Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2011 Fisfélag Reykjavíkur

Árið 2012, föstudaginn 27. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa á vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2011, er barst nefndinni 15. sama mánaðar, kærir Þ, f.h. Þ ehf., eiganda landspildu nr. 113435, S, f.h. eigenda landspildu nr. 113410, G, f.h. eigenda landspildu nr. 113426, og G, f.h. landeigendafélagsins Græðis, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús, sem hýsa á vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 3. maí 2011 var tekin fyrir byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús, sem hýsa á vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg.  Byggingarfulltrúi frestaði málinu og vísaði því til umsagnar skipulagsstjóra.  Hinn 17. maí 2011 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi og var þá einnig lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 6. maí 2011.  Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 19. s.m.  Byggingarleyfi var síðan gefið út 31. október s.á. 

Kærendur skírskota m.a. til þess að deiliskipulagið sem hið kærða byggingarleyfi styðjist við sé ekki í samræmi við aðalskipulag og því hafi skort lagaskilyrði til að veita leyfið.  Deiliskipulagið sé haldið ógildingarannmörkum og hafi það verið kært til úrskurðarnefndarinnar og bíði úrlausnar.  Óheimilt sé að veita byggingarleyfi til framkvæmda nema þær séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þá hafi Fisfélag Reykjavíkur ekki lögvarinn rétt til að fá útgefið byggingarleyfi á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg þar sem lóðin sé hvorki til í Reynisvatnslandi né á Hólmsheiði.  Aðal- og deiliskipulagstillögurnar sem hér um ræði hafi tekið til jarðarinnar Reynisvatns með landnúmerið 113408, sem skráð sé 484 ha í landskrá fasteigna. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á frávísun málsins hvað varði aðra kærendur en eiganda landspildu nr. 113410.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé þess krafist að úrskurðarnefndin hafni öllum kröfum kærenda í málinu. 

Kærendur, að undanskildum einum, eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ef skoðaðar séu afstöðumyndir af lóðum þeirra kærenda m.t.t. aðstöðu fisfélagsins komi í ljós að u.þ.b. 1,05 km sé milli lóðar eins kærandans og flugvallar fisfélagsins og sé þar landfylling.  Spilda annars kæranda sé enn lengra í burtu, eða u.þ.b. 1,2 km.  Sé því ljóst að þessir aðilar eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið þar sem staðsetning umdeildrar byggingar hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru.  Ekki verði heldur ráðið af kæru eða öðrum gögnum málsins hvaða hagsmuni landeigendafélag það sem kæri eigi á svæðinu en engar upplýsingar hafi komið fram um hvaða hagsmuni þess félags sé að tefla í málinu og hvaða réttarstöðu sá kærandi hafi á umræddu svæði.  Hafi Reykjavíkurborg ekki getað fundið út hverjir hagsmunir félagsins kunni að vera.  Beri því samkvæmt ofangreindu að vísa kæruefni þessara aðila frá úrskurðarnefndinni. 

Í gildi sé deiliskipulag sem taki til umráðasvæðis Fisfélags Reykjavíkur. Sé brúttóflatarmál umrædds stálgrindarhúss 608,4 m², sem sé innan skilmála deiliskipulagsins.  Á skipulags-svæðinu sé heimilt að reisa þrjú skýli, 1.600-1.800 m² hvert, eða samtals 5.400 m².  Ljóst sé því að byggingin samræmist gildandi deiliskipulagi. 
————————————
Byggingarleyfishafa var tilkynnt um kærumál þetta og framkomna stöðvunarkröfu og var honum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar byggingu á færanlegu stálgrindarhúsi sem hýsa á vélageymslu á umráðasvæði leyfishafa.  Deiliskipulag það sem leyfið á stoð í var á sínum tíma kært til úrskurðarnefndarinnar og er nú þar til meðferðar.  Framkvæmdir við greint stálgrindarhús eru nú þegar nokkuð á veg komnar og hefur burðargrind þess þegar verið reist. 

Beiting íþyngjandi úrræða, svo sem stöðvun framkvæmda til bráðabirgða sem styðjast við opinber leyfi, verður að miða að því að verja hagsmuni sem ella væri hætta á að færu forgörðum.  Við ákvörðun um beitingu slíks úrræðis þarf m.a. að líta til þeirra hagsmuna málsaðila sem í húfi eru, hvort framkvæmdir séu afturtækar og hversu mikill vafi sé uppi um gildi hins kærða leyfis. 

Með hliðsjón af því að umrædd bygging er risin og um er að ræða færanlegt hús samkvæmt hinu kærða leyfi þykir ekki brýna nauðsyn bera til að knýja á um að framkvæmdir við það verði stöðvaðar meðan beðið er niðurstöðu um gildi byggingarleyfisins.  Frekari framkvæmdir eru hins vegar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa með tilliti til þeirrar óvissu sem ríkir um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingarleyfi.

 

____________________________________
Ómar Stefánsson

 

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson