Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2004 Laugarnes

Ár 2004, fimmtudaginn 9. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2004, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. ágúst 2004, um breytingu á deiliskipulagi á hluta Teigahverfis.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 22. september 2004, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra S, Kirkjuteigi 23 og Ú, Kirkjuteigi 27, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. ágúst 2004 um breytingu á deiliskipulagi á hluta Teigahverfis, nánar tiltekið á lóð Laugarnesskóla, Kirkjuteigi 24.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 17. ágúst 2004.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir Teigahverfi í Reykjavík sem tók m.a. til skipulags lóðar Laugarnesskóla.  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 19. desember 2003 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulaginu sem tók til lóðar skólans.  Var afgreiðslu frestað en bókað að tillagan skyldi kynnt umhverfis- og tæknisviði.  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 16. apríl 2004 var tillögunni vísað til skipulags- og byggingarnefndar.  Á fundi nefndarinnar hinn 21. apríl 2004 var samþykkt að auglýsa framkomna tillögu að breyttu deiliskipulagi á hluta Teigahverfis, nánar tiltekið að Kirkjuteigi 24, lóð Laugarnesskóla.  Var tillagan auglýst frá 5. maí til 16. júní 2004 og bárust athugasemdir frá 18 íbúum við Kirkjuteig.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. ágúst 2004 var auglýst tillaga samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi hinn 17. sama mánaðar.  Þeim er settu fram athugasemdir við tillöguna var sent bréf, dags. 17. ágúst 2004, þar sem athugasemdum þeirra var svarað og birtist auglýsing um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. ágúst 2004.

Kærendur eru ósáttir við framangreinda ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar og hafa kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að þeim finnist sem ekki hafi verið tekið tillit til hagsmuna þeirra við breytingu umrædds deiliskipulags.  Sé sérstaklega bent á frágang á lóðarmörkum, lagningu nýrrar gangstéttar og fækkun bifreiðastæða sunnan megin við skólann. 

Samkvæmt skipulaginu verði bifreiðastæðum norðan við skólann en verði fækkað úr 20 í 12.  Fjöldi bifreiðastæða sunnan við Kirkjuteig sé nú um 10 meðfram skólalóðinni en með deiliskipulaginu verði illmögulegt að leggja bifreið þar eftir breytingar.  Í raun verði því bifreiðastæðum við skólann fækkað úr ríflega 30 í 12, sem verða á lóðarmörkum en ekki inni á skólalóðinni sjálfri.  Þetta telja kærendur að gangi gegn hagsmunum þeirra.  Gatan sé rúmgóð og þægileg í umgengni í núverandi ástandi og hafi það verið ein af ástæðum fyrir því að sumir íbúarnir hafi ákveðið að festa kaup á íbúðum við götuna.  Telji kærendur að hin kærða ákvörðun geti valdið því að erfiðara verði að selja fasteignir sökum þrengsla í götunni. 

Þá velti kærendur því og fyrir sér hvers vegna skólatorg sé staðsett norðan við skólann þar sem nóg pláss sé sunnan við hann, í góðu skjóli og á móti sólu.  Þá vakni og spurning hvers vegna ekki þurfi að leggja nýja gangstétt sunnan við skólann, Hofteigsmegin, þar sé inngangur inn á göngustíg að skólanum, inn á milli bifreiðastæðanna. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Talsmaður Reykjavíkurborgar telur að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni enda séu málsástæður og lagarök kærenda óljós og í raun sé verið að lýsa óskum um breytingar á skipulaginu sem ekki sé á verksviði nefndarinnar að ákvarða um. 

Verði ekki fallist á að vísa beri máli þessu frá sé þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda hafi meðferð málsins af hálfu Reykjavíkurborgar verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé bílastæðum á lóð Laugarnesskóla fjölgað verulega.  Um 60 starfsmenn starfi í skólanum og hluti af þeim búi í hverfinu og komi fótgangandi til vinnu.  Með ákvörðuninni eigi allir starfsmenn skólans að geta lagt bifreiðum sínum á skólalóðinni og þurfi því ekki að nota bílastæði í götu norðan Kirkjuteigs, eins stundum hafi kannski verið raunin.  Auk þess sé því oftast þannig farið í borginni að hús séu beggja vegna götu og því helmingi fleiri um hvert bílastæði heldur en í þessu tilfelli.  Ekki verði fallist á að íbúar við Kirkjuteig 21-31 eigi rétt á bílastæðum sunnan Kirkjuteigs.  Aftur á móti væri möguleiki á samnýtingu bílastæða sunnan Kirkjuteigs utan skólatíma.  Þá sé og vísað sé til þess að það sé ótvíræður kostur fyrir öryggi skólabarna og annarra gangandi vegfarenda að hafa gangstétt beggja vegna götu.

Niðurstaða:  Reykjavíkurborg krefst frávísunar vegna vanreifunar málsins.  Á þetta verður ekki fallist.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála starfar á stjórnsýslusviði og ber skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.  Af því leiðir að nefndinni ber að skýra kröfugerð aðila eða leita skýringa á henni ef þurfa þykir.  Telur nefndin að ekki þurfi að skilja kröfugerð kærenda á þann veg að í henni felist krafa um breytingu á hinni kærðu ákvörðun, heldur felist í henni krafa um ógildingu ákvörðunarinnar að því marki sem hún fari í bága við meintan rétt kærenda.  Verður kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun því hafnað.

Af hálfu kærenda er á því byggt að skipulagsbreytingin hafi í för með sér aukin grenndaráhrif og séu þessi áhrif meiri en þeir þurfi að una.  Hvað þetta varðar þá telur úrskurðarnefndin að áhrif breytinganna séu svo óveruleg að þau geti ekki leitt til þess að ógilda beri skipulagið vegna þeirra. 

Ekki verður heldur fallist á að hugsanleg verðrýrnun á eignum kærenda vegna skipulagsbreytingarinnar eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Aftur á móti gæti slík verðrýrnun, ef sönnuð væri, leitt til þess að kærendur ættu rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en um þann bótarétt fjallar úrskurðarnefndin ekki.

Engar aðrar málsástæður hafa komið fram er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfum kærenda um ógildingu hennar því hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 11. ágúst 2004 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi á hluta Teigahverfis. 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
  Þorsteinn Þorsteinsson                                        Ingibjörg Ingvadóttir