Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2010 Breiðagerðisvík

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2010, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga frá 7. september 2010 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir nýju húsi að Breiðagerði 8, Vatnsleysuströnd í Vogum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. október 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir S, eigandi lóðar að Breiðagerði 8, Vatnsleysuströnd í Vogum, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga frá 7. september 2010 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir nýju húsi á fyrrgreindri lóð kæranda.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi lóðarinnar Breiðagerði 8 við Breiðagerðisvík á Vatnsleysuströnd.  Skv. fasteignaskrá er lóðin 3.800 m2 og á henni stendur 40 m2 sumarbústaður og 21,9 m2 geymsla frá árinu 1980. 

Í ágústmánuði 2010 sótti kærandi um leyfi fyrir niðurrifi húsakosts þess sem fyrir var á umræddri lóð og byggingu nýs sumarhúss.  Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Voga hinn 7. september sama ár og afgreidd með eftirfarandi bókun:  „Í grein 2.3.3 í greinargerð aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga segir um frístundasvæðið í Breiðagerðisvík:  „Skilyrði fyrir frekari uppbyggingu frístundasvæðisins er að deiliskipulag verði unnið fyrir svæðið og það öðlist gildi áður en heimild er veitt til frekari uppbyggingar.“  Í ljósi þessa felst nefndin á niðurrif núverandi frístundahúss.  Nefndin hafnar umsókn um byggingarleyfi að nýju húsi samkvæmt meðfylgjandi teikningum, þar sem nýbyggingin er stærri en byggingin sem víkur.“  Fundargerð nefndarinnar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 16. september 2010 og staðfest í bæjarstjórn 27. september sama ár. 

Málsrök kæranda:  Kærandi kveðst ósáttur við synjun byggingaryfirvalda sveitarfélagsins á leyfi fyrir byggingu nýs húss á lóðinni að Breiðagerði 8.  Núverandi sumarhús sé lélegt og úr sér gengið og því hafi verið sótt um endurbyggingu þess.  Byggingarmagn á lóðinni myndi aðeins aukast um 7 m2 ef fallist yrði á umsókn hans um endurbyggingu á lóðinni eða úr 62 m2 í 69 m2.  Leyfi hafi verið gefin fyrir mun stærri húsum á svæðinu sem þegar séu risin eða í byggingu.  Kærandi sjái ekkert því til fyrirstöðu að frístundasvæðið verði deiliskipulagt en það tefði fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni. 

Málsrök Sveitarfélagsins Voga:  Hin kærða synjun á leyfi fyrir byggingu nýs húss á lóðinni Breiðagerði 8 hafi byggst á því að samkvæmt gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins sé frekari uppbygging á svæðinu óheimil nema að undangenginni gildistöku deiliskipulags fyrir svæðið, en sótt hafi verið um leyfi fyrir stærra húsi en fyrir var á lóðinni.  Hafi því ekki verið unnt að beita heimild 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir framkvæmdum að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna þar sem slíkt væri andstætt fyrrgreindu ákvæði aðalskipulags.  Heimilaðar húsbyggingar á svæðinu, sem kærandi vísi til, hafi verið samþykktar að undangenginni grenndarkynningu fyrir gildistöku núverandi ákvæðis um uppbyggingu svæðisins í aðalskipulagi, en það hafi tekið gildi í marsmánuði 2010. 

Niðurstaða:  Hin kærða synjun fyrir nýbyggingu að Breiðagerði 8 í Vogum var rökstudd með vísan til ákvæðis í gr. 2.3.3 í greinargerð gildandi aðalskipulags, þess efnis að ekki skuli heimila frekari uppbyggingu á frístundasvæðinu við Breiðagerðisvík fyrr en deiliskipulag fyrir svæðið hefði tekið gildi.  Í sömu grein er og tilgreint það  markmið að viðhalda skuli svæðum fyrir frístundabyggð í sveitarfélaginu og tekið fram að heimilt sé að viðhalda og bæta þann húsakost sem þar sé fyrir.  Í nefndri grein aðalskipulagsgreinargerðar kemur jafnframt fram að umrætt svæði sé um 20 ha að stærð og að þegar séu þar fyrir á annan tug frístundahúsa.  Beiðni kæranda sem hafnað var fól í sér að nýbygging sú sem um var sótt yrði 7 m2 stærri en húsakostur sá sem fyrir var og heimilað var að rífa. 

Umrædd lóð kæranda hefur verið byggð og nýtt frá árinu 1980 sem frístundalóð og umsókn kæranda um nýbyggingu felur í sér óverulega breytingu á byggingarmagni.  Verður ekki talið að umrædd nýbygging geti falið í sér frekari uppbyggingu svæðisins í skilningi tilvitnaðs ákvæðis greinargerðar aðalskipulags, enda ekki um að ræða nýbyggingu á óbyggðri lóð.  Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að greint ákvæði í greinargerð aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga hafi girt fyrir veitingu leyfis fyrir umdeildri nýbyggingu og er rökstuðningi hinnar kærðu synjunar að þessu leyti áfátt.  Verður af þeim sökum fallist á kröfu kæranda um ógildingu synjunarinnar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga frá 7. september 2010, sem bæjarstjórn staðfesti hinn 27. september sama ár, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir endurbyggingu sumarhúss á lóðinni Breiðagerði 8, Vogum.

_____________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson