Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2000 Hafnargata

Ár 2000, miðvikudaginn 17. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2000; kæra húseigenda að Austurgötu 20, 22, 24 og 26, Keflavík, Reykjanesbæ, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 27. apríl 2000 um að veita leyfi til byggingarframkvæmda við nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í Keflavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2000 kærir Ásgeir Jónsson, hdl., f.h. húseigenda að Austurgötu 20, 22, 24 og 26, Keflavík, Reykjanesbæ ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 27. apríl 2000 um að veita Húsanesi ehf. leyfi til byggingarframkvæmda við nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í Keflavík, Rnb.  Krefst hann þess f.h. kærenda að byggingarframkvæmdir við Hafnargötu 51-55, Keflavík verði stöðvaðar þegar í stað.  Jafnframt er þess krafist að skipulags- og byggingaryfirvöldum í Reykjanesbæ verði gert að vinna deiliskipulag fyrir téða lóð/lóðir og kynna það með lögformlegum hætti skv. lögum nr. 73/1997 með síðari breytingum, en til vara að grenndarkynning verði látin fara fram skv. sömu lögum, áður en framkvæmdum verði fram haldið.

Þar sem framkvæmdir á grundvelli hins kærða byggingarleyfis voru hafnar er kæran barst úrskurðarnefndinni var formanni byggingarnefndar Reykjanesbæjar og forsvarsmanni byggingarleyfishafa þegar í stað sent afrit af kærunni og þeim gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Var áformað að taka kröfu þessa til úrskurðar á fundi úrskurðarnefndarinnar hinn 10. maí 2000, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Nokkru fyrir umræddan fund úrskurðarnefndarinnar barst henni afrit af bréfi byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ, dags. 10. maí 2000, til byggingarleyfishafa þar sem honum er tilkynnt um afturköllun áður útgefins byggingarleyfis, dags. 27. apríl 2000, vegna framkvæmda við verslunar- og skrifstofuhús að Hafnargötu 51-55 í Reykjanesbæ.  Er þess jafnframt krafist í bréfinu að framkvæmdum við bygginguna verði hætt þegar í stað.  Bréfið er staðfest af byggingar- og skipulagsnefnd bæjarins.

Samkvæmt tilvitnuðu bréfi hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og eru réttaráhrif hennar fallin niður.  Þykja kærendur hér eftir ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru húseigenda að Austurgötu 20, 22, 24 og 26, Keflavík, Reykjanesbæ, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 27. apríl 2000 um að veita leyfi til byggingarframkvæmda við nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í Keflavík er vísað frá úrskurðarnefndinni.