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum sem ætlað er til flutnings og stór samkomutjöld standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra hluta. Aftur á móti sé unnt að sækja um stöðuleyfi fyrir ofangreinda lausafjármuni sé ætlunin að þeir standi lengur utan slíkra geymslustaða.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu snýst um um lögmæti gjalds fyrir stöðuleyfi, sbr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1244/2015 fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað, er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu mun kærandi ekki hafa sótt um slíkt stöðuleyfi og hefur hann því ekki verið krafinn um hið kærða gjald.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Eins og áður hefur verið rakið liggur engin ákvörðun fyrir í máli þessu um álagningu gjalda á kæranda á grundvelli hinnar umdeildu gjaldskrár. Verður því að telja að kæran beinist að lögmæti hennar. Samkvæmt 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. fyrir útgáfu stöðuleyfa. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Slík gjaldskrá felur í sér heimild til innheimtu gjalda samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum sem þar koma fram. Þótt gjaldskráin geti haft verulega þýðingu fyrir þá aðila er þar falla undir, verður ekki talið að setning hennar ein og sér skapi almennt þá sérstöku lögvörðu hagsmuni að það veiti einstökum aðilum, sem mögulega verður gert að greiða gjöld samkvæmt henni, stöðu aðila máls.

Verður  með vísan til alls þess sem að framan er rakið ekki talið að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir