Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2005 Hraunbær

Ár 2007, fimmtudaginn 15. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2005 um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Hraunbæ 123 er fæli í sér að reisa þar loftnetsmastur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. mars 2005, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir Bandalag íslenskra skáta, Hraunbæ 123, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2005 að synja um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Hraunbæ 123 er fæli í sér að reisa þar loftnetsmastur.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 17. desember 2004 var tekin fyrir umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi er fæli í sér heimild til þess að reisa 15 metra loftnetsmastur í suð-austur horni lóðarinnar að Hraunbæ 123 í Reykjavík.  Var mastrið ætlað fyrir starfsemi fjarskiptaáhugamanna á vegum skátahreyfingarinnar.  Var ákveðið að grenndarkynna umsótta breytingu. 

Við grenndarkynningu komu fram andmæli gegn fyrirhuguðu mastri sem andmælendur töldu m.a. að ylli sjónmengun og útsýnisskerðingu og ætti það ekki heima í íbúðarbyggð. 

Málið var afgreitt á fundi skipulagsráðs hinn 9. febrúar 2005 með því að ráðið synjaði umsókn kæranda með vísan til andmæla íbúa.  Tilkynning um þessi málalok var send fulltrúa kæranda með bréfi, dags. 10. febrúar 2005. 

Kærandi fer fram á að honum verði veittur framlengdur kærufrestur í málinu.  Kærandi sé sjálfboðaliðasamtök og hafi mánaðar kærufrestur ekki reynst nægur til þess að taka afstöðu til málsins en kærandi telji að andmæli íbúa við grenndarkynningu byggi á misskilningi.  Hafi því ekki verið efni til að synja umdeildri umsókn kæranda. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að fulltrúa kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 10. febrúar 2005, en kæra til úrskurðarnefndarinnar er póststimplað hinn 21. mars 2005 og barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar.  Liggur því ekki annað fyrir en kæran hafi borist að liðnum eins mánaðar kærufresti, eins og þá var kveðið á um í 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Úrskurðarnefndin hefur ekki að lögum heimild til þess að framlengja kærufrest að honum loknum og ekki þykja þau skilyrði fyrir hendi að unnt sé að taka kæruna til efnismeðferðar að loknum kærufresti á grundvelli 1. eða 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________             _________________________________
            Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson