Fyrir var tekið mál nr. 39/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Látrabjarg í Vesturbyggð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Löngufit 14, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Látrabjarg. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Gögn málsins bárust frá Vesturbyggð 31. júlí 2015 og í janúar 2017.
Málavextir: Hinn 10. desember 2012 var á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar tekin fyrir skipulagslýsing vegna deiliskipulagsvinnu fyrir Látrabjarg. Gerði lýsingin ráð fyrir að deiliskipulagssvæðið næði yfir land þriggja jarða, Hvallátra, Breiðavíkur og Keflavíkur. Var tilgreint í lýsingunni að deiliskipulagssvæðið væri samkvæmt gildandi aðalskipulagi Vesturbyggðar skilgreint sem hverfisverndarsvæði. Það væri á náttúruminjaskrá hjá Umhverfisstofnun og myndu áherslur á verndun Látrabjargs og aðliggjandi svæða setja svip sinn á deiliskipulagsgerðina. Var samþykkt að auglýsa lýsinguna til kynningar og bárust athugasemdir á kynningartíma hennar. Veittu Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Minjastofnun Íslands og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða umsögn um lýsinguna. Þá var haldinn opinn kynningarfundur um málið á Patreksfirði. Tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis ásamt umhverfisskýrslu var í tvígang auglýst til kynningar og veittur frestur til að koma að athugasemdum. Kom kærandi að athugasemdum og gerði kröfu um að mörk umrædds svæðis yrðu skilgreind nánar. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Ferðamálastofu, Kirkjugarðaráði, Minjastofnun Íslands, Samgöngustofu og Vegagerðinni vegna tillögunnar.
Skipulags- og umhverfisráð tók málið fyrir 19. janúar 2015 og færði til bókar að fjallað væri um athugsemdir sem borist hefðu við tillögu að deiliskipulagi Látrabjargs, en um væri að ræða aðra umræðu. Gerðar hefðu verið breytingar til að koma til móts við athugasemdir, en þær væru ekki þess eðlis að þörf væri á að endurauglýsa skipulagstillöguna skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Var lagt til við bæjarstjórn að hún yrði samþykkt sem bæjarstjórn og gerði á fundi sínum 21. janúar s.á. Í kjölfar þess var tillagan send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar, sbr. 42. gr. skipulagslaga.
Kærandi ítrekaði erindi sitt með tölvupósti til bæjarstjóra 31. janúar 2015 og gerði jafnframt athugasemd við málsmeðferð skipulagstillögunnar. Svarbréf skipulagsfulltrúa barst kæranda 2. febrúar s.á. Með tölvupósti 4. s.m. óskaði kærandi þess að upplýst yrði hvort athugasemdir hans yrðu teknar til athugunar við frekari umfjöllun málsins. Þá var bent á að skipulagsnefnd virtist ekki hafa verið kynnt athugasemd kæranda.
Með bréfi Skipulagsstofnunar til Vesturbyggðar, dags. 19. febrúar 2015, var gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Var málið tekið fyrir að nýju hjá skipulags- og umhverfisráði 17. mars s.á. og því frestað þar til skipulagshönnuður hefði farið yfir framkomnar athugasemdir stofnunarinnar og gert viðeigandi lagfæringar á uppdráttum og greinargerð. Málið var til umfjöllunar að nýju á fundi ráðsins 11. maí 2015 og 13. s.m. tók bæjarstjórn það fyrir. Var fært til bókar að fyrir lægi leiðrétt greinargerð, dags. í febrúar 2014, en með viðbótum frá 22. apríl 2015. Hefði verið tekið tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar. Var deiliskipulagið samþykkt með áorðnum lagfæringum og skipulagsfulltrúa falið að afgreiða það skv. 42. gr. skipulagslaga. Tillagan svo breytt var send Skipulagsstofnun og með bréfi hennar, dags. 15. maí 2015, var ekki gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðina 18. maí 2015. Með tölvubréfi skipulagsfulltrúa til kæranda, dags. 26. s.m., var athugasemdum hans svarað.
Málsrök kæranda: Kærandi telur sig eiga hagsmuna að gæta í máli þessu sem einn eigenda jarðarinnar Láganúps. Við meðferð skipulagstillögunnar hafi lög um upplýsingaskyldu verið þverbrotin þar sem athugasemdum hans við kynningu hennar og svör við þeim hafi ekki fengið lögformlega meðferð. Farið hafi verið fram á að mörk umrædds svæðis yrðu skilgreind nánar með því að sett yrði í texta deiliskipulagsins landamerkjaskráning jarðanna Breiðavíkur og Láganúps frá árinu 1886, eins og þau séu skráð hjá sýslumannsembættinu á Patreksfirði. Sveitarfélagið hafi kosið að hunsa þær óskir. Þá hafi skráning fornminja við skipulagsgerðina ekki verið réttilega unnin.
Málsrök Vesturbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ákveðið hafi verið að afmarka deiliskipulagssvæðið í samræmi við það svæði sem skilgreint hafi verið af Umhverfisstofnun á árinu 2004 sem náttúruminjar og skráð sé á náttúruminjaskrá. Í gildandi náttúruverndaráætlun sé gerð tillaga að friðlýsingu þessa svæðis. Deiliskipulagstillagan hafi að öllu leyti verið unnin í samræmi við stefnumörkun í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Mörk svæðisins miðist því ekki við skilgreind landamerki jarða og ekki sé með deiliskipulaginu verið að taka afstöðu til landamerkja einstakra jarða. Vegna mistaka hafi athugasemd kæranda ekki verið tekin til sérstakrar umfjöllunar með öðrum athugasemdum sem borist hefðu og verið hafi til umfjöllunar á fundum skipulags- og umhverfisráðs 19. janúar 2015 og bæjarstjórnar 21. s.m. Henni hafi hins vegar verið svarað með tölvupósti skipulagsfulltrúa.
Greinargerð fornleifafræðings og fornleifaskráning sé í viðauka við deiliskipulagstillöguna. Í samráði við Minjastofnun Íslands hafi verið gerð ítarleg fornleifaskráning, svonefnd deiliskráning, á fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum innan deiliskipulagssvæðisins. Vettvangsvinna hafi verið byggð á heimildasöfnun, sem farið hafi fram árið 1997, og verið hluti af svæðisskráningu fornleifa í öllu sveitarfélaginu, auk þess sem rætt hafi verið við staðkunnuga um fornminjar á svæðinu.
Niðurstaða: Í greinargerð hins kærða deiliskipulags er tekið fram að skipulagssvæðið nái til þriggja jarða í Vesturbyggð, þ.e. Hvallátra, Breiðavíkur og Keflavík. Tekur deiliskipulagið samkvæmt þessu ekki til lands jarðarinnar Láganúps, en kærandi kveðst vera einn af eigendum hennar. Afmarkast skipulagssvæðið á sama hátt og svæði sem skilgreint var sem náttúruminjar árið 2004 og er á náttúruminjaskrá hjá Umhverfisstofnun. Í deiliskipulaginu eru m.a. skilgreindar lóðir og byggingarreitir í Breiðavík og á Hvallátrum. Gert er ráð fyrir að Örlygshafnarvegur færist upp fyrir þorpið á Hvallátrum og útfærðir eru áningastaðir við Bjargtanga, Brunna og víðar.
Jörðin Láganúpur á landamerki að jörðinni Breiðavík, en nokkur fjarlægð er frá íbúðarhúsum að Láganúpi að mörkum deiliskipulagssvæðisins. Þá liggur fyrir að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt umræddu skipulagi, svo sem við Breiðavík, eru ekki til þess fallnar að raska grenndarhagsmunum gagnvart umræddri jörð eða hafa áhrif á nýtingarmöguleika hennar sökum fjarlægðar. Þá skipar deiliskipulag ekki eignarréttindum manna á skipulagssvæðinu eða ákvarðar landamerki jarða.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun snerti einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrrgreinda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson