Ár 2011, fimmtudaginn 4. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 45/2009, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 18. mars og 26. maí 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi á lóð nr. 11d við Austurveg í Vík og um breytta aðkomu að lóðinni. Einnig kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 17. september 2009 um að heimila breytta staðsetningu húss á nefndri lóð og að breyta afmörkun tilgreindra lóða við Kirkjuveg og Austurveg í Vík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júní 2009, er barst nefndinni 26. sama mánaðar, kærir J, eigandi Kirkjuvegar 3 í Vík, „… málsmeðferð sveitarstjórnar Mýrdalshrepps vegna Austurvegar 11d“. Af kröfugerð verður ráðið að kæran taki til ákvarðana sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 18. mars 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsi að Austurvegi 11d og frá 26. maí 2009 um að „… aðkoma að lóðinni Austurvegur 11d verði 2,5 m meðfram húsinu að Austurvegi 11c“.
Kærandi krefst þess aðallega að fellt verði úr gildi byggingarleyfi fyrir fasteignina að Austurvegi 11d, þ.m.t. stækkun göngustígs á kostnað lóðar kæranda, en til vara að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar frá 26. maí 2009 um að aðkoma að lóðinni Austurvegi 11d verði 2,5 m meðfram húsinu að Austurvegi 11c.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. nóvember 2009, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir kærandi einnig þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mýrdalshrepps frá 15. september 2009, sem staðfest var í sveitarstjórn 17. september 2009, að heimila breytingu á staðsetningu húss á lóðinni Austurvegi 11d og um afmörkun lóða við Kirkjuveg og Austurveg. Krefst hann ógildingar greindrar ákvörðunar.
Með hliðsjón af efni hinna kærðu ákvarðana var síðara kærumálið, sem er nr. 71/2009, sameinað máli þessu.
Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Kirkjuvegi 3 í Vík. Vestan megin við lóð hans er lóðin Austurvegur 11c en norðan megin er lóðin Austurvegur 11d. Milli lóðar kæranda og lóðarinnar Austurvegar 11c mun hafa verið 90 cm breiður göngustígur er lá að Austurvegi 11d. Að þeirri lóð liggur hins vegar engin innkeyrsla fyrir bifreiðar. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir hverfið, Hjallahverfi, þar sem fasteignir þessar eru staðsettar.
Aðdragandi máls þessa er sá að á fundi sínum hinn 4. mars 2008 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Mýrdalshrepps leyfisbeiðni um endurbyggingu hússins að Austurvegi 11d. Í framhaldi af því var óskað leyfis til að bæta við einni burst við húsið og var skipulagsfulltrúa falið að kynna nágrönnum áformin á formlegan hátt með grenndarkynningu. Samþykkti nefndin, að grenndarkynningu lokinni, stækkun hússins á fundi 16. október 2008. Sveitarstjórn Mýrdalshrepps staðfesti báðar framangreindar samþykktir á fundi sínum hinn 23. sama mánaðar.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. mars 2009 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Austurvegar 11d um leyfi til byggingar frístundahúss á lóðinni. Samþykkt nefndin að veita byggingarleyfið með fyrirvara um að kröfur um brunavarnir yrðu uppfylltar. Staðfesti sveitarstjórn þessa ákvörðun hinn 18. mars 2009. Á grundvelli þessarar samþykktar gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 20. sama mánaðar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Á fundi sveitarstjórnar hinn 26. maí 2009 var m.a. til umfjöllunar breytt aðkoma að Austurvegi 11d og var á fundinum samþykkt svohljóðandi tillaga: „Aðkoma að lóðinni Austurvegur 11d verði 2,5 m meðfram húsinu Austurvegur 11c.“
Með bréfi, dags. 23. júní 2009, var lóðarhöfum tilgreindra lóða við Kirkjuveg og Austurveg kynnt tillaga um mörk og stærðir lóða á svæðinu og um breytta staðsetningu fyrirhugaðs húss að Austurvegi 11d. Að grenndarkynningu lokinni var á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mýrdalshrepps hinn 15. september 2009 samþykkt ný staðsetning húss að Austurvegi 11d og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að ljúka afmörkun lóða í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Staðfesti sveitarstjórn Mýrdalshrepps fundargerðina 17. sama mánaðar.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að í grenndarkynningu frá 29. ágúst 2008 hafi hvorki verið tilgreint að til stæði að breikka göngustíginn upp að Austurvegi 11d né gera hann að innkeyrslu að lóðinni. Hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt án þess að fullnægjandi grenndarkynning hefði áður farið fram. Sá annmarki leiði til ógildingar byggingarleyfisins enda sé ekki útilokað að hugsanlegar athugasemdir kæranda hefðu getað haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar.
Brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda þar sem í bréfi Mýrdalshrepps, dags. 24. október 2008, sé talað um 2,2 m breiðan veg en síðar hafi hreppurinn breikkað veginn um 30 cm án þess að gefa kæranda kost á að andmæla þeirri breikkun. Málsmeðferð hafi verið ábótavant og hafi hún byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum.
Ómögulegt sé að stækka umræddan göngustíg eða breyta honum í innkeyrslu án þess að sneiða hluta af lóð kæranda. Slík skerðing sé hins vegar óheimil þar sem hún brjóti gegn eignarréttarákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Málsrök Mýrdalshrepps: Af hálfu Mýrdalshrepps er krafist frávísunar á kröfu kæranda um ógildingu umrædds byggingarleyfis þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni. Þá sé ljóst að ágreiningur um eignarréttindi, bein og óbein, sem kærandi telji vera fyrir hendi eigi ekki undir úrskurðarnefndina heldur almenna dómstóla, sbr. 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Því sé hafnað að annmarkar hafi verið á grenndarkynningu og að kærandi hafi ekki notið andmælaréttar. Sveitarfélagið telji að ekki sé farið inn á lóð kæranda með breyttri aðkomu að Austurvegi 11d og mótmælt sé þeirri fullyrðingu að mörk lóðar kæranda séu skýr og óumdeild. Jafnframt sé því mótmælt að með þeirri afmörkun sem fram komi í umræddri grenndarkynningu hafi lóð kæranda verið skert og að sjónarmið um eignarnám eigi við í málinu. Eignarheimild kæranda kveði á um að lóð hans að Kirkjuvegi 3 sé 1.125 m² en eldri eignarheimildir segi hana 1.200 m². Lóðin sé 1.200 m² eins og hún sé sýnd á afmörkun lóða við Kirkjuveg og Austurveg og sé slík ráðstöfun landsins heimil eiganda þess, sem sé sveitarfélagið. Telji sveitarfélagið að þær breytingar sem felist í breyttri aðkomu að Austurvegi 11d leiði ekki til bótaskyldu samkvæmt 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Málsrök byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er rakið að hann hafi fengið leyfi til að endurbyggja húsið að Austurvegi 11d. Síðar hafi komið fram hugmyndir um að stækka húsið og bæta við það nýrri burst. Eftir að sú hugmynd hafi komið fram hafi verið talið nauðsynlegt, horft til framtíðar, að hægt væri að koma aðföngum að húsinu án þess að þurfa til þess leyfi nágranna eða leigja kranabíl. Byggingarnefnd hafi, að aflokinni kynningu, heimlað stækkun hússins, en jafnframt hafi komið fram að göngustígur að húsinu yrði breikkaður í 2,2 m. Síðar hafi komið í ljós að eigandi Kirkjuvegar 3 væri ekki sáttur við breidd stígsins og að byggingaryfirvöld væru að leita samkomulags við hann um að stígurinn yrði tveir metrar á breidd. Hafi sveitarstjóra þá verið gerð grein fyrir því að ef niðurstaðan yrði sú að mjókka stíginn aftur myndi byggingarleyfishafi fresta framkvæmdum um óákveðinn tíma og endurskoða byggingaráform sín. Það sé hins vegar einlæg von hans að sátt geti skapast um að gera umhverfið þarna fallegra en það hafi verið um mörg ár.
Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða reifuð hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 13. júlí 2011.
Niðurstaða: Af hálfu Mýrdalshrepps er krafist frávísunar á kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis þar sem kærufrestur hafi verið liðinn er sú kæra barst úrskurðarnefndinni. Ákvörðun um að veita hið umdeilda byggingarleyfi var staðfest í sveitarstjórn 18. mars 2009 en kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 26. júní 2009, eða rúmum þremur mánuðum eftir samþykkt sveitarstjórnar. Enda þótt ráðið verði af bréfi lögmanns kæranda til Mýrdalshrepps, dags. 10. júní 2009, að kæranda hafi þá verið orðið kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis, liggur ekkert fyrir um það hvenær hann fékk í raun vitneskju um leyfið. Liggur ekki heldur fyrir að honum hafi verið gert kunnugt um útgáfu þess eða um kæruheimild, kærustjórnvald og kærufrest. Verður við það að miða að kæran hafi borist innan kærufrests eða í öllu falli að afsakanlegt verði að telja að kæran hafi borist svo seint sem raun bar vitni, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður því ekki fallist á að vísa beri þessum hluta kröfugerðarinnar frá af ástæðum er varða kærufrest.
Leyfi byggingarfulltrúa skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til byggingar húss á lóðinni Austurvegi 11d var gefið út 20. mars 2009. Samkvæmt nefndri 44. gr., svo og byggingarleyfinu sjálfu, fellur byggingarleyfi úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan árs frá útgáfu þess. Í 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er kveðið á um að byggingarframkvæmdir teljist hafnar þegar undirstöður hafi verið steyptar eða þegar byggingarfulltrúi hafi annars, eftir því sem við á, lokið úttekt á einum eða fleirum úttektarskyldum verkþáttum sem framkvæmdir hafi verið samkvæmt leyfinu. Þar eð hvorki liggur fyrir að sökklar hafi verið steyptir né að nokkur úttekt hafi farið fram á úttektarskyldum verkþáttum innan 12 mánað frá útgáfu leyfisins er ljóst að umrætt byggingarleyfi er úr gildi fallið. Á kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti leyfisins og verður kröfu hans um ógildingu þess því vísað frá nefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Með ákvörðunum sveitastjórnar Mýrdalshrepps frá 26. maí og 17. september 2009 var heimilað að breikka aðkomu að lóð, færa umrætt hús og breyta mörkum lóða og var þeim ákvörðunum skotið til úrskurðarnefndar innan kærufrests. Enda þótt heimildum um stærð lóðar kæranda að Kirkjuvegi 3 beri ekki saman verður ráðið af málsgögnum að með ákvörðunum þessum sé tekin af lóðinni spilda til breikkunar á aðkomu að Austurvegi 11d og fyrir þrjú bílastæði til almennra nota. Slík skerðing verður ekki gerð nema samningar náist við lóðarhafa eða að undangengnu eignarnámi, séu fyrir hendi skilyrði til þess, og skiptir í því sambandi ekki máli þótt sveitarstjórn hafi einhliða ákveðið að bæta landi við lóð kæranda á öðrum stað. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og áttu heimildir 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga því ekki við í málinu.
Að þessu virtu verða framangreindar ákvarðanir sveitarstjórnar Mýrdalshrepps felldar úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 18. mars 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi að Austurvegi 11d er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 26. maí 2009 um breytta aðkomu að lóðinni að Austurvegi 11d og ákvörðun frá 15. september 2009 um að heimila breytta staðsetningu húss á lóðinni Austurvegi 11d og að breyta afmörkun lóða við Kirkjuveg og Austurveg í Vík.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson