Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2001 Spítalastígur

Ár 2002, fimmtudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2001, kæra eiganda viðbyggingar í húsinu nr. 4b við Spítalastíg í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. maí 2001 um niðurrif og nýja staðsetningu milliveggjar í forstofu hússins að Spítalastíg 4b í Reykjavík.

  
Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. júní 2001, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Magnús Baldursson hdl. fyrir hönd Fugls og fisks ehf., Spítalastíg 4b, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 30. maí 2001 um niðurrif og nýja staðsetningu skilveggjar milli séreignar Fugls og fiskjar ehf. og sameignar í húsinu nr. 4b við Spítalastíg í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 5. júní 2001.

Málavextir: Húsið á lóðinni nr. 4b við Spítalastíg mun hafa verið reist á árinu 1904 en ekki eru fyrir hendi teikningar að húsinu frá þeim tíma.  Umrætt hús og skúr voru virt í tvennu lagi við brunavirðingu á árunum 1941-1947.  Hinn 23. maí 1946 samþykkti byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á dyrum hússins samkvæmt teikningu er sýnir götuhlið þess, en af þeim uppdrætti verður ráðið að skúrbyggingin hafi þá ekki verið tengdur íbúðarhúsinu.  Við brunavirðingu fasteignarinnar hinn 31. október 1960 kom fram að húsinu hafði verið breytt frá virðingu sem fram fór hinn 15. maí 1946.  Meðal annars hafði skúr á baklóð hússins verið lengdur og tengdur húsinu sem framhaldsbygging við þriggja metra breiðan gang sem gerður hafði verið í gegnum jarðhæð hússins.  Fasteignin var enn virt hinn 24. október 1972 og er þess þar getið að fjórar íbúðir séu í húsinu.  Brunavirðing hússins fór síðan fram hinn 26. september 1977 og koma þar fram þær upplýsingar að tvennar dyr hafi legið inn í húsið, aðrar inn í gang viðbyggingar, en hinar beint fyrir framan stiga sem að dyrunum lá.  Kemur þar og fram að í forstofu hafi orðið þær breytingar að veggur milli inngangs viðbyggingar og uppgangs í húsið hafi verið fjarlægður, miðstöðvarofn settur í forstofu og harðviðarskápur í neðri forstofu.  Húsið var virt í einu lagi.

Hinn 9. júní 1966 gerðu þáverandi eigendur fasteignarinnar að Spítalastíg 4b sameignarsamning um fasteignina, sem þá var einn eignarhluti.  Var samningnum þinglýst hinn 15. desember sama ár.  Með afsali, dags. 1. desember 1977, sem þinglýst var sama dag, var íbúðin á annarri hæð hússins seld sem séreignarhluti í fasteigninni.  Í afsalinu kemur fram að eiganda viðbyggingar sé heimilt að þilja af stigaforstofu þannig að „skápurinn sem er rétt við innganginn inn í þá íbúð verður fyrir innan þilið, en ofninn á fyrstu hæð í forstofunni verður fyrir framan það.  Sá hluti forstofunnar, sem verður fyrir innan þilið fylgir þá íbúðinni í viðbyggingunni einni.“  Afsal fyrir viðbyggingunni var gefið út og þinglýst hinn 14. desember 1978 og í því tekið fram að kaupsamningur hafi tekið gildi hinn 15. febrúar 1977.  Í afsalinu er sama heimild um þiljun forstofu og í afsali vegna íbúðar á annarri hæð.  Fyrsta hæð hússins var seld með afsali, dags. 31. desember 1978, þinglýstu 28. febrúar 1979, og voru kaupin þar miðuð við 15. október 1977.  Ekki er að finna í því afsali heimild til að setja þil í forstofu fyrstu hæðar, en ekki er innangengt úr forstofunni í íbúðina á 1. hæð.  Risíbúð fasteignarinnar var svo seld með afsali, dags. 30. nóvember 1981, þinglýstu 25. janúar 1982, þar sem tekið er fram að kaupandi hafi tekið við hinu selda hinn 7. júlí 1980.  Í afsalinu er getið um kvöð um skiptingu forstofu. 

Ekki er til að dreifa þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir fasteignina að Spítalastíg 4b en ósamþykktur uppdráttur að húsinu frá árinu 1974 sýnir vegg framan við skáp í forstofu. 

