Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

92/2014 Kattagjald

Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2014, kæra á ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar um álagningu leyfisgjalds fyrir kött vegna ársins 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir S, ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 1. júní 2014 um álagningu leyfisgjalds fyrir kött kæranda vegna ársins 2014. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 19. september 2014 og 30. apríl og 18. júní 2015.

Málavextir:
Með greiðsluseðli frá Seyðisfjarðarkaupstað, dags. 1. júní 2014, var lagt kattaleyfisgjald að fjárhæð 9.975 krónur á kæranda vegna eins kattar. Með tölvupósti, dags. 2. s.m., kvartaði kærandi til innanríkisráðuneytis yfir álagningu leyfisgjaldsins og var pósturinn framsendur umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sem svaraði kæranda í tölvupósti 20. s.m. Þar var útskýrt að um þjónustugjöld væri að ræða skv. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærandi kvartaði þá skriflega yfir gjöldunum til Seyðisfjarðarkaupstaðar með bréfi, dags. 9. júlí s.á., og var ákveðið á fundi bæjarráðs Seyðisfjarðar 16. s.m. að fela fjármálastjóra að taka saman sundurliðaðar upplýsingar um gjöld og kostnað og senda kæranda. Það var gert með bréfi, dags. 18. s.m.

Í tölvupósti til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 19. júlí 2014, kvaðst kærandi vilja kæra málið til úrskurðarnefndarinnar og eftir ítrekun hans í tölvupósti 14. ágúst s.á., var erindi hans framsent úrskurðarnefndinni. Barst það 18. s.m., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda:
Kærandi kveður afar takmarkaða þjónustu veitta af hálfu Seyðisfjarðarkaupstaðar á móti þeim gjöldum sem bærinn innheimti vegna kattahalds. Enginn eftirlitsmaður sé þar starfandi og hafi ekki verið síðan um haust 2013. Gjaldið þetta sé 9.975 krónur og það eina sem sé innifalið í því sé ein heimsókn til dýralæknis þar sem kötturinn sé ormahreinsaður. Kostnaðurinn við það sé innan við 2.000 krónur og því sé gjaldið allt of hátt miðað við þá þjónustu sem veitt sé.

Málsrök Seyðisfjarðarkaupstaðar: Í greinargerð Seyðisfjarðarkaupstaðar kemur fram að gert hafi verið ráð fyrir jafnvægi á milli kostnaðar og tekna vegna gæludýrahalds árin 2013 og 2014, en nokkur ár þar á undan hafi rekstrarútkoma vegna þessa málaflokks verið mun lakari. Lögð hafi verið áhersla á að draga úr kostnaði og ná ásættanlegri niðurstöðu í rekstri málaflokksins. Ákvarðanir um gjöld hafi verið teknar með það markmið að leiðarljósi. Hjá kaupstaðnum fari áhaldahús með mestan hluta þjónustu við gæludýraeigendur og annist starfsmenn þess eftirlit, handsömun lausra dýra, móttöku tilkynninga, skráningar, hýsingu dýranna í skemmri tíma og eftirlit með þeim á meðan á vörslu standi. Þjónustufulltrúi kaupstaðarins annist samskipti við eigendur dýra og skipuleggi og haldi utan um mál þeim viðkomandi. Bæjarskrifstofa annist útgáfu reikninga og bókhald. Samkvæmt tölulegum upplýsingum úr bókhaldi Seyðisfjarðarkaupstaðar hafi heildarkostnaður vegna kattahalds í kaupstaðnum á árinu 2014 verið 491.044 krónur. Sé um 40 dýr að ræða og því 12.276 krónur vegna hvers dýrs. Kostnaðurinn komi til vegna dýralæknis, umsýslu skrifstofu og áhaldahúss, trygginga, síma dýraeftirlitsmanns, þátttöku í sameiginlegum kostnaði, auglýsingakostnaðar og aukalegrar ormahreinsunar.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar er hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufresti á álagningarseðli og sneri kærandi sér fyrst til innanríkisráðuneytisins, sem framsendi erindið til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Erindið var svo framsent úrskurðarnefndinni, eins og nánar greinir í málavöxtum. Með vísan til þessa verður að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Mál þetta snýst um lögmæti þjónustugjalds fyrir kattahald í Seyðisfjarðarkaupstað. Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum, eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Er m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt nr. 705/2010 um kattahald og gæludýrahald annarra dýra en hunda í Seyðisfjarðarkaupstað, á Fljótsdalshéraði, í Fjarðabyggð og í Vopnafjarðarhreppi,. Samkvæmt 1. gr. samþykktarinnar sætir kattahald í framangreindum sveitarfélögum þeim takmörkunum sem í samþykktinni greinir og í 4. gr. er kveðið á um skráningarskyldu allra katta í þéttbýli.

Samkvæmt 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Skal sveitarfélagið láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Í 12. gr. framangreindrar samþykktar nr. 705/2010 um kattahald o.fl. er viðkomandi sveitarstjórnum veitt heimild til að innheimta skráningar- og eftirlitsgjöld í samræmi við gjaldskrá skv. 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Í 3. mgr. segir að fram skuli koma í gjaldskránni hvað sé innifalið í skráningargjaldi vegna kattahalds og í 4. mgr. segir að gjaldið skuli greitt í fyrsta skipti við skráningu kattar og síðan árlega fyrirfram. Í 6. mgr. er loks áréttað að við ákvörðun gjalda skuli tekið mið af rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu og að gjöld megi aldrei vera hærri en sem honum nemi.

Seyðisfjarðarkaupstaður nýtti í fyrsta sinn heimild sína til innheimtu skráningargjalda katta með gjaldskrá nr. 375/2014, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 22. apríl 2014. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. gjaldskrárinnar skal innheimta árlegt leyfisgjald að fjárhæð 9.975 krónur á hvern kött. Er gjalddagi gjaldanna 15. apríl ár hvert en eindagi 30. sama mánaðar. Innifalið í leyfisgjaldi er ormahreinsun og trygging auk umsýslugjalds sveitarfélagsins. Svo sem áður er lýst hefur Seyðisfjarðarkaupstaður lagt fram sundurliðað kostnaðar- og tekjuyfirlit sveitarfélagsins vegna hunda- og kattahalds fyrir árið 2014. Er ljóst af þeim gögnum að álögð gjöld vegna kattahalds eru lægri en kostnaður af veittri þjónustu og umsýslu kaupstaðarins henni tengdri. Telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðu ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á álagningu leyfisgjalds fyrir kött hans vegna ársins 2014.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson