Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/1999 Reykjamelur

Ár 2000,  fimmtudaginn 29. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðamenn, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, formaður nefndarinnar, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/1999; kæra S og J, Reykjamel 11, Mosfellsbæ, á ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 23. september 1999, um að hefja framkvæmdir við gerð útivistarstígs meðfram Varmá við lóð kærenda að Reykjamel 11.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags 13. október 1999, kærir Óskar Sigurðsson hdl. f.h. S og J, til heimilis að Reykjahlíð 11, Mosfellsbæ, með vísun til 4. mgr. 39. gr., sbr. 8. gr., laga nr. 73/1997, ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 23. september 1999, um að hefja framkvæmdir við gerð útivistarstígs meðfram Varmá við Reykjamel 11.  Ennfremur er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar og að þegar í stað verði kveðinn upp úrskurður um það atriði, sbr. 5. mgr. 8. gr. sömu laga.  Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var þeim tilmælum beint til byggingaryfirvalda í Mosfellsbæ að ekki yrðu hafnar framkvæmdir við gerð göngustígs um lóð kæranda meðan málið væri til úrlausnar hjá nefndinni.  Var orðið við þeim tilmælum og hefur því ekki komið til þess að taka þyrfti kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrskurðar.

Málavextir:  Kærendur munu hafa keypt lögbýlið Blómvang í Mosfellsbæ á árinu 1989 og ákveðið að deiliskipuleggja landið með þeim hætti að skipta því í fjórar lóðir auk Blómvangs.  Eftir að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafði á fundi sínum 28. júní 1989 heimilað kærendum að hefja skipulagsvinnu á landinu, að því tilskildu að lögbýlisréttur Blómvangs yrði felldur niður, lögðu þeir deiliskipulag landsins fyrir skipulagsnefnd til afgreiðslu.  Með bréfi til bæjarráðs, dags. 25. mars 1991, óskuðu kærendur eftir því að málið fengi skjóta afgreiðslu, þar sem ætlunin væri að hefja framkvæmdir við hús og lóðir þá um sumarið.  Því bréfi var svarað með bréfi frá Jóni H. Ásbjörnssyni, þáverandi tæknifræðingi bæjarins, dags. 30. apríl 1991, þar sem kærendum var tilkynnt um að erindi þeirra vegna deiliskipulagsins hefði verið til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar þann 23. apríl 1991 og að eftirfarandi bókun hefði verið gerð: „Skipulagsnefnd fellst á að unnið verði áfram að skipulagi á svæðinu en bendir á að nauðsynlegt er að meðfram ánni verði haldið eftir spildu fyrir lagnir og gangandi umferð.“  Ári seinna, eða með bréfi skipulagsnefndar, dags. 7. maí 1992, var kærendum tilkynnt um að skipulagsnefnd hefði frestað afgreiðslu málsins, þar sem þeir hefðu ekki tekið bókun nefndarinnar frá 23. apríl 1991 til greina.  Kærendur óskuðu þá eftir nánari skýringum Jóns H. Ásbjörnssonar, þáverandi tæknifræðings bæjarins og Ásbjarnar Þorvarðarsonar byggingarfulltrúa á því hvað fælist í orðalaginu „spildu fyrir lagnir og gangandi umferð“ og hvort ætlunin væri að hafa göngustíg um land þeirra.  Málsaðila greinir á um skýringar tæknimannanna.  Kærendur halda því fram að þeir hafi svarað því til „að ekki væri ætlunin að hafa göngustíg um land þeirra þar sem slíkur stígur væri norðan Varmár og að með þessu væri einungis verið að vísa til mögulegra lagna vegna stofnræsis og gangandi umferðar vegna þess t.d. til þess að komast að lögnum vegna vinnu eða viðhalds þeirra.  Þá var þeim tjáð að með þessu væri verið að vísa til þess að lög gerðu ráð fyrir aðgengi að vötnum, t.d. til að brynna hestum, og að með þessu væru þau einungis að samþykkja gömul landslög.“  Því er hins vegar mótmælt af hálfu Mosfellsbæjar að með orðalaginu „spildu fyrir lagnir og gangandi umferð“ hafi verið átt við gangandi umferð til viðhalds lagna.  Ekki hafi verið þörf á því að tiltaka sérstaklega að gangandi umferð til viðhalds lagna væri heimil þar sem það felist í kvöðinni um lagnir.  Samkvæmt orðalagi kvaðarinnar sé ótvírætt að átt hafi verið við gangandi umferð óháð lögnunum.  Það sé því ekki sannleikanun samkvæmt að starfsmenn bæjarins hafi túlkað kvöðina fyrir kærendum jafn þröngt og þeir haldi fram.

Annar kærenda, S, svaraði bréfi skipulagsnefndar frá 7. maí 1992 með bréfi, dags. 9. ágúst 1992, þar sem m.a. segir orðrétt: „Varðandi umgengisrétt og lagnir meðfram ánni Varmá leyfi ég að sjálfsögðu eins og  landslög kveða á um,“ og með bréfi, dags. 5. júlí 1993, tilkynnti hún skipulagsnefnd að tilvísun til bókunar skipulagsnefndar frá 23. apríl 1991 hefði verið færð inn á deiliskipulagsuppdráttinn.  Þann 22. desember 1993 var deiliskipulagið samþykkt í bæjarstjórn og af skipulagsstjóra ríkisins hinn 20. janúar 1994.  Kærendum var tilkynnt í bréfi, dags. 7. júní 1995, frá Jóni H. Ásbjörnssyni þáverandi tæknifræðingi bæjarins, að til stæði að leggja holræsi upp með Varmá frá Reykjalundarvegi upp að gróðurhúsum við Bjarg og Árbakka.  Kærendur segjast hafa samþykkt legu ræsisins í ljósi fyrri samskipta og þess að þeim hafi verið tjáð að göngustígur yrði ekki lagður um land þeirra.

Á árinu 1998 kynnti Mosfellsbær svokallað umhverfisskipulag þar sem gert var ráð fyrir göngustíg meðfram Varmá um land kærenda.  Því mótmæltu kærendur og bentu á að sú fyrirætlan hefði aldrei verið kynnt þeim og að deiliskipulag Blómvangs gerði ekki ráð fyrir göngustíg í landi þeirra.  Þeim var kynnt umsögn skipulagsnefndar um athugasemdir þeirra í bréfi frá byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 1998, en í því bréfi segir orðrétt: „Við vinnu að umhverfisskipulaginu hefur það ítrekað komið fram hjá nefndum bæjarins og þeim sem hafa kynnt sér tillögurnar að mikilvægt sé að halda opinni gönguleið meðfram Varmá. Í því sambandi hefur verið leitað til landeigenda sem eiga landspildur að Varmá og að á árbakkanum verði mjór útivistarstígur. Til þess að stígurinn verði samfelldur er nauðsynlegt að leitað verði samninga við landeigendur þar um. Samkvæmt deiliskipulagi Blómvangs sem unnið var á vegum bréfritara kemur fram kvöð um lagnir og gangandi umferð meðfram ánni, því er eðlilegt að á landi Blómvangs meðfram Varmá verði lagður útivistarstígur.“  Kærendur mótmæltu þessari afstöðu skipulagsnefndar með bréfi, dags. 18. desember 1998, og ítrekuðu  mótmæli sín á fundi með tæknideild Mosfellsbæjar þann 15. apríl 1999.

Með bréfi, dags. 8. júní 1999, kynnti Mosfellsbær kærendum fyrirætlanir sínar um að leggja stíg meðfram Varmá á landi þeirra og báðu þá um að koma athugasemdum sínum á framfæri fyrir 1. júlí 1999, að öðrum kosti yrði litið svo á að ekki væri gerður ágreiningur um framkvæmdina.  Kærendur svöruðu því í bréfi, dags. 18. júní 1999, með því að þeir hefðu þegar komið mótmælum sínum á framfæri bæði skriflega og á greindum fundi með tæknideild bæjarins.  Mosfellsbær kynnti kærendum álit Skipulagsstofnunar með bréfi, dags. 9. september 1999, þar sem því var jafnframt lýst yfir að ætlunin væri að hefja undirbúning og framkvæmdir við útivistarstíg meðfram Varmá með haustinu.  Þann 23. september 1999 samþykkti bæjarráð að hefjast handa „um framkvæmdir við lagningu útivistarstígs meðfram Varmá við Reykjamel 11“ og aukafjárveitingu vegna málsins.  Er þetta sú ákvörðun, sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Í kærubréfinu gerir lögmaður kærenda ítarlega grein fyrir málsástæðum og lagarökum kærenda. Kærendur byggja einkum á eftirfarandi:

a) Ákvörðunin lúti einungis að því að gera göngustíg á þeirra landi en ekkert liggi fyrir um framhald stígsins eða afstöðu annarra landeigenda til hans.

b) Enga heimild fyrir samgöngumannvirki á borð við göngustíg sé að finna, hvorki í staðfestu aðalskipulagi né samþykktu deiliskipulagi Blómvangs.  Göngustígur meðfram Varmá teljist til samgöngumannvirkja sem beri að gera grein fyrir í aðal- og deiliskipulagi, sbr. gr. 4.16.1. og gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sbr. gr. 3.3.4.8. og gr. 4.3.1. í eldri skipulagsreglugerð nr. 318/1985.  Ekki sé unnt að líta á það sem fram komi í deiliskipulaginu um „mögulegar lagnir og gangandi umferð“ sem skipulagðan göngustíg og túlka verði umrætt orðalag þröngt í samræmi við meginreglur eignarréttar og eignarráð fasteignareigenda.  Þá skipti líka miklu máli að þegar málið hafi verið kynnt fyrir þeim hafi verið tekið fram af hálfu Jóns Ásbjörnssonar þáverandi tæknifræðingi bæjarins og Ásbjarnar Þorvarðarsonar að krafa bæjaryfirvalda um spildu fyrir „lagnir og gangandi umferð“ væri einungis hugsuð fyrir fyrirhugaða stofnlögn og hugsanlega gangandi umferð vegna þess og ákvæða í gömlum landslögum.  Skýrt hafi verið tekið fram að ekki væri ætlunin að hafa göngustíg á þeirra landi, enda væri slíkur stígur norðan Varmár.  Af þessum sökum hafi þeir samþykkt deiliskipulagið en alls ekki talið sig vera að samþykkja göngustíg um land sitt.  Þá liggi fyrir að umrætt ákvæði í deiliskipulaginu hafi verið sett inn að kröfu Mosfellsbæjar og þeir fallist á það eftir nánari kynningu frá fulltrúum bæjarfélagsins.  Þess vegna hafi skipulagsyfirvöldum borið að kveða skýrt á um að ætlunin væri að leggja göngustíg um land þeirra, hefði það verið ætlunin, og óska eftir landi frá þeim til þess.  Slíkt hefði verið eðlilegt í ljósi framtíðarnýtingar þeirra á landinu og uppbyggingu á mannvirkjum þar.  Þeir hafi hagað byggingarframkvæmdum sínum á landinu og nýtingu þess í samræmi við áðurgreinda afstöðu og skilning á ákvæðum deiliskipulagsins.  Þeir kveðast m.a. hafa gróðursett tré og ræktað matjurtagarð á hluta af því svæði þar sem skipulagsnefnd telji eðlilegt að útivistarstígur verði lagður.  Það myndi því hafa verulega röskun í för með sér fyrir þá ef göngustígur yrði lagður í landi þeirra.  Ennfremur hafi þeir með staðsetningu á húsi sínu tekið mið af því að ekki yrði lagður göngustígur á baklóð þeirra og þeir líti svo á að með veitingu byggingarleyfisins hafi bæjarstjórn samþykkt skilning þeirra á deiliskipulaginu, enda sé tekið fram í 2. mgr. 9. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 að framkvæmdir, m.a. samkvæmt byggingarleyfi, skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag, skv. 4. gr. 1. mgr. skipulagslaga.  Þeir séu ekki sammála því sem komi fram í áliti Skipulagsstofnunar frá 13. 08. 1999 að deiliskipulag Blómvangs geri ráð fyrir göngustíg og að ekki hafi verið nauðsynlegt að gera grein fyrir slíku samgöngumannvirki á aðalskipulagsuppdrætti, sem staðfestur var 6. maí 1994 og lúti ákvæðum eldri laga og reglugerða.  Þá verði að hafa í huga að Skipulagsstofnun byggi á einhliða kynningu Mosfellsbæjar og virðist ekki hafa verið kunnugt um forsendur deiliskipulagsins eða hvað var kynnt fyrir þeim þegar það var gert.  Í deiliskipulaginu sé einungis talað um „mögulegar lagnir og gangandi umferð“.  Með þessu hafi einungis verið ætlunin að áskilja sveitarfélaginu heimild til að leggja stofnræsi um land þeirra og að aðgengi til hugsanlegs viðhalds væri tryggt.  Annað felist ekki í greindu orðalagi, enda í samræmi við það sem þeim hafi verið kynnt.
 
c) Hin kærða ákvörðun um að gera göngustíg á þeirra landi feli í sér skerðingu á eignar- og hagnýtingarrétti þeirra og sé því óheimil nema að uppfylltum skilyrðum 72. gr. stjórnarskrárinnar og standist ekki gagnvart Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. 1. viðauka við sáttmálann, sbr. lög nr. 62/1994.  Ákvörðun um slíkt þyrfti einnig að lúta málsmeðferð, sem 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geri ráð fyrir, en reyndar telji þeir að eignarnám geti ekki farið fram á grundvelli fyrirliggjandi skipulags.

d) Óheimilt sé að hefja framkvæmdir við göngustíg í landi þeirra nema að fengnu framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda um samgöngumannvirki að ræða sem óhjákvæmilega breyti ásýnd nánasta umhverfis þeirra.
 
e) Að málið hafi ekki verið nægilega upplýst og að ekki hafi verið gætt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga með því að ekki hafi verið kannað til hlítar hvort aðrar leiðir hafi verið færar fyrir göngustíg meðfram Varmá en um þeirra land.

f) Þeir telji að önnur mál þeirra varðandi gatnagerðargjöld og byggingarleyfi á lóð þeirra að Reykjamel 19 (sic), hafi ekki fengið eðlilega afgreiðslu og málsmeðferð vegna kapps skipulagsnefndar og einkum byggingarfulltrúa við að þvinga fram umræddan göngustíg.

Að lokum taka kærendur fram að fari svo ólíklega að fallist yrði á að Mosfellsbær hafi heimild til að leggja göngustíg um land þeirra þá áskilji þeir sér rétt til að færa stofnræsið, sem liggi um land þeirra enda ætti það þá að vera undir hinum meinta stíg.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Í umsögn Mosfellsbæjar, sem byggð er á álitsgerð bæjarritara, dags. 14. júní 2000, koma fram eftirfarandi mótrök við málsástæðum og lagarökum kærenda.

a) Mosfellsbær telur að gerð stígsins meðfram Varmá sé heimil á grundvelli deiliskipulags fyrir Blómvang.  Útivistarstígur sé einnig í samræmi við umhverfisskipulag fyrir Varmársvæði sem geri ráð fyrir stígum meðfram Varmá.  Fyrir liggi samþykki eigenda aðliggjandi landa, austan og vestan við Reykjamel 11, fyrir stígagerð um lönd þeirra.  Stígur hafi þegar verið lagður meðfram Varmá að vestanverðum landamörkum Reykjamels 11.  Sá stígur hafi verið lagður á árinu 1997 fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga.  Framkvæmdir við framhald stígsins hafi stöðvast vegna ágreinings við eigendur Reykjamels 11.

b) Mosfellsbær vilji árétta það sem fram komi í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. ágúst 1999, að við úrlausn málsins verði að leggja til grundvallar skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sbr. lög nr. 19/1964, með síðari breytingum.  Samkvæmt 1. mgr. greinar 3.3.4.8. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985 bar að gera grein fyrir „helstu samgöngumannvirkjum“ í aðalskipulagi. Umræddur stígur falli ekki undir hugtakið „helstu samgöngumannvirki“ í skilningi greinarinnar og því hafi ekki verið nauðsynlegt að sýna hann á aðalskipulagsuppdrætti.  Mosfellsbær telur einnig að kvöð um gangandi umferð á deiliskipulagsuppdrætti hafi falið í sér fullnægjandi deiliskipulagsheimild á grundvelli þágildandi laga. Mosfellsbær mótmælir því sem fram kemur hjá kærendum að með kvöðinni „lagnir og gangandi umferð“ hafi einungis verið átt við gangandi umferð til viðhalds lagna.  Ekki hafi verið þörf á að tiltaka sérstaklega að gangandi umferð til viðhalds lagna væri heimil þar sem það felist í kvöðinni um lagnir.  Samkvæmt orðalagi kvaðarinnar sé ótvírætt að átt hafi verið við gangandi umferð óháða lögnunum.  Það sé heldur ekki sannleikanum samkvæmt að starfsmenn bæjarins hafi á kynningarfundi túlkað kvöðina fyrir landeigendum jafn þröngt og þeir haldi fram.  Kærendur byggi einnig á þeirri málsástæðu að þeir hafi hagað byggingarframkvæmdum og ræktun lóðar án tillits til göngustígsins.  Þessi rök standist engan veginn.  Kærendum hafi verið fullkunnugt um kvöð um umferð gangandi manna um lóðina og hafi því verið í lófa lagið að taka mið af því við skipulagningu framkvæmda á lóðinni.  Auk þess sé rétt að árétta það sem einnig komi fram í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. ágúst 1999, að ekkert, hvorki í þágildandi lögum né reglugerð, hefði getað komið í veg fyrir að staðsetning hússins yrði samþykkt vegna nálægðar við fyrirhugaðan stíg.

c)  Varðandi þá málsástæðu kærenda að óheimilt sé að taka land þeirra undir göngustíg, nema að uppfylltum skilyrðum laga og stjórnarskrár um eignarnám, vilji Mosfellsbær benda á að sveitarstjórn var heimilt, samkvæmt 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, að breyta landi í einkaeign í byggingarlóðir, á þeirri forsendu að landeigandi léti endurgjaldslaust af hendi við sveitarfélagið til almenningsþarfa, sem svaraði til 1/3 af heildarflatarmáli þeirra byggingarlóða, sem heimild sveitarstjórnar næði til.  Mosfellsbær líti svo á að með bókun skipulagsnefndar 23. apríl 1991, hafi bærinn verið að áskilja að kærendur létu af hendi endurgjaldslaust land til almenningsþarfa, sbr. orðalag bókunarinnar: „Skipulagsnefnd fellst á að unnið verði áfram að skipulagi á svæðinu en bendir á að nauðsynlegt er að meðfram ánni verði haldið eftir spildu fyrir lagnir og gangandi umferð.“  Ekki verði séð að lagning göngustígsins sem slíks hafi að öðru leyti í för með sér skerðingu á eignarréttindum kærenda.  Um minniháttar framkvæmd á landi sé að ræða, sem ótvírætt sé að haldið var eftir við gerð deiliskipulags til umferðar gangandi manna.  Stígnum sé ætlað að auðvelda umferð gangandi fólks og stuðla að skipulagðari og bættri umgengni um landið og því í raun landeigendum til hagsbóta.  Einnig sé rétt að benda á að samkvæmt lögum um náttúruvernd hafi gangandi menn rétt til að ferðast um land meðfram árbökkum, sbr. 23. gr. laga nr. 44/1999.

d) Umdeildur stígur sé svonefndur útivistarstígur.  Samkvæmt umhverfisskipulagi fyrir Varmársvæði séu útivistarstígar minni stígar sem liggja um náttúruleg svæði innan byggðar og hins vegar lengri leiðir um aðliggjandi heiðar og fjalllendi.  Innan byggðar sé gert ráð fyrir að þessir stígar séu 80 – 120 sm breiðir og uppbyggðir með malarefni og trjákurli.  Mosfellsbær telji með hliðsjón af þessari lýsingu á gerð stígsins og með vísan til 2. og 3. mgr. greinar 9.1 í skipulagsreglugerð ótvírætt að stígurinn geti ekki talist meiriháttar framkvæmd sem framkvæmdaleyfi þurfi fyrir.

e) Lagning göngustígsins um land kærenda styðjist við deiliskipulag Blómvangs sem þeir hafi samþykkt fyrir sitt leyti á sínum tíma.  Aðalgöngustígurinn í nágrenni Varmár sé norðan árinnar þannig að ekki sé verið að beina óþarfa umferð gangandi manna inn á útivistarstíginn sunnan Varmár.  Að baki umhverfisskipulaginu hafi legið ítarleg skoðun á landinu og aðstæðum öllum.  Tillögur hafi verið kynntar íbúum og hafðar til sýnis.  Mosfellsbær vilji að lokum mótmæla því alfarið sem fram komi hjá kærendum, að önnur mál þeirra, sem hafi verið til afgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum, m.a. varðandi gatnagerðargjöld og byggingarleyfi, hafi ekki fengið eðlilega málsmeðferð vegna kapps skipulagsnefndar og byggingarfulltrúa við að reyna að þvinga fram umræddan göngustíg.  Þetta sé alrangt og tilvísun til orða byggingarfulltrúa ekki sannleikanum samkvæm.  Meðferð allra mála kærenda hjá bæjaryfirvöldum hafi verið í samræmi við lög og reglur sveitarfélagsins.

Umsögn Skipulagsstofnunar: Ekki hefur verið leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa þar sem fyrir liggur í málinu álit stofnunarinnar um ágreining kærenda við Mosfellsbæ um túlkun á deiliskipulagi Blómvangs, dags. 13. ágúst 1999.

Niðurstaða:  Fyrir liggur samþykki eigenda aðliggjandi landa austan og vestan við lóð kærenda fyrir stígagerð um lönd þeirra meðfram Varmá og einnig að á árinu 1997 var lagður göngustígur að vesturmörkum lóðar kærenda, en þar stöðvuðust framkvæmdir við framhald stígsins vegna ágreinings við þá.  Það er því ekki rétt, sem haldið er fram af hálfu kærenda, að ekkert liggi fyrir um framhald stígsins og afstöðu annarra landeigenda til hans.  Ekki verður því fallist á það með kærendum að ógilda beri hina kærðu ákvörðun á þeim forsendum að hún lúti einungis að lóð þeirra.

Með vísun til 1. og 3. mgr. gr. 3.3.4.8. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sem í gildi var þegar aðalskipulag Mosfellsbæjar var staðfest 6. maí 1994, fellst úrskurðarnefndin ekki á að umdeildur göngustígur, eins og honum er lýst í umhverfisskipulagi fyrir Varmársvæði frá árinu 1998, teljist til helstu samgöngumannvirkja eða gönguleiða og telur þar af leiðandi að ekki hafi verið nauðsynlegt að sýna hann á aðalskipulagsuppdrætti.  Hins vegar telur úrskurðanefndin að skilyrði 2. mgr. gr. 4.3.1. sömu reglugerðar hafi verið uppfyllt með því að fært var inn á deiliskipulagsuppdráttinn fyrir Blómvang frá 1993 „mögulegar lagnir og gangandi umferð“ á því svæði sem Mosfellsbær áætlar að leggja göngustíginn um lóð kærenda.

Samkvæmt 25. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999 er óheimilt að setja mannvirki á árbakka þannig að það hindri frjálsa umferð fótgangandi manna.  Samsvarandi ákvæði var að finna í 20. gr. eldri laga um náttúruvernd nr. 47/1971.  Sé litið til þessara lagaákvæða þykir það hafa líkurnar gegn sér að starfsmenn bæjarins hafi túlkað umrædda innfærslu á uppdráttinn þannig að hún eigi einungis við um gangandi umferð til nauðsynlegs viðhalds lagnanna.  Telur úrskurðarnefndin þvert á móti að í innfærslunni felist kvöð á lóð kæranda um göngustíg til almennrar umferðar.

Því er alfarið hafnað að framkvæmdir við gerð umdeilds göngustígs hafi í för með sér þá skerðingu á eignar- og hagnýtingarrétti kærenda á landi sínu að þær brjóti gegn Mannréttindasáttmála Evrópu og geti ekki farið fram nema að uppfylltum skilyrðum 72. gr. stjórnarskrár um eignarnám og 32. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Heimild til lagningar stígsins á sér stoð í þeirri kvöð um gangandi umferð, sem felld var á lóð kærenda við samþykkt deiliskipulags á landi þeirra, og í þeirri skyldu, sem hvíldi á landeiganda skv. 30. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964 m.s.br., um að láta endurgjaldslaust í té land til almenningsþarfa við skipulagningu lands í einkaeign, að því marki sem í ákvæðinu greindi.

Loks verður ekki á það fallist með kærendum að göngu- eða útivistarstígur meðfram Varmá um lóð þeirra, sem samkvæmt umhverfisskipulagi fyrir Varmársvæðið verður ekki breiðari en  80 – 120 sm og uppfylltur með náttúrulegum efnum, möl eða trjákurli, komi til með að breyta ásýnd lands að því marki sem 27. gr. skipulags- og byggingarlaga áskilur fyrir framkvæmdaleyfi. 

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu samþykktar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 23. september 1999 um að hefja framkvæmdir við gerð útivistarstígs meðfram Varmá við Reykjamel 11.