Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2000 Dyngjuvegur

Ár 2001, miðvikudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2000; kæra eigenda fasteignanna nr. 64, 66 og 68 við Hjallaveg í Reykjavík á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. febrúar 2000 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 9 og 11 við Dyngjuveg í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 25. apríl 2000, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 28. sama mánaðar, kæra eigendur fasteignanna nr. 64, 66 og 68 við Hjallaveg í Reykjavík ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 29. febrúar 2000 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 9 og 11 við Dyngjuveg í Reykjavík.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 10. apríl 2000.

Af bréfi kærenda verður ráðið að þeir vilji ekki una hinni kærðu ákvörðun og hafa þeir áréttað að krafist sé ógildingar hennar.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Málavextir:  Svæði það sem hið umdeilda deiliskipulag tekur til var áður erfðafestuland, auðkennt sem Laugarásblettur 2.  Á árinu 1962 var landið tekið úr erfðafestu og rétthöfum gefinn kostur á að fá úthlutað úr því tveimur byggingarlóðum, nr. 9 og 11 við Dyngjuveg.  Ekki kom þó til þess að sótt væri eftir leyfi til að byggja á lóðinni nr. 11 við Dyngjuveg, en eftir andlát lóðarhafa á árinu 1998 óskaði dánarbú hans eftir því að gengið yrði formlega frá byggingar- og lóðarréttindum í samræmi við fyrri ákvarðanir.

Þar sem um var að ræða lóðarafmörkun og einu óbyggðu lóðina í hverfinu var ákveðið að vinna deiliskipulag af lóðunum. Var gerð tillaga að deiliskipulagi þeirra og bárust athugasemdir frá kærendum.  Vegna þessara athugasemda var haldinn fundur með kærendum þar sem þeim var kynnt ný tillaga er gerði ráð fyrir því að fyrirhugað hús að Dyngjuvegi 11 yrði lækkað um 0,3m og byggingarreitur færður um 1m til suðvesturs og 0,6m til norðvesturs.  Þeim voru einnig kynntar skuggavarpsteikningar af húsinu og smávægilegar breytingar á húsi því, sem fyrir er á lóðinni nr. 9 við Dyngjuveg, en sótt hafði verið um þær breytingar eftir að skipulagstillagan hafði verið auglýst.  Kærendur gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á húsinu nr. 9 en töldu að ekki hefði verið tekið nægilegt tillit til athugasemda þeirra hvað varðaði fyrirhugað hús á lóðinni nr. 11.  Þrátt fyrir þessi andmæli var tillagan, eins og henni hafði áður verið breytt, samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 21. febrúar 2000 og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 29. febrúar 2000.  Er það sú ákvörðun, sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja kröfu sína í málinu alfarið á sjónarmiðum grenndarréttarins.  Telja þeir byggingu fyrirhugaðs húss á lóðinni nr. 11 við Dyngjuveg valda verulegri röskun og ónæði.  Þá muni nýtt hús skyggja á sól og hefta útsýni.  Verið sé að þrengja nýju húsi í rótgróið hverfi en slík bygging þrengi að aðliggjandi lóðum og rýri eignir kærenda.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu borgaryfirvalda er mótmælt þeirri fullyrðingu kærenda að bygging nýs húss, á lóð nr. 11 við Dyngjuveg samkvæmt hinu umdeilda skipulagi muni valda verulegri röskun og ónæði.  Byggingarreitur hússins sé í u.þ.b. fjögurra metra fjarlægð frá lóðarmörkum Hjallavegar 68, sex metra frá lóðarmörkum Hjallavegar 66 og í nærri fimm metra fjarlægð frá lóðarmörkum Hjallavegar 64.  Fjarlægð frá byggingarreit að húsinu nr. 64 sé tæplega nítján metrar og að húsum nr. 66 og 64 um  fjórtán metrar.  Hæð hússins og fjöldi hæða sé í samræmi við önnur hús í götureitnum og nýtingarhlutfall lóðarinnar eðlilegt og í samræmi við það sem almennt gerist á svæðinu og fordæmi séu fyrir.  Rétt sé hjá kærendum að bygging húss á lóðinni nr. 11 leiði til aukins skuggavarps á lóðir þeirra.  Það sé hins vegar ekki meira en menn þurfi almennt að sætta sig við í umræddum götureit og í þéttbýli almennt.  Yfir sumartímann, þegar áhrif skuggavarps skipti hvað mestu máli m.t.t. til gróðurs og útivistarmöguleika, varpi húsið nánast engum skugga á lóðir kærenda.

Þá er áréttað af hálfu borgaryfirvalda að kærendur hafi alltaf mátt búast við því að byggt yrði meira á lóðinni nr. 9 við Dyngjuveg og henni jafnvel skipt upp í tvær lóðir, enda lóðin merkt sem íbúðarlóð í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 en ekki útivistarsvæði.  Alltaf hafi því mátt búast við því að eigendur hennar fengju að nýta eign sína með sama hætti og aðrir eigendur fasteigna í reitnum.  Við byggingu nýrra húsa í þegar byggðum hverfum megi ávallt búast við því að hagsmunir nágranna séu að einhverju leyti skertir.  Í ljósi framangreinds telji borgaryfirvöld að sú óverulega skerðing sem kærendur verði fyrir vegna fyrirhugaðrar byggingar geti ekki gefið nægilegt tilefni til þess að fella skipulagið úr gildi á grundvelli ólögfestra reglna grenndarréttarins.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi, en ekki þóttu efni til að boða til formlegrar vettvangsgöngu eins og atvikum er háttað.

Niðurstaða:  Í máli þessu er um það deilt hvort ógilda beri ákvörðun borgaryfirvalda um að samþykkja deiliskipulag svæðis, sem áður var erfðafestuland að Laugarásbletti 2 í Reykjavík.  Fram kemur í málsgögnum að um er að ræða rúmlega 1200 m² spildu en á henni er fyrir eitt íbúðarhús rúmlega 100 m² að grunnfleti.  Legið hefur fyrir allt frá árinu 1962 vilji borgaryfirvalda til þess að skipta spildu þessari í tvær byggingarlóðir og heimila byggingu eins húss á nýrri lóð nr. 11 við Dyngjuveg.  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur er umrætt svæði merkt til nota fyrir íbúðarbyggð.

Úrskurðarnefndin telur að byggingaryfirvöldum hafi verið rétt að taka umrædda spildu til deiliskipulags, svo sem gert var, enda er byggð í götureit þeim er spildan tilheyrir að öðru leyti gróin og fullmótuð.  Með hinu umdeilda deiliskipulagi var stefnt að þeim lögmætum markmiðum byggingaryfirvalda að afmarka nýja byggingarlóð á svæðinu og ákvarða nýtingarhlutfall hennar og byggingarreit.  Samræmdist þessi framkvæmd og markmiðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um skipulagsáætlanir. 

Skipulagsgerðin hlaut lögboðna málsmeðferð og kom til afgreiðslu Skipulagsstofnunar, svo sem áskilið er að lögum.  Verður ekki ráðið að stofnunin hafi lagst gegn afmörkun lóðarinnar nr. 11 við Dyngjuveg og áformum um byggingu á henni, en athugasemdir komu fram af hálfu stofnunarinnar um efni auglýsinga varðandi fyrirhugðar breytingar á húsinu nr. 9 við Dyngjuveg.  Hafa þær athugasemdir ekki þýðingu við úrlausn máls þessa, enda þykja þær hvorki varða gildi hinnar kærðu ákvörðunar né hagsmuni kærenda.

Úrskurðarnefndin telur kærendur ekki hafa sýnt fram á að í hinni umdeildu skipulagsákvörðun felist slík skerðing á lögvörðum hagsmunum þeirra að leiða eigi til ógildingar hennar. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun fullnægi lagaskilyrðum um form og efni og feli ekki í sér ólögmæta skerðingu á hagsmunum kærenda.  Verður kröfu þeirra um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda fasteignanna nr. 64, 66 og 68 við Hjallaveg í Reykjavík um ógildingu þeirrar ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 29. febrúar 2000 að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 9 og 11 við Dyngjuveg í Reykjavík.