Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2000 Skildinganes

Ár 2001, þriðjudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2000; kæra á samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir opnu bílskýli að Skildinganesi 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú upp kveðinn svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júní 2000, er barst nefndinni sama dag, kærir Stefán Þór Ingimarsson hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 12 við Skildinganes í Reykjavík, samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir opnu bílskýli að Skildinganesi 10 í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 15. júní 2000.

Kærendur gera kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Jafnframt gerðu kærendur kröfu um stöðvun framkvæmda, sem hafnar voru við gerð opins bílskýlis við fasteignina nr. 10 við Skildinganes í Reykjavík, á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði, dags. 29. júní 2000.

Málavextir:  Kærumál er varðar hið umdeilda bílskýli að Skildinganesi 10 hefur áður komið til úrlausnar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Felldi úrskurðarnefndin, með úrskurði uppkveðnum hinn 26. apríl 2000, úr gildi synjun byggingarnefndar á umsókn um byggingarleyfi fyrir hinu umdeilda bílskýli, þar sem á þótti skorta að rannsókn af hálfu byggingarnefndar hafi verið fullnægjandi.  Jafnframt komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að opið bílskýli við Skildinganes 10 samrýmdist skipulagsskilmálum svæðisins og að byggingarnefnd hefði því verið óheimilt að synja umsókn eigenda með þeim rökum sem gert hefði verið.  Var ákvörðun byggingarnefndar felld úr gildi og lagt fyrir hana að taka málið til meðferðar að nýju í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins. 

Í framhaldi af nefndum úrskurði leitaði byggingarnefnd umsagnar skipulags- og umferðarnefndar um álitaefni málsins.  Var eigendum Skildinganess 10 síðan veitt byggingarleyfi fyrir bílskýlinu ásamt skábraut til aðkomu að því.  Þegar kærendur urðu þess varir að framkvæmdir voru að hefjast við bílskýlið leituðu þeir upplýsinga um afgreiðslu byggingarnefndar á málinu og vísuðu því síðan til úrskurðarnefndarinnar með kæru í máli þessu, dagsettri 23. júní 2000.

Málsrök kærenda:  Eftir heildarskoðun á gögnum þeim, sem lögð hafa verið fram við nýja afgreiðslu málsins, segjast kærendur vera þess fullvissir að hvorki hafi verið farið að ákvæðum byggingar- og skipulagslaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 né ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að almennt hafi verið brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum.  Beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Breytingar þær sem leyfi hafi verið var veitt fyrir feli í sér verulegar breytingar á útliti og nýtingu Skildinganess 10. Breytingarnar séu minniháttar við skoðun á gildandi deiliskipulagi en snerti hagsmuni nágranna Skildinganess 10 þó verulega.  Afgreiðsla byggingaryfirvalda á veitingu hins nýja byggingarleyfis, án þess að fram hafi farið grenndarkynning, fái með engu móti staðist. Skipulagslög og byggingar- og skipulagsreglugerðir geri ráð fyrir því að haldnar séu grenndarkynningar þegar um óverulegar breytingar sé að ræða á deiliskipulagi.  Ekki sé unnt fallast á að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi séu í samræmi við gildandi deiliskipulag þótt byggingaryfirvöld hafi haldið því fram.  Með því fyrirkomulagi að heimila bílgeymslu undir húsinu að Skildinganesi 10 fá húsið ásýnd þriggja hæða húss og slysahætta skapist vegna hæðarmunar lóðar og innkeyrslu.  Þá séu bílastæði færð frá austurhluta lóðar á vesturhluta hennar, sem sé andstætt skipulagi og til óhagræðis fyrir kærendur.  Hafi staðsetning bílastæða samkvæmt deiliskipulagi frá 1967 m.a. verið höfð til hliðsjónar við hönnun húss kærenda og hafi svefnherbergjum verið valinn staður með tilliti til þeirrar staðsetningar.

Kærendur hafa í ítarlegu máli fært frekari rök fyrir kærunni.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft allar röksemdir þeirra til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Málsrök byggingarnefndar: Af hálfu byggingarfulltrúa f.h. byggingarnefndar er vísað til fyrri greinargerðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Verði ekki séð að neitt nýtt komi fram í kæru lögmanns eigenda fasteignarinnar á lóðinni nr. 12 við Skildinganes, sem breytt geti ákvörðun byggingarnefndar um að veita leyfi fyrir umræddum framkvæmdum.  Hið umdeilda byggingarleyfi sé í samræmi við skipulag, eins og fram komi í umsögn skipulags- og umferðarnefndar um skipulagsþátt málsins.  Sé leyfið því í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og beri því að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa hafa komið fram andmæli við kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfisins.  Er af þeirra hálfu á því byggt að framkvæmdirnar séu í samræmi við staðfest byggingarleyfi frá Reykjavíkurborg og að kærendur rökstyðji ekki kæru sína með neinni beinni tilvísun í lagagreinar, bein ákvæði byggingarreglugerðar né skipulagsskilmála.  Komið hafi verið til móts við kærendur með því að byggja skjólgirðingu á lóðarmörkum Skildinganess 10 að vestanverðu og hafi það verið gert í samráði við embætti gatnamálstjóra þar sem gangstígur sé meðfram lóðinni að vestanverðu.  Þá muni trjágróðri verða komið fyrir á lóðinni til þess að draga enn frekar úr hljóðmengun.

Auk þess sem að framan er rakið hefur úrskurðarnefndin, við úrlausn máls þessa, stuðst við fyrirliggjandi gögn og áður fengið álit Skipulagsstofnunar í fyrra máli um byggingarmál að Skildinganesi 10.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur úrskurðarnefndin áður haft til úrlausnar ágreining um bygginu bílskýlis að Skildinganesi 10 í Reykjavík.  Í úrskurði nefndarinnar frá 26. apríl 2000 kemur fram að nefndin sé sammála því áliti Skipulagsstofnunar að opið bílskýli samræmist skipulagsskilmálum svæðisins.  Samkvæmt þeirri niðurstöðu var óþarft að kynna kærendum áform um byggingu hins umdeilda bílskýlis þar sem ekki var um breytingu á gildandi deiliskipulagi að ræða.  Verður ekki fallist á að staðsetning bílastæða á skipulagsuppdrætti frá 1967 feli í sér bindandi ákvörðun um staðsetningu stæðanna, enda verður ekki annað ráðið af endurskoðuðum skipulagsskilmálum hverfisins frá 17. október 1990 en að staðsetning bílastæða sé m.a. háð staðsetningu bílgeymslu í húsi eða á lóð.

Þar sem ekki var skylt að lögum að viðhafa grenndarkynningu í málinu og með hliðsjón af því að sjónarmið kærenda voru þekkt vegna fyrri grenndarkynningar á áformum um fyrirkomulag bílgeymslu undir baklóð og aðkomu að henni, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi fullnægt lagaskilyrðum, m.a. um rannsókn máls við gerð og undirbúning stjórnvaldsákvörðunar.  Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna aukins málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 8. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir opnu bílskýli að Skildinganesi 10 í Reykjavík.