Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2004 Stóri-Dalur

Ár 2004, fimmtudaginn 9. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2004, kæra eiganda sumarhúss í landi Stóra-Dals Rangárþingi eystra á álagningu skipulagsgjalds vegna endurbyggingar sumarhússins.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 15. september 2004, framsendi Fasteignamat ríkisins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála beiðni K, Illugagötu 9, Vestmannaeyjum, um breytingu á álögðu skipulagsgjaldi vegna endurbyggingar sumarhúss í landi Stóra-Dals Rangárþingi eystra (áður Vestur-Eyjafjallahreppi).  Gerir kærandi þá kröfu að nefnt skipulagsgjald verði fellt niður.

Málavextir:  Kærandi er eigandi sumarhúss í landi jarðarinnar Stóra-Dals, Rangárþingi eystra, sem reist var á árinu 2001 og virt til brunabóta hinn 31. desember 2002.  Að sögn kæranda var það sumarhús byggt í kjölfar þess að sumarhús á sama stað í eigu hans, frá árinu 1984, hafði brunnið ári áður.  Var kæranda sendur reikningur með gjalddaga 1. september 2004 að fjárhæð kr. 33.969 vegna álagðs skipulagsgjalds vegna hins nýja sumarhúss.  Sendi kærandi beiðni, dags. 31. ágúst 2004, til Fasteignamats ríkisins um breytingu á álagningu gjaldsins sem framsent var úrskurðarnefndinni eins og að framan greinir.

Málsrök:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að hann hafi átt sumarhús á umræddri landspildu frá árinu 1984 og greitt öll tilskilin gjöld af því húsi.  Sumarhúsið hafi eyðilagst í bruna á árinu 2000 og það verið endurbyggt ári síðar á sama stað sem ekki sé á skipulögðu svæði.  Vísað er til þess að fyrir hendi sé undanþága frá skipulagsgjaldi í þeim tilvikum er hús séu reist í kjölfar eyðileggingar af völdum snjóflóða og skriða o.fl. og telur kærandi tilvik það sem hér um ræðir öldungis sambærilegt.

Innheimta gjaldsins af hálfu innheimtumanns ríkissjóðs styðst við 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæði reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald sem getið er á bakhlið innheimtuseðils gjaldsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald í eitt skipti af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Er gjaldi þessu ætlað að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana skv. 1. mgr. ákvæðisins. 

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að tiltekin mannvirki, sem ekki séu háð byggingarleyfi, skuli undanþegin greiðslu skipulagsgjalds.  Þá verður ráðið af 2. gr. reglugerðarinnar að sé hús flutt á nýja lóð sé það undanþegið skipulagsgjaldi hækki virðingarverð þess ekki sem nemur 20% eða meira á hinum nýja stað.  Samkvæmt ákvæðinu gildir sama regla ef heimilað er að byggja ný hús eða endurbæta hús ef á þau hafa fallið snjóflóð eða skriður.  Í skipulags- og byggingarlögum er ekki að finna heimild til undanþágu á greiðslu skipulagsgjalds og í nefndri reglugerð eru ekki aðrar undanþágur en að framan greinir.

Fyrir liggur að umdeilt skipulagsgjald var lagt á nýbyggingu sumarhúss kæranda á grundvelli brunabótavirðingar hússins.  Þótt undanfari nýbyggingarinnar hafi verið sá að sumarhús kæranda, sem áður stóð á sömu landspildu, hafi eyðilagst í bruna, verður nýbyggingin ekki talin undanþegin skipulagsgjaldi samkvæmt greindum ákvæðum.  Þykir ekki tækt að beita hinni þröngu undanþáguheimild í 2. gr. reglugerðar um skipulagsgjald í tilviki kæranda með rýmkandi skýringu, enda um að ræða sértæka heimild sem bundin er við endurreisn húsa eða endurbætur á snjóflóða- og skriðusvæðum.  Verður krafa kæranda um niðurfellingu umdeilds skipulagsgjalds því ekki tekin til greina.

Engar athugasemdir hafa komið fram í máli þessu um gjaldstofn eða fjárhæð hins umdeilda gjalds og verður því lagt til grundvallar að álagning þess sé tölulega rétt.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um niðurfellingu skipulagsgjalds vegna sumarhúss í landi jarðarinnar Stóra-Dals, Rangárþingi eystra að fjárhæð kr. 33.969,- samkvæmt innheimtuseðli sýslumannsins á Hvolsvelli, með gjalddaga 1. september 2004, er hafnað.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir