Mál nr. 32/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014 um að synja um breytingu á útliti og innra fyrirkomulagi og breyta atvinnuhúsnæði, sem skráð er fjórar eignir, í tvær vinnustofur með íbúðaraðstöðu á fyrstu hæð hússins Starmýri 2C.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir R, f.h. TMI ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014, um að synja umsókn um breytingu á útliti og innra fyrirkomulagi og breyta atvinnuhúsnæði, sem skráð er fjórar eignir, í tvær vinnustofur með íbúðaraðstöðu á fyrstu hæð hússins Starmýri 2C.
Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að synjum byggingarfulltrúans í Reykjavík verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 16. maí 2014.
Málsatvik og rök: Hinn 25. febrúar 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, tekin fyrir umsókn TMI ehf., dags. 18. s.m., um leyfi til þess að breyta útliti og innra fyrirkomulagi og jafnframt breyta atvinnuhúsnæði, sem skráð er fjórar eignir, í tvær vinnustofur með íbúðaraðstöðu á fyrstu hæð hússins við Starmýri 2C. Var samþykkt að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var umsögn skipulagsfulltrúa frá 17. mars s.á. neikvæð með vísan til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi skyldi vera þjónustustarfsemi á 1. hæð húsnæðisins. Var tekið neikvætt í að breyta deiliskipulagi í þá veru að íbúðir yrðu heimilaðar í þeim rýmum sem skilgreind væru sem þjónustusvæði í gildandi deiliskipulagi auk þess sem það væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 25. s.m. var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Kærandi skírskotar til þess byggingarfulltrúi hafi árið 2006 heimilað svipaða breytingu á húsnæði við hlið Starmýri 2C og sé það einnig skilgreint sem atvinnuhúsnæði. Að teknu tilliti til sanngirnissjónarmiða beri því að fella synjun byggingarfulltrúa úr gildi, enda ekki sanngjarnt að einn skuli fá en ekki hinn. Sé bent á að hugmyndir borgaryfirvalda um nærþjónustu, s.s. kaupmanninn á horninu, séu ekki raunhæfar á þessu svæði þar sem það sé við hlið stærri verslanakjarna, s.s. Kringlunnar.
Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess gildandi deiliskipulag geri ekki ráð fyrir notkun í samræmi við óskir kæranda. Að auki sé kjarninn Starmýri 2 skilgreindur sem nærþjónustusvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og sé kjarni fyrir verslun og þjónustu sem sinni daglegum þörfum íbúa. Sé erindi kæranda ekki í samræmi við landnotkun samkvæmt aðalskipulagi. Séu því ekki rök til þess að fallast á ósk kæranda um deiliskipulagsbreytingu á umræddu svæði.
————–
Með bréfi, dags. 6. nóvember 2014, óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá kæranda um það hvort og þá hvaða lögvarða hagsmuni hann hefði tengda hinni kærðu ákvörðun þar sem hann væri ekki lengur skráður eigandi að Starmýri 2C, sbr. upplýsingar úr opinberum gögnum. Var kæranda veittur frestur til 4. desember s.á. en engar athugasemdir eða frekari gögn hafa borist frá kæranda innan hans.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.
Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um breytingu á útliti, fyrirkomulagi og notkun á húsnæði við Starmýri 2C, Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands seldi kærandi greinda fasteign 11. september 2014 og er því ekki lengur eigandi að þeirri fasteign sem hin kærða ákvörðun tekur til. Hefur kærandi ekki komið frekari skýringum til úrskurðarnefndarinnar hvort og þá með hvaða hætti hann hafi enn hagsmuni af úrlausn málsins. Með vísan til þessa, og með hliðsjón af framangreindu lagaákvæði, verður ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni
Nanna Magnadóttir