Kærandi festi kaup á fyrrgreindri viðbyggingu að Spítalastíg 4b á árinu 1994.  Eignin var afhent hinn 1. mars en afsal fyrir eigninni gefið út hinn 11. október 1994.  Í afsalinu er sama heimild fyrir eiganda til að þilja af hluta forstofu hússins og getið er í fyrri afsölum fyrir eigninni, dags. 24. júlí 1980 og 14. desember 1978, og fyrrgreindu afsali fyrir íbúð á 2. hæð hússins, dags. 1. desember 1977.  Á árinu 1994 færði kærandi þil við inngang viðbyggingarinnar fram í forstofuna þangað sem það stendur nú.

Ágreiningur mun hafa komið upp milli kæranda og annarra eigenda fasteignarinnar um framkvæmdir í húsinu og sendu hinir síðarnefndu byggingarfulltrúanum í Reykjavík bréf hinn 17. apríl og 11. september 2000, þar sem farið var fram á að ásigkomulagi fasteignarinnar og brunavörnum yrði komið í viðunandi horf. og sérstaklega bent á að kærandi hafi þiljað af sameiginlega forstofu í húsinu langt umfram heimildir í afsölum.  Var gerð krafa um að umrætt þil í forstofu yrði fjarlægt og tengibygging milli aðalhúss og viðbyggingar sömuleiðis.

Erindi þetta var afgreitt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 25. október 2000 á þann veg að samþykkt var að beina málinu í farveg sem lagður var til í umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa, dags. 20 október 2000.  Í umsögninni var m.a. lagt til að eiganda íbúðar í bakhúsi yrði gert að sækja um staðsetningu veggjarins og að fenginni samþykkt yrði veggurinn færður á réttan stað en kröfu um niðurrif tengibyggingar hafnað.  Jafnframt var lagt til að eigendum fasteignarinnar yrði bent á að leggja fram heildaruppdrætti að fyrirkomulagi í húsinu og útliti þess ásamt skráningartöflu.  Málshefjendur kærðu þessa samþykkt til úrskurðarnefndarinnar sem felldi úrskurð í málinu fyrr í dag þar sem hin kærða samþykkt var felld úr gildi.

Í desember 2000 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir umræddu þili í forstofu fasteignarinnar þar sem gert var ráð fyrir að þilið yrði fært aftur um 15 sentimetra frá núverandi stað þannig að ofn í forstofu yrði fyrir framan það.  Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir á afgreiðslufundi hinn 12. desember 2000.  Var afgreiðslu málsins frestað m.a. sökum skorts á samþykki meðeigenda og þess að skráningartöflu vantaði.  Á sama fundi var tekin fyrir umsókn eins eigenda að fasteigninni að Spítalastíg 4b, í umboði lóðarhafa, um samþykki fyrir reyndarteikningum að húsinu.  Þar sem teikningarnar voru ekki taldar réttar og samþykki meðeigenda skorti fékk málið ekki afgreiðslu.  Bókað var vegna beggja erindanna að framlagðir uppdrættir sýndu að skort hafi á samráð allra eigenda hússins vegna erindanna, sem nauðsynlegt sé samkvæmt fjöleignarhúsalögum.  Var umsækjendum bent á að þeir gætu leitað álits kærunefndar fjöleignarhúsamála greindi þá á um réttindi og skyldur samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Í bréfi, dags. 31. janúar 2001, til skipulags- og byggingarnefndar gerði lögmaður þriggja íbúðareigenda að Spítalastíg 4b, fyrir þeirra hönd, kröfu um að kæranda yrði gert að fjarlægja margnefnt þil úr forstofu hússins og jafnframt að koma á ný fyrir vegg í sama formi og á þeim stað sem hann hefði verið sem hluti útveggjar á jarðhæð við suðurhorn aðalbyggingar hússins.  Þar sem erindið þótti tengjast fyrrgreindri byggingarleyfisumsókn kæranda var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. febrúar 2001 þar sem jafnframt lá fyrir umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa um álitaefni málsins, dagsett sama dag.  Var ákveðið að kynna íbúðareigendunum umsókn kæranda og leita eftir afstöðu þeirra til þess hvar þilið ætti að vera að þeirra mati samkvæmt þinglýstum skjölum, teldu þeir staðsetninguna ranga samkvæmt umsókninni.  Lögmanni þeirra var kynnt þessi niðurstaða með bréfi, dags. 8. febrúar 2001.

Í bréfi til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 5. mars 2001, ítrekaði lögmaðurinn kröfu umbjóðenda sinna um niðurrif veggjarins og kom þar fram að íbúðareigendurnir samþykktu ekki staðsetningu hans samkvæmt byggingarleyfisumsókn kæranda.  Jafnframt sendi lögmaðurinn bréf til byggingarfulltrúa, dags. 9. mars 2001, þar sem sama afstaða kom fram til byggingarleyfisumsóknar kæranda.  Jafnframt var þeirri skoðun umbjóðenda lögmannsins lýst að rétt staðsetning veggjarins kæmi fram á uppdráttum sem þeir hefðu þegar sent embættinu.  Þá var þeirri skoðun lýst í bréfinu að ekki væri hægt að skoða vettvang til ákvörðunar um staðsetningu veggjarins meðan núverandi veggur væri til staðar. 

Þessi bréf voru tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 20. mars 2001, en afgreiðslu frestað og ákveðið að skoða málið nánar fyrir næsta fund.  Málið var að nýju tekið til umfjöllunar á fundi byggingarfulltrúa hinn 27. mars 2001 þar sem fyrir lá skýrsla um vettvangsskoðun, dags. 26. mars 2001.  Samkvæmt skýrslunni var niðurstaðan sú að líklegast væri rétt staðsetning veggjarins, samkvæmt þinglýstum skjölum og skoðun á staðnum, um 50 sentimetrum innar í forstofunni en hann væri nú.  Var málið afgreitt á þann veg að kröfu um niðurrif var hafnað þar sem ekki væri samkomulag um hvert færa skyldi vegginn.  Ekki þætti unnt að fallast á að veggurinn yrði rifinn án þess að nýr veggur yrði reistur í hans stað, enda yrði að öðrum kosti opið inn í viðbygginguna úr sameign hússins.  Þá var í bókun fundarins bent á að það væri ekki á valdsviði byggingarfulltrúa að skera úr um ágreining eigenda um staðsetningu veggjarins og þar með um eignamörk.  Þann ágreining yrðu þeir að bera undir dómstóla eða eftir atvikum  kærunefnd fjöleignarhúsamála.

Þessari afgreiðslu byggingarfulltrúa vísaði lögmaður fyrrgreindra íbúðareiganda að Spítalastíg 4b til skipulags- og byggingarnefndar með bréfi, dags. 3. apríl 2001.  Var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 2. maí 2001.  Var á fundinum lögð fram svohljóðandi tillaga um afgreiðslu málsins:

„Skipulags- og byggingarnefnd álítur að rétt staðsetning þess skilveggjar sem um er deilt eigi að vera 70 cm innan (sunnan) við vegg sem sýndur er á uppmælingaruppdrætti frá 24. apríl 1974.  Nefndin samþykkir kröfu um niðurrif núverandi óleyfisveggjar og krefst þess að eigandi eignar í bakhúsi láti setja upp vegg með dyrum og klæði þann hluta lofts sem er innan aðalhúss og þann hluta milliveggjar sem snýr að íbúð á jarðhæð í aðalhúsi í eignarhluta sínum með klæðningu og frágangi er uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar um brunamótstöðu.  Verkið verði unnið undir eftirliti embættis byggingarfulltrúa.  Frestur til verksins er gefinn 30 dagar frá birtingu tilkynningar þar að lútandi.  Verði verkið ekki unnið innan tímamarka verður það framkvæmt á kostnað eiganda sbr. ákvæði 2. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“

Kæranda og öðrum eigendum íbúða að Spítalastíg 4b var gefinn 7 daga frestur til að tjá sig um þessa tillögu.  Lögmaður kæranda mótmælti tillögunni með bréfi, dags. 16. maí 2001, en ekki munu hafa borist athugasemdir frá öðrum eigendum íbúða í húsinu.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. maí 2001 og var fyrrgreint bréf lögmanns kæranda lagt fram ásamt öðrum gögnum málsins.  Tillaga um afgreiðslu þess frá 2. maí 2001 var borin upp óbreytt og samþykkt af meirihluta nefndarinnar.  Ákvörðunin var send borgaráði til staðfestingar samkvæmt 57. gr. skipulags- og byggingarlaga og samþykkti ráðið ákvörðunina á fundi sínum hinn 5. júní 2001 með þeirri breytingu að beðið yrði með aðgerðir þar til kærufrestur væri liðinn og meðan á kærumeðferð stæði ef á reyndi.

Kærandi undi ekki þessum málalokum og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar eftirgreindum rökum:

Kærandi bendir á að engin efnisleg rök séu færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, en skipulags- og byggingarnefnd beri að rökstyðja allar afgreiðslur á erindum er henni berist samkvæmt 2. mgr. 8. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá hafi nefndin með samþykkt sinni farið út fyrir starfssvið sitt þar sem staðsetning hins umdeilda veggjar í forstofu að Spítalastíg 4b samkvæmt samþykktinni sé í ósamræmi við umsókn kæranda, þinglýst afsöl fyrir íbúðum þeirra íbúa sem afnot hafi að forstofu hússins og kröfur annarra íbúðareigenda um staðsetningu veggjarins.  Loks sé ekki tekið tillit til aðstæðna í húsinu. 

Þá er á það bent að samkvæmt þinglýstum afsölum hafi kærandi rétt til þess að færa umrætt þil fram fyrir skáp í forstofu hússins.  Kærandi hafi fært umdeildan vegg í skjóli þessara þinglýstu heimilda á núverandi stað án þess að aðrir íbúðareigendur í húsinu hafi gert við það athugasemdir í um 6 ár frá framkvæmdinni.  Vegna mistaka hafi veggurinn verið færður um 15 sentimetrum lengra inn í forstofuna en afsöl heimiluðu og hafi byggingarleyfisumsókn kæranda frá desember 2000 verið lögð inn til þess að leiðrétta þá skekkju.

Eina faglega úttektin á húsnæðinu sem gerð hafi verið vegna þeirrar deilu sem uppi sé um staðsetningu títtnefnds veggjar sé skýrsla skrifstofustjóra byggingarfulltrúa, dags, 26. mars 2001.  Sú skýrsla byggi á vettvangsskoðun höfundar og yfirverkfræðings embættisins og feli í sér þá niðurstöðu að líklegust staðsetning veggjarins samkvæmt þinglýstum afsölum og skoðun á staðnum sé sú sem fram komi í skissu verkfræðingsins er fylgi skýrslunni.  Kærandi telji að sú niðurstaða sé í fullu samræmi við innsenda umsókn um staðsetningu veggjarins.  Þá komi skýrt fram í bréfi annarra íbúðareigenda í húsinu, dags. 9. mars 2001, að þeir mótmæli ekki rétti kæranda til að staðsetja vegginn í samræmi við ákvæði í þinglýstum afsölum.  Við ákvörðun sína hafi skipulags- og byggingarnefnd hvorki tekið afstöðu til fyrrgreindrar skýrslu né til þess hvar veggurinn ætti að standa samkvæmt hinum þinglýstu afsölum.

Málsrök skipulags- og byggingarnefndar:  Vísað er til þess að í kærubréfi kæranda komi ekki fram ný atriði eða málsástæður sem skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki verið kunnar áður.  Með vísan til stjórnsýslulaga sé því ekki unnt að mæla með ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Andmæli annarra íbúðareigenda:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er afstaða annarra íbúðareigenda í húsinu nr. 4b við Spítalastíg til álitaefnis máls þessa eftirfarandi:

Lögð er áhersla á að núverandi veggur í forstofu hússins sé óleyfisframkvæmd sem þilji af mun stærri hluta af forstofunni en heimilt sé samkvæmt afsölum.  Sé það skýlaus krafa að umræddur veggur með hurð verði látinn víkja og ástandi komið í fyrra horf.  Eftir það verði unnt að taka afstöðu til þess með réttum hætti hvar staðsetning þilsins eigi að vera samkvæmt þinglýstum skjölum.  Er vísað til þess að uppsetning núverandi veggjar hafi verið byggingarleyfisskyld framkvæmd samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga og geti byggingaryfirvöld ávallt mælt fyrir um að ólögleg bygging eða byggingarhluti skuli fjarlægður samkvæmt 5. mgr. 56. gr. laganna.  Í 6. kafla nefndra laga sé svo að finna ákvæði um þvingunar- og viðurlagaúrræði fyrir byggingaryfirvöld til þess að ná fram lögmætu ástandi í tilvikum eins og hér um ræði.  Umbúnaður skúrbyggingarinnar skapi brunahættu í húsinu og hafi byggingaryfirrvöld bæði rétt og skyldu til að knýja fram úrbætur í því efni.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði álits Skipulagsstofnunar um álitaefni þau sem hér eru til umfjöllunar.  Í umsögn stofnunarinnar, dags. 22. maí 2002 segir m.a:
 
„Skipulagsstofnun telur að byggingarnefnd sé í umfjöllun um byggingarleyfisumsókn óheimilt að víkja efnislega frá henni eða breyta að eigin frumkvæði.  Telji nefndin ekki unnt að fallast á umsókn um byggingarleyfi beri að synja um veitingu leyfis með rökstuddum hætti.  Byggingarnefnd sé óheimilt án samráðs við umsækjanda byggingarleyfis og að eigin frumkvæði að víkja frá því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir í umsókn og veita byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem ekki séu í samræmi við umsókn.  Skipulagsstofnun telur því að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 30. maí 2002 sem staðfest var í borgarráði þann 5. júní 2001.“

Vettvangsganga:  Farið var á vettvang hinn 4. september 2002 og aðstæður skoðaðar, m.a. ummerki um staðsetningu eldri veggjar og skáps í forstofu, sem hefur verið fjarlægður.  Auk nefndarmanna og starfsmanna úrskurðarnefndarinnar voru mættir á staðinn tveir íbúðareigendur auk kæranda og lögmanns hans og tveir fulltrúar Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða:  Af gögnum málsins verður ráðið að hin kærða samþykkt skipulags- og byggingarnefndar hafi verið afgreiðsla á erindi þriggja íbúðareigenda í húsinu nr. 4b við Spítalastíg í Reykjavík, sem beint hafi verið til nefndarinnar með bréfum lögmanns þeirra, dags. 31. janúar, 5. mars og 3. apríl 2001, en þar hafi ekki verið til afgreiðslu byggingarleyfisumsókn kæranda frá desembermánuði 2000.  Erindi íbúðareigendanna laut að því að skipulags- og byggingarnefnd tæki ákvörðun um niðurrif núverandi veggjar sem skilur að bakhús og forstofu hússins að Spítalastíg 4b og að veggurinn yrði færður aftur á sinn fyrri stað og ástandi forstofu að öðru leyti komið í það horf sem verið hafi fyrir uppsetningu veggjarins á árinu 1994.

Hin kærða ákvörðun felur í fyrsta lagi í sér það álit skipulags- og byggingarnefndar að rétt staðsetning umdeilds veggjar sé 70 sentimetrum innan við vegg sem sýndur sé á uppmælingaruppdrætti frá 24. apríl 1974.  Í öðru lagi að núverandi veggur verði rifinn og annar veggur með dyrum reistur í staðinn.  Í þriðja lagi er ákveðið að kærandi klæði þann hluta lofts sem er innan aðalhúss og þann hluta milliveggar sem er milli séreignar hans og íbúðar á jarðhæð hússins með klæðningu sem fullnægi kröfum byggingarreglugerðar um brunamótstöðu.

Ólíkar skoðanir eru uppi í málinu um hvar margnefndur veggur eigi að vera og þar með hversu stóran hluta af forstofu hússins kærandi hafi heimild til að þilja af og gera að séreign sinni samkvæmt þinglýstum afsölum. 

Staðsetning veggjar í forstofu hússins að Spítalastíg 4b ræður því hvar mörk milli séreignar kæranda og forstofu hússins liggja og deilur um hana eru því eignarréttarlegs eðlis.  Ræðst úrlausn þessa ágreinings af túlkun ákvæða um það atriði í þinglýstum afsölum.  Það er ekki á valdi skipulags- og byggingarnefndar eða úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi heldur á úrlausn hans undir dómstóla.  Var því ekki unnt með hinni kærðu ákvörðun að skera úr um hvar veggurinn ætti að vera.

Stendur þá eftir að kæranda er með hinni kærðu ákvörðun gert að fjarlægja núverandi vegg og reisa annan og ganga frá eldvörnum, án þess að úr því sé skorið hvar nýr veggur skuli vera.  Orkar og tvímælis á hvaða forsendum skipulags- og byggingarnefnd ákvað með bókun sinni að á vegg milli forstofu og séreignar kæranda skuli vera dyr.  Er það álit úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum að ómögulegt sé að framfylgja henni meðan ekki hefur verið leyst úr þeim ágreiningi um eignarréttindi sem uppi er milli íbúðareigenda hússins. 

Enda þótt núverandi milliveggur í forstofu hússins sé óleyfisframkvæmd verður ekki talið rétt, að svo stöddu, að skylda kæranda til að rífa hann niður og búa við það að séreign hans verði opin út í sameign aðalhúss þar til ágreiningur um mörk séreignar hans og forstofu hússins verði til lykta leiddur og er þá einnig litið til þess að veggurinn hafði fengið að standa óáreittur um árabil áður en krafa um niðurrif hans var fyrst sett fram.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu skal áréttað að gæta verður öryggis hvað brunavarnir varðar, enda hafa byggingaryfirvöld frumkvæðisskyldu til þess að knýja á um úrbætur telji þau ástand eða umbúnað bygginga eða byggingarhluta skapa hættu í því efni, samanber 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Með framangreindum rökum verður fallist á kröfu kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 30. maí 2001 er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Ingibjörg Ingvadóttir