Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2018 Þjóðhildarstígur

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. mars 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Grænlandsleið 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6. Verður að skilja málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. apríl 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 22. maí 2017, óskuðu eigendur Þjóðhildarstígs 2-6 eftir endurnýjun á byggingarleyfi, sem samþykkt hafði verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júní 2015. Fól umsóknin í sér að byggð yrði létt viðbygging fyrir geymslu ofan á bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 var framangreind umsókn samþykkt.

Með tölvupósti, dags. 10. júlí 2017, fór annar kærenda fram á að fá upplýsingar um þau byggingaráform sem samþykkt hefðu verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júní s.á. Einnig var óskað upplýsinga um hvort ekki ætti fyrir útgáfu byggingarleyfis að ganga frá lóð í samræmi við deiliskipulag og meðfylgjandi umsögn skipulagsfulltrúa frá 31. mars 2016 vegna umsóknar leyfishafa um samþykki reyndarteikninga, þar sem fram kom að frágangur á lóð væri ekki í samræmi við skipulag, og enn fremur hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út. Svar barst 12. s.m. og var á þá leið að erindið um viðbyggingu sem spurt væri um hefði verið samþykkt á afgreiðslufundi 6. júní 2017. Ekkert byggingarleyfi hefði verið gefið út, en áformin væru gild í tvö ár eftir samþykkt þeirra. Hinn 21. nóvember 2017 var byggingarleyfi svo gefið út.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda kemur fram að hvorki hafi verið staðið við lóðarfrágang né gengið frá gróðurþekju sem eigi að vera á þaki bílageymslu og á þaki 1. hæðar. Ekki hafi verið gengið frá lóðinni eftir síðustu viðbyggingu sem hafi verið samþykkt 10. janúar 2006.

Veitingastaður hafi verið rekinn í umræddu húsi frá árinu 2004. Enn eigi eftir að fylla að bílageymslu. Grjót og möl ásamt illgresi blasi við út um glugga á húsi kærenda. Einnig hafi lóðin ítrekað verið notuð til aksturs, vöruflutninga, sem og lagningar bíla, allt gegn gildandi deiliskipulagi. Væntingar til leyfisveitanda um að gengið yrði frá lóðinni áður en byggingarleyfi yrði útgefið hefðu ekki staðist.

Óskað sé eftir því að gengið verði frá lóðinni samkvæmt deiliskipulagi og framkvæmdir við viðbygginguna stöðvaðar á meðan. Reynslan sýni að þegar umræddur eigandi hafi fengið að byggja viðbyggingu sé lóðarfrágangi samkvæmt teikningum og deiliskipulagi ekki sinnt. Einnig sé skjólveggur á lóðinni sem sé óleyfisframkvæmd og komi í veg fyrir að lóð falli að landi samkvæmt upprunalegum teikningum og gildandi deiliskipulagi.

Það margt sé óljóst varðandi lóðarfrágang að tilefni sé til að stöðva framkvæmd viðbyggingar og að úrbætur séu gerðar strax í þeim efnum. Reynslan sýni að eigandi hafi ekki haft hug á að sinna lóðarfrágangi eins og eigi að gera samkvæmt þeim teikningum sem kynntar hafi verið.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda kemur fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 hafi umsókn um leyfi til að byggja létta viðbyggingu fyrir geymslu ofan á þak bílageymslu, auk skyggnis framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg verið samþykkt. Byggingarleyfið hafi svo verið gefið út 21. nóvember 2017.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kærendur hafi um langt árabil átt í reglulegum samskiptum við byggingarfulltrúa vegna ástands lóðarinnar Þjóðarhildarstígs 2-6, en þeir hafi verið ósáttir við notkun lóðarinnar sunnan megin við húsið fyrir akandi umferð. Reglulega hafi kærendur sent ábendingu til byggingarfulltrúa um alla umferð á lóðinni, meintar óleyfisframkvæmdir o.s.frv. Með tölvupósti til embættis byggingarfulltrúa 11. júlí 2017 hafi kærendur óskað eftir upplýsingum um hvort búið hafi verið að gefa út byggingarleyfi vegna málsins. Kærendum hafi verið svarað samdægurs af starfsmanni byggingarfulltrúa og efnislegt svar hafi borist daginn eftir.

Af framansögðu megi vera ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um samþykktina í síðasta lagi hinn 11. júlí 2017, en kæra hafi ekki borist fyrr en átta mánuðum eftir að þeim hafi verið orðin ljós afgreiðsla hennar. Hafi þá verið liðnir tæpir fimm mánuðir frá útgáfu byggingarleyfis, en rúmir níu frá samþykkt byggingaráforma. Hafi því verið liðinn sá mánaðarfrestur sem tiltekinn sé í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 til þess að kæra ákvörðun þeirra stjórnvalda sem sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinu kærða byggingarleyfi verður að líta til þess að hús kærenda stendur í rúmlega 30 m fjarlægð frá því húsi sem fyrirhuguð viðbygging mun standa á og liggur ofar í landi, en á milli er nokkur landhalli. Kjarrlendi og göngustígur er á milli húsanna. Fyrirhuguð 120 m2 viðbygging er þó í sjónlínu frá húsi kærenda. Hins vegar verður ekki séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Útsýni kærenda mun sömuleiðis ekki skerðast, þó svo að ásýnd húss leyfishafa muni breytast með tilkomu viðbyggingarinnar. Í ljósi staðhátta verður ekki séð að sú útlitsbreyting muni í neinu skerða áhrif kærenda. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Af gögnum kærumálsins, og kröfum kærenda í því, má ráða að meginástæða framkominnar kæru og ágreiningur þessa máls sé fyrst og fremst skortur á frágangi á lóð leyfishafa og notkun hennar. Að mati kærenda er ekki farið að deiliskipulagi eða útgefnum byggingarleyfum. Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Getur og komið til kasta Mannvirkjastofnunar á grundvelli sömu heimilda, sbr. 18. gr. laganna. Ákvarðanir þessara aðila um að beita, eða synja um að beita, framangreindum úrræðum geta eftir atvikum verið kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon