Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

41/2012 Hafnargata Keflavík

Árið 2013, föstudaginn 11. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 41/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 9. maí 2012, kæra D og H fh., Dannhafs ehf., Mávabraut 12b, Reykjanesbæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 18. apríl 2012 að hafna veitingu starfsleyfis til handa kæranda til reksturs veitingarstaðar að Hafnargötu 28 í Keflavík.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hinn 11. júní 2012. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 29. mars 2012, barst heilbrigðiseftirliti Suðurnesja erindi frá Sýslumanninum í Keflavík þar sem óskað var eftir umsögn vegna umsóknar kæranda um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald til að fá að reka veitingastað í flokki III að Hafnargötu 28, Keflavík.  Í þeim flokki eru umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á aukið eftirlit og/eða löggæslu, sbr. 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga.  Kærandi sendi síðan inn umsókn, dags. 18. apríl 2012, um starfsleyfi til að reka pöbb/sportbar með lágværri tónlist og á fundi heilbrigðisnefndar sama dag var umsókninni hafnað.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi bendir á að umdeild umsókn hans hafi ekki lotið að rekstri hefðbundins skemmtistaðar þar sem leikin sé hávær tónlist.  Einungis væri fyrirhugað að starfrækja í húsnæðinu kaffihús á daginn og krá á kvöldin þar sem sýndir yrðu íþróttaviðburðir.  Margar slíkar sýningar séu eftir miðnætti og sé það ástæða þess að sótt sé um veitingaleyfi í þriðja flokki.  Að Hafnargötu 28 hafi verið reknir um árabil skemmtistaðir þar sem hámarksfjöldi gesta hafi verið 150 manns ásamt því að leikin hafi verið hávær tónlist.  Rök heilbrigðiseftirlitsins og heilbrigðisnefndarinnar eigi ekki við þar sem ekki verði opnaður skemmtistaður í húsnæðinu og hámarksfjöldi gesta verði 50 manns.  Forsvarsmenn kæranda hafi gengið í hús við Klapparstíg og rætt við íbúa varðandi framtíðarrekstur staðarins og hafi þeim litist vel á.

Af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er þess krafist að kærunni verði vísað frá varðandi þá ákvörðun að hafna umsókn um veitingaleyfi í flokki III.  Leyfisveitingin sé í höndum sýslumanns sem beri að afla umsagna ýmissa stofnana þ.á m. heilbrigðisnefnda.  Ákvarðanir sýslumanns að þessu leyti verði bornar undir innanríkisráðuneytið, sbr. kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007 vegna ákvarðana sýslumanns en eigi ekki undir úrskurðarnefndina.  Hvað ákvörðunina um synjun starfsleyfis varði sé bent á að reynslan hafi sýnt að með rekstri skemmtistaðar á umræddum stað hafi hljóðstig við útvegg íbúðarhúss í nágrenninu farið yfir þau mörk sem sett séu í reglugerð nr. 724/2008.  Húsið að Hafnargötu 28 hafi verið byggt árið 1942 og sé efri hæð hússins skráð sem skrifstofuhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár.  Við byggingu og frágang hússins hafi ekki verið hugað sérstaklega að hljóðvist eða verið gerðar sérstakar endurbætur á húsnæðinu til að koma í veg fyrir hljóðmengun frá starfsemi þar sem slíkrar mengunar sé að vænta.  Fjöldi kvartana hafi borist vegna hávaða sem fylgt hafi skemmtanarekstri í húsinu um árabil og þá sérstaklega að næturlagi.

Niðurstaða:  Fyrir liggur í málinu að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin til endurskoðunar af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og kæranda tilkynnt í bréfi, dags. 7. júní 2012, um veitingu starfsleyfis til veitingarekstrar að Hafnargötu 28 í Keflavík með fyrirvara um samþykki heilbrigðisnefndar.  Jafnframt var upplýst í bréfinu að embættið hygðist senda sýslumanni jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis í flokki II fyrir umræddan stað í tilefni af breyttri umsókn kæranda þar um.  Ennfremur liggja nú fyrir upplýsingar um að kærandi sé hættur veitingarekstri að Hafnargötu 28.

Af framangreindum ástæðum á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson