Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 33/2006, kæra á ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2006, kærir I, Brákarbraut 11, Borgarnesi ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann þess að umræddar framkvæmdir verði stöðvaðar.
Málsatvik: Undanfarið hefur verið til meðferðar breyting á deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í bæjarstjórn 12. janúar 2006 til auglýsingar. Engar athugasemdir bárust á kynningartímanum, en málsmeðferð var skv. 1. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga.
Í breytingunni sem auglýst var felst m.a. að hætt er við niðurrif gamla Mjólkursamlagsins, auk ýmissa breytinga á bílastæðum, byggingarreitum o.fl. Jafnframt er fellt niður leiksvæði norðan Brákarbrautar.
Fyrir liggur að eftir auglýsingu skipulagstillögunnar ákvað bæjarráð, á fundi 27. apríl 2006, að gera breytingar eða lagfæringar á auglýstri tillögu hvað varðar fyrirkomulag götu og bílastæða við Brákarbraut. Var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. maí 2006. Hefur Skipulagsstofnun framangreindar skipulagsákvarðanir til meðferðar og hafa þær enn ekki tekið gildi.
Framkvæmdir við bílastæði fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar og við breytingu á legu götunnar munu hafa hafist í byrjun maí 2006 og eru þær tilefni kæru þeirrar sem hér er til meðferðar. Liggur fyrir að ekkert formlegt framkvæmdaleyfi var veitt fyrir framkvæmdunum, en þær munu vera í samræmi við þá tillögu að breyttu fyrirkomulagi sem samþykkt var í bæjarráði hinn 27. apríl 2006.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að hvorki hafi átt sér stað lögformleg stjórnsýsluleg umfjöllun um breytinguna né framkvæmdina. Í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir leik- og útivistarsvæði þar sem nú sé verið að gera umrædd bílastæði. Eins sé útlit fyrir að ekki eigi að ganga frá bílastæðum við enda „Pakkhúsins“ að Brákarbraut 15 eins og deiliskipulagið geri ráð fyrir og þar með sé fækkað um helming bílastæðum fyrir smærri bíla á deiliskipulagssvæðinu. Gerð sé athugasemd við að íbúum eða öðrum sem málið varði hafi ekki verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við svo veigamiklar breytingar á gildandi deiliskipulagi. Þá hafi umræddar framkvæmdir ekki fengið lögformlega umfjöllun í stjórnkerfi bæjarins.
Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu Borgarbyggðar virðist aðalleg á því byggt að aðeins hafi verið um óverulega lagfæringu á fyrirkomulagi bílastæða að ræða sem ekki hafi gefið tilefni til sérstakrar málsmeðferðar umfram það að ákvörðun hafi verið tekin um lagfæringuna í bæjarráði og hún síðan staðfest í bæjarstjórn. Svæði það sem lagt hafi verið undir umrædd bílastæði sé ekki lengur skilgreint sem leiksvæði og því sé kæran ekki á rökum reist hvað það varði.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið var ekki veitt formlegt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum þeim sem voru tilefni kæru í máli þessu. Aðeins hefur verið vísað til þess að þær hafi átt stoð í ákvörðun bæjaryfirvalda um lagfæringu á skipulagsákvörðun sem enn er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun og ekki hefur tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er. Það liggur því hvorki fyrir kæranleg ákvörðun um framkvæmdaleyfi né endanleg skipulagsákvörðun sem sætt gætu kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Sigurður Erlingsson