Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2017 Grensásvegur / Síðumúli

Árið 2017, föstudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir óskipta lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir niðurrifi á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2017, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Fróði ehf., eigandi 1. hæðar og kjallara Síðumúla 37, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Grensásveg 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39. Með bréfi, dags. 16. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Steinnes sf., Síðumúla 34, Reykjavík, sömu ákvörðun borgarráðs og verður  það mál, sem er nr. 32/2017, sameinað máli þessu.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar frestað meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Í ljósi þess að ákvörðun um deiliskipulag felur ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir, og að málið þykir nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar, verður ekki tekin afstaða til kröfunnar um frestun réttaráhrifa.

Með bréfi, dags. 25. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Fróði ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2017 að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A. Er gerð krafa um ógildingu ákvörðunarinnar og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er nr. 94/2017, sameinað máli þessu, þar sem hagsmunir kæranda þykja ekki standa því í vegi og málin auk þess samofin. Þar sem málið verður nú tekið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. mars og 4. september 2017.

Málavextir: Á fundi sínum 16. desember 2015 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir  óskipta lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39, að beiðni hluta lóðareigenda. Fól tillagan í sér að byggt yrði við núverandi húsnæði á lóðinni og að það yrði nýtt sem íbúðir, hótel og skrifstofu- og þjónustuhúsnæði. Eftir staðfestingu borgarráðs var tillagan auglýst til kynningar 10. febrúar 2016 með athugasemdafresti til 23. mars s.á. og bárust athugasemdir frá kærendum innan frestsins. Málinu var síðan frestað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. apríl 2016 þar sem skorti á samþykki allra eigenda lóðarinnar.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. nóvember 2016 og tillagan samþykkt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. október s.á. Með bréfi, dags. 25. nóvember s.á., gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins, þar sem afmörkun þess væri ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá gerði stofnunin einnig athugasemd við að samráð virtist ekki hafa verið haft við alla lóðarhafa við vinnslu skipulagstillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Var það mat stofnunarinnar að gera hefði átt skipulagslýsingu fyrir deiliskipulagsvinnu á þessu svæði og að ekki hefði verið gerð grein fyrir umhverfisáhrifum vegna tillögunnar skv. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2016 var lagður fram breyttur deiliskipulagsuppdráttur ásamt svarbréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. s.m., í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar. Var málinu vísað til borgarráðs, sem staðfesti afgreiðsluna hinn 22. desember s.á. Með bréfi, dags. 12. janúar 2017, gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við tillöguna þar sem ítrekað var mikilvægi þess að við deiliskipulagsgerð sé litið til þess að tillögur nái yfir heildstætt svæði, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. febrúar s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju og hún samþykkt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 26. janúar 2017. Var afgreiðslan staðfest af borgarráði 9. febrúar s.á. og tók skipulagið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2017.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. febrúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A. Var málinu frestað og umsækjanda bent á að hafa samband við embætti byggingarfulltrúa. Hinn 1. mars s.á. var málið tekið fyrir að nýju og bókað að skipulagsferli væri ólokið og málinu frestað að nýju. Því var enn frestað á fundi byggingarfulltrúa 14. apríl 2017, þar sem ekki lá fyrir samþykki meðeigenda. Umsóknin var að lokum samþykkt á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 og byggingarleyfi gefið út 26. s.m.

Málsrök kærenda: Kærandinn að Síðumúla 37 tekur fram að hann sé eigandi húsnæðis í nefndu húsi sem standi á heildarlóðinni Síðumúla 37, Síðumúla 39 og Grensásvegi 16A.

Kærandinn bendir í fyrsta lagi á það að borgaryfirvöld kunni að hafa verið vanhæf við töku ákvörðunar um skipulag á lóðinni einni og sér vegna verulegra fjárhagslegra hagsmuna af gildistöku skipulagsins. Ástæða þess sé sú að með kaupsamningi, dags. 26. janúar 2016, hafi Reykjavíkurborg selt húsið að Síðumúla 39, ásamt 41,2% hlutdeild í bílastæðahúsi, á 311.000.000 króna. Í kaupsamningi hafi jafnframt verið seldur byggingarréttur „… sem samþykktur verður í nýju deiliskipulagi á heildarlóðinni Grensásvegur 16 og Síðumúla 37 og 39 er kr. 40.000 pr. m2 og er eignarhlutur seljanda í heildarbyggingarrétti 41,41%. Greiðsla fyrir byggingarréttinn verður innt af hendi þegar nýtt deiliskipulag hefur tekið gildi í B-deild Stjórnartíðinda.“ Þá sé kveðið á um það í kaupsamningi að hafi hið nýja deiliskipulag ekki tekið gildi fyrir 1. maí 2016 frestist afsal þar til deiliskipulag hafi verið staðfest og að sala byggingarréttarins sé óháð því hvort samkomulag náist við aðra lóðarhafa um kaup þess réttar. Að mati kæranda felist í orðalagi kaupsamningsins fyrirheit seljanda um samþykki nýs deiliskipulags, hvort sem skilyrði laga til þess kunni að vera uppfyllt eða ekki.

Ekki hafi verið gætt að lögmætisreglu stjórnsýsluréttar við töku hinnar kærðu ákvörðunar, enda sé hún haldin verulegum göllum og lagareglur er um málið gildi þverbrotnar. Skipulagsstofnun hafi gert margvíslegar athugasemdir við afgreiðslu umræddrar skipulagstillögu, sem hafi falið í sér að gera þyrfti nýtt skipulag en ekki að gera breytingu á eldra skipulagi. Athugasemdirnar hafi lotið bæði að efni og formi deiliskipulagsins, en sveitarstjórn hafi ekki brugðist við athugasemdum stofnunarinnar um form skipulagsins, svo sem henni hafi borið að gera, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þær athugasemdir hafi að mestu lotið að því að ekki hafi verið unnin lýsing fyrir tillögu að nýju skipulagi, eins og skylt sé skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Þá hafi verið gerð athugasemd við að ekki hafi allir landeigendur staðið að ósk um gerð deiliskipulags, eins og skylt sé að lögum, þar sem kærandi hafi ekki staðið að henni.

Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda, þrátt fyrir að í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir verulega breyttum notum á lóðinni og umfangsmiklum framkvæmdum, þ. á m. á húseign hans. Sé vandséð hvernig tillagan geti náð fram að ganga þegar litið sé til þess að engin grein sé gerð fyrir hlutdeild hinna ýmsu lóðarhafa í framkvæmdunum, breyttum eignarhlutföllum eða skiptingu kostnaðar. Þá séu eigendur húseignanna á lóðinni aðilar að sérstökum húsfélögum er nái til einstakra húsa, en jafnframt séu þeir aðilar að húsfélagi er nái til allra húsanna saman. Í 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús komi fram að ákvæði laganna gildi, eftir því sem við geti átt, um þau atriði og málefni sem sameiginleg séu, svo sem um lóð sé hún sameiginleg að öllu leyti eða nokkru. Þessa atriðis hafi ekki verið gætt er einn húseigandi hafi óskað eftir að unnin yrði deiliskipulagstillaga fyrir alla lóðina. Hafi Reykjavíkurborg verið skylt að hafna framkominni beiðni vegna skorts á samþykki allra lóðarhafa. Vegna skýlausra brota á fjöleignarhúsalögum beri að ógilda ákvörðun borgarráðs.

Þá sé deiliskipulagstillagan og samþykkt hennar háð verulegum efnislegum annmörkum. Bent sé á að skv. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli tillögur að deiliskipulagi ná yfir heildstæð svæði, en samkvæmt borgarvefsjá sé ekkert deiliskipulag í gildi fyrir Síðumúla og Ármúla að Suðurlandsbraut.

Samþykktar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni leiða til mikils óhagræðis, m.a. með tilheyrandi girðingum og skertu aðgengi að fasteign kæranda.

Af hálfu þess kæranda sem er eigandi hluta Síðumúla 34 er á það bent að með nýju deiliskipulagi séu hagsmunir hans verulega skertir vegna fyrirsjáanlegrar verðrýrnunar fasteignar hans sökum skerts útsýnis, einkum frá íbúðum á 4. og 5. hæð. Þetta fái stoð í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar þar sem tekið sé fram: „Er einnig bent á að um er að ræða möguleg áhrif útsýnisskerðingar og skuggavarps á atvinnuhúsnæði þar sem starfsemi fer fram á daginn en ekki íbúðir eða garða, þar sem aukið skuggavarp getur vissulega skert gæði lóða.“ Í dag sé einstaklega mikið útsýni frá efri hæðum húss kæranda og þaðan sjáist yfir alla austurborgina og allur fjallahringurinn. Fram kemur í álits- og matsgerð löggilts fasteignasala um áhrif samþykktra breytinga á verð fasteignar kæranda að „verðrýrnun á Síðumúla 34, Reykjavík er almennt 5% á 1., 2., og 3. hæð hússins. Verðrýrnun á 4. hæðinni er 7% og verðrýrnun á 5. hæðinni er 12%“.

Hvað hið kærða byggingarleyfi varði telji kærandinn að Síðumúla 37 að við útgáfu þess hafi borið að afla samþykkis allra eigenda, þ.e. allra lóðarhafa. Bygging sú sem leyfið nái til standi ásamt tveimur öðrum húsum á einni sameiginlegri lóð. Gildi því ákvæði 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús um ákvarðanir er snerti að öllu eða nokkru leyti útlit og heildarsvip lóðar og mannvirkja er á henni standi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á því byggt að málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsbreytingar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sveitarstjórn sé heimilt að falla frá gerð lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggi fyrir í aðalskipulagi, sbr. 40. gr. skipulagslaga, líkt og hér eigi við. Einungis sé verið að nýta lítinn hluta af þeim heimildum sem séu tilgreindar í aðalskipulagi. Þannig sé gert ráð fyrir  hækkun húsanna að Síðumúla 37 og 39 um eina hæð en að Grensásvegur 16A hækki um tvær hæðir. Gert sé ráð fyrir hótelstarfsemi og verslunarrými að Grensásvegi 16A og verði 40-65 íbúðir á efri hæðum.

Við undirbúning tillögunnar hafi annar kærenda ekki verið búinn að festa kaup á eign sinni að Síðumúla 37. Þegar vinna við deiliskipulagstillöguna hafi farið af stað hafi sú eign verið til sölu og ekki kominn nýr eigandi. Það að umrædd ákvörðun hafi ekki verið lögð fyrir kærandann komi ekki að sök þar sem hann hafi allt að einu gert athugasemdir við auglýsta deiliskipulagstillögu. Það að samráð sé ekki haft við eiganda eignar sem deiliskipulag varði verði ekki talið til annmarka á málsmeðferð skipulagsins í ljósi aðstæðna, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 42/2003. Skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélaginu hvort sem tillögur um gerð deiliskipulags stafi frá því eða einstökum eigendum. Skipulagsvaldi Reykjavíkurborgar séu ekki sett takmörk vegna eignarhalds á landi eða lóðum, sbr. niðurstöðu framangreinds úrskurðar.

Þegar embætti skipulagsfulltrúa berist erindi frá lóðarhöfum er varði deiliskipulagningu lóðar hafi sú vinnuregla verið viðhöfð að kalla eftir samþykki sameigenda lóðarinnar fyrir umsókninni án þess að krafa sé gerð um það í lögum, enda geti skipulagsákvarðanir ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda milli sameigenda.

Í greinargerð hins umþrætta deiliskipulags sé skýrt tekið fram hver sé afmörkun skipulagssvæðisins. Lóðin afmarkist af götum á þrjá vegu. Sé afmörkunin í samræmi við þróunarsvæði í aðalskipulagi og verði fyrsta skref í átt að deiliskipulagi fyrir reitinn allan. Samkvæmt gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þurfi að færa rök fyrir afmörkun skipulagssvæðis. Reiturinn afmarkist af Grensásvegi til austurs, Fellsmúla til suðurs, Síðumúla til vesturs og Grensásvegi 18 til norðurs. Deiliskipulagið taki til einnar sameiginlegrar lóðar með þremur sjálfstæðum þriggja hæða húsum með kjallara. Á milli Grensásvegar 16a og Síðumúla 39 sé einnar hæðar bílageymsluhús fyrir 55 bíla, í húsi og á þaki. Rökin fyrir því að deiliskipulag sé afmarkað á þennan hátt séu þau að götureiturinn milli Síðumúla annars vegar og Grensásvegar/Ármúla hins vegar og frá Selmúla til Fellsmúla sé alls 4,5 ha. Vegna stærðar götureitsins verði hann deiliskipulagður í áföngum. Í byggðum hverfum, eins og um ræði í þessu tilviki, liggi fyrir umferðarskipulag og samsetning atvinnurekstrar á viðkomandi svæði. Hús innan reitsins séu ólík að formi og gerð og því verði ekki séð að skipulagsleg rök eða forsendur mæli sérstaklega fyrir um að deiliskipuleggja skuli svo stórt svæði í einu.

Málsmeðferð umþrætts byggingarleyfis hafi að öllu leyti verið í samræmi við hið nýja deiliskipulag umræddrar lóðar, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 22. desember 2016, ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að fram komi á skýringarmynd með hinu kærða deiliskipulagi að útsýnisskerðing frá Síðumúla 34 verði óveruleg og að ekki hafi legið fyrir deiliskipulag sem gæfi eiganda þess húsnæðis væntingar um hámarkshæð húsa. Húsið að Síðumúla 34 sé hærra en leyfileg hæð húss nr. 39 eftir breytinguna. Mat á verðrýrnun sé ekki marktækt enda um einhliða mat að ræða. Um sé að ræða þróunarsvæði Reykjavíkurborgar og því sé ljóst að eigendur fasteigna þurfi að þola að hverfið taki breytingum ef fyrirhuguð uppbygging borgarinnar eigi að verða að veruleika. Skýringaruppdráttur sýni að enginn skuggi muni falla á Síðumúla 34 frá Síðumúla 37 og 39. Loks liggi fyrir að bílastæðafjöldi samkvæmt skipulaginu sé í samræmi við gildandi aðalskipulag, skipulagslýsingu fyrir svæði merkt Þ57 í aðalskipulagi og stefnu Reykjavíkurborgar í samgöngumálum.

Aðgengi kæranda að eign sinni að Síðumúla 37 verði ekki skert frá því sem fyrir hafi verið og kappkostað verði að fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa sem minnsta röskun í för með sér. Ótvírætt sé að byggingarleyfið veiti heimild til að rífa húsnæði sem kærandi sé ekki eigandi að og að það feli ekki í sér ráðstöfun neinna lögvarinna hagsmuna hans. Hlutdeild hans í sameiginlegri lóð færi honum engan ráðstöfunarrétt yfir umræddri fasteign. Ljóst sé af lóðarleigusamningum að um þrjár sjálfstæða lóðarhluta sé að ræða sem saman mynda eina lóð. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 44/2009, þar sem sams konar álitaefni hafi verið til úrlausnar fyrir nefndinni, segi m.a.: „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4323 ferm., skv. viðfestum uppdrætti. Lóðin Láland nr. 19 er hluti af þeirri lóð. Samhljóða ákvæði er í samningi um lóðina nr. 21 við Láland. Verður að skilja tilgreind ákvæði deiliskipulags svæðisins og lóðarleigusamninga á þann veg að ekki hafi verið skylt að afla samþykkis annarra rétthafa hinnar sameiginlegu lóðar til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta byggingarleyfishafa.“

Ekki sé hægt að túlka ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús svo rúmt að þau taki almennt til hagnýtingar húseigenda á lóðum undir fasteignum þeirra. Það sé beinlínis tilgangurinn með skiptingu lóðarinnar að Grensásvegi 16a, Síðumúla 37 og 39 í tiltekna byggingarreiti að afmarka nýtingarrétt hvers lóðarhafa um sig, þar með talið byggingarrétt.

Niðurrif húsa á sameiginlegri lóð sé einungis breyting á þeim lóðarhluta sem undir húsinu sé og hafi ekki varanleg áhrif á lóð sem sé til sameiginlegra nota. Fasteignin að Síðumúla 37 verði ekki skert með útgáfu niðurrifsleyfis eða fyrirhuguðum framkvæmdum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir sameiginlega lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39 og þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs bílastæðahúss að Grensásvegi 16A með stoð í því skipulagi.

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eðli máls samkvæmt geta skipulagsáætlanir haft fjárhagslega þýðingu fyrir sveitarfélög og haft áhrif bæði á kostnaðar- og tekjuhlið í bókhaldi þeirra. Leiðir sú staðreynd ekki til vanhæfis borgarráðs til þess að samþykkja deiliskipulagsáætlun.

Þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefst skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur sveitarstjórnin hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er á umræddu svæði, sem merkt er M2e, gert ráð fyrir skrifstofum, rýmisfrekri smásöluverslun, stofnunum, ráðgjafar- og þjónustufyrirtækjum, fjármálastarfsemi, veitingastöðum og hótelum. Léttur iðnaður er einnig heimill á svæðinu, s.s. prentiðnaður og verkstæði, þar sem aðstæður leyfa. Þá er íbúðarhúsnæði heimilt á efri hæðum bygginga, enda verði tryggð viðeigandi gæði á lóðum viðkomandi bygginga samkvæmt nánara ákvæði þar um í deiliskipulagi. Hæðir bygginga verði að jafnaði 4-8. Þar kemur og fram áætluð aukning húsnæðis um 80 þúsund m2, þar af mögulega 300 íbúðir.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga kemur fram að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að skipulagslögum kemur fram að með þessu hafi ætlunin verið að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti þó stundum átt við. Sveitarstjórn hefur samkvæmt orðalaginu „jafnan“ nokkurt svigrúm til að ákveða mörk svæðis sem deiliskipulag á að taka til, en orðlagið veitir sveitarstjórnum þó ekki frelsi til að ákvarða mörkin án málefnalegra sjónarmiða og skipulagsraka. Með deiliskipulagi er markmiðið m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Við skipulagsgerð skal og tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulagslaga. Hið kærða deiliskipulag tekur til 4.484 m2 lóðar, sem tilheyrir um 4,5 ha götureits sem þegar er byggður en ekki verið deiliskipulagður. Í gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að í greinargerð deiliskipulags skuli færð rök fyrir afmörkun skipulagssvæðisins. Í greinargerð umrædds deiliskipulags kemur fram að vegna stærðar skipulagssvæðisins, þ.e. götureits sem afmarkast af Síðumúla, Fellsmúla, Grensásvegi, Ármúla og Selmúla, verði það deiliskipulagt í áföngum og sé þetta deiliskipulag fyrsti áfangi þess. Með vísan til þess að í aðalskipulagi kemur fram ætluð aukning byggingarmagns og fjöldi íbúða á svæðinu, ásamt rökstuðningi þeim sem fram kemur í greinargerð deiliskipulagsins, verður að telja að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að afmarka deiliskipulagið með þeim hætti sem gert var.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi sér stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, sem samþykkt var með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Þá liggur fyrir að leyfið fól í sér heimild til niðurrifs bílageymsluhúss, sem að hluta til er í eigu umsækjanda, og að samþykki meðeigenda þess lá fyrir við samþykki umsóknarinnar. Að því virtu, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við samþykkt leyfisins, verður gildi þess ekki raskað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir sameiginlega lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson