Ár 2006, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Fyrir var tekið mál nr. 37/2003, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 á tillögu að deiliskipulagi vegna færslu Hringbrautar í Reykjavík, þar sem m.a. var gert ráð fyrir vegtengingu frá Umferðarmiðstöðvarreit að gatnamótum gömlu Hringbrautar og Smáragötu og gerð hringtorgs við þau gatnamót.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2003, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kæra A, Smáragötu 16, E, Laufásvegi 74, H, Smáragötu 11, S, Smáragötu 13, V, Smáragötu 14, K, Hringbraut 10 og E, Sóleyjargötu 31, öll í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi vegna færslu Hringbrautar í Reykjavík, þar sem m.a. var gert ráð fyrir vegtengingu frá Umferðarmiðstöðvarreit að gatnamótum gömlu Hringbrautar og Smáragötu og gerð hringtorgs við þau gatnamót. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu skipulagsákvörðun.
Málsatvik og rök: Hinn 20. maí 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur auglýsta deiliskipulagstillögu fyrir Hringbraut að Þorfinnsgötu, þar sem gert var ráð fyrir færslu hennar til suðurs í samræmi við áætlun aðalskipulags um færslu Hringbrautar sem verið hefur í aðalskipulagi um árabil. Í tillögunni var m.a. gert ráð fyrir vegtengingu frá Umferðarmiðstöðvarreit að gatnamótum gömlu Hringbrautar og Smáragötu og skyldu götur þessar tengjast með hringtorgi. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi borgarráðs hinn 21. október 2003 og samþykkt að nýju eftir gildistöku aðalskipulagsbreytingar er snerti fyrirhugaðar framkvæmdir við færslu Hringbrautar. Tók deiliskipulagstillagan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003.
Kærendur gerðu athugasemdir við fyrrgreinda vegtengingu og hringtorg og töldu að með því væri verið að beina umferð frá Umferðarmiðstöðvarreitnum að íbúðarbyggð að óþörfu. Aðrar betri lausnir lægju fyrir svo sem tenging við nýja Hringbraut, tenging við fyrirhuguð göng undir Þingholtin og við núverandi Vatnsmýrarveg. Með umdeildu skipulagi sé að ástæðulausu verið að taka verðmætt byggingarland undir umferðarmannvirki og auka umferð að gömlu Hringbraut og rýra þannig vistfræðilegt gildi færslu hennar. Kærendur hafa fært fram ítarlegri rök í máli þessu, sem ekki verða rakin frekar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Greinargerð vegna kærumáls þessa hefur ekki borist frá borgaryfirvöldum og úrskurðarnefndinni hafa ekki borist gögn er mál þetta varða þrátt fyrir beiðni þar um, sem upphaflega var komið á framfæri í bréfi, dags. 15. ágúst 2003. Þrátt fyrir þetta telur úrskurðarnefndin rétt að taka málið til úrskurðar, en nefndin hefur að eigin frumkvæði aflað gagna er málið varða. Auk þess fylgdi samantekt borgaryfirvalda um athugasemdir og svör eftir kynningu tillögunnar kæru kærenda.
Í nefndri samantekt kemur fram að við færslu Hringbrautar, fjær íbúðarbyggð, muni umferð um gömlu Hringbraut stórminnka, íbúum til hagsbóta. Hún verði safngata, er taki við umferð frá aðliggjandi götum, en eðlilegt og nauðsynlegt sé að tengja Umferðarmiðstöðvarreit við götuna. Litlar líkur séu á að umferð stórra bíla fari um umdeilt hringtorg enda megi ætla að sú umferð beinist inn á tengingar við stofnbrautakerfi borgarinnar svo sem inn á hina nýju Hringbraut.
Niðurstaða: Við umdeilda breytingu á legu Hringbrautar færðist hún fjær fasteignum kærenda og má ljóst vera að umferð um gömlu Hringbrautina, sem fasteignir kærenda standa í námunda við, minnki verulega með tilkomu hinnar nýju stofnbrautar og það þótt umdeild vegtenging Umferðarmiðstöðvarreits með hringtorgi sé höfð í huga. Jafnframt verður að líta til þess að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er gerð vegtenging frá greindum Umferðarmiðstöðvarreit inn á hina nýju Hringbraut.
Með hliðsjón af þessum málsatvikum þykir umdeild deiliskipulagsákvörðun ekki snerta einstaklega, verulega og lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir eigi kæruaðild um þá ákvörðun að stjórnsýslurétti. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og sökum þess að úrskurðarnefndin hefur ekki fengið í hendur frá borgaryfirvöldum umbeðin málsgögn sem ber að átelja.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson.