Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2020 Gufunes

Árið 2020, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur, en Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2020, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 20. september 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Loftkastalinn ehf., lóðarhafi Gufunesvegar 34 og Þengilsbáss 1, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 20. september 2019 að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. september 2020.

Málsatvik og rök: Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulagið Gufunes, áfangi 1, sem tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 1. mars 2019. Hinn 7. september 2020 tók gildi deiliskipulagsbreyting vegna fyrrgreindra lóða kæranda á skipulagssvæðinu. Með þeirri breytingu var byggingarmagn minnkað ofanjarðar á reit A1.5 fyrir bæði atvinnurými og íbúðar­húsnæði til að auðvelda að koma fyrir byggingum á reitnum. Var byggingarmagn aukið neðan­jarðar á reit A1.6 svo unnt væri að samtengja bílakjallara.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 20. september 2019 var lögð fram og samþykkt umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkur, dags. 17. s.m., um framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi áfanga 1. Einnig var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. s.m. Var framkvæmdaleyfi gefið út 29. september 2019.

Kærandi bendir á að í byrjun árs 2018 hafi hann keypt af Reykjavíkurborg eina lóð með húsi og byggingarrétti. Í skipulagsferli hafi lóðinni verið skipt í tvær lóðir. Samkvæmt samþykktu deiluskipulagi sé ekkert sem gefi til kynna að götur eigi að vera allt að 60 cm hærri en gólf í húsum kæranda. Hönnun á götum sé ekki samkvæmt skipulagi, sbr. sneiðmynd í skipulaginu. Kærandi hafi bent á þessa skekkju og reynt að fá staðfesta hæðarkóta í kringum eignir sínar í þrjá mánuði. Loks hafi upplýsingar borist í lok ágúst 2020 og þá komið í ljós að gögn sem borist hefðu frá Reykjavíkurborg hefðu verið röng. Telji kærandi að það sé allt að 35 cm skekkja milli uppgefinna hæðarkóta frá Reykjavíkurborg og þess sem hönnuðir segi kóta vera. Samkvæmt teikningum af húsum kæranda sé gólfkóti 8,40 og sé það innan eðlilegra skekkjumarka. Fenginn hafi verið löggiltur mælingarmaður til að framkvæmda innmælingar í húsunum ásamt nokkrum hæðarpunktum við götuna og hvar jarðvegur hafi verið áður. Þessar mælingar staðfesti málflutning kæranda. Brýn þörf sé á að stöðva þessa framkvæmd strax til að koma í veg fyrir meiri skaða. Veruleg hætta sé á vatnstjóni ef haldið verði áfram í þessari villu.

Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að á vormánuðum 2020 hafi borist þær upplýsingar að hæð hannaðrar aðliggjandi götu við hús kæranda væri of mikil. Brugðist hafi verið við með því að „mæla inn á gólfplötu“ hússins og hafi sú mæling staðfest að hönnuð gata væri of há. Hæðarlega götunnar hafi í framhaldi verið lækkuð og þverhalli verið minnkaður úr 3% í 2% frá miðlínu og að húsi kæranda. Forsvarsaðilar kæranda hafi tjáð borgaryfirvöldum að gólfkóti í húsi hans væri 8,40 og hafi hönnun tekið mið af því. Götur afvatni sig í báðar áttir frá þessum hápunkti og niður Hilmisbás í sitthvora áttina frá mótum gatnanna Hilmisbáss og Þengilsbáss. Lóðin Þengilsbás 1 sé óbyggð. Ekki séu til útgefin hæðarblöð fyrir svæðið en við útgáfu þeirra muni verða tekið mið af gatnagerð. Við byggingu húsa í framtíðinni þurfi að taka tillit til hæðarlegu veganna og götukóta þegar lóðarblöð verði gefin út. Götur og stéttir séu hannaðar á þann veg  að vatni þaðan verði veitt í fráveitukerfi gatnanna.

Í ljósi framangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og fari fram á það við úrskurðarnefndina að kveðinn verði upp fullnaðarúrskurður í málinu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er deilt um veitingu framkvæmdaleyfis sem heimilar gatnagerð og lagningu veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1, og hefur kærandi borið fyrir sig að fyrirhuguð gata liggi of hátt miðað við lóðir hans. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að bundið yrði verulegum vandkvæðum að breyta hæðarlegu götunnar færi svo að framkvæmdaleyfið yrði fellt úr gildi á þeim forsendum. Verður því að telja að umdeild framkvæmd sé afturkræf  án verulegra vandkvæða.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hags­muna kæranda, að fallast á kröfu hans um stöðvun framkvæmda á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni, en frekari framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmda­leyfi eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.