Fyrir var tekið mál nr. 24/2015, kæra á álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds á Lax-á ehf. vegna fasteigna sem fyrirtækið á og rekur að Stórólfshvoli í Rangárþingi eystra.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Lax-á ehf., Akurhvarfi 16, Kópavogi, ákvörðun Rangárþings eystra frá 26. janúar 2015 um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds vegna fasteigna í eigu félagsins að Stórólfshvoli, lóð nr. 193149. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Rangárþingi eystra með bréfum, dags. 20. og 29. apríl 2015.
Málavextir: Kærandi er með rekstur á Stórólfshvoli í Rangárþingi eystra, fastanúmer 225-4671. Sveitarfélagið lagði á sorphirðu- og eyðingargjald með álagningarseðli, dags. 26. janúar 2015. Samkvæmt gjaldskrá fyrir sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Rangárþingi eystra, nr. 1246/2014, er grunngjald fyrir fyrirtæki kr. 14.769 á ári. Á álagningarseðlinum kemur fram að sex fasteignir séu á lóð kæranda og er upphæð álagðs sorpgjalds fyrir árið 2015 sexfalt gjald fyrir fyrirtæki, eða kr. 88.614. Var ofangreind ákvörðun um álagningu kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 16. apríl sl., eins og áður sagði.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkvæmt gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Rangárþingi eystra sé grunngjald fyrir fyrirtæki kr. 14.769. Kærandi eigi og reki veiðihús við Eystri Rangá í Rangárþingi eystra og greiði fasteignagjöld til sveitarfélagsins. Veiðihúsið samanstandi af sex byggingum, þrjár þeirra séu gistiálmur, ein bygging sé setustofa að hluta og herbergi að hluta, ein eldhús og borðstofa og ein sé með geymslum, þvottahúsi og herbergjum. Veiðihúsið hafi verið rekið þrjá til fjóra mánuði á ári en hafi verið lokað þess utan. Sveitarfélagið leggi sorphirðu- og eyðingargjald sex sinnum á umrædda fasteign félagsins, eða eitt gjald á hverja einingu veiðihússins. Þessu sé kærandi ósammála þar sem gjaldskráin kveði á um að grunngjald skuli lagt á fyrirtæki en ekki hverja einingu innan heildarinnar. Að auki skjóti það skökku við að rekstur, sem kunni að vera mun umfangsmeiri og rekinn allt árið en undir einu þaki, greiði aðeins eitt gjald samkvæmt þessu.
Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið bendir á varðandi fasteign kæranda að um nokkur hús sé að ræða sem séu með starfsemi að minnsta kosti hluta úr árinu en ekki liggi fyrir nákvæmlega hversu stóran. Ekki hafi komið til umræðu eða afgreiðslu að veita einhvern sérstakan afslátt af gjöldunum vegna þessa. Vitað sé að starfsemin yfir sumarið sé mjög mikil og skilji eftir úrgang. Sorpgjöldin veiti aðgang að gámavöllum sveitarfélagsins og að sorpstöðinni á Strönd. Telji sveitarfélagið fráleitt að kærandi greiði einungis eitt eyðingargjald að fjárhæð kr. 14.769 vegna þessarar starfsemi og því sé mótmælt að ranglega hafi verið staðið að álagningunni.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda á fasteignir í eigu kæranda. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Kærandi leitaði hins vegar í kjölfar álagningarinnar til umboðsmanns Alþingis og var þá leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og kærufrest, en slíkar leiðbeiningar var ekki að finna á álagningarseðli. Þar sem telja verður afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að fresti liðnum verður málið tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli 2. mgr. sömu lagagreinar skal sveitarstjórn setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig heimild í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hefur Rangárþing eystra sett samþykkt nr. 46/2012 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. janúar 2012.
Sveitarfélög skulu skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málsl. 2. mgr. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. samþykktar nr. 46/2012 skal innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði þágildandi 11. gr. laga nr. 55/2003, sem var í meginatriðum samhljóða núgildandi 23. gr. laganna, sbr. breytingarlög nr. 63/2014. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði samþykktarinnar er sveitarstjórn heimilt að innheimta sorphirðugjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er í samræmi ákvæði áðurnefndrar 23. gr., sbr. 25. gr., laga nr. 7/1998. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. samþykktarinnar skulu gjöld lögð á hverja fasteign, lögbýli, frístundahús, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur framangreindrar þjónustu. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. skal sveitarfélagið láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda og var það síðast gert með gjaldskrá nr. 1246/2014.
Samkvæmt 2. gr. gjaldskrárinnar er sorphreinsunargjald lagt á í fjórum flokkum: á heimili, frístundahús, lögbýli og fyrirtæki. Kærandi er fyrirtæki sem rekur m.a. veiðihús í sveitarfélaginu. Grunngjald á fyrirtæki er kr. 14.769 og er ekki gert ráð fyrir öðru en að fyrirtæki greiði eitt grunngjald á ári. Stjórnvöld geta almennt ekki tekið ákvarðanir sem eru íþyngjandi fyrir borgarana nema hafa til þess heimild í lögum og reglugerðum. Er og mikilvægt að skýrar heimildir séu fyrir álagningu stjórnvalda á gjöldum sem innheimt eru til að standa straum af kostnaði við veitta þjónustu. Samkvæmt gögnum málsins var lagt sexfalt fyrirtækjagjald á kæranda þar sem sex hús standa á fasteign hans að Stórólfshvoli. Samkvæmt því sem áður er rakið er hins vegar ekki gert ráð fyrir þess háttar álagningu á fyrirtæki heldur einu grunngjaldi á ári. Breytir engu hvort kærandi nýtir sér þjónustuna í miklum eða litlum mæli, enda hefur sveitarfélagið ekki nýtt sér heimild 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 til að ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, heldur kosið að leggja á jafnaðargjald án tillits til notkunar einstakra aðila á þjónustunni.
Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að fullnægjandi heimild skorti fyrir álagningu umfram eitt grunngjald og verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi að þeim hluta.
Felld er úr gildi ákvörðun Rangárþings eystra um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds umfram eitt grunngjald fyrirtækja á Lax-á ehf. vegna fasteigna sem fyrirtækið á og rekur að Stórólfshvoli í Rangárþingi eystra.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Ásgeir Magnússon