Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2008 Vatnsendi

Ár 2010, þriðjudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 42/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 3. júní 2008 á beiðni um breytt deiliskipulag við Fornahvarf. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. júní 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hrl., f.h. Þ, eiganda jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, þá afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 3. júní 2008 að synja beiðni um breytt deiliskipulag við Fornahvarf. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 15. apríl 2008 var lagt fram bréf lögmanns kæranda, dags. 28. mars s.á., þar sem sagði m.a. eftirfarandi:  „Lóðin Vatnsendablettur 25a.  Sendi hjál. mæliblað gert af Sveini Ívarssyni arkitekt fyrir nýja spildu úr landi Vatnsenda sem verður nr. 25a.  Um er að ræða 2.897 fermetra spildu sem liggur á milli lóða nr. 23 og 27.  Nauðsynlegt er að setja spilduna inn á skipulag svo unnt sé að fá landnúmer á hana og stofna hana í þinglýsingarbókum.“  Var erindinu vísað til umsagnar sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs og sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs.  Á fundi nefndarinnar 6. maí s.á. var erindið lagt fram að nýju ásamt umsögn sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs og sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs ásamt því að sviðsstjóri skipulags- og umhverfssviðs gerði grein fyrir stöðu skipulags á umræddu svæði.  Var eftirfarandi m.a. fært til bókar á fundinum:  „Kom m.a. fram að í staðfestu Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 er svæðið skilgreint sem opið óbyggt svæði enda innan 50 m marka helgunarsvæðis Elliðavatns skv. gildandi deiliskipulagi og sbr. grein 4.15.2 í skipulagsreglugerð 400/1998.“  Var afgreiðslu erindisins frestað.  Á fundi skipulagsnefndar 3. júní 2008 var erindið lagt fram að nýju og því hafnað á grundvelli umsagnar sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs. 

Á fundi bæjarráðs 5. júní 2008 var fundargerð skipulagsnefndar frá 3. sama mánaðar til umfjöllunar, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar, án þess að hin umdeilda afgreiðsla skipulagsnefndar væri sérstaklega rædd. 

Til stuðnings ógildingarkröfu sinni vísar kærandi til þess að hann hafi tekjur af því að leigja út spildur úr landi sínu og hafi erindi hans verið liður í þeirri starfsemi hans. 

Af hálfu skipulagsyfirvalda er þess krafist að hin kærða synjun verði staðfest, m.a. með sömu rökum og tíunduð eru í áðurgreindri bókun skipulagsnefndar frá 6. maí 2008. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna hinnar umdeildu spildu synjað á fundi skipulagsnefndar hinn 3. júní 2008.  Var fundargerð skipulagsnefndar til umfjöllunar á fundum bæjarráðs hinn 5. sama mánaðar og bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar án þess þó að erindi kæranda fengi þar sérstaka afgreiðslu. 

Í 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að óheimilt sé að breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til.  Í 23. gr. sömu laga kemur fram sú meginregla að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags og hið sama gildir um breytingu þess, sbr. 26. gr. laganna.  Þá segir í gr. 2.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Ennfremur segir þar m.a. að meginverksvið skipulagsnefnda sé að fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum, hafa forgöngu um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og fjalla um skipulagstillögur.  Þá fjalli nefndirnar um athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur, geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna og veiti umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagasáætlun.  Loks segir í gr. 2.5 að ákvarðanir skipulagnefnda skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. 

Skilja verður framangreind ákvæði á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags sé hvorki falin fullnaðarafgreiðsla erinda er varða breytt landamerki og lóðamörk né nýtt eða breytt deiliskipulag, hvort sem er til samþykkis eða synjunar.  Það er sveitarstjórnar einnar að taka slíkar ákvarðanir nema fyrir hendi sé sérstök samþykkt sveitarfélagsins um annað fyrirkomulag, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en slík samþykkt er ekki fyrir hendi í hinu kærða tilviki. 

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda var skipulagsnefnd aðeins bær til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu málsins.  Engin slík ákvörðun liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar í málinu og gildir einu þótt fundargerð skipulagsnefndar hafi verið afgreidd í heild án umræðu í bæjarráði eða bæjarstjórn, enda var ekki með því tekin afstaða til þess erindis sem hér um ræðir.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________    _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir