Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2015 Ísfélag Vestmannaeyja

Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja – Vestmannaeyjum áminningu og krefja það um úrbætur, en ákvörðunin var birt með bréfi, dags. 8. desember 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Ísfélag Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að veita Ísfélagi Vestamannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 22. desember s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 25. febrúar 2015.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 20. febrúar og 6. mars 2015.

Málavextir: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur m.a. fiskimjölsverksmiðju á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Í þeirri starfsemi notar kærandi olíublöndu sem búin er til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2013, að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang og að til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, auk þess að sækja um nýtt starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun fyrir sambrennslu samkvæmt þeirri reglugerð. Kæranda var veitt áminning vegna brennslu olíunnar á starfsstöð sinni á Þórshöfn með ákvörðun Umhverfisstofnunar, dags. 13. janúar 2014, og hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Er það kærumál nr. 10/2014.

Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar hinn 20. júní 2014 var skráð frávik vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöð kæranda í Vestmannaeyjum. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. júlí s.á., var vísað til fyrra bréfs hennar um að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999. Til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003, þar sem segði að einungis væri heimilt að brenna úrgangsolíu í starfsstöðvum sem hafi starfsleyfi sem uppfylli kröfur reglugerðarinnar um sambrennslu. Ljóst væri að kærandi hefði ekki slíkt starfsleyfi. Vísaði Umhverfisstofnun til þess að þá þegar hefði kæranda verið veitt áminning fyrir brennslu úrgangsolíu á starfsstöð sinni á Þórshöfn. Þar sem kærandi brenndi nú úrgangsolíu á starfsstöð sinni í Vestmannaeyjum og hefði ekki farið að tilmælum Umhverfisstofnunar varðandi brennslu úrgangsolíu áformaði stofnunin að veita kæranda áminningu skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 vegna starfsstöðvar hans í Vestmannaeyjum. Veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 22. desember s.á. Kærandi hefur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Auk eftirfarandi málsraka vísar kærandi til rökstuðnings síns í máli nr. 10/2014 varðandi rök um formgalla og efnislega annmarka á ákvörðun Umhverfisstofnunar er leiða skuli til ógildingar hennar í máli þessu.

Fullnægjandi lagastoð hafi skort til áminningar Umhverfisstofnunar. Hvorki eigi sér stoð í lögum né reglugerðum sú afstaða stofnunarinnar, að hreinsunarferli það sem nú sé framkvæmt hjá framleiðanda sé ekki í samræmi við kröfur samkvæmt reglugerð um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. breytingarreglugerð nr. 673/2011. Reglugerð nr. 673/2011, um breytingu á reglugerð nr. 809/1999, hafi verið sett til innleiðingar á tilskipunum nr. 75/439/EBE og 87/101/EBE, sem þá þegar hafi verið felldar úr gildi og leystar af hólmi með tilskipun nr. 2008/98/EB um úrgang. Það hafi áhrif á gildi tilskipananna sem réttarheimilda og þar af leiðandi mat á gildi reglugerðar um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011.

Sú efnislega breyting hafi orðið á málinu frá fyrri kæru kæranda í kærumáli nr. 10/2014 að tilskipun nr. 2008/98/EB hafi verið innleidd á Íslandi með lögum nr. 63/2014, um breytingu á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Vegna tafa á innleiðingu tilskipunarinnar hafi EFTA-dómstóllinn komist að því í máli nr. E-5/2014 að Ísland hefði brotið gegn samningsskuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum.

Umhverfisstofnun haldi því fram að dómur EFTA-dómstólsins nái ekki til setningar reglugerðar um lok úrgangsfasa á Íslandi um sértæk viðmið fyrir tiltekna úrgangsflokka en þeim skilningi sé mótmælt. Samkvæmt dómsorði hafi verið komist að því að Ísland hafi gerst brotlegt með því að innleiða ekki nauðsynlegar ráðstafanir (e. necessary measures), án tillits til þess hvort þær fælu í sér setningu laga eða reglugerða. Því sé ekki hægt að undanskilja einstaka reglugerð sem sannanlega eigi undir tilskipun nr. 98/2008/EB. Sú afstaða eigi sér hvorki stoð í EES-rétti né íslenskum rétti.

Samningsbrot íslenska ríkisins sé því yfirstandandi, ekki síst í ljósi þess að nauðsynlegar reglugerðir, sem kunni að hafa bein áhrif á réttarstöðu kæranda, hafi ekki verið settar. Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 55/2003 segi að sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hætti að vera úrgangur þegar hann hafi farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfylli þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setji í reglugerð um lok úrgangsfasa. Þetta hafi ekki verið gert og því gildi engar viðmiðanir hér á landi um lok úrgangsfasa vegna endurunninnar olíu. Kærandi hafi allt frá upphafi óskað eftir því að viðmiðanir yrðu settar af hálfu Umhverfisstofnunar en stofnunin hafi ekki talið sig vera bæra til þess, þrátt fyrir að henni beri skylda að lögum til að sýna frumkvæði í þeim efnum.

Staðfest hafi verið af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytis að unnið sé að setningu reglugerðar samkvæmt áðurnefndri 21. gr. laga nr. 55/2003, sem koma muni í stað reglugerðar nr. 809/1999, enda byggi hún á brottföllnum réttarheimildum. Það lagaumhverfi sem kæranda beri að starfa eftir sé því í besta falli óskýrt, ekki síst vegna áðurnefndra brota íslenska ríkisins á samningsskuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Af almennum reglum íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og meginreglum EES-réttar, þ.m.t. lögmætisreglunni og reglunni um meðalhóf, leiði að ekki beri að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þegar grundvöllur ákvörðunarinnar sé jafn óskýr og í máli þessu.

Umhverfisstofnun hafi byggt á því að sú olía sem brennd sé hjá kæranda hafi ekki gengið í gegnum það hreinsunarferli sem tilgreint sé í reglugerð nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011. Kærandi hafi í því sambandi bent á að ekki sé kveðið á um sérstakt hreinsunarferli í umræddri reglugerð og hafi ekki fengist nánari leiðbeiningar frá Umhverfisstofnun þess efnis, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kæranda þar um.

Kærandi brenni endurunna olíu, þ.e. olíublöndu sem hafi verið hreinsuð í birgðastöð framleiðanda. Varan sem kærandi kaupi samanstandi af svartolíu A380 og hinni hreinsuðu verksmiðjuolíu en þessum tveimur olíum sé blandað saman í hlutföllunum 60 af svartolíu á móti 40 af verksmiðjuolíu. Umhverfisstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að brennsla nefndrar endurunninnar olíu sé ólögmæt þar sem hluti hennar sé síuð og hreinsuð úrgangsolía. Hreinsunarferlið hafi verið útlistað á nákvæman hátt fyrir stofnuninni og hún hafi ekki getað bent á hvaða hluti ferlisins uppfylli ekki áskilnað stofnunarinnar um hreinsunarferli. Ótækt sé að beitt sé íþyngjandi viðurlögum í ljósi þess að ekki séu til nein viðmið í lögum eða reglugerðum um það hreinsunarferli sem Umhverfisstofnun telji nauðsynlegt. Allan vafa þessa efnis beri að meta kæranda í hag, sérstaklega að teknu tilliti til þess að ekki hafi verið hnekkt þeim niðurstöðum framleiðanda að 86% fastra efna séu fjarlægð úr olíunni í hreinsunarferli fyrirtækisins. Um það vísist til skýrslu framleiðandans frá febrúar 2014.

Í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 31. október 2014, hafi því m.a. verið haldið fram að einungis Stóra-Bretland hefði sett sér viðmið um lok úrgangsfasa fyrir úrgangsolíu. Hið rétta sé að bæði í Danmörku og Þýskalandi hafi verið sett slík viðmið. Í 6. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, felist m.a. að á stjórnvöldum hvíli sérstök skylda að rannsaka nánar stjórnsýsluframkvæmd í öðrum aðildarríkjum ESB eða EES þegar bent hafi verið á að framkvæmd sé þar háttað á annan veg. Þetta sé mikilvægt vegna kröfu EES-réttar um einsleitni á hinum sameiginlega innri markaði. Af málsrökum Umhverfisstofnunar sé ljóst að stofnunin hafi ekki kannað framangreinda framkvæmd með fullnægjandi hætti og muni stjórnsýsla hennar leiða til þess að lögaðilar hér á landi muni búa við lakari aðstöðu en sambærilegir aðilar á hinum innri markaði. Slík mismunun kunni að leiða til bótaskyldu íslenska ríkisins.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að kærandi hafi fengið góðan tíma til að bregðast við á öllum stigum málsins. Hann hafi hvorki orðið við kröfum stofnunarinnar um að hætta að brenna umræddan olíuúrgang né viljað staðfesta að hann muni hætta að brenna úrganginn. Kærandi hafi ekki orðið við kröfum um að sækja um sambrennsluleyfi hjá Umhverfisstofnun til að geta brennt úrganginn með löglegum hætti.

Brennsla þeirrar olíu sem um sé deilt sé óheimil án sambrennsluleyfis, sbr. reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, þar sem um sé að ræða olíuúrgang samkvæmt reglugerð nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011. Í maí 2014 hafi lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs verið breytt með lögum nr. 63/2014. Með þeim hafi tilskipun Evrópusambandsins nr. 2008/98/EB verið innleidd í íslenskan rétt, m.a. ákvæði um lok úrgangsfasa, sem séu nú í 21. gr. laganna. Þar segi í 1. mgr. að sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hætti að vera úrgangur þegar hann hafi farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfylli þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setji í reglugerð um lok úrgangsfasa. Í 3. mgr. segi að ráðherra sé heimilt að setja slík viðmið í reglugerð.

Á ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins hvíli skylda til að innleiða viðmið sem sett hafi verið í reglugerðir af Evrópusambandinu og gilda eigi á öllu EES-svæðinu en á meðan það hafi ekki verið gert sé það valkvætt fyrir hvert ríki. Hvorki hafi verið gefin út slík viðmið fyrir olíuúrgang hjá Evrópusambandinu né á Íslandi. Þó að slík viðmið hafi verið sett í Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku sé það ekki bindandi fyrir Ísland. Þótt Ísland hafi verið of lengi að innleiða tilskipun nr. 2008/98/EB, sbr. dóm EFTA-dómstólsins í máli E-5/2014, þá geti niðurstaða dómsins ekki náð til reglna sem ekki sé skylda að innleiða. Varðandi fullyrðingar um frumkvæðisskyldu Umhverfisstofnunar til setningar reglugerða þá sé það umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem setji reglugerðir í umræddum málaflokki.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um heimild kæranda til brennslu olíuafurðar sem kæranda og Umhverfisstofnun greinir á um hvort standist ákvæði reglugerðar um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, og reglugerðar um brennslu úrgangs nr. 739/2003, sbr. reglugerð nr. 294/2012, sem settar eru með heimild í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hefur Umhverfisstofnun veitt kæranda áminningu vegna brennslu á úrgangsolíu á starfsstöð hans í Vestmannaeyjum, en kærandi heldur því fram að ekki sé um úrgangsolíu að ræða.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 7/1998 kemur fram að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd laganna og sé stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falli. Í 3. mgr. sömu greinar segir að stofnunin fari því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina þegar um landið allt er að ræða. Í málinu er tekist á um framkvæmd sem deilt er um hvort standist áðurnefndar reglugerðir, sem settar eru með heimild í 5. gr. laganna. Í 4. gr. reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang kemur fram að heilbrigðisnefndum undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins og Hollustuvernd ríkisins beri að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. Umhverfisstofnun hefur tekið við hlutverki Hollustuverndar ríkisins, sbr. lög nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs segir að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Af framangreindu er ljóst að stofnunin fer með beint eftirlit með framkvæmd þeirri sem um er deilt í málinu í samræmi við áðurnefnda 18. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laganna fer um valdsvið og þvingunarúrræði stofnunarinnar í samræmi við VI. kafla laganna og skv. 1. mgr. 26. gr. er veiting áminningar eitt þeirra þvingunarúrræða sem stofnuninni er heimilt að beita til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum. Umhverfisstofnun var því bær að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun.

Forveri úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur fjallað um þá olíu sem hér er um deilt. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kvað upp úrskurð 10. nóvember 2011 í kærumáli nr. 12/2011 þar sem felld var úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar um að verksmiðjuolía félli í flokk úrgangsolíu og að um brennslu hennar færi samkvæmt ákvæðum um sambrennslu í reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs. Byggðist sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því að framleiðsla olíunnar fæli í sér aðgerð til að hreinsa úrgang svo hann eða hluti hans kæmist í svipað eða sama form og hann hefði verið í upphaflega. Væri þar með um endurmyndun að ræða samkvæmt skilgreiningu þágildandi 4. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang og jafnframt að verksmiðjuolían sem yrði til við endurmyndunina væri grunnolía, sbr. þágildandi 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Með reglugerð nr. 673/2011 var áðurgreindum skilgreiningum í reglugerð nr. 809/1999 breytt. Grunnolía er nú skilgreind sem jarðefnaolía og/eða unnin olía, synþetísk, sem notuð er sem grunnþáttur fyrir margvíslegar olíuvörur, svo sem smurolíur, vélarolíur, iðnaðarolíur, gírolíur og feiti, sbr. 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þá er endurmyndun skilgreind sem aðgerð til að framleiða grunnolíu með hreinsun á olíuúrgangi, einkum með því að fjarlægja úr henni óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni, sbr. 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Eins og fram hefur komið byggir Umhverfisstofnun ákvörðun sína um áminningu á því að olían sem kærandi brennir á starfsstöð sinni sé í raun olíuúrgangur samkvæmt reglugerðinni.

Í lögum nr. 55/2003 er fjallað um meðhöndlun úrgangs. Með breytingu á lögunum, sbr. lög nr. 63/2014, komu inn í 21. gr. laganna ákvæði um lok úrgangsfasa, en þar er innleidd 6. gr. tilskipunar nr. 2008/98/EB. Í 1. mgr. nefndrar 21. gr. segir að sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hætti að vera úrgangur þegar hann hafi farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfylli þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setji í reglugerð um lok úrgangsfasa, sbr. 43. gr., í samræmi við tiltekin almenn skilyrði. Slík reglugerð hafði ekki verið sett og verður ekki ráðið af framangreindu efni 21. gr. laga nr. 55/2003 einu og sér hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að olíuúrgangur hætti að vera úrgangur. Hvað sem því líður verður ekki hjá því litið að í gildi eru reglugerðir nr. 809/1999 um olíuúrgang og nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, báðar með síðari breytingum. Eins og áður greinir er í hinni fyrrnefndu að finna skilgreiningar á hugtökunum grunnolía og endurmyndun auk þess sem olíuúrgangur er þar skilgreindur í 10. mgr. 3. gr. sem hvers konar smurnings- og iðnaðarolíur sem orðið hafi óhæfar til þeirrar notkunar sem þær voru upphaflega ætlaðar sem og að olíuúrgangur sé spilliefni. Spilliefni er svo skilgreint í 12. mgr. 3. gr. með vísan til reglugerðar um skrá fyrir spilliefni og annan úrgang, en hún er nr. 184/2002.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá framleiðanda olíunnar sem aðilar máls hafa ekki dregið í efa. Er annars vegar um að ræða upplýsingar frá mars 2011 og hins vegar frá febrúar 2014. Samkvæmt þessum upplýsingum er verksmiðjuolía sú sem hér um ræðir að grunni til úrgangsolía sem safnað er frá smurstöðvum, skipum og annarri starfsemi og fer í gegnum ákveðið vinnsluferli sem nánar er lýst. Í upplýsingunum frá 2014 kemur fram að vinnsluferlið fjarlægi úr olíunni um 86% af föstum efnum sem samanstanda af málmögnum, ösku og öðrum efnum, s.s. oxuðum efnum og íblöndunarefnum, en verið er að skoða að fjarlægja meira af föstum efnum eins og þungmálmum og kalsíum. Vatnsinnihald, eðlisþyngd og seigja er mæld mánaðarlega og ársfjórðungslega fer fram nákvæmari rannsókn og borin saman við þau gildi sem gilda fyrir IFO 380 svartolíu skv. staðli. Þá er árlega kannað magn þungmálma, halógena og PCB í olíunni. Kemur fram að í þeirri blöndu sem brennd sé í verksmiðjum, 37,5%, séu það aska, zink, fosfór og kalsíum sem séu yfir mörkum staðals fyrir svartolíu. Þá er sett fram í töflu meðaltal ýmissa gilda í meðaltali verksmiðjuolíu áranna 2012 og 2013, sem og 37,5% blöndu, og borið saman við svartolíu IFO 380.

Umhverfisstofnun starfar eftir lögum um stofnunina nr. 90/2002. Hlutverk hennar skv. 1. gr. laganna er að annast starfsemi skv. lögum nr. 7/1998 og fjölda annarra laga sem þar eru talin og áður höfðu heyrt undir Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, veiðistjóra og hreindýraráð. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 90/2002 kemur fram að rétt þyki að sameina stjórnsýslustarfsemi stofnana sem fari með mengunarvarnir, hollustuhætti, náttúruvernd, dýravernd og stjórn á stofnstærð villtra dýra. Þeim stofnunum sé falið með lögum að annast framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd umhverfisráðuneytisins. Í ýmsum öðrum lögum er Umhverfisstofnun ætlað eftirlitshlutverk, t.a.m. í lögum nr. 55/2003. Þá eru í gildi fjöldi reglugerða sem settar eru á grundvelli áðurnefndra laga sem Umhverfisstofnun er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd á. Þar á meðal er fjöldi reglugerða á sviði mengunarvarna auk þeirra sem fyrr eru nefndar, t.d. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun er samkvæmt því sem að framan greinir sú stofnun sem annast framkvæmd mengunarvarna fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytis og verður að telja hana sérfróðan aðila á því sviði.

Taka má undir með kæranda að stofnuninni, sem er sérfræðistofnun á sviði mengunarvarna, hefði verið í lófa lagið að rannsaka málið með sjálfstæðum og ítarlegum hætti. Stofnunin hefur ekki upplýst úrskurðarnefndina um að slíkt hafi verið gert eða afhent nefndinni nein þau gögn sem til þess benda, en skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal stjórnvald láta nefndinni í té öll þau gögn og upplýsingar er tengjast málinu. Fór nefndin fram á það við stofnunina í bréfi, dags. 9. janúar 2015. Þannig verður hvorki séð að Umhverfisstofnun hafi skoðað framleiðsluferli umræddrar olíu eða efnasamsetningu hennar umfram það sem fram kemur í upplýsingum frá framleiðanda né að hún hafi kannað með mælingum hver áhrif væru af brennslu nefndrar olíu.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu fyrir Umhverfisstofnun fyllri upplýsingar frá framleiðanda en um var að ræða í kærumáli nr. 10/2014. Í því máli var kveðinn upp úrskurður í dag, en þar lágu til grundvallar ákvörðunartöku Umhverfisstofnunar upplýsingar framleiðanda frá árinu 2011. Í fyrirliggjandi máli lágu fyrir upplýsingar frá árinu 2014 sem áður eru raktar. Af þeim má ráða að um 14% fastra efna úr úrgangsolíu þeirri sem unnin er situr eftir að loknu vinnsluferli framleiðanda. Meðal þeirra efna sem þar er að finna eru þungmálmar. Geta efni þau sem eftir sitja í greindri olíu verið skaðleg heilsu manna og umhverfi. Meðal markmiða laga nr. 7/1998 er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Þá er meðal markmiða laga nr. 55/2003 að tryggja að úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Þrátt fyrir þær upplýsingar, og nefnd markmið laga nr. 7/1998 og nr. 55/2003, verður ekki séð að Umhverfisstofnun hafi haft nægar forsendur til að komast að niðurstöðu um það hvort það ferli sem um ræddi teldist endurmyndun í skilningi 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, og hvort sú afurð sem út úr því kæmi gæti talist grunnolía samkvæmt skilgreiningu 5. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 673/2011. Eigi að síður lagði stofnunin það til grundvallar að svo væri ekki er hún ákvað að áminna kæranda. Er þar um þvingunarúrræði að ræða og íþyngjandi ákvörðun sem verður að eiga sér nægilega stoð í bæði atvikum máls og lögum. Þar sem á það skorti verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda ekki fullnægt þeim áskilnaði að mál sé nægjanlega upplýst til að stjórnvald komist að réttri niðurstöðu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður orðið við kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. desember 2014 að veita Ísfélagi Vestamannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                            Ómar Stefánsson                                                Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

______________________________              _____________________________
          Geir Oddsson                                                  Þorsteinn Sæmundsson