Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

99/2008 Langholtsvegur

Ár 2010, þriðjudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 99/2008, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. september 2008 á beiðni um leyfi til að rífa bílskúr á lóðinni nr. 168 við Langholtsveg og byggja í staðinn steinsteyptan bílskúr með áfastri vinnustofu og gera lagnarými undir tvíbýlishúsi sem stendur á lóðinni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. október 2008, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir F, f.h. G, lóðarhafa Langholtsvegar 168 í Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. september 2008 á beiðni um leyfi til að rífa bílskúr á lóðinni nr. 168 við Langholtsveg og byggja í staðinn steinsteyptan bílskúr með áfastri vinnustofu og gera lagnarými undir tvíbýlishúsi sem stendur á lóðinni.  Hin kærða synjun byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 2. október 2008. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. september 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að rífa bílskúr og byggja í hans stað steinsteyptan bílskúr með áfastri vinnustofu og gera lagnarými undir tvíbýlishúsi sem stendur á lóðinni nr. 168 við Langholtsveg.  Er lóðin á íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi og hefur svæðið ekki verið deiliskipulagt. 

Var málinu frestað og vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 26. september s.á. var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað:  „Frestað.  Með vísan til eldri umsagnar skipulagsstjóra er ítrekað að stærð bílgeymslu er ekki í samræmi við ákvæði deiliskipulags Sundahverfis sem tekið er mið af við mat á umsókninni.  Byggingarreitur fyrir bílgeymslu skal ekki vera stærri en 40 fm.“  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. s.m. var umsókninni synjað með eftirfarandi bókun:  „Synjað.  Stærð bílgeymslu er ekki í samræmi við ákvæði deiliskipulags, þar kemur fram að stærðin má mest vera 40 ferm.“ 

Skaut kærandi synjun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða synjun sé brot á jafnræðisreglu þar sem byggingarfulltrúi hafi nýverið samþykkt sambærilegan bílskúr á lóðinni nr. 23 við Nökkvavog sem sé í sama hverfi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að í umsögn skipulagsstjóra, dags. 17. apríl 2008, vegna fyrri umsóknar kæranda, hafi komið fram að ekki væri til deiliskipulag fyrir svæði það er um ræði.  Aftur á móti hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir nærliggjandi hverfi, Sundin, en það skipulag sé nýlegt og lýsandi fyrir þróun sambærilegrar byggðar.  Rétt hafi því verið að taka mið af því við mat á byggingarleyfisumsóknum á þessu svæði.  Í skilmálum fyrir bílgeymslur í deiliskipulagi Sunda komi fram að byggingarreitur B sýni nýbyggingarreit fyrir einnar hæðar bílgeymslur.  Byggingarreitir fyrir nýjar og/eða endurbyggðar bílgeymslur séu 8×5 m eða 40 m2.  Umsókn kæranda hafi lotið að byggingu 55,1 m²  bílgeymslu.  Í niðurstöðu umsagnar skipulagsstjóra komi fram að mælst sé til að uppbygging á lóðinni sé í samræmi við þær meginlínur sem fram komi í deiliskipulagi Sundanna, m.a. þannig að endurbyggðar bílgeymslur séu í samræmi við þá skilmála sem þar komi fram. 

Hvað varði samanburð á heimild til stækkunar bílskúrs og geymslu á lóðinni nr. 23 við Nökkvavog sé bent á að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. apríl 2006, hafi komið fram að í nágrenni þeirrar lóðar væru fordæmi fyrir bílskúrum sem væru allt að 50 m² að stærð.  Engar athugasemdir hafi borist við grenndarkynningu á umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr að Nökkvavogi 23.  Þá sé vísað til þess að grenndaráhrif stækkaðs bílskúrs og vinnustofu að Langholtsvegi 168 yrðu mun meiri en stækkun bílskúrs á lóðinni nr. 23 við Nökkvavog. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um leyfi til að rífa bílskúr á lóðinni nr. 168 við Langholtsveg og byggja í staðinn steinsteyptan bílskúr með áfastri vinnustofu og gera lagnarými undir tvíbýlishúsi sem stendur á lóðinni. 

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um leyfi til breytinga á fasteign sinni til byggingarfulltrúa.  Óskaði byggingarfulltrúi í kjölfarið eftir umsögn skipulagsstjóra sem lagðist gegn erindinu.  Í kjölfarið var umsókninni synjað af byggingarfulltrúa án þess að grenndarkynning færi fram.  Samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 12.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skal meðferð byggingarleyfisumsókna, þegar ekki liggur fyrir deiliskipulag, vera á þann veg að skipulagsnefnd skal fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en byggingarnefnd afgreiðir umsóknina.  Þessa var ekki gætt í hinu kærða tilviki og var því meðferð byggingaryfirvalda á málinu ekki í samræmi við málsmeðferðarreglur skipulags- og byggingarlaga. 

Þar við bætist að í hinni kærðu ákvörðun var sérstaklega tilgreint að umsókn kæranda væri ekki í samræmi við deiliskipulag, sem kvæði á um að stærð bílskúra mætti mest vera 40 m2.  Í málinu liggur aftur á móti fyrir að á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga er byggingarnefnd skylt að rökstyðja afgreiðslu erinda sem henni berast og leiðir af eðli máls að rökstuðningur þarf jafnframt að vera haldbær, en því var ekki til að dreifa í tilviki því sem hér er til meðferðar. 

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og rökstuðningi fyrir henni svo verulega áfátt að ógildingu varðar.  Verður  ákvörðunin því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. september 2008 á beiðni um leyfi til að rífa bílskúr á lóðinni nr. 168 við Langholtsveg og byggja í staðinn steinsteyptan bílskúr með áfastri vinnustofu og gera lagnarými undir tvíbýlishúsi sem stendur á lóðinni. 

___________________________
Ásgeir Magnússon

__________________________             __________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir