Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2019 Kambahraun

Árið 2019, þriðjudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar frá 14. mars 2019 um að samþykkja umsókn um stækkun lóðarinnar að Kambahrauni 51 og viðbyggingar við íbúðarhús og bílskúr á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. apríl 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kæra eigendur, Kambahrauni 60, Hveragerði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar frá 14. mars 2019 að samþykkja umsókn um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 og viðbyggingar við íbúðar­hús og bílskúr á lóðinni. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 24. maí 2019.

Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 8. janúar 2019 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja við íbúðarhús og bílskúr á lóð nr. 51 við Kambahraun og stækka lóðina. Í umsókninni fólst að samþykktar yrðu viðbyggingar við íbúðarhús og bílskúr og stækkun lóðarinnar til norðurs um 4,5 m. Eftir breytinguna yrði stærð íbúðar 172,5 m², stærð bílskúrs 91 m² og flatarmál lóðar 906,1 m² með nýtingarhlutfallið 0,29. Lagði nefndin til við bæjarstjórn að umsóknin yrði grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðsla á fundi sínum 10. janúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 5. mars s.á. þar sem lagt var til við bæjarstjórn að erindið yrði samþykkt en komið yrði til móts við athugasemdir varðandi framkvæmdir á svæði vestan lóðarinnar með því að mön yrði lækkuð um einn metra og opnuð með tveggja metra breiðu skarði til vesturs. Afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar var samþykkt í bæjarstjórn 14. mars 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og fari gegn lögmætisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nauðsynlegt hafi verið að gera deiliskipulag vegna framkvæmdanna en í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að meginreglan sé sú að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Í 1. mgr. 44. gr. laganna sé að finna undanþágu frá þeirri skyldu í þeim tilvikum þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi á ódeiliskipulögðu svæði, sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, en þá að undangenginni grenndarkynningu. Sú framkvæmd sem hér um ræði sé ekki í samræmi við byggðamynstur í hverfinu enda sé ljóst að ef af verði raskist götumynd. Verði viðbyggingin við íbúðarhús lóðarhafa að veruleika sé ljóst að hún muni byrgja sýn annarra úr bakgörðum sínum að útivistarsvæði sem sé við enda botnlanga götunnar. Viðbyggingin muni gera það að verkum að stofur lóðarhafa og kærenda verði mjög nálægt hvor annarri og greiðlega sjáist úr annarri stofunni inn í hina.

Skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar hafi verið vanhæfur við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar, en hann sé tengdafaðir lóðarhafa. Þótt hann hafi vikið af fundi þegar málið hafi verið tekið fyrir sé það hann sem undirbúi grenndarkynninguna og undirriti hana. Rannsóknar­regla stjórnsýsluréttarins hafi verið virt að vettugi enda verði ekki séð að fram­komnar athugasemdir kærenda á grenndarkynningartíma hafi verið teknar til skoðunar.

Málsrök Hveragerðisbæjar: Bæjaryfirvöld byggja á því að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af stækkun bílskúrs til norðurs á umræddri lóð og stækkun lóðarinnar til norðurs í ljósi staðsetningar lóðar kærenda enda taki efni kærunnar alfarið mið af stækkun íbúðarhúss til vesturs. Lóðin Kambahraun 51 og lóð kærenda liggi ekki saman og um 17 m verði á milli viðbyggingar á lóðinni til vesturs og mannvirkis á lóð kærenda. Grenndaráhrif gagnvart kærendum séu því óveruleg ef nokkur.

Umrætt svæði sé á skilgreindu íbúðarsvæði innan þéttbýlis. Geti því meintar réttmætar væntingar kærenda ekki staðið framkvæmdunum í vegi. Skilyrðum 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fullnægt til þess að fara með málið í farveg grenndarkynningar. Framkvæmdirnar séu í samræmi við Aðal­skipulag Hveragerðisbæjar 2017-2029 en lóðin sé innan skilgreindrar íbúðarbyggðar. Með heimiluðum framkvæmd­um sé byggðamynstri ekki raskað þar sem í þeim felist hvorki hækkun mannvirkja né breyting á nýtingu og nýtingarhlutfall sé innan marka skipulagsskilmála aðalskipulags. Bent sé á til samanburðar að nýtingar­hlutfall lóðar kærenda sé rúmlega 0,28 og nýtingarhlutfall lóða við götuhlutann sem Kambahraun 51 standi við sé á bilinu 0,23-0,31. Fari auknar byggingarheimildir því ekki í bága við þéttleika byggðar á svæðinu.

Því sé hafnað að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslu­­­­­­laga nr. 37/1993. Starfsmenn bæjarins hafi farið á vettvang bæði fyrir og eftir grenndar­kynningu og hafi kannað staðhætti. Þótt láðst hafi að taka fram í tilkynningu til kærenda um ákvörðunina að unnt væri að fá hana rökstudda, geti það ekki haft áhrif á gildi hennar. Um sé að ræða óverulegan formannmarka á tilkynningu um ákvörðun sem þegar hafi verið tekin.

Samkvæmt gr. 2.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 annist skipulagsfulltrúi kynningu og auglýsingu á grenndarkynningu. Í samræmi við þau fyrirmæli hafi hann undirritað bréf um grenndarkynningu í máli þessu en ekki komið að ákvörðunum varðandi hana. Hann hafi vikið sæti á meðan málið hafi verið rætt hjá skipulags- og mannvirkjanefnd og hafi því ekki verið í neinni aðstöðu til að hafa áhrif á afstöðu nefndarmanna til málsins. Eigi vanhæfissjónarmið því ekki við í málinu.

Athugasemdir lóðarhafa: Af hálfu lóðarhafa er vísað til þess að skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fyrir hendi og að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar á svæðinu. Fyrirhuguð viðbygging muni ekki hafa nein áhrif á götumynd enda muni hún rísa til vesturs miðað við aðal­byggingu og muni á engan hátt hafa áhrif á ásýnd húss við götu. Framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér skuggavarp á lóð eða fasteign kærenda og útsýnisskerðing muni verða engin eða í öllu falli svo minniháttar að hún muni ekki hafa í för með sér neina röskun á hagsmunum þeirra. Ekki verði séð að stofur lóðarhafa og kærenda verði mjög nálægt hvor annarri eftir breytingarnar. Fjarlægð milli húshorna umræddra húsa verði u.þ.b. 1,5 m þar sem fasteignirnar liggi skáhallt hvor á móti annarri en ekki hlið við hlið.

Meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við málsmeðferðar­­­­reglur skipulagslaga. Málið hafi verið grenndarkynnt fyrir kærendum í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og gr. 5.9.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Kærendur hafi gert athugasemdir og hafi skipulags- og mannvirkjanefnd tekið afstöðu til þeirra í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. gr. 5.9.4. reglugerðarinnar. Þá hafi skipulags­fulltrúi ekki tekið þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn málsins í skilningi 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga.

—–

Frekari rök og sjónarmið aðila máls liggja fyrir en ekki þykir ekki ástæða til að rekja þau nánar hér.

Niðurstaða: Í hinni grenndarkynntu umsókn, sem sveitarstjórn samþykkti, fólst annars vegar fyrirhuguð stækkun íbúðarhúss og bílskúrs á lóðinni Kambahrauni 51 og hins vegar beiðni um stækkun lóðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 veitir byggingarfulltrúi byggingar­leyfi, samþykkir byggingaráform samkvæmt 11. gr. og gefur út byggingarleyfi, sbr. 13. gr. laganna. Sveitarstjórn tekur hins vegar ákvörðun um skiptingu landa og lóða og breytingu á lóðamörkum skv. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með tölvupósti 6. nóvember 2019 fór úrskurðarnefndin þess á leit við byggingarfulltrúa að hann afhenti nefndinni áritaða uppdrætti um samþykki byggingaráforma fyrir umdeildum við­byggingum að Kambahrauni 51. Byggingar­fulltrúi svaraði með tölvupósti 14. s.m. þar sem fram kom að umrædd byggingaráform hefðu ekki verið samþykkt af hans hálfu, aðaluppdrættir yfirfarnir til stað­festingar á samþykki byggingarleyfis eða byggingarleyfi gefið út. Hefur byggingarfulltrúi staðfest að sú staða sé enn óbreytt.

Samkvæmt því sem að framan greinir var hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 14. mars 2019 ekki lokaákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingum á lóðinni Kambahrauni 51 í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður ekki hjá því komist að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins um umrædda stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 um 4,5 metra til norðurs. Samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðis­­bæjar 2017-2029 er lóðin Kambahraun 51 á svæði merktu ÍB2, Kambahraun, Borgarhraun og Dynskógar 1-17. Um svæðið segir að það sé fullbyggt og einkennist aðallega af lágreistum einbýlishúsum. Sveitarfélagið byggir á því að fyrir ákvörðun um lóðarstækkunina hafi legið samþykki lóðarhafa og að ákvörðunin hafi verið málefnaleg m.t.t. staðsetningar lóðarinnar sem sé endalóð. Ekki hafi verið svigrúm vegna staðhátta til þess að skipuleggja aðra lóð norðan við Kambahraun 51. Efnisleg rök bjuggu því að baki ákvörðun sveitar­stjórnar um stækkunina. Umrædd stækkun var tekin úr landi sveitarfélagsins og var þar með ekki gengið á lóðarréttindi kærenda.

Skipulagsfulltrúi hefur umsjón með skipulagsgerð, svo sem við undirbúning hennar, annast kynningu og auglýsingu á lýsingu, grenndarkynningu og skipulags­tillögum, skv. 7. gr. skipulagslaga, sbr. gr. 2.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Liggur fyrir að skipulags­fulltrúi kom að undirbúningi málsins með undirritun bréfs um grenndar­kynningu en hann er tengdafaðir lóðarhafa. Hann vék hins vegar sæti við afgreiðslu málsins hjá skipulags- og mannvirkjanefnd. Þá er lokaafgreiðsla um lóðarstækkunina í höndum sveitarstjórnar sem skipulagsfulltrúi hefur enga aðkomu að. Af þeim sökum verður hin kærða ákvörðun ekki ógilt vegna fjölskyldutengsla skipulagsfulltrúa og lóðarhafa.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Hveragerðisbæjar um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Hveragerðisbæjar frá 14. mars 2019 um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51, Hveragerði.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.