Fyrir var tekið mál nr. 37/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar Borgarbraut 55-59.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. apríl 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kærir A, Helgugötu 10, Borgarnesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar Borgarbraut 55-59. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja greint deiliskipulag með áorðnum breytingum. Er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2016, er barst nefndinni 12. s.m., kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 8. júlí 2016 að veita leyfi til sökkulvinnu á byggingarsvæði lóðanna Borgarbraut 57 og 59. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 92/2016, sameinað máli þessu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.
Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 4. maí, 19. júlí og 1. september 2016.
Málavextir: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59. Í breytingunni fólst að lóð nr. 55-57 var skipt upp í tvær lóðir, byggingarmagn á svæðinu aukið um 1.569 m2 og hæð húsa breytt. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 16. desember s.á. með athugasemdarfresti til 29. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað af skipulagsfulltrúa. Deiliskipulagsbreytingin var svo samþykkt á sveitarstjórnarfundi 11. febrúar 2016. Hinn 14. apríl s.á. var deiliskipulagsbreytingin tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar þar sem breytingar höfðu verið gerðar á tillögunni vegna athugasemda frá Skipulagsstofnun. Var skipulagsbreytingin samþykkt með áorðnum breytingum og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.
Hinn 8. júlí 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir sökkulvinnu á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut.
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé farið fram úr leyfilegu nýtingarhlutfalli samkvæmt aðalskipulagi. Eigi nýtingarhlutfall við hlutfall milli stærðar hverrar lóðar og þeirrar byggingar sem þar standi en ekki til alls svæðisins enda sé þess getið að nýtingarhlutfall sé 0,35-1,0. Auk þess veki það athygli að í auglýsingu um hið breytta deiliskipulag sé getið til um nýtingarhlutfall hverrar lóðar en ekki minnst á heildarhlutfall svæðisins.
Foreldrar kæranda eigi fasteignina Kveldúlfsgötu 2a, sem sé næsta hús við fyrirhugaða byggingu, og teljist hann til lögerfingja að þeirri eign. Af þeim sökum eigi hann lögvarða hagsmuni að fá efnisúrskurð í málinu. Ef byggt verði jafn hátt hús og gert sé ráð fyrir muni útsýni skerðast verulega frá fasteigninni að Kveldúlfsgötu 2a auk þess að hætta sé á vindstrengjum sem og auknum hávaða og umferð. Geti þetta skert gæði eignarinnar og komið niður á endursöluverði hennar.
Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sé gert ráð fyrir því að nýtingarhlutfall á reitnum „Miðsvæði“ sé á bilinu 0,35-1,0 en umræddur reitur sé 60.000 m2. Samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu mun byggingarmagn á reitnum aukast um 17.500 m2 sem rúmist vel innan þess nýtingarhlutfalls sem tilgreind sé í gildandi aðalskipulagi. Jafnframt sé á það bent að í kærunni sé ekki gert grein fyrir hvaða lögvörðu hagsmuni kærandi hafi vegna hinna kærðu ákvarðana og beri af þeim sökum að vísa málinu frá.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að samkvæmt aðalskipulagi megi byggja allt að 60.000 m2 á miðsvæðinu og hafi aðeins lítill hluti byggingarmagns þegar verið byggður. Byggingar þær sem rísa eigi á lóðunum Borgarbraut 55-59 sé langt innan þess byggingarmagns sem heimilað sé. Deiliskipulagið hafi verið unnið af mikilli vandvirkni og tillit tekið til allra þeirra þátta sem nauðsynlegir séu og lög og reglugerðir kveði á um.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.
Málsrök kæranda lúta að mögulegum grenndaráhrifum og verðrýrnun fasteignar foreldra hans í næsta nágrenni við Borgarbraut 57 og 59 sem hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi tekur til. Telur hann sig eiga hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum sem einn lögerfingja foreldranna en sjálfur býr hann í um eins km fjarlægð frá umræddu skipulagssvæði.
Með hliðsjón af afstöðu húss kæranda og fjarlægðar frá umræddu skipulagssvæði, verður ekki séð að byggingarheimildir hinna kærðu ákvarðana geti haft áhrif á lögvarða grenndarhagsmuni er tengjast þeirri fasteign, svo sem vegna skuggavarps. Þá verður ekki fallist á að lögerfðaréttur kæranda gagnvart eigendum fasteignar í nágrenni skipulagssvæðisins geti veitt kæranda kæruaðild í máli þessu vegna hagsmuna arfláta að þeirri fasteign. Verður kærandi samkvæmt framangreindu ekki talinn eiga þá beinu persónulegu lögvörðu hagsmuni tengda, hinum kærðu ákvörðunum í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson