Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2002 Hafnargata

Ár 2002, föstudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2002; kæra G og A, Hafnargötu 18 í Reykjanesbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. mars 2002 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reita 9 og 14 á svæði A í Reykjanesbæ.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. maí 2002, kærir Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, hdl. f.h. G og A, Hafnargötu 18 í Reykjanesbæ ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. mars 2002 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reita 9 og 14 á svæði A í Reykjanesbæ.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. apríl 2002.

Kröfugerð:  Kærendur gera eftirgreindar kröfur:

Aðallega:  Að ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. mars 2002, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 30. apríl 2002, um breytingar á deiliskipulagi reita 9 og 14 á svæði A í Reykjanesbæ, verði felld úr gildi.  Jafnframt er þess krafist að ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 2. maí 2002, þar sem bæjarráð tekur undir bókun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. mars 2002 og samþykkir ekki breytingu á verslunarhúsnæði á 1. hæð í íbúðarhúsnæði, verði felld úr gildi og kærendum verði heimilað að breyta 1. hæð hússins að Hafnargötu 18 í íbúðarhúsnæði.

Til vara:  Verði ekki fallist á aðalkröfu kærenda er þess krafist að ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 18. apríl 2002 verði felld úr gildi og lagt verði fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að kaupa eignina að Hafnargötu 18 í Keflavík, hús og lóð, af kærendum.

Til þrautavara:  Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu er þess krafist að lagt verði fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að greiða kærendum bætur vegna þess tjóns sem kærendur hafa orðið fyrir vegna breytingar á deiliskipulaginu sem hefur í för með sér verðrýrnun á eign þeirra að Hafnargötu 18 í Keflavík.

Af hálfu Reykjanesbæjar er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað og að hinar kærðu ákvarðanir verði látin standa óröskuð.

Málavextir:  Kærendur eru eigendur fasteignarinnar nr. 18 við Hafnargötu í Reykjanesbæ.  Húsið er tveggja hæða og er íbúð á 2. hæð en verslunarrými á 1. hæð.  Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015, sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 28. mars 1996, er lóð kærenda á miðbæjarsvæði.  Segir í greinargerð aðalskipulagsins að á umræddu svæði sé gert ráð fyrir blandaðri byggð verslunar, þjónustustofnana og íbúða.  Á árinu 1999 var lokið undirbúningi að gerð deiliskipulags fyrir norðurhluta „gamla bæjarins“ í Reykjanesbæ, norðan Tjarnargötu og vestan Hafnargötu.  Var deiliskipulag þetta samþykkt hinn 1. febrúar 2000.  Ekki var þar gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi á lóð kærenda eða nærliggjandi lóðum frá því sem fyrir var.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar hinn 22. mars 2001 var samþykkt umsókn um leyfi til að rífa húsið að Hafnargötu 20 og skipta um jarðveg vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Hinn 6. september 2001 fjallaði nefndin um fyrirspurn um leyfi fyrir nýbyggingu á lóðinni og var vel tekið í erindið.  Umsókn barst síðar um byggingarleyfi og lyktaði meðferð þess erindis á þann veg að skipulags- og byggingarnefnd lagði til, „með hliðsjón af nýgengnum hæstaréttardómi…..“  að deiliskipulag svæðis sem afmarkaðist af Aðalgötu, Hafnargötu, Tjarnargötu og Túngötu yrði endurskoðað.  Er hér um að ræða reiti 9 og 14 í deiliskipulagi svæðis A.

Hinn 16. nóvember 2001 var auglýst í Lögbirtingarblaðinu tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins.  Var tekið fram að tillagan gerði m.a. ráð fyrir því að hús er nú stæðu við Hafnargötuna milli Aðalgötu og Tjarnargötu yrðu víkjandi og byggingarreit lóðanna yrði breytt.  Var frestur veittur til athugasemda til 28. desember 2001.

Af hálfu kærenda voru gerðar athugasemdir við umrædda tillögu.  Hús kærenda væri sagt víkjandi eftir samþykkt tillögunnar og lóð hússins væri sýnd opin eins og um hana ætti að fara einhvers konar akstursumferð.  Ekki hafi fengist útlistanir á tillögunni er vörðuðu lóð kærenda og þá ekki heldur hvað í því fælist að lóðin væri sýnd opin fyrir umferð.  Ekki hafi legið fyrir fullnægjandi greinargerð um breytinguna.  Var þess óskað að kynningartímabil tillögunnar yrði lengt og að fyllri upplýsingar yrðu veittar.

Auk athugasemda kærenda áskildi eigandi Hafnargötu 16 sér rétt til bóta vegna umræddrar skipulagsbreytingar.  Athugasemd barst og frá Fornleifavernd ríkisins.

Skipulagstillagan var send Skipulagsstofnun til afgreiðslu með bréfi dags. 25. janúar 2002.  Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 4. febrúar 2002, voru gerðar nokkrar athugasemdir, m.a. um að þeim aðilum sem gert hefðu athugasemdir við tillöguna hefði ekki verið svarað á fullnægjandi hátt og að umsagnar húsafriðunarnefndar væri þörf vegna Hafnargötu 18, sem byggt hefði verið árið 1909, en ætti að víkja samkvæmt tillögunni.  Þá taldi stofnunin að gera þyrfti tilteknar lagfæringar á gögnum.  Var afgreiðslu stofnunarinnar á málinu frestað þar til ný gögn hefðu borist um þau atriði sem að var fundið.  Með bréfi, dags. 27. mars 2002, til byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ staðfesti stofnunin að borist hefðu fullnægjandi gögn varðandi fyrri athugasemdir og að ekki væri gerð athugasemd við að auglýsing um samþykkt skipulagstillögunnar yrði birt þegar undirritaður uppdráttur hefði borist.

Að lokinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tillögunni var auglýsing um gildistöku hennar send til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsingin hinn 30. apríl 2002.  Vísaði kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 17. maí 2002, eins og að framan greinir.

Hinn 15. febrúar 2002 sóttu kærendur um leyfi til að breyta notkun 1. hæðar Hafnargötu 18 úr verslunarrými í íbúðarrými.  Umsókninni var hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. mars 2002 með vísan til greinargerðar aðalskipulags um landnotkun á miðbæjarsvæðinu.  Ákvörðun þessari skutu kærendur til bæjarstjórnar en á fundi bæjarráðs hinn 2. maí 2002 var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á erindinu staðfest.  Er sú ákvörðun einnig kærð í máli þessu.

Með bréfi, dags. 25. mars 2002, óskuðu kærendur þess að Reykjanesbær keypti eign þeirra vegna framangreindra breytinga á deiliskipulagi.  Í framhaldi af erindi þessu óskuðu bæjaryfirvöld eftir sölutilboði frá kærendum.  Tilboði þeirra var síðan hafnað á fundi bæjarráðs hinn 18. apríl 2002.  Er sú varakrafa gerð í kærumáli þessu að ákvörðun bæjarráðs um að hafna tilboði kærenda verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar að kaupa eignina af kærendum.

Hinn 26. apríl 2002 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjanesbæ fyrirliggjandi umsókn lóðarhafa að Hafnargötu 20 um leyfi fyrir nýbyggingu á lóðinni.  Mun hafa verið byrjað á framkvæmdum við bygginguna í byrjun júlí 2002, en með bréfi, dags. 19. júlí 2002, vísuðu kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa um veitingu leyfisins til úrskurðarnefndarinnar og kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Við frumathugun þess kærumáls kom í ljós að byggingarleyfið hafði verið veitt áður en hið breytta deiliskipulag öðlaðist gildi og fullnægði leyfið því ekki skilyrðum 43. gr. laga nr. 73/1997 um að samræmast gildandi deiliskipulagi.  Var leyfið afturkallað að frumkvæði bæjaryfirvalda af þessum sökum og var sú ákvörðun staðfest af byggingarfulltrúa hinn 27. júlí 2002. 

Leyfi fyrir byggingunni var veitt að nýju hinn 26. ágúst 2002 og hófust framkvæmdir að nýju nokkru síðar.  Nokkrar tafir urðu á því að úrskurðanefndinni bærust umbeðin gögn og greinargerð Reykjanesbæjar í kærumáli þessu, m.a. vegna mistaka við sendingu gagna, og bárust þau fyrst hinn 26. september 2002.  Sama dag settu kærendur að nýju fram kröfu um stöðvun framkvæmda við bygginguna og var byggingarfulltrúa og byggingarleyfishafa samdægurs gert viðvart um þá kröfu og veittur frestur til andmæla til 1. október 2002.  Þar sem gagnaöflum er nú lokið og málið nægilega upplýst þykja ekki efni til að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sérstaklega til úrlausnar.  Þess í stað er máli nú tekið til efnisúrlausnar.

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að breytt deiliskipulag hafi í för með sér verðrýrnun og skerðingu á nýtingu á eign þeirra að Hafnargötu 18.  Því til stuðnings sé bent á að samkvæmt deiliskipulaginu sé hús kærenda skilgreint víkjandi og byggingarreitnum breytt.  Þá stefni bæjaryfirvöld á að taka hluta af lóð kærenda undir götu og bílastæði, eins og fram komi á teikningu að umræddu deiliskipulagi þar sem gert sé ráð fyrir bílastæðum og kvöð um umferð á lóð kærenda sem ekki hafi verið fyrir breytinguna.  Kærendur hafi ítrekað gert tilraunir til að fá bæjarfélagið til viðræðna um kaup á eigninni eða til greiðslu skaðabóta en án árangurs.  Sú afstaða bæjaryfirvalda að aukinn byggingarréttur á lóðinni leiði til þess að ekki verði um verðrýrnun eignarinnar að ræða sé út í hött.

Af hálfu kærenda er einnig á því byggt að hin kærða ákvörðun hafi verið ólögmæt þar sem ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar henni og hagsmunir eins lóðarhafa verði teknir fram yfir hagsmuni annarra eigenda húsa á umræddu svæði.  Sé um að ræða brot á meginreglum stjórnsýsluréttarins, einkum jafnræðis- og meðalhófsreglunni.  Með umræddri deiliskipulagsbreytingu hafi réttur kærenda verið fyrir borð borinn sem sé andstætt 1. gr. laga nr. 73/1997.  Kærendur eigi hús á því svæði sem deiliskipulagið taki til og standi hús þeirra við hlið lóðarinnar nr. 20.  Þeir eigi þar af leiðandi lögvarinn rétt til þess að yfirvöld hagi ákvörðunum sínum um breytt skipulag á svæðinu með þeim hætti að ekki verði að nauðsynjalausu gengið á hagsmuni þeirra.  Kærendur telji að þessu hafi stjórnvöld ekki sinnt við meðferð málsins, enda sé hluti af lóð þeirra tekinn undir gegnumakstur og hús þeirra skilgreint víkjandi.   

Þá er á því byggt af hálfu kærenda að samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi átt að fara fram ítarleg grenndarkynning á umræddum breytingum á deiliskipulaginu jafnframt því að gefa hafi átt hagsmunaaðilum kost á að tjá sig um breytingarnar, sbr. 7. mgr. 43. gr.  Upplýsingar sem fyrir hafi legið um skipulagsbreytinguna hafi hins vegar verið óljósar og ófullnægjandi að mati kærenda.  Jafnframt hafi sveitarstjórn átt að senda Skipulagsstofnun hið breytta skipulag, sbr. 3. mgr. 25. gr., ásamt yfirlýsingu um að hún tæki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kynnu að verða fyrir við breytinguna en þessa hafi ekki verið gætt. 

Loks telja kærendur að synjun á því að heimila þeim að breyta verslunarhúsnæði á 1. hæð hússins að Hafnargötu 18 í íbúðarhúsnæði brjóti í bága við stjórnsýslulög, einkum meðalhófs- og jafnræðisreglu þeirra laga.  Umrætt svæði hafi verið skilgreint íbúðarsvæði í eldra skipulagi, eignin sé öll í eigu sömu aðila og fordæmi séu fyrir því að slíkt hafi verið heimilað í götunni. 

Verði ekki fallist á aðalkröfu kærenda beri sveitarfélaginu að leysa fasteignina til sín enda telji kærendur að að sýnt hafi verið fram á að við breytingar á deiliskipulaginu hafi verðmæti og nýtingarmöguleikar eignarinnar rýrnað verulega.  Þessu til stuðnings sé vísað til 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
 
Málsrök bæjaryfirvalda:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2002, reifar forstöðumaður umhverfis- og tæknisviðs Reykjanesbæjar helstu sjónarmið bæjaryfirvalda í málinu.  Er fyrst áréttað að fullt tillit hafi verið tekið til þeirra ábendinga og athugasemda sem fram hafi komið af hálfu Skipulagsstofnunar við afgreiðslu málsins.  Ekki verði séð við yfirlestur málsins hvernig eigandi Hafnargötu 18 geti skaðast vegna skipulagsins nema síður sé þar sem í raun sé miðað að því að bæta aðkomumöguleika að bílastæðum til framtíðar litið.  Hvað varði hinn víkjandi rétt og sameiginlega aðkomu húsanna nr. 16, 18 og 20 og bílastæði á bak við þau telji skipulags- og byggingarnefnd að þar ráði réttur eiganda hvort hann nýti sér þessa möguleika en reyndar sé vandséð hvernig hægt væri að leysa bílastæðavandamál með öðrum hætti.

Með greinargerð er úrskurðarnefndinni barst hinn 26. september 2002, ásamt skipulagsgögnum, gerir Bjarni Marteinsson arkitekt, frekari grein fyrir sjónarmiðum Reykjanesbæjar, en Bjarni mun hafa unnið að gerð hinnar umdeildu skipulagstillögu.  Bendir hann á að í eldra skipulagi hafi verið gert ráð fyrir húsaröð við Hafnargötu með tiltölulega stórum baklóðum.  Engin bílastæði fylgi þessum húsum sérstaklega nema á baklóðunum og hafi aðkoma að þeim hingað til verið frá Hafnargötu eða Aðalgötu.  Nýtt deiliskipulag gangi út á nýja byggingarmöguleika á þessum lóðum og séu framkvæmdir þegar hafnar á lóðinni nr. 20 við Hafnargötu.  Ekki felist nein niðurrifskvöð í hinu nýja skipulagi heldur skuli lóðarhafar fylgja því kjósi þeir að byggja að nýju á lóðunum.  Deiliskipulagið geri einnig ráð fyrir bílastæðum á baklóðum samkvæmt bílastæðakröfum ef til nýbygginga komi.  Til að koma í veg fyrir að lóðarhafar að Hafnargötu 16, 18 og 20 þurfi að hafa aðkomu að bílastæðum frá Hafnargötu og yfir gangstétt, hver að sinni baklóð, sé gert ráð fyrir sameiginlegri akstursleið um baklóðirnar frá hliðargötum, Aðalgötu og Klapparstíg.  Að dómi skipulagshöfundar auki þetta nýtingu og bæti aðkomu að baklóðum og bílastæðum að miklum mun.  Verði þessi stefna ríkjandi í deiliskipulagi Hafnargötunnar þar sem því verði við komið.  Nú sé verið að leggja síðustu hönd á útlitshönnun götunnar þar sem áhersla sé lögð á öryggi og forgang gangandi vegfarenda.  Gegnumakstursumferð verði beint frá götunni og umferðarhraði minnkaður og umhverfi götunnar gert vistvænna.  Allar óþarfa akstursleiðir yfir gangstéttir séu andstæðar þessum hugmyndum og varla í þágu húseigenda, sé unnt að leysa aðkomu að lóðum á annan hátt.

Andmæli lóðarhafa Hafnargötu 20:  Af hálfu Leiðarenda ehf., sem er handhafi byggingaréttar á lóðinni nr. 20 við Hafnargötu, er tekið undir sjónarmið Reykjanesbæjar í málinu.  Sérstaklega er á það bent að félagið hafi samið við verktaka um framkvæmdir og við leigutaka um afnot húsnæðis í nýbyggingunni og myndi stöðvun framkvæmda eða tafir við þær valda félaginu stórfelldu fjárhagslegu tjóni.  Þá sé á það bent að í málatilbúnaði kærenda séu hvergi gerðar athugasemdir við nýbygginguna sem slíka heldur einungis meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar og gegnumakstur um samliggjandi lóðir á deiliskipulagsreitnum.

Niðurstaða:  Eins og að framan er  rakið var snemma á árinu 2000 samþykkt deiliskipulag A-hluta gamla bæjarins í Reykjanesbæ.  Í greinargerð þess deiliskipulags segir m.a. að deiliskipulagið feli í sér bindandi ákvarðanir fyrir húseigendur, íbúa og bæjarfélagið um framtíðarnotkun og nýtingu þeirra svæða og bygginga sem séu innan skipulagsins.  Þó er sá fyrirvari gerður að þar sem það eigi við séu lagðar meginlínur og þá gert ráð fyrir að nánari útfærsla verði unnin þegar dragi að framkvæmdum.

Í samræmi við framanritað var ekki að vænta umfangsmikilla breytinga á skipulagi umrædds svæðis frá því sem kveðið var á um í deiliskipulaginu frá 1. febrúar 2000.  Þrátt fyrir þetta var unnin tillaga að breytingu skipulagsins á reitum 9 og 14 þar sem gert var ráð fyrir að leyft yrði að rífa eldri hús og byggja ný og stærri í þeirra stað á 7 lóðum við Hafnargötu auk þess sem kvöð um umferð yrði lögð á 5 þessara lóða og fyrirkomulag bílastæða ákveðið.

Almennt verður að gjalda varhug við því að gerðar séu tíðar breytingar á samþykktu deiliskipulagi enda er deiliskipulag bindandi fyrir stjórnvöld og íbúa, en jafnframt trygging íbúa fyrir því að ekki sé sífellt verið að breyta því umhverfi sem þeir búa í og starfa.  Á miðbæjarsvæðum verður þó að ætla sveitarstjórnum nokkuð rýmra svigrúm til þess að aðlaga skipulag að þörfum og atvinnustarfsemi á hverjum tíma og gera þær breytingar sem miða að því að bæta umhverfi, umferð og öryggi á slíkum svæðum.  Verður að telja að þær breytingar sem fólust í hinni umdeildu ákvörðun hafi bæði miðað að því að auka nýtingarmöguleika umræddra lóða við Hafnargötu en jafnframt að treysta öryggi vegfarenda með því að fækka innkeyrslum á lóðir frá götunni.  Virðast bæjaryfirvöld hafa leitast við að gæta jafnræðis og málefnalegra sjónarmiða við ákvörðun í málinu og verður að telja að þeim hafi verið heimilt að ráðast í umrædda skipulagsbreytingu þrátt fyrir að stutt væri um liðið frá því deiliskipulag að svæðinu hafði verið samþykkt.

Ekki verður fallist á þær málsástæður kærenda að ítarleg grenndarkynning hefði átt að fara fram vegna umræddrar skipulagsbreytingar, sbr. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og að sveitarstjórn hefði átt að senda Skipulagsstofnun yfirlýsingu um að hún tæki að sér að bæta það tjón sem einstakir aðilar kynnu að verða fyrir við breytinguna.  Tilvitnuð ákvæði eiga aðeins við þegar fallið er frá því að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynning viðhöfð þess í stað samkvæmt undantekningarheimild í 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997.  Hin kærða ákvörðun sætti hins vegar meðferð í samræmi við ákvæði 1. mgr. 26. gr. og var tillagan auglýst með þeim hætti sem áskilið er  1. og 2. mgr. 18. gr. sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Var meðferð málsins að formi til ekki svo verulega áfátt að leiða eigi til ógildingar þótt á það megi fallast með kærendum að greinargerð með tillögunni hafi verið óskýr, m.a. um inntak þeirra umferðarkvaðar, sem sýnd er á uppdrætti skipulagstillögunnar.

Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða ákvörðun rýri verð og notagildi eignar þeirra.  Eignin sé eftir breytinguna skilgreind sem víkjandi og hluti lóðar þeirra sé lagður undir götu og bílastæði.  Ekki verður fallist á að það sé íþyngjandi fyrir kærendur þótt ákvæði sé um það í hinni umdeildu skipulagsákvörðun að gert sé ráð fyrir að hús á lóð þeirra megi víkja fyrir nýrri byggingu.  Er í greinargerð með umræddri skipulagsbreytingu berlega tekið fram að breytingin hafi ekki í för með sér neina niðurrifsskyldu heldur sé hér aðeins um stefnumörkun að ræða ef lóðareigendur hyggi á breytingar á húsnæði sínu.  Í þessu felast auknar nýtingarheimildir lóðahöfum til handa en ekki verður séð að þær rýri með neinum hætti rétt þeirra til hagnýtingar eigna sinna óbreyttra eða hefti áform um viðhald eða endurbætur eignanna.  Á hitt verður hins vegar fallist að skipulagskvöð sú um umferð sem lögð er á lóð kærenda með hinni kærðu ákvörðun gangi gegn lögvörðum hagsmunum og skerði lóðarréttindi þeirra umfram það sem heimilt var án samkomulags við lóðarhafa eða eignarnámsheimildar.  Verður umrædd kvöð ekki skilin á annan veg en svo að kærendur verði að sæta því að hluti lóðar þeirra verði lagður undir umferð og bílastæði óháð áformum þeirra um nýtingu lóðar sinnar eða því hvort kærendur hyggjast nýta eign sína í óbreyttri mynd eins og þeim er heimilt samkvæmt skipulaginu.  Leiðir af skýringu á hugtakinu kvöð að ekki fær staðist sú skýring bæjaryfirvalda að þolendur kvaðarinnar hafi forræði á því við hvaða skilyrði hún verði virk heldur verður að leggja til grundvallar að bæjaryfirvöld geti einhliða ákveðið að hagnýta þá heimild til umferðar sem í kvöðinni felst.  Þá skortir á að gerð sé grein fyrir inntaki kvaðarinnar í greinargerð skipulagsins, m.a. um það hver eigi að bera kostnað af gerð akbrautar eftir kvaðasvæðinu.  Vegna þessara annmarka þykir verða að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað umrædda kvöð áhrærir.  Hins vegar eru ekki sjáanleg vandkvæði á því að hið breytta skipulag geti staðið óhaggað að öðru leyti, enda er unnt að leysa bílastæðaþörf nýbyggingar að Hafnargötu 20 innan lóðar þeirra eignar með aðkomu frá Klapparstíg.  Verður því ekki fallist á að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi í heild. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður hafnað kröfu kærenda um ógildingu hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar að öðru leyti en því að fellt er úr gildi ákvæði hennar um kvöð um umferð sem fram kemur á samþykktum uppdrætti.

Jafnframt hinni umdeildu ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi, sem fjallað er um hér að framan, er í máli þessu kærð sú ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 2. maí 2002 að staðfesta ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. mars 2002 um að synja umsókn kærenda um leyfi til að breyta notkun 1. hæðar Hafnargötu 20 úr verslunarrými í íbúð.  Var umsókn kærenda hafnað í skipulags- og byggingarnefnd með þeim rökum að í greinargerð með Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015 sé tekið fram að á miðbæjarsvæðum sé reiknað með íbúðum á efri hæðum ásamt skrifstofum og þjónustustarfsemi.  Með hliðsjón af þessu telji nefndin ekki forsvaranlegt að samþykkja breytingu á verslunarhúsnæði á 1. hæð í íbúðarhúsnæði.  Að gefnu tilefni bendi nefndin á að kvartanir hafi borist vegna hávaða frá nærliggjandi veitingahúsum.

Úrskurðarnefndin óskaði af þessu tilefni eftir upplýsingum um ákvæði í greinargerð Aðalskipulags Reykjanesbæjar um landnotkun á svæði því sem hér skiptir máli.  Barst nefndinni kafli úr greinargerð aðalskipulagsins ásamt uppdrætti þess hinn 2. október 2002.  Í greinargerðinni segir svo:  „Hafnargatan verður nokkurs konar lífæð milli miðbæjarsvæðis og Grófar.  Aðaluppbygging verslana verður áfram við Hafnargötu frá Duusgötu í norðri og endar í nýjum miðbæ sunnan Flugvallarvegar.  Svæði þetta er mjög miðsvæðis í nýja bæjarfélaginu og verður í góðum umferðartengslum með tilkomu nýs Flugvallarvegar.  Þar er reiknað með blandaðri byggð verslunar, þjónustustofnana og íbúða.“

Ekki er að finna frekari skilgreiningar á landnotkun miðbæjarsvæðis í deiliskipulagi svæðis A, svo sem þó hefði verið eðlilegt, sbr. 3. mgr. greinar 4.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að samþykkt íbúðarhúsnæðis á 1. hæð í húsi kærenda væri andstæð gildandi skipulagi.  Var synjun umsóknar þeirra því ekki reist á réttum forsendum og verður hún því felld úr gildi og lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd að taka umsóknina að nýju til löglegrar meðferðar.

Miðað við þá niðurstöðu sem að framan er lýst um aðal- og varakröfu kærenda kemur þrautavarakrafa þeirra ekki til álita við úrlausn málsins.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. mars 2002, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 30. apríl 2002, um breytingar á deiliskipulagi reita 9 og 14 á svæði A í Reykjanesbæ skal standa óröskuð að öðru leyti en því að felld er úr gildi ákvörðun um kvöð um umferð sem fram kemur á samþykktum uppdrætti. 

Felld er úr gildi sú ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 2. maí 2002 að staðfesta ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 7. mars 2002 um að synja umsókn kærenda um leyfi til að breyta notkun 1. hæðar Hafnargötu 20 úr verslunarrými í íbúð.  Er lagt fyrir skipulags- og byggingarnefnd að taka umsókn kærenda til löglegrar meðferðar að nýju. 

 

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir