Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/1999 Sogavegur

Ár 2000, mánudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/1999, kæra B á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 1999 um að skylda hann, að viðlögðum dagsektum, til þess að ganga frá mannvirkjum að Sogavegi 216 og breyta notkun þeirra til samræmis við samþykktar teikningar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 1999, sem barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir B, Sogavegi 216, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 1999 um að skylda hann, að viðlögðum dagsektum, til þess að ganga frá mannvirkjum að Sogavegi 216 og breyta notkun þeirra til samræmis við samþykktar teikningar.  Með hinni kærðu ákvörðun er lagt fyrir kæranda að framkvæma og bæta úr sem hér segir:

1. Að leggja af ólögmæta notkun á bílskúr og á geymslurými undir honum.
2. Að gera fláa á gólfplötu í bílskúr sbr. einnig samþykktan uppdrátt frá 13. júní 1985.
3. Að breyta þakbrún bílskúrs til samræmis við samþykktan uppdrátt frá 13. júní 1985, eða sækja um leyfi til breytingar á þakbrún.
4. Að leggja af innkeyrslu á lóð frá Sogavegi.
5. Að fjarlægja allt afgangsbyggingarefni og drasl af lóðinni.
6. Að ganga frá lóð að sunnan.

Er kæranda veittur 70 daga frestur til að framkvæma það sem fyrir er lagt frá birtingu ákvörðunarinnar, að viðlögðum dagsektum kr. 30.000,- fyrir hvern dag sem það kann að dragast að ljúka framkvæmdum, umfram tilskilinn frest. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarráðs hinn 29. júní 1999 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 9. júlí 1999.

Við framlagningu kæru í málinu kvaðst kærandi hafa í hyggju að leggja fram frekari gögn, sem varpað gætu ljósi á aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar og forsögu málsins.  Bárust þessi gögn frá kæranda, sem búsettur er erlendis, til úrskurðarnefndarinnar í bréfi hinn 20. janúar 2000, en kærandi hafði áður haft samband við skrifstofu nefndarinnar, m.a. vegna innheimtuaðgerða, sem hafnar voru á áföllnum dagsektum samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.  Eftir að gögn kæranda höfðu borist úrskurðarnefndinni var leitað formlegrar umsagnar byggingarnefndar um kæruna og þess óskað að nefndin léti í té gögn sín í málinu.  Barst úrskurðarnefndinni fjöldi skjala í málinu frá byggingarnefnd hinn 27. mars 2000 en greinargerð nefndarinnar barst hinn 11. apríl 2000.  Var lögmanni kæranda, Gísla G. Hall hdl., sem kærandi hafði ráðið sér til aðstoðar við meðferð kærumálsins, gefinn kostur á að kynna sér framlögð skjöl og málsrök byggingarnefndar.  Skilaði lögmaðurinn ítarlegri greinargerð í málinu, dags. 7. maí 2000.

Málavextir:  Hinn 30. september 1979 var samþykkt í byggingarnefnd Reykjavíkur teikning af tvöföldum bílskúr á lóð kæranda að Sogavegi 216 í Reykjavík.  Samkvæmt teikningunni var bílskúrnum ætlaður staður nærri suðvesturhorni lóðarinnar með aðkomu frá Borgarstíg, sem liggur með suðurhlið lóðarinnar.  Mun kærandi hafa byrjað framkvæmdir við byggingu skúrsins á árinu 1981 en samkvæmt bókum byggingarfulltrúans í Reykjavík fór fram úttekt á grunni (botni undir fyllingu) undir skúrinn hinn 28. ágúst það ár.  Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi  vikið frá samþykktri teikningu við sökkulgerð og að byggingarfulltrúa hafi verið orðið kunnugt um heimildarlausar breytingar á byggingunni um mitt árið 1982.   Með bréfi til kæranda, dags. 27. apríl 1984, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Reykjavík honum að stöðva bæri allar framkvæmdir við bílskúrinn þar sem komið hefði í ljós að hæðarkóti botnplötu  væri of hár og stærð sökkla meiri en samþykkt hefði verið.  Væri botnplatan m.a. steypt alveg fram að aðkomustíg (Borgarstíg), en skúrinn ætti að vera í tveggja metra fjarlægð frá honum.  Þá hefði verið tekið í notkun rými undir væntanlegum bílskúr, sem ekkert byggingarleyfi væri fyrir.  Yrðu framkvæmdir ekki leyfðar aftur fyrr en fullnægjandi úrbætur hefðu verið gerðar, að mati byggingarnefndar.   Hinn 13. júní 1985 var samþykkt á fundi byggingarnefndar breytt teikning af umræddum bílskúr á lóð kæranda.  Með teikningu þessari er samþykktur kjallari undir bílskúrnum, sem þegar hafði verið byggður og nær alveg að lóðarmörkum við Borgarstíg.  Bílskúrinn ofan á kjallaranum er í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum og er gert ráð fyrir því að suðurendi loftplötu kjallarans, framan við bílskúrinn, verði lækkaður frá framhlið bílskúrsins að lóðarmörkum.  Verði þannig komið fyrir innkeyrslu í skúrinn en á teikningunni er hæðarmunur stéttar við lóðarmörk og gólfplötu bílskúrsins sýndur 40 cm og halli innkeyrslu í bílskúrinn því 20%.  Fyrir liggur að áður en teikning þessi var samþykkt hafði kærandi lýst efasemdum um að gerlegt væri að koma fyrir innkeyrslu í bílskúrinn með þeim hætti sem sýnt er á teikningunni, þar sem hæðarlega götu væri of lág og væri hæðarmunur götu og bílskúrsplötu  allt að 66 cm en ekki 41 cm eins og byggingaryfirvöld hefðu reiknað með.  Af hálfu gatnamálstjóra hafði hins vegar verið gefin sú skýring að hæðarkóti götu við bílskúrinn væri miðaður við hæð gangséttar, sem gerð yrði meðfram lóðarmörkum við Borgarstíg. 

Eftir samþykkt umræddrar teikningar lauk kærandi byggingu bílskúrsins en hafðist ekki að um gerð innkeyrslu með þeirri breytingu á suðurenda kjallara, sem áskilin var við samþykkt skúrsins.  Þess í stað tók kærandi bílskúrinn til annarra nota.  Hinn 19. mars 1995 ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf þar sem fram kemur að embætti byggingarfulltrúa telji sig hafa rökstuddan grun um að bílskúrnum hafi verið breytt í íbúð eða herbergi til íveru.  Er kæranda í bréfi þessu bent á að óheimilt sé að taka byggingu til annarra nota en byggingarnefnd hafi heimilað og er þess krafist að gerð verði grein fyrir notkun bílskúrsins.  Ekki liggur fyrir að erindi þessu hafi verið svarað og mun bílskúrinn áfram hafa verið nýttur til íbúðar.  Með bréfi, dags. 17. janúar 1997, sótti kærandi um  stækkun lóðar sinnar til suðurs til samræmis við stækkun lóðanna nr. 218-224 við Sogaveg, en við þær lóðir hafði verið bætt mjórri landspildu við suðurenda lóðanna við Borgarstíg.   Af gögnum, er síðar komu fram af hálfu kæranda, má ráða að með stækkun lóðarinnar hafi hann viljað skapa sér aðstöðu til þess að koma fyrir innkeyrslu í bílskúrinn.  Sótti hann um leyfi til að gera innkeyrslu í skúrinn með byggingarleyfisumsókn, dags. 23. október 1997.  Umsókn þessari var hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 13. janúar 1998 með vísun til umsagnar Borgarskipulags, sem lagst hafði gegn erindi kæranda um stækkun lóðar fyrir innkeyrsluna.  Kemur fram í umsögn Borgarskipulags að ekki sé talið mögulegt að komast inn í bílskúrinn með þeirri breytingu, sem kærandi hugðist gera.  Kærandi var ósáttur við þessa niðurstöðu og lýsti óánægju sinni í allmörgum bréfum er hann ritaði starfsmanni Borgarskipulags,  byggingarfulltrúa og borgarfulltrúa fram eftir árinu 1998 og fram til vors 1999, án þess þó að nokkuð frekar væri aðhafst í málinu. 

Í janúar 1999 barst borgarstjóra bréf tíu nágranna kæranda þar sem kvartað er yfir ófremdarástandi, sem skapast hafi vegna íbúa í bílskúrnum.  Var erindi þetta framsent byggingarfulltrúa og lögreglustjóra og því beint til þeirra að kanna málið nánar.  Í framhaldi af athugun byggingarfulltrúa á málinu var kæranda ritað bréf, dags. 26. apríl 1999, þar sem honum var tilkynnt að byggingarfulltrúi hygðist leggja til við byggingarnefnd að honum yrði gert að bæta úr tilgreindum atriðum, þeim sömu og talin eru í hinni kærðu ákvörðun, að viðlögðum dagsektum.  Var kæranda veittur frestur til 22. maí 1999 til þess að tjá sig um málið með vísun til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki er að sjá að hann hafi neytt andmælaréttar, eins og boðið var og var tillaga byggingarfulltrúa lögð fyrir byggingarnefnd og samþykkt á fundi nefndarinnar hinn 24. júní 1999.  Er það sú ákvörðun, sem kærð er í málinu.

Auk þess sem að framan er rakið um samskipti kæranda og byggingaryfirvalda er varða byggingu bílskúrs á lóð kæranda og málefni henni tengd liggja fyrir í málinu gögn um ýmis önnur samskipti sömu aðila.  Þykir ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins að rekja þau samskipti nema að litlu leyti.  Vert er þó að taka fram að tilmælum hefur áður verið beint til kæranda með bréfi dags. 11. maí 1989, um að fjarlægja timbur og rusl af lóð sinni en kæranda var þá veittur frestur til 1. júlí sama ár að eigin ósk.  Ekki liggja fyrir gögn í málinu um það hvort kröfum byggingarnefndar um tiltekt á lóð hafi verið fullnægt í kjölfar nefnds erindis.  Þá liggur einnig fyrir að kærandi fékk, hinn 30. desember 1993, samþykkta umsókn um að byggja tvö skyggni við hús sitt að Sogavegi 216, annað yfir tröppur á austurhlið, hitt vestan við húsið yfir sund norðanvert við kjallara undir bílskúrnum.  Er skyggninu að vestanverðu við húsið  ætlað að þjóna sem bílskýli og er aðkoma sýnd að því frá Sogavegi á samþykktum uppdrætti.  Er það sú aðkoma, sem kæranda er gert að leggja af með hinni kærðu ákvörðun.

Málsrök kæranda: Í greinargerð lögmanns kæranda í málinu er fyrst vikið að frestákvæði og dagsektaákvæði hinnar umdeildu ákvörðunar en ákvæði þessi telur lögmaðurinn afar sérstæð. Kveður lögmaðurinn að sé litið til meðferðar málsins sé það sjálfgefið að í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar verði fyrrnefnt dagsektaákvæði fellt úr gildi, óháð því hver efnisniðurstaðan verði og krefst hann þess að svo verði gert.  Dagsektir geti í fyrsta lagi komið til álita að liðnum sanngjörnum tíma frá því að úrskurður nefndarinnar liggi fyrir. Auk þess sé frestákvæðið allt of strangt og dagsektaákvæðið sé ekki nægilega skýrt og sundurliðað, þegar litið sé til þess hve íþyngjandi það sé. Eins og það sé sett fram í ákvörðuninni hefði það engu breytt um óhóflegar dagsektir þótt kærandi hefði viljað una ákvörðuninni að hluta og verða við hluta fyrirmæla byggingarnefndar

Kærandi telur að 70 daga frestur hefði undir öllum kringumstæðum verið allt of stuttur til svo umfangsmikilla breytinga sem krafist sé í ákvörðuninni.   Ekki virðist hafa verið tekið tillit til þess að skúrinn sé í útleigu.  Ætla hefði þurft leigjandanum tíma til að rýma skúrinn, sbr. 56. gr. húsaleigulaganna nr. 36/1994, sem kveður  á um sex mánaða uppsagnarfrest.  Þá hefði kærandi  þurft að fela þar til bærum aðila að hanna breytingar, og hugsanlega að afla samþykkis yfirvalda.   Þá fyrst hefði verið tímabært að fá iðnaðarmenn til að vinna verkið, en slíkt hefði óhjákvæmilega haft nokkurn aðdraganda.  Loks hefði þurft tíma til að vinna verkin sjálf og fá þau tekin út.  Megi fullyrða að þetta ferli hefði tekið lengri tíma en 70 daga.  Þá verði ekki séð að fyrirskipaðar framkvæmdir hafi verið aðkallandi, enda hafi aðstæður verið nánast óbreyttar í vel á annan áratug. Frestákvæðið sé í ljósi alls þessa bersýnilega ósanngjarnt og ekki í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um efnisatriði málsins er áréttað að bílskúrinn, sem málið snúist um, hafi verið  byggður um miðjan 9. áratuginn.  Gögn málsins séu alveg skýr um það að allt frá upphafi hafi byggingaryfirvöldum verið nákvæmlega kunnugt um hvernig hann hafi verið byggður.  Það sé einkennilegt að u.þ.b. 14 árum síðar fari þessi sömu yfirvöld að agnúast vegna þessa af þeirri miklu hörku sem hin kærða ákvörðun beri með sér.

Bent er á að framlögð gögn sýni að á árinu 1997 hafi kærandi sótt um stækkun lóðar sinnar sunnan bílskúrsins.  Hugmynd hans hafi verið að nota þetta svæði til að koma fyrir innkeyrslu í skúrinn og gera hann þannig nothæfan sem bílskúr, en það hafi hann ekki verið þá og sé raunar ekki enn, eins og kunnugt sé.  Kærandi hafi vísaði til þess að nágrannar hans hafi fengið sambærilega stækkun samþykkta, sbr. séruppdrátt borgarverkfræðings dags. 18. júní 1996.  Byggingarnefnd hafi hins vegar synjaði umsókn kæranda með bréfi, dags. 13. janúar 1998, og hafi synjunin verið án nokkurs rökstuðnings.  Látið hafi verið við það sitja að vísa til umsagnar Borgarskipulags, sem ekki hafi mælt með lóðarstækkuninni.  Sú umsögn  virðist hins vegar haldin efnisannmörkum.  Þannig sé í umsögninni fullyrt er að breytingin myndi þrengja að möguleikum bíls, sem þyrfti að bakka úr stæði sínu, á lóðinni nr. 1a við Skógargerði.  Þetta sé ekki rétt því að stæðið sé ekki andspænis umræddum skúr.  Þrengingin yrði því engin.  Þá sé vísað er til þess að eigendur Skógargerðis 1a hafi neitað stækkuninni.  Þetta sé út af fyrir sig rétt, en afstaða nágrannans sé ekki málefnaleg og sé það  ekki sannfærandi að krefjast breyttrar notkunar á skúr kæranda, en leggjast jafnframt gegn áformum um að gera það mögulegt.  Sérstaklega sé vakin athygli á þeirri niðurstöðu Borgarskipulags að ekki yrði mögulegt að komast inn í bílskúr með umbeðinni breytingu samkvæmt umsögn umferðardeildar, brattinn yrði of mikill.  Eins og bréf kæranda beri með sér hafi hann ítrekað krafist skýringa á því hvers vegna umsókn hans um lóðarstækkun hafi verið hafnað og krafist leiðréttingar, en embætti byggingarfulltrúa virðist hafa tekið þá stefnu að svara kæranda ekki.  Þetta hafi verið brýnt brot gegn ákvæðum stjórnsýslulaga og góðum stjórnsýsluháttum.

Tekið er fram að kærandi krefjist endurskoðunar á öllum efnisatriðum hinnar kærðu ákvörðunar.  Telji hann byggingarnefnd og byggingarfulltrúa Reykjavíkur hafa misbeitt valdi sínu gagnvart sér og að hann hafi af þeim sökum hvorki fengið að njóta jafnræðis á við næstu nágranna sína né aðra.  Þá hafi embættið í stjórnsýslu sinni undanfarið ekki gætt meðalhófs og málefnalegra sjónarmiða, þegar hann hafi átt í hlut.  Sérstaklega sé vísað til athugasemda í  kæru  til úrskurðarnefndar, dags. 25. júlí 1999.

Eins og fram komi í gögnum málsins sé bílskúrinn svo hátt staðsettur að ómögulegt sé að nota hann sem slíkan.  Hæðarpunktar hafi verið teknir út af byggingarfulltrúa, án athugasemda á sínum tíma, þannig að þann vanda sem mál þetta snúist um sé að rekja til mistaka byggingaryfirvalda.  Í framhaldi af úttektinni hafi skúrinn endanlega verið byggður og hafi  engin athugasemd hafi verið gerð um að byggt hafi verið andstætt byggingarleyfi.  Styðji þetta það, sem kærandi hafi ítrekað haldið fram, að teikningin af bílskúrnum frá 13. júní 1985 hafi ekki haft gildi.  Bílskúrinn sé einnig sýndur á teikningu frá 12. des. 1987 af garðskála, sem hafi verið samþykkt, án athugasemda.  Eintak kæranda af teikningunni frá 1985 sé stimplað úr gildi með sama hætti og teikning frá 1979, sem vísað sé til í umsögn byggingarfulltrúa.  Þetta sé kjarnaatriði, sem kærandi hafi margítrekað.  Það sem komi fram í umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa um að stimplunin „ÚR GILDI“ hljóti að hafa verið af misgáningi sé í augum kæranda a.m.k. ekki rétt og sé sú tilgáta andstæð gögnum og atvikum málsins. 

Málstaður kæranda hafi einnig verulegan stuðning í því tómlæti, sem byggingaryfirvöld hafi sýnt.  Það hafi liðið meira en áratugur án þess að byggingaryfirvöld gerðu nokkrar athugasemdir við bílskúrsbygginguna eftir að henni lauk.  Um bygginguna hafi yfirvöldunum verið fullkunnugt, og hafi þau ekki viljað samþykkja hana hafi þeim að sjálfsögðu borið að beita, án ástæðulausrar tafar, úrræðum VIII. kafla þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978.  Sú staðreynd að það hafi ekki verið gert verði ekki nú skýrð öðruvísi en svo að þau hafi samþykkt bygginguna, og þannig fallist á notkun hennar eins og hún hafi verið, enda hafi frá fyrstu tíð verið ómögulegt að nota bygginguna sem bílskúr.  Í hinni kærðu ákvörðun sé kæranda gert að brjóta niður plötuna framan við bílskúrinn og mynda fláa upp að honum.  Þetta sé fyrirsjáanlega kostnaðarsamt og hafi í för með sér eyðileggingu á kjallaranum undir bílskúrnum.  Þegar aðstæður á vettvangi séu skoðaðar megi ljóst vera að aðgerð sem þessi sé með öllu tilgangslaus þar sem fláinn yrði of brattur. Ekki verður séð af gögnum málsins að byggingaryfirvöld hafi rannsakað þetta neitt sérstaklega. Minnt sé á  það sem að framan sé rakið að kærandi hafi áður sótt um stækkun lóðar sinnar til að gera fláa en verið synjað.  Þá hafi verið vísað til þess í umsögn borgarskipulags að brattinn yrði of mikill.  Engin frekari gögn liggi fyrir um fláann sem upplýst gætu málið frekar.  Það hafi þó verið hlutverk byggingarnefndar og byggingarfulltrúa að upplýsa málið, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaganna.

Þá er að því vikið að lagt hafi verið fram kvörtunarbréf ásamt undirskriftum nokkurra nágranna kæranda, en í bréfinu sé kvartað yfir íbúum í skúrnum.  Um þetta sé það að segja að kærandi hafi verið afar óheppinn með leigutaka í umræddu tilviki.  Þegar hann hafi orðið þessa var hafi hann þegar í stað gripið til ráðstafana og losað sig við leigutakann. Kvörtun nágrannanna hafi verið málefnaleg og það hafi viðbrögð kæranda einnig verið. Svo virðist sem umrætt kvörtunarbréf hafi hreyft við byggingaryfirvöldum en telja verði að aðgerðir þeirra hafi gengið miklu lengra en kvörtunarbréfið hafi gefið tilefni til, enda sé vandinn sá, sem þá hafi verið fyrir hendi, fyrir löngu afgreitt mál.

Að því er varði þakbrún skúrsins megi vera að fyrir henni skorti af vangá byggingarleyfi, en breyting á henni hljóti að teljast smávægileg.  Kærandi hafi þó ekki talið sér fært að grípa til ráðstafana vegna þessa eða sækja um byggingarleyfi, fyrr en heildstæð lausn fáist í deilumáli því sem hér sé til umfjöllunar.  Bílskúrinn sjálfur og frágangur hans sé að öllu leyti snyrtilegur.  Kærandi hafi aldrei dregið dul á að hann hafi haft hann í útleigu,  þó svo að hann hafi ekki verið formlega samþykktur sem íbúðarhúsnæði.  Þetta hafi byggingaryfirvöldum verið kunnugt og látið átölulaust, enda kunnugt um ástæðu þessa.   Fullyrða megi að starfsmönnum borgaryfirvalda sé kunnugt um að víða í borginni sé ósamþykkt íbúðarhúsnæði, sem þó sé notað sem slíkt.  Yfirvöld hafa látið slíkt óátalið í öðrum tilvikum en þeim þar sem sérstakar ástæður hafa kallað á viðbrögð, t.d. vegna hreinlætis o.s.frv.  Í tilviki kæranda hafi byggingaryfirvöld ekki tilgreint neina sérstaka þörf á að banna honum þá notkun á skúrnum sem hann hefur viðhaft. Kærandi telji sig, með vísan til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eiga rétt á sambærilegri og málefnalegri málsmeðferð og aðrir fasteignaeigendur sem eins eða svipað sé ástatt um. 

Um innkeyrsluna af Sogavegi er á það bent að kærandi hafi fyrir henni leyfi byggingaryfirvalda, sbr. teikningu frá 1993 af bílskýli með innkeyrslu frá Sogaveginum. Kærandi hafi nýtt innkeyrsluna, enda sé hún honum mjög mikilvæg, m.a. í ljósi þess að bílskúrinn sé ónothæfur sem bílageymsla. Telja verði röksemdir byggingarnefndar varðandi leyfið samkvæmt fyrrnefndri teikningu haldlausar, enda hafi kærandi nýtt innkeyrsluna með sama hætti og hann gerir nú allt frá þeim tíma er leyfið var veitt.  Þá séu framkvæmdir við bílskýlið hafnar þó þeim sé ekki endanlega lokið, en um lítið verk sé að ræða.  Ef  þar til bær yfirvöld hafi eitthvað við innkeyrsluna eða frágang bílskýlisins að athuga, þá sé þeim væntanlega rétt að beina athugasemdum sínum að þeim atriðum, en þau megi ekki ganga miklu lengra en nauðsyn krefji og gera kæranda að leggja af innkeyrsluna í eitt skipti fyrir öll eftir öll þessi ár.  Vísist um þetta til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Hvað varðar kröfu um frágang á lóð telur kærandi sér heimilt að geyma byggingarefni á lóð sinni eins og því hafi verið komið fyrir upp við húsvegg, og eigi það ekki að vera neinum til ama.  Byggingarefnið eigi að nota til að ganga frá lóðinni.  Kærandi hafi þegar bent á, að byggingarnefnd hafi ekki lögsögu yfir byggingarefninu og hafi ekki vísað til lagaheimildar.  Af efninu stafi varla veruleg hætta, enda hefði í því tilviki verið skylda borgaryfirvalda að grípa strax í haust til viðeigandi ráðstafana og afstýra hættuástandi á kostnað kæranda.  Þar sem það hafi ekki verið gert hljóti borgaryfirvöld að hafa metið aðstæður þannig að hætta væri ekki fyrir hendi.  Sérstaklega sé bent á í þessu sambandi, að í hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar sé engan rökstuðning eða tilvísun til lagaheimildar að finna til stuðnings þessum lið í hinni kærðu ákvörðun. 

Áréttað er að hin kærða ákvörðun sé afar íþyngjandi í garð kæranda.  Hann hafi mikla hagsmuni af niðurstöðunni og hún varði eignarrétt hans, sem sé sérstaklega varinn í stjórnarskránni.  Byggingarfulltrúa og byggingarnefnd Reykjavíkur hafi borið að gæta meðalhófs við ákvarðanatökuna, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaganna, þannig að tjón kæranda yrði undir engum kringumstæðum meira en það sem brýn nauðsyn krefði.  Engin merki séu um að þessa hafi verið gætt í tilviki kæranda, hvorki við rannsókn og undirbúning né ákvörðunartökuna sjálfa.  Vegna þess hve íþyngjandi ákvörðunin sé hefði byggingarfulltrúa borið að rannsaka málið miklu betur en hann gerði áður en ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og rökstyðja þörfina á hinum tilskipuðu framkvæmdum. Bréfið frá 26. apríl og ákvörðunin frá 9. júlí 1999 séu í formi tilskipana.  Verði ekki fallist á efnisrök kæranda  beri allt að einu að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til ágalla á málsmeðferðinni og leggja fyrir byggingarnefnd að taka málið til úrlausnar að nýju.

Málsrök byggingarnefndar:  Í greinargerð byggingarnefndar í málinu er á það bent að í bréfi burðarvirkishönnuðar, dags. 1. júlí 1982, til byggingarfulltrúa komi fram að hann hafi að beiðni eiganda (kæranda) teiknað sökkla og plötu að syðri lóðarmörkum, enda hafi verið litið svo á að þeir tveir metrar sem gengju suður fyrir bílskúrinn færu undir jarðveg og yrðu ekki sýnilegir.  Segist hönnuðurinn hafa ráðlagt kæranda eindregið frá þessari útþenslu en hann svarað því til að hann gæti nýtt rýmið þó það væri varla meira en 1,5 m. að hæð.  Aðrar úttektir séu ekki færðar í dagbók embættisins fyrr en að samþykktum breyttum teikningum (samþykktum í byggingarnefnd 13. júlí 1985) þann 18. júlí 1987 og þá á veggjum og þakviðum, en áður hafi kærandi verið búinn að láta steypa upp kjallara undir bílskúrnum, sem síðar hafi mælst á bílskúrsplötu 37,01 m. samkvæmt niðurstöðu mælingadeildar Borgarverkfræðings, dags. 27. september 1983.  Hafi framkvæmdir verið stöðvaðar með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. apríl 1984. 

Á fundi byggingarnefndar þann 10. maí 1984 hafi húsasmíðameistara og múrarameistara verið veittar áminningar með vísan til ákvæða byggingarreglugerðar og kæranda gert að leggja nýjar teikningar fyrir byggingarnefnd er sýndu gólfplötu brotna niður nægjanlega langt inn þannig að flái myndaðist frá aðkomustíg, er gerði akstur inn í bílskúrinn forsvaranlegan.  Jafnframt hafi kæranda verið gert að sækja um byggingarleyfi fyrir því óleyfisrými sem gert hafi verið undir bílskúrnum.  Á fundi byggingarnefndar þann 13. júlí 1985 hafi verið samþykkt ný teikning af bílskúrnum og rými undir honum í samræmi við bókun byggingarnefndar frá 10. maí 1984.  Þá teikningu sé að finna í skjalasafni byggingarfulltrúa og sé hún í fullu gildi án stimpils um að hún hafi verið felld úr gildi eins og kærandi haldi fram.  Ljósrit það sem kærandi hafi framvísað með stimplinum „úr gildi“ hafi trúlega verið aukaeintak, þannig stimplað af misgáningi um leið og ýmis önnur gögn, þ.á.m. eldri teikning af bílskúrnum, sem samþykkt var á fundi byggingarnefndar þann 26. júlí 1979.  Ekki hafi verið sótt um leyfi til breytinga á bílskúrnum samkv. teikningu samþykktri í byggingarnefnd 13. júlí 1985 og sé hún því eina samþykkta teikningin af mannvirkinu.  Hefði þessi teikning frá 13. júlí 1985 verið felld úr gildi væri því engin gild teikning til af bílskúrnum.

Þá er á það bent að til þess að hægt verði að nota bílskúrinn til geymslu á bílum, eins og samþykkt teikning kveði á um verði að ljúka frágangi hans, m.a. með því að lækka þann hluta þaks yfir kjallara sem gangi suður fyrir bílskúrinn eins og sýnt sé á teikningu. 

Á fundi byggingarnefndar þann 12. desember 1991 hafi verið samþykkt að geymsla fyrir íbúð á efri hæð hússins væri í kjallara bílskúrs, en þar muni nú vera rekin atvinnustarfsemi.

Framkvæmdir samkvæmt teikningum, samþykktum í byggingarnefnd þann 30. desember 1993, hafi aldrei verið hafnar og engir meistarar hafi skráð sig á verkið.  Byggingarleyfi samkvæmt þeim teikningum hafi því ekki öðlast gildi, sbr. 2. tölulið 4. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.  Ennfremur megi benda á ákvæði mgr. 14.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en þar segi að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Byggingarframkvæmdir teljast hafnar þegar undirstöður hafi verið steyptar eða þegar byggingarfulltrúi hafi annars, eftir því sem við eigi, lokið úttekt á einum eða fleirum úttektarskyldum verkþáttum sbr. gr. 48.  Samkvæmt þessu sé ekki heimild til innkeyrslu frá Sogavegi.

Vísað er til þess að samkvæmt gr. 68.6 í byggingarreglugerð skuli byggingarfulltrúi gera eiganda eða umráðamanni lóðar aðvart telji hann frágangi lóðar ábótavant, eða ef ekki sé gengið frá umhverfi húss í samræmi við samþykkta uppdrætti og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé, sbr. gr. 61.5 – 61.7.  Kröfur þær sem fram komi í samþykkt byggingarnefndar frá 24. júní 1999 séu samkvæmt framanrituðu allar byggðar á réttum og lögmætum sjónarmiðum, en kærandi hafi margsinnis brotið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga svo og ákvæðum byggingarreglugerðar þannig að ekki verði lengur við unað.  Sé ólögmæt notkun hans á bílskúrnum ásamt ófrágengnum mannvirkjum og lóð til mikils ama fyrir næstu nágranna eins og lögregluskýrslur og kvartanir íbúa, bæði munnlegar og í bréfum þeirra, beri með sér. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 28. mars 2000.  Viðstaddur var skrifstofustjóri embættis byggingarfulltrúa en umboðsmaður kæranda hafði boðað að hann gæti ekki verið viðstaddur.  Skoðaðar voru aðstæður á lóð kæranda, afstaða bílskúrs til aðkomustígs, hæðarmunur bílskúrsplötu og stígs og frágangur skúrsins að utan.  Nokkrum dögum eftir vettvangsgönguna hitti framkvæmdastjóri úrskurðarnefndarinnar umboðsmann kæranda á vettvangi og voru sömu atriði skoðuð.

Niðurstaða:  Eins og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun er með henni lagt fyrir kæranda að breyta eða bæta úr tilgreindum atriðum, sem byggingarnefnd telur óviðunandi.  Verður fjallað um þessi atriði hvert fyrir sig í þeirri röð sem þau eru talin í ákvörðuninni en síðan um frest- og dagsektarákvæði hennar.

Í fyrsta lagi er lagt fyrir kæranda að leggja af ólögmæta notkun á bílskúr og geymslurými undir honum.  Fyrir liggur að bílskúrinn hefur lengi verið nýttur til íbúðar eða íveru án þess að séð verði að leitað hafi verið leyfis byggingarnefndar til þeirrar notkunar eða tilraun gerð til þess að sýna fram á að skúrinn uppfylli þau skilyrði sem áskilin eru um íbúðarhúsnæði í byggingarreglugerð.  Samkvæmt 9. grein byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi voru þegar skúrinn var byggður og hann tekinn til notkunar, þurfti leyfi byggingarnefndar til þess að breyta notkun mannvirkis frá því sem samþykkt hafði verið.  Slíks leyfis var ekki aflað og var notkun skúrsins til íbúðar eða íveru því ólögmæt.  Enda þótt hið ólögmæta ástand hafi verið viðvarandi um langa hríð leiðir það ekki til þess að kærandi hafi öðlast rétt til áframhaldandi notkunar skúrsins til íbúðar.  Það skapar kæranda ekki heldur rétt þótt leiða megi líkum að því að víða sé búið í húsnæði sem ekki hafi verið samþykkt til slíkra nota.  Verður jafnræðisregla stjórnsýslulaga ekki skýrð svo að hún tryggi borgurunum jafnan rétt til ólögmætrar háttsemi.  Var byggingarnefnd því rétt að leggja fyrir kæranda að láta af hinni ólögmætu notkun skúrsins, svo sem gert var.  Breytir það ekki þeirri niðurstöði þótt bent hafi verið á að kæranda hafi verið ómögulegt að nýta skúrinn til þess sem hann var ætlaður, enda var það að miklu leyti á ábyrgð kæranda að svo var, auk þess sem hann átti þess kost að leita leyfis byggingarnefndar til einhverra annarra nota er hæfðu gerð byggingarinnar.

Samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/1978 var byggingarfulltrúa og byggingarnefnd allt frá fyrstu tíð heimilt að stöðva hina ólögmætu notkun skúrsins og mátti beita dagsektum skv. 36. gr. laganna til þess að knýja á um úrbætur.  Samsvarandi ákvæði eru í 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem vitnað er til í hinni kærðu ákvörðun.  Enda þótt langt hafi verið liðið frá því hin ólögmætu not hófust verður að telja að byggingarnefnd hafi verið heimilt, eins og á stóð í hinu kærða tilviki, að beita úrræðum þessum, m.a með tilliti til öryggissjónarmiða og með hliðsjón af því að áður höfðu komið fram athugasemdir byggingaryfirvalda við notkun skúrsins.  Vísast í því efni til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 19. mars 1995, þar sem kæranda var gert að gera grein fyrir notkun skúrsins, en ekki er til þess vitað að kærandi hafi orðið við þeim tilmælum.  Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um þennan þátt málsins að staðfesta beri ákvörðun byggingarnefndar um að gera kæranda að láta af notkun bílskúrsins til íveru eða íbúðar. 

Að því er varðar kjallara skúrsins hefur ekki verið fyllilega upplýst að um ólögmæta notkun hans sé að ræða umfram það sem kann að tengjast notkun skúrsins til íbúðar.  Átti úrskurðarnefndin þess ekki kost að staðreyna við vettvangsgöngu hvernig notkun skúrsins væri háttað.   Af hálfu byggingarnefndar hefur því verið haldið fram að í skúrnum sé rekin atvinnustarfsemi og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu kæranda.  Einungis er heimilt að nýta kjallarann sem geymslu samkvæmt þeirri samþykkt byggingarnefndar sem fyrir liggur um hann og er því fallist á þennan lið í hinni kærðu ákvörðun, sé atvinnustarfsemi stunduð í kjallaranum.

Í öðru lagi er lagt fyrir kæranda að gera fláa á gólfplötu í bílskúr, sbr. einnig samþykktan uppdrátt frá 13. júní 1985.  Leggja verður til grundvallar að umræddur uppdráttur sé gildandi uppdráttur af skúrnum enda hefur byggingarfulltrúi framvísað afriti af frumgerð uppdráttarins, sem ekki ber með sér að hann hafi verið felldur úr gildi eins og kærandi hefur haldið fram.  Þá hefur heldur ekki verið framvísað neinum öðrum uppdrætti af bílskúrnum, sem hefði getað komið í stað uppdráttarins frá 13. júní 1985.  Við uppdrátt þennan er það að athuga, að gólfkóti bílskúrsplötu er þar sagður 36,95 m enda þótt fyrir liggi að fyrri hæðarmælingar hafi leitt í ljós að hæð bílskúrsgólfs væri 37,01 m.  Engin skýring hefur komið fram á þessum mun en ljóst er að hann getur hafa haft áhrif við mat á því hvernig koma mætti fyrir innkeyrslu í bílskúrinn.  Þá liggur fyrir að hæð Borgarstígs framan við suðvesturhorn bílskúrskjallarans er 36,38 m í stað 36,66 m eins og gefið er upp á samþykktri teikningu og er gatan því 28 cm lægri en vera ætti samkvæmt teikningunni.  Samkvæmt gildandi mæliblaði af svæðinu, staðfestu af mælingadeild Borgarverkfræðings 5. apríl 1990, verður ekki séð að gert sé ráð fyrir gangstétt framan við bílskúrinn og virðist frágangi götunnar lokið á umræddum stað.  Hæðarmunur gólfplötu bílskúrsins er því í raun 63 cm en ekki 40 cm eins og teikningin gerir ráð fyrir.  Ef farið væri að fyrirmælum byggingarnefndar í hinn kærðu ákvörðun um að gera fláa á gólfplötu bílskúrs á grundvelli samþykktrar teikningar myndi fláinn enda í 23 cm háum lóðréttum stalli á lóðarmörkum.  Ef fláinn væri látinn ná niður í götuhæð á lóðarmörkum yrði halli hans 31,5% í stað 20% samkvæmt teikningu.  Er ljóst að í hvorugu tilvikinu yrði hægt að nota fláann sem innkeyrslu í bílskúrinn og hefur ekki verið sýnt fram á að hægt væri að koma fyrir innkeyrslu í skúrinn innan lóðarmarka á grundvelli samþykktrar teikningar, við óbreyttar aðstæður.  Þá liggur og fyrir að umsókn kæranda um stækkun lóðar vegna innkeyrslunnar var synjað.  Miðað við þessar aðstæður var ákvörðun byggingarnefndar um að leggja fyrir kæranda að gera umræddan fláa því augljóslega ekki til þess fallin að ná því markmiði sem að var stefnt.  Er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, sem haldin er slíkum ágalla, andstæð meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ólögmæt.  Ber því að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar um gerð umrædds fláa á bílskúrsplötuna.

Í þriðja lagi er lagt fyrir kæranda að breyta þakbrún bílskúrs til samræmis við samþykktan uppdrátt frá 13. júní 1985, eða sækja um leyfi til breytingar á þakbrún.  Krafan er í samræmi við þá meginreglu að byggingarleyfisskyld mannvirki skuli vera í samræmi við samþykkta uppdrætti.  Sé svo ekki getur byggingarnefnd hlutast til um úrbætur.  Þessi liður hinnar kærðu ákvörðunar er auk þess í raun samþykktur í greinargerð kæranda, en fallast má á að honum hafi verið rétt að bíða úrlausnar kærumálins í heild og að því beri að gefa honum kost á að sækja um leyfi til breytingar á þakbrúninni innan hæfilegs frests frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.

Í fjórða lagi er kæranda gert að leggja af innkeyrslu á lóð frá Sogavegi.  Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 26. apríl 1999, er boðað að hann muni, auk annars, leggja til við byggingarnefnd að kæranda verði gert að leggja þessa innkeyrslu af, en við skoðun á staðnum hafi komið í ljós að innkeyrsla hafi verið gerð frá Sogavegi að vestan án heimildar.

Meðal gagna málsins er uppdráttur, samþykktur í byggingarnefnd 30. desember 1993, þar sem meðal annars er samþykkt bygging bílskýlis vestan við hús kæranda með aðkomu frá Sogavegi.  Þessi samþykkt verður ekki skilin á annan veg en svo að jafnframt hafi verið samþykkt breytt fyrirkomulag á lóð kæranda og aðkoma að henni  frá Sogavegi,  enda hefði samþykkt bílskýlisins að öðrum kosti verið markleysa.  Athugasemdalaus áritun gatnamálastjóra og Borgarskipulags á umsókn kæranda um bílskýlið bendir og til þess að afstaða hafi sérstaklega verið tekin til innkeyrslunnar frá Sogavegi.  Það fær því ekki staðist að hún hafi verið gerð í heimildarleysi eins og þó virðist hafa verið lagt til grundvallar af hálfu byggingarfulltrúa er hann gerði tillögu til byggingarnefndar um þetta atriði.  Kærandi hefur nýtt sér þessa heimild til aðkomu að lóðinni og eru ekki í hinni kærðu ákvörðun færð fram nein efnisleg rök fyrir því að nauðsyn hafi borið til að meina honum áframhaldandi not hennar.  Með tilliti til atvika, og þess að umrædd ákvörðun fullnægði ekki ákvæði  2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 um samhliða rökstuðning fellst úrskurðarnefndin á kröfu kæranda um að hún verði felld úr gildi.  Verður rökstuðningur af hálfu byggingarnefndar, sem fram kom um þetta atriði á kærustigi málsins, ekki talinn hafa bætt úr þessum ágalla með fullnægjandi hætti.

Loks er lagt fyrir kæranda að fjarlægja allt afgangsbyggingarefni og drasl af lóðinni og ganga frá lóð að sunnan.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags 11. maí 1998, var kæranda veittur frestur til 1. júní sama ár til að fjarlægja vörugám, allt timbur og rusl af lóðinni að Sogavegi 216.  Vísaði byggingarfulltrúi til greinar 5.12.3. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 292/1979.  Að ósk kæranda var frestur þessi lengdur um einn mánuð.  Ekki liggur fyrir með hvaða hætti kærandi varð við þessari kröfu byggingarfulltrúa en a.m.k. er ljóst að vörugámur hefur verið fjarlægður.  Þá hefur timbri verið staflað undir svalir með suðurvegg hússin, hvort sem það hefur verið gert í umrætt sinn eða síðar.  Timburhlaði þessi er undir gluggum íbúða á 1. hæð og fellst úrskurðarnefndin á það sjónarmið byggingarnefndar að hætta geti stafað af timbrinu ef eldur kæmist í það.  Þá verður að teljast óviðunandi hversu lengi timbur þetta hefur verið geymt á umræddum stað og samrýmist það ekki reglum um frágang og umhirðu íbúðarlóða að geyma þarna byggingarefni í stórum mæli til langframa, sbr. nú ákvæði í 62. grein og grein 61.7 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Fellst úrskurðarnefndin á að byggingarnefnd hafi verið heimilt að leggja fyrir kæranda að fjarlægja umrætt timbur svo sem gert var.

Samkvæmt grein 5.12.1 í byggingarreglugerð nr. 292/1979 bar byggjanda húss skylda til að setja lóð þess í rétta hæð eigi síðar en þegar húsið var orðið fokhelt.  Sambærileg skylda er lögð á byggjanda í grein 68.1 í núgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 og samkvæmt ákvæði í 2. lið sömu greinar er húseiganda skylt að ganga snyrtilega frá lóð sinni.   Ekki hefur enn verið fyllt að húsi kæranda að sunnanverðu og er m.a. gengið upp á tröppur að austanverðu eftir timburfleka.  Hefur kærandi ekki sinnt skyldum sínum um að fylla að húsinu og ganga frá lóðinni svo sem áskilið er og var byggingarnefnd rétt að knýja á um að kærandi sinnti þessum skyldum.  Þar sem skylda þessi varðar frágang lóðar samkvæmt byggingarskilmálum verður að ætla að kæranda hafi verið um hana kunnugt og verður því ekki séð að þörf hafi verið að rökstyðja sérstaklega þennan lið í hinn kærðu ákvörðun.  Er því fallist á þennan lið ákvörðunarinnar.

Eins og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun voru dagsektir, kr. 30.000,- á dag, lagðar við ef fyrirmælum byggingarnefndar yrði ekki sinnt innan tilskilins frests, sem ákveðinn var 70 dagar.  Úrskurðarnefndin telur það ágalla á ákvörðun byggingarnefndar um dagsektir að leggja í einu lagi dagsektir við jafn ólíkum ákvöðum og hér er um að ræða.  Að hluta til lýtur hin kærða ákvörðun að framkvæmdum, svo sem frágangi innkeyrslu í bílskúr, frágangi lóðar og tiltekt á lóð.  Aðrir þættir lúta að því að láta af meintri ólögmætri hagnýtingu eignarinnar er varðar notkun bílskúrs og innkeyrslu frá Sogavegi.  Með því að ákveða dagsektirnar í einu lagi var kærandi firrtur þeim möguleika að leysa sig unda þeim að einhverju leyti með því að fullnægja einhverjum þáttum hinnar kærðu ákvörðunar.  Var ákvörðunin um dagsektir íþyngjandi umfram það sem nauðsyn bar til og var hún því andstæð meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.  Þar sem það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki verið fallist á alla þætti hinnar kærðu ákvörðunar leiðir það og til þess að fella verður úr gildi hina óskiptu ákvörðun um dagsektir.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykir rétt að byggingarnefnd ákvarði kæranda að nýju hæfilegan frest til að fullnægja skyldum sínum í samræmi við niðurstöðu málsins, að viðlögðum dagsektum eða öðrum lögmætum úrræðum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega.  Stafar það einkum af töfum við gagnaöflun.  Boðuð gögn frá kæranda bárust seinna en vænst var í upphafi auk þess sem úrskurðarnefndin hefur í verulegum mæli þurft að afla nýrra gagna frá borgaryfirvöldum til þess að skýra ýmis atriði málsins, sem ekki þóttu nægilega ljós. 

Úrskurðarorð:

Staðfest eru eftirtalin ákvæði í hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 1999 um fasteignina nr. 216 við Sogaveg:
1. að gera kæranda að leggja af ólögmæta notkun á bílskúr og geymslurými undir honum.
2. að breyta þakbrún bílskúrs til samræmis við samþykktan uppdrátt frá 13. júní 1985, eða sækja um leyfi til breytingar á þakbrún.
3. að fjarlægja allt afgangsbyggingarefni og drasl af lóðinni og að ganga frá lóð að sunnan.
Felld eru úr gildi ákvæði hinnar kærðu ákvörðunar um að leggja fyrir kæranda að gera fláa á gólfplötu í bílskúr og um að leggja af innkeyrslu á lóð frá Sogavegi.  Þá eru felld úr gildi ákvæði hinnar kærðu ákvörðunar um dagsektir og tímamörk.  Skal byggingarnefnd ákvarða kæranda að nýju hæfilegan frest til að fullnægja skyldum sínum í samræmi við framangreinda niðurstöðu, að viðlögðum hæfilegum dagsektum eða öðrum lögmætum úrræðum.

      Þorsteinn Þorsteinsson (sign)    Hólmfríður Snæbjörnsdóttir (sign)

Sérálit Ingimundar Einarssonar formanns:  Ég er ósammála þeirri niðurstöðu meirihluta úrskurðarnefndar að fella beri úr gildi kröfu byggingarnefndar Reykjavíkur um að kærandi skuli leggja af notkun innkeyrslu á lóð sína frá Sogavegi.  Tel ég að heimild kæranda til þeirrar notkunar hafi fallið úr gildi um leið og byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðu bílskýli hans féll úr gildi, enda var heimild til þeirrar notkunar á lóðinni forsenda þess að bílskýlið yrði hagnýtt af kæranda.  Því er það álit mitt að staðfesta beri kröfu byggingarnefndar Reykjavíkur um að kærandi skuli leggja af notkun innkeyrslu frá Sogavegi.  Að öðru leyti en hér greinir er ég sammála niðurstöðu meirihlutans.

            Ingimundur Einarsson (sign)