Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2011 Uppsalir

Ár 2011, miðvikudaginn 12. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2011, kæra á synjun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar á beiðni um að taka niður vegvísi við þjóðveg 1 þar sem jarðirnar Uppsalir 1 og 2 liggja. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. apríl 2011, er barst nefndinni 27. s.m., kærir S, f.h. H ehf., eiganda 20% eignarhlutar í jörðinni Uppsalir 2, Sveitarfélaginu Hornafirði, synjun bæjarstjórnar sveitarfélagsins á beiðni um að taka niður vegvísi við þjóðveg 1 þar sem jarðirnar Uppsalir 1 og 2 liggja.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 4. nóvember 2010, skaut kærandi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins ákvörðun Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að fjarlægja ekki skilti með nafninu Sunnuhlíð við þjóðveg 1.  Í bréfinu kemur fram að Vegagerðin hafi sett skiltið niður að beiðni sveitarfélagsins en með tilvist og staðsetningu þess sé verið að breyta nöfnum jarðanna Uppsala 1 og 2.  Sveitarfélagið hafi ekki svarað erindinu en kæranda hafi verið tjáð af starfsmanni þess að ekki væri fyrirhugað að fjarlægja umdeilt skilti. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið svaraði fyrrnefndu erindi kæranda í bréfi, dags. 1. desember 2010, þar sem látið var í ljós það álit að málið ætti undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með hliðsjón af gr. 209.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Var kæranda bent á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar, að fenginni formlegri ákvörðun byggingarnefndar.  Í kjölfarið sendi kærandi erindið, sem hann hafði áður beint til ráðuneytisins, til bæjarráðs Hornafjarðar.  Umhverfis- og skipulagsnefnd bæjarfélagsins tók erindið fyrir á fundi hinn 12. janúar 2011 og hafnaði beiðni kæranda um að fyrrnefnt skilti yrði fjarlægt.  Fundargerð nefndarinnar var afgreidd á fundi bæjarráðs hinn 19. janúar s.á. 

Kærandi vísar til þess að umdeilt skilti standi á óskiptu landi jarðanna Uppsala 1 og 2, en um sé að ræða staðlað merki sem Vegagerðin og sveitarfélög noti til að merkja jarðir um allt land.  Engin jörð eða landskiki sé til með nafninu Sunnuhlíð í sveitarfélaginu eða nágrenni þess en Uppsalir 1 og 2 séu einu jarðirnar í sveitarfélaginu sem ekki hafi verið merktar.  Með þessari merkingu sé sveitarfélagið að breyta nafni greindra jarða, sem feli í sér brot á lögum nr. 35/1953 um jarðanöfn, eða gefa það til kynna að jarðirnar Uppsalir 1 og 2 séu ekki til. 

Þá hafi málsmeðferð á erindi kæranda verið í ýmsu andstæð lögum.  Þannig hafi bæjarstjóri og varabæjarstjóri gengt starfi byggingarfulltrúa við meðferð málsins, án heimildar Þjóðskrár, en skráður byggingarfulltrúi hafi verið hættur störfum.  Varði þetta við lög nr. 6/2001 og byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Sveitarfélagið hafi jafnframt brotið gegn nefndri reglugerð með því að skipa ekki skipulags- og byggingarnefnd.  Eftir kvörtun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála hafi mál kæranda verið lagt fyrir svokallaða umhverfis- og skipulagsnefnd, sem kærandi hafni að komi í stað skipulags- og byggingarnefndar sem kveðið sé á um í fyrrgreindri reglugerð. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Hornafjarðar er vísað til þess að nafnið Sunnuhlíð, sem ábúendur jarðarinnar Uppsala 1 hafi gefið húsi sínu og byggt hafi verið árið 1964, sé  alþekkt og fyrir því sé rík hefð.  Finna megi gögn allt frá árinu 1973 þar sem nafnið komi fyrir og hafi það verið notað á landakortum.  Þá megi benda á að í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu frá árinu 1972 sé gerð grein fyrir nýbýlinu Sunnuhlíð á greindum stað.  Ábúendur jarðarinnar hafi engar athugasemdir gert við þá nafngift til þessa. 

Hvað varði meinta ágalla á meðferð máls kæranda sé rétt að taka fram að fyrrverandi byggingarfulltrúi hafi starfað út júlímánuð 2010 og hafi núverandi byggingarfulltrúi hafið störf í byrjun september það ár.  Umhverfis- og skipulagsnefnd, sem afgreitt hafi erindi kæranda, sé markað valdsvið í samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp Sveitarfélagsins Hornafjarðar nr. 586/2010, sem sett sé með stoð í sveitarstjórnarlögum.  Nefndinni sé þar m.a. falið hlutverk skipulagsnefndar og byggingarnefndar samkvæmt 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um staðsetningu vegvísis við þjóðveg 1 sem Vegagerðin setti upp í samráði við Sveitarfélagið Hornafjörð á veghelgunarsvæði þjóðvegarins.  Um slík skilti er fjallað í 12. gr. reglugerðar um umferðarmerki nr. 289/1995, með áorðnum breytingum, sem sett er með stoð í 79. og 84. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Þar kemur fram að vegvísum sé ætlað að leiðbeina ökumönnum um leiðarval.  Ákvörðun um, og umsjón með, uppsetningu umferðarmerkja í dreifbýli er á hendi vegamálastjóra, sbr. 2. og 3. mgr. 85. gr. umferðarlaga. 

Í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 voru m.a. vegir undanþegnir byggingarleyfisskyldu skv. 2. mgr. 36. gr. laganna og voru umferðarmerki ekki talin háð leyfi sveitarstjórnar samkvæmt lögunum.  Á gr. 209.3 í byggingarreglugerð því ekki við um umferðarmerki, enda tekur ákvæðið aðeins til mannvirkja, eða tilgreindara lausamuna og skilta, sem háð eru leyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nú laga um mannvirki nr. 160/2010. 

Í 2. mgr. 2. gr. laga um mannvirki, er tóku gildi 1. janúar 2011, er tekið fram að lögin taki ekki til vega eða annarra samgöngumannvirkja, að undanskyldum umferðar- og göngubrúm í þéttbýli, og er hér um að ræða breytingu frá fyrri byggingarlöggjöf.  Í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga kemur fram að rétt þyki að þau mannvirki sem 2. mgr. 2. gr. laganna taki til falli ekki undir lögin þar sem mannvirkin og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög. 

Samkvæmt 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er hugtakið vegur skilgreint sem:  „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“  Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum taka lög um mannvirki ekki til mannvirkja við vegi sem þjóna viðhaldi og notkun hans, svo sem umferðarskilta, ljósastaura eða annars eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar sem stuðlar að auknu umferðaröryggi og tryggri notkun vega.  Taka lög um mannvirki því ekki til uppsetningar umdeilds vegvísis heldur ákvæði vegalaga og umferðarlaga. 

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveður upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Verður ágreiningsefni máls þessa því ekki borið undir úrskurðarnefndina og verður málinu af þeim sökum vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson