Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2003 Hringbraut

Ár 2006, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2003, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 á tillögu að breyttu aðalskipulagi og deiliskipulagi er fól í sér færslu Hringbrautar í Reykjavík á kaflanum frá Bústaðavegi að Þorfinnstjörn. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. maí 2003, er barst nefndinni hinn 3. júní sama ár, kærir Ö, Fjólugötu 23, Reykjavík, persónulega og fyrir hönd stjórnar Höfuðborgarsamtakanna, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 að samþykkja tillögu að breyttu aðalskipulagi og deiliskipulagi er fól í sér færslu Hringbrautar í Reykjavík á kaflanum frá Bústaðavegi að Þorfinnstjörn.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinum kærðu skipulagsákvörðunum. 

Málsatvik og rök:  Hinn 20. maí 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur auglýsta tillögu um breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur er fól í sér ráðagerð um undirgöng undir Snorrabraut, norðan gatnamóta Hringbrautar og Snorrabrautar.  Var aðalskipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. september 2003 og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. september sama ár.

Á fyrrnefndum fundi borgarráðs var jafnframt samþykkt auglýst deiliskipulagstillaga fyrir Hringbraut að Þorfinnsgötu, þar sem gert var ráð fyrir færslu hennar til suðurs í samræmi við áætlun aðalskipulags um færslu Hringbrautar um árabil.  Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi borgarráðs hinn 21. október 2003, eftir gildistöku fyrrgreindrar aðalskipulagsbreytingar, og samþykkt að nýju.  Tók deiliskipulagstillagan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003. 

Kærendur gerðu athugasemdir við fyrirhugaða færslu Hringbrautar og útfærslu framkvæmda.  Var m.a. þeim áformum mótmælt að lögð yrði sex akreina stofnbraut á yfirborði lands á umræddum kafla.  Tillagan væri byggð á röngum forsendum og myndi valda miklu tjóni í vesturborginni og skerða þróunarmöguleika miðborgarinnar.  Affarasælla væri að leggja Hringbrautina í stokk að verulegu leyti og takmarka með því fyrirsjáanlega sjón- og hljóðmengun auk þess sem slík útfærsla myndi skapa byggingarland á verðmætasta svæði borgarinnar.  Hafa kærendur fært fram ítarlegri rök í kærumáli þessu, sem ekki þykir tilefni til að rekja nánar, en úrskurðarnefndin hefur þau til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Greinargerð vegna kærumáls þessa hefur ekki borist frá borgaryfirvöldum og úrskurðarnefndinni hafa ekki borist gögn er mál þetta varða enda þótt beiðni þar um, sem upphaflega var komið á framfæri í bréfi, dags. 10. júní 2003.  Þrátt fyrir þetta telur úrskurðarnefndin rétt að taka málið til úrskurðar en nefndin hefur að eigin frumkvæði aflað gagna er málið varða og umdeildri framkvæmd er nú þegar lokið. 

Niðurstaða:  Í máli þessu hafa kærendur annars vegar skotið til úrskurðarnefndarinnar breytingu á gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur og hins vegar deiliskipulagi vegna færslu Hringbrautar. 

Annar kærenda, Höfuðborgarsamtökin, eru frjáls samtök er munu láta sig varða þróun borgarinnar og skipulag.  Virðast samtökin byggja kæru sína á gæslu almannahagsmuna og skoðana um byggðaþróun, en þau hafa ekki sýnt fram á einstaklega og lögvarða hagsmuni er tengjast hinum kærðu skipulagsákvörðunum er geti veitt samtökunum stöðu málsaðila að stjórnsýslurétti.  Þá er ekki til að dreifa heimild í lögum er veiti félagasamtökum eins og hér um ræðir sjálfstæða kæruaðild á þessu sviði.  Verða nefnd samtök ekki talin eiga aðild að máli þessu.

Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag, eða breyting á því, sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni. 

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags, eða breytingu á því, er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar sem hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur nefndina vald til þess að taka ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.  Hefur úrskurðarnefndin komist að sömu niðurstöðu í fyrri úrskurðum um sama álitaefni og hefur þessi túlkun nú beina stoð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Málsrök þess kæranda sem kærir sem einstaklingur eru á sömu lund og fyrrgreindra félagasamtaka og varða almannahagsmuni og skoðanir um heppilegt skipulag á umræddu svæði en hann á fasteign á svæðinu.  Við umdeilda breytingu á legu Hringbrautar færist hún fjær fasteign kæranda við Fjólugötu og má því ætla að breytingin muni ekki hafa íþyngjandi áhrif á einstaklega og lögvarða hagsmuni hans og hafa slík rök ekki verið færð fram í málinu af kæranda hálfu.  Verður hann því ekki talin eiga kæruaðild í máli þessu.

Með skírskotan til þess sem rakið hefur verið er kærumáli þessu í heild vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og sökum þess að úrskurðarnefndin hefur ekki fengið í hendur frá borgaryfirvöldum umbeðin málsgögn sem ber að átelja. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________                     _____________________________
         Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson.