Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2001 Spítalastígur

Ár 2003, miðvikudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2001, kæra eigenda fasteignarinnar að Spítalastíg 8, Hvammstanga á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnaþings vestra frá 6. apríl 2001, að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið nr. 8a við Spítalastíg, Hvammstanga.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2001, er barst nefndinni hinn 11. október sama ár, kærir Ingi Tryggvason hdl., fyrir hönd G, og G, Spítalastíg 8, Hvammstanga, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnaþings vestra frá 6. apríl 2001 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið nr. 8a, Hvammstanga.  Sveitarstjórn Húnaþings staðfesti ákvörðunina hinn 11. apríl 2001.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að skipulags- og byggingarnefnd verði gert að fjarlægja viðbygginguna að Spítalastíg 8a, Hvammstanga.

Málavextir:  Húsin að Spítalastíg 8 og 8a stóðu á sameiginlegri lóð og voru báðar eignirnar í eigu kærenda.  Hinn 12. janúar 2000 var samþykkt, að beiðni kærenda, að skipta lóðinni upp í tvær lóðir er fylgdu þeim húsum sem staðið höfðu á hinni óskiptu lóð og var fasteignin að Spítalastíg 8a seld byggingarleyfishafa vorið 2000.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Á árinu 2001 sóttu eigendur Spítalastígs 8a um byggingarleyfi fyrir stækkun á baði og og gerð nýrrar forstofu við húsið.  Byggingarnefnd veitti umbeðið leyfi hinn 6. apríl 2001 en í september 2001 voru samþykktar breytingar á upphaflegum teikningum, er vörðuðu gluggaumbúnað og gler í gluggum nýbyggingarinnar auk þess sem gert var ráð fyrir steinsteyptum veggjum í stað timburklæddra veggja með Steni klæðningu.  Byggingarleyfisumsóknin var ekki grenndarkynnt í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Framkvæmdir hófust í september 2001 og höfðu kærendur þá samband við byggingarfulltrúa sem kynnti þeim samþykktar teikningar af breytingum á húsinu að Spítalastíg 8a og töldu kærendur samþykktar framkvæmdir umfangsmeiri en þeir hefðu talið að væru fyrirhugaðar.  Lögmaður kærenda sendi síðan skipulags- og byggingarnefnd Húnaþings vestra bréf, dags. 27. september 2001, þar sem m.a. var gerð sú krafa að umræddar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til skipulags- og byggingarnefnd hefði fjallað um málið en sú krafa gekk ekki eftir.  Byggingarfulltrúi svaraði bréfi lögmanns kærenda með bréfi, dags. 10. október 2001, þar sem forsaga málsins var reifuð og m.a. kom fram að skipulags- og byggingarnefnd hefði fjallað um málið hinn 4. október 2001 en frestað afgreiðslu þess þar til umbeðið álit Skipulagsstofnunar lægi fyrir.

Kærendur skutu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að grenndarkynna hefði átt umdeildar framkvæmdir áður en leyfi væri veitt fyrir þeim, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 12.5 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Það hafi ekki verið gert og kærendum ekki kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir með öðrum hætti.  Kærendur hafi staðið í þeirri trú að fyrir dyrum stæðu viðgerðir á timburskúr við húsið að Spítalastíg 8a en það hafi ekki verið fyrr en þeim hafi verið kynntar samþykktar teikningar vegna framkvæmdanna að þeim hafi orðið ljóst að um steinsteypta viðbyggingu væri að ræða sem væri stærri og hærri en skúrinn sem fyrir var.  Jafnvel þótt kærendur hefðu vitað að eitthvað meira stæði til en viðgerð á skúrnum hafi borið að leita samþykkis þeirra fyrir framkvæmdunum eða að láta fara fram grenndarkynningu.

Umdeild viðbygging sé of nærri lóðamörkum og bil milli húsanna að Spítalastíg 8 og 8a samræmist ekki skilyrðum 75. gr. byggingarreglugerðar.  Húsið að Spítalastíg 8 standi 3 metra frá lóðamörkum milli fasteignanna en umdeild viðbygging sé aðeins um 1,8 metra frá lóðamörkum húsanna.  Á þeirri hlið viðbyggingarinnar er snúi að húsi kærenda séu tveir gluggar.

Af þessu verði ráðið að ekki hafi verið farið að settum reglum við hina kærðu ákvörðun og ekki verði við það unað að viðbyggingin sé svo nærri húsi kærenda sem raunin sé.

Málsrök skipulags- og byggingarnefndar:  Til þess er vísað að eigandi fasteignarinnar að Spítalastíg 8a, Hvammstanga hafi haft samband við byggingarfulltrúa snemma árs 2001 vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við húsið.  Eigandi fasteignarinnar að Spítalastíg 8 hafi einnig haft samband við byggingarfulltrúa og lýst sig jákvæðan gagnvart framkvæmdunum.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt umdeilt byggingarleyfi án formlegrar grenndarkynningar í ljósi þess að góð sátt virtist vera milli aðila um framkvæmdirnar, enda hafi kærendur leigt byggingarleyfishafa aðstöðu í bílskúr sínum undir tæki vegna væntanlegra framkvæmda.  Um aðra mögulega hagsmunaaðila, er kynna þyrfti framkvæmdirnar, hafi ekki verið að ræða.

Kærendur hafi ekki fett fingur út í umdeildar framkvæmdir fyrr en um miðjan september 2001 eftir að sökklar og botnplata vegna viðbyggingarinnar hefðu verið steypt.  Formleg mótmæli vegna framkvæmdanna og krafa um stöðvun þeirra hafi ekki borist byggingaryfirvöldum fyrr en með bréfi lögmanns kærenda, dags. 27. september 2001, eða nokkru eftir að öðrum kæranda hljóti að hafa verið ljóst, sem byggingarlærðum manni, í hverju framkvæmdirnar væru fólgnar.  Byggingarfulltrúi hafi í kjölfar þess tilkynnt byggingarstjóra og eigendum Spítalastígs 8a um tímabundna stöðvun framkvæmda meðan málið yrði kannað en stöðvunin síðan afturkölluð síðar sama dag.

Telja verði að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi séu í samræmi við 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Fjarlægð milli umræddra húsa sé minnst frá norðaustur horni viðbyggingarinnar eða 4,85 metrar en fjarlægð milli húsa sé að meðaltali 5,20 metrar.  Fari leyfið því ekki í bága við nefnda 75. gr. byggingarreglugerðar enda liggi fyrir vottorð slökkviliðsstjóra Húnaþings vestra þar að lútandi.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi vísar til þess að hann hafi í janúar 2001 greint kærendum frá ætlun sinni að byggja við húsið að Spítalastíg 8a, Hvammstanga.  Hann hafi kynnt kærendum teikningar af framkvæmdunum þegar þær lágu fyrir og hafi þeim verið breytt að ráðleggingum kærenda með því að inngangur var færður til þar sem snjór safnaðist síður fyrir.  Allar teikningar hafi verið samþykktar í skipulags- og byggingarnefnd, byggingarleyfi gefið út 12. september 2001 og framkvæmdum lokið um miðjan október sama ár. 

Byggingarleyfishafi hafi hagað framkvæmdum sínum í samræmi við lög og góðar venjur og gert kærendum grein fyrir þeim með margra mánaða fyrirvara og farið að ráðleggingum kærenda.  Að öðru leyti vísar byggingarleyfishafi til röksemda byggingaryfirvalda fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Niðurstaða:  Af fyrirliggjandi teikningum verður ráðið að umdeilt byggingarleyfi fól í sér heimild til að endurbyggja litla viðbyggingu við húsið nr. 8a við Spítalastíg, Hvammstanga er snéri að lóðamörkum húss kærenda.  Teikningar bera með sér að heimiluð viðbygging sé rúmum 10 fermetrum stærri en viðbygging sú sem fyrir var og liggi um 1,2 metrum nær umræddum lóðamörkum.  Nýbyggingin er steinsteypt en eldri viðbygging var úr timbri.  Tveir gluggar eru á útvegg sem snýr að húsi kærenda.

Við það verður að miða að kærendum hafi ekki verið ljóst fyrr en þeim voru kynntar samþykktar teikningar af umdeildum framkvæmdum á fundi með byggingarfulltrúa um miðjan september 2001 hvernig umdeild viðbygging yrði, enda annað ekki fram komið í málinu gegn andmælum þeirra.  Var kæra í máli þessu því nægjanlega snemma fram komin samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en eins og fram er komið barst kæran úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2001.

Fyrir liggur að umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt og bar því samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að grenndarkynna umsóttar framkvæmdir eftir fyrirmælum 7. mgr. 43. gr. laganna áður en umdeilt byggingarleyfi var veitt en það var ekki gert.  Samkvæmt nefndri 7. mgr. 43. gr. annast skipulagsnefnd grenndarkynningu sem fólgin er í því að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, er kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur.  Að fresti liðnum og að fengnu áliti skipulagsnefndar skal byggingarnefnd taka málið til afgreiðslu og þeim sem tjáðu sig um málið skal tilkynnt um niðurstöðu skipulagsnefndar og byggingarnefndar.  Heimilt er að stytta kynningarfrest ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta lýsa skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd.  Skilja verður ákvæði þetta svo að jafnvel þótt samþykki hagsmunaaðila liggi fyrir verði ekki undan því vikist að framkvæma grenndarkynningu en þá eftir atvikum með styttri kynningarfresti. 

Jafnframt uppfylla heimilaðar framkvæmdir ekki skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar um lágmarksfjarlægð húsa frá lóðarmörkum og fjarlægð milli húsa.  Samkvæmt gr. 75.1 í byggingarreglugerð verður fjarlægð húss frá lóðarmörkum að lágmarki að vera 3 metrar en minnsta fjarlægð húss byggingarleyfishafa frá lóðamörkum er um 1,8 metrar.  Aðeins er hægt að víkja frá skilyrðum um fjarlægð frá lóðarmörkum með skipulagi eða þinglýstum samningi lóðarhafa samkvæmt gr. 75. 4 í nefndri  reglugerð en slíku er ekki til að dreifa í máli þessu.  Í gr. 75.3 er kveðið á um lágmarksfjarlægð milli húsa og getur hún ekki verið minni en 6 metrar nema að skilyrði gr. 75.5 um að brunastuðull veggja húsa, er snúa að hvort öðru, sé REI60, ekki sé op á veggjum húsanna, uppfyllt séu skilyrði um vegg- og þakklæðningar og flatarmál viðkomandi húsa sé innan þargreindra marka eða að eldvarnarveggur sé milli þeirra.  Hús kærenda og byggingarleyfishafa standa innan við 6 metra hvort frá öðru og er minnsta fjarlægð milli húsanna um 4,8 metrar.  Fyrir liggur í gögnum málsins að gluggar eru á gafli umdeildrar viðbyggingar er snýr að húsi kærenda með gleri með brunastuðli E30 og óopnanleg fög. 

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun haldin þeim annmörkum að ekki var gætt áðurgreindra ákvæða skipulags- og byggingarlaga um grenndarkynningu og á skortir að umdeild viðbygging uppfylli skilyrði 75. gr. byggingarreglugerðar um fjarlægð frá lóðamörkum og fjarlægð milli húsa eða kröfur um brunamótstöðu.  Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Eins og málsatvikum er háttað þykja ekki lagaskilyrði fyrir því að kveða á um að byggingaryfirvöld láti fjarlægja umdeilda byggingarframkvæmd þar sem það er á valdi sveitarstjórnar að taka afstöðu til þess með hvaða hætti verði bætt úr þeim annmörkum sem úrskurðarnefndin telur að hin kærða ákvörðun sé haldin.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnaþings vestra frá 6. apríl 2001, að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið nr. 8a við Spítalastíg, Hvammstanga, er felld úr gildi

____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Óðinn Elísson