Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2009 Aratún

Ár 2009, föstudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 42/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 19. maí 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir bifreiðageymslu á lóðinni nr. 36 við Aratún í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður 
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2009, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kæra S og M, Aratúni 34, Garðabæ, ákvörðun byggingarfulltrúans í Garðabæ frá 19. maí 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir bifreiðageymslu á lóðinni nr. 36 við Aratún í Garðabæ.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og verður sú krafa nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Um nokkurt skeið hefur verið í undirbúningi að byggja bifreiðageymslu að Aratúni 36 í Garðabæ.  Var byggingarleyfi veitt fyrir bifreiðageymslu á lóðinni hinn 7. júní 2007 en það leyfi mun síðar hafa verið afturkallað þar sem ekki hafði verið staðið rétt að undirbúningi þess.  Þann 6. nóvember 2008 var samþykkt í bæjarstjórn bókun skipulagsnefndar frá 15. október s.á. þar sem tillögu að byggingu bifreiðageymslu á lóðinni var vísað í grenndarkynningu í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði.  Stóð grenndarkynningin frá 10. nóvember til 8. desember 2008 og bárust athugasemdir frá nokkrum aðilum, þar á meðal frá kærendum.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 21. janúar 2009 var bókað um framkomnar athugasemdir og afstöðu nefndarinnar til málsins.  Síðan segir í lok bókunarinnar:  „Skipulagsnefnd mælir með því að byggingarfulltrúi samþykki grenndarkynnta tillögu óbreytta.“  Var umrædd bókun skipulagsnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar  hinn 5. febrúar 2009.  Í kjölfar þessara samþykkta veitti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir umæddri bifreiðageymslu hinn 19. maí 2009 og tilkynnti hann kærendum þá ákvörðun með bréfi, dags. 28. maí 2009, sem póstlagt var hinn 3. júní s.á.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar skömmu eftir viðtöku bréfsins.

Kærendur telja byggingu bílgeymslunnar ganga gegn hagmunum sínum.  Bifreiðageymslan sé með yfir 70 m² lagnakjallara, en sjálf sé hún yfir 60 m².  Vegghæð og mænishæð sé mikil, en byggingin eigi að rísa við mörk lóðar kærenda.

Af hálfu Garðabæjar er kröfum kærenda mótmælt.  Við afgreiðslu málsins hafi þess verið gætt að láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, áður en byggingarfulltrúi hafi samþykkt leyfi til framkvæmda.  Kærendur hafi gert athugasemdir við byggingu bifreiðageymslunnar og talið að svo miklu stærri bygging myndi þrengja að þeim, skerða útsýni og rýra verðmæti húss þeirra.  Í kæru sé vísað til bréfs er þau hafi sent skipulagsnefnd á athugasemdarfresti.  Að öðru leyti sé þar ekki gerð nein frekari grein fyrir sjónarmiðum kærenda.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt.  Rétt hafi verið staðið að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og hafi málsmeðferð verið vönduð í alla staði nema hvað hún hafi tekið langan tíma.  Hafna beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda enda brjóti hið umdeilda leyfi hvorki í bága við skipulagsskilmála né byggingarreglur.

Áður hafi legið fyrir byggingarleyfi fyrir minni bifreiðageymslu á þessum stað og þó að um stærra mannvirki sé að ræða sem aðallega sé neðanjarðar verði ekki séð að grenndarhagsmunum kærenda sé ógnað umfram það sem þau hafi mátt gera ráð fyrir.  Það verði að krefjast viðameiri ástæðna fyrir stöðvun framkvæmda en þarna sé um að ræða.

—————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin nánar í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er með hinu umdeilda leyfi heimiluð bygging rúmlega 60 m² bifreiðageymslu og undir henni rúmlega 70 m² „lagnakjallara“ en í honum er lofthæð 2 m samkvæmt gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni.  Er álitamál hvort svo umfangsmikil bygging geti talist hafa í för með sér breytingu sem aðeins verði talin óveruleg og þar með hvort heimilt hafi verið að veita leyfið án þess að fyrir lægi deiliskipulag að umræddu svæði. 

Þá verður ekki séð að fjallað hafi verið um umsóknina um byggingarleyfið með tilliti til ákvæðis gr. 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 auk þess sem uppi er vafi um lögmæti meðferðar umsóknarinnar að öðru leyti.  Er hér um að ræða álitaefni sem leitt gætu til ógildingar og þykir því rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við byggingu bifreiðageymslu á lóðinni nr. 36 við Aratún í Garðabæ skulu stöðvaðar þar til endanlegur úrskurður liggur fyrir í málinu.

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________   ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